‚Haldið áfram að ganga sameinaðir Kristi‘
„Þess vegna, eins og þið hafið tekið á móti Drottni Kristi Jesú, haldið áfram að ganga sameinaðir honum.“ — KÓLOSSUBRÉFIÐ 2:6, NW.
1, 2. (a) Hvernig lýsir Biblían trúfastri, ævilangri þjónustu Enoks við Jehóva? (b) Hvernig hefur Jehóva hjálpað okkur að ganga með sér eins og Kólossubréfið 2:6, 7 gefur til kynna?
HEFURÐU einhvern tíma horft á lítinn dreng trítla með pabba sínum? Sá stutti líkir eftir hverri hreyfingu pabba síns og andlitið geislar af aðdáun. Pabbinn hjálpar drengnum og andlit hans ljómar af ást og velþóknun. Jehóva notar einmitt slíka mynd til að lýsa ævilangri, trúfastri þjónustu manna við sig. Til dæmis segir orð hans að hinn trúfasti Enok hafi ‚gengið með Guði.‘ — 1. Mósebók 5:24; 6:9.
2 Jehóva hefur veitt okkur bestu hjálp sem hægt er að fá, alveg eins og hugulsamur faðir hjálpar ungum syni sínum að ganga með sér. Hann sendi eingetinn son sinn til jarðar. Við hvert fótmál hér á jörð var Jesús Kristur fullkomin spegilmynd föður síns á himnum. (Jóhannes 14:9, 10; Hebreabréfið 1:3) Við þurfum því að ganga með Jesú til að ganga með Guði. Páll postuli skrifaði: „Þér hafið tekið á móti Kristi, Drottni Jesú. Lifið því í honum [„haldið áfram að ganga sameinaðir honum,“ NW]. Verið rótfestir í honum og byggðir á honum, staðfastir í trúnni, eins og yður hefur verið kennt, og auðugir að þakklátsemi.“ — Kólossubréfið 2:6, 7.
3. Af hverju getum við sagt með hliðsjón af Kólossubréfinu 2:6, 7 að það sé meira fólgið í því að ganga sameinaðir Kristi en aðeins að láta skírast?
3 Hjartahreinir biblíunemendur vilja ganga sameinaðir Kristi, leitast við að feta í fullkomin fótspor hans. Þess vegna láta þeir skírast. (Lúkas 3:21; Hebreabréfið 10:7-9) Rösklega 375.000 manns stigu þetta skref í heiminum árið 1997 — ríflega 1000 á dag að meðaltali. Þetta er frábær aukning. En orð Páls í Kólossubréfinu 2:6, 7 sýna að það er meira í því fólgið að ganga sameinaðir Kristi en aðeins að láta skírast. Gríska sagnorðið, sem þýtt er „haldið áfram að ganga,“ lýsir óslitinni og samfelldri athöfn. Og Páll bætir við að það sé fernt fólgið í því að ganga með Kristi: að vera rótfestur í honum, byggður á honum, staðfastur í trúnni og auðugur að þakklátsemi. Við skulum skoða hvert fyrir sig og sjá hvernig það hjálpar okkur að halda áfram að ganga sameinaðir Kristi.
Ert þú ‚rótfestur í Kristi‘?
4. Hvað merkir það að vera ‚rótfestur í Kristi‘?
4 Páll segir fyrst að við þurfum að vera ‚rótfestir í Kristi.‘ (Samanber Matteus 13:20, 21.) Hvernig er hægt að vinna að því að vera rótfestur í Kristi? Þótt rætur plöntunnar sjáist ekki eru þær nauðsynlegar. Þær gera hana stöðuga og sjá henni fyrir næringu. Á sama hátt hefur kenning og fordæmi Krists ósýnileg áhrif á okkur í fyrstu. Það festir rætur í hugum okkar og hjörtum. Þar nærir það okkur og styrkir. Þegar við leyfum fordæmi hans og kenningu að stjórna hugsun okkar, verkum og ákvörðunum, þá knýr það okkur til að vígja líf okkar Jehóva. — 1. Pétursbréf 2:21.
5. Hvernig getum við ‚sóst‘ eftir andlegri fæðu?
5 Jesús hafði yndi af þekkingunni frá Guði. Hann líkti henni jafnvel við mat. (Matteus 4:4) Í fjallræðunni vitnaði hann 21 sinni í átta bækur Hebresku ritninganna. Til að líkja eftir honum verðum við að gera það sem Pétur postuli hvetur til — að ‚sækjast‘ eftir andlegri fæðu „eins og nýfædd börn.“ (1. Pétursbréf 2:2) Þegar nýfætt barn vill fá næringu lætur það sterka löngun sína ótvírætt í ljós. Ef við hugsum ekki þannig um andlega fæðu nú sem stendur, hvetur Pétur okkur til að sækjast eftir henni og byggja upp löngun í hana. Hvernig? Meginreglan í Sálmi 34:9 getur orðið til hjálpar: „Finnið og sjáið, að [Jehóva] er góður.“ Ef við ‚finnum‘ að staðaldri fyrir orði Jehóva, Biblíunni, ‚smökkum‘ á því, kannski með því að lesa einhvern biblíukafla á hverjum degi, þá sjáum við að það er andlega nærandi og gott. Þetta eykur smám saman löngunina í það.
6. Af hverju er þýðingarmikið að íhuga það sem við lesum?
6 Það er líka mikilvægt að melta fæðuna sem við höfum innbyrt. Við þurfum því að íhuga það sem við lesum. (Sálmur 77:12, 13) Við höfum til dæmis meira gagn af bókinni Mesta mikilmenni sem lifað hefur ef við spyrjum okkur við hvern kafla: ‚Hvað kennir þessi frásaga mér um persónuleika Krists og hvernig get ég líkt eftir honum?‘ Þess konar hugleiðingar hjálpa okkur að fara eftir því sem við lærum. Þegar við þurfum að taka ákvörðun getum við síðan spurt okkur hvað Jesús hefði gert við sömu aðstæður. Ef við tökum ákvörðun samkvæmt því erum við að sýna að við séum virkilega rótfest í Kristi.
7. Hvernig ættum við að líta á fasta, andlega fæðu?
7 Páll hvetur okkur til að nærast á ‚fastri fæðu‘ eða hinum djúpu sannindum í orði Guðs. (Hebreabréfið 5:14) Fyrsta markmið okkar gæti verið að lesa alla Biblíuna. Síðan getum við snúið okkur að afmarkaðra rannsóknarefni, svo sem lausnarfórn Krists, hinum ýmsu sáttmálum Jehóva við fólk sitt eða einhverjum spádómsboðskap Biblíunnar. Það er af miklu efni að taka sem getur auðveldað okkur að nærast á fastri andlegri fæðu og melta hana. Og af hvaða hvötum ætti að viða að sér slíkri þekkingu? Hvötin ætti ekki að vera sú að stæra sig af heldur að byggja upp kærleika til Jehóva og styrkja tengslin við hann. (1. Korintubréf 8:1; Jakobsbréfið 4:8) Ef við innbyrðum þessa þekkingu af áfergju, förum eftir henni og notum hana öðrum til gagns, þá erum við að líkja eftir Kristi. Það hjálpar okkur að vera rækilega rótfestir í honum.
Ert þú ‚byggður á Kristi‘?
8. Hvað merkir það að ‚byggjast á Kristi‘?
8 Páll skiptir snögglega úr einni mynd í aðra og nú líkir hann því við byggingu að ganga sameinaðir Kristi. Þegar við hugsum um hús í smíðum erum við ekki bara að hugsa um grunninn heldur einnig það sem reist er á honum með miklu erfiði fyrir augum okkar. Á hliðstæðan hátt þurfum við að leggja hart að okkur til að byggja upp eiginleika og venjur eins og Kristur sýndi. Slíkt erfiði vekur eftirtekt eins og Páll skrifaði Tímóteusi: ‚Láttu framför þína vera öllum augljósa.‘ (1. Tímóteusarbréf 4:15; Matteus 5:16) Nefnum nokkur kristin verk sem byggja okkur upp.
9. (a) Nefndu nokkur raunhæf markmið sem við getum sett okkur til að líkja eftir Kristi í boðunarstarfinu. (b) Hvernig vitum við að Jehóva vill að við njótum þjónustu okkar?
9 Jesús fól okkur að prédika fagnaðarerindið og kenna. (Matteus 24:14; 28:19, 20) Hann gaf fullkomið fordæmi og bar vitni djarflega og á áhrifaríkan hátt. Við gerum auðvitað aldrei jafn vel og hann. Pétur postuli gaf okkur þó þetta markmið: „Helgið Krist sem Drottin í hjörtum yðar. Verið ætíð reiðubúnir að svara hverjum manni sem krefst raka hjá yður fyrir voninni, sem í yður er. En gjörið það með hógværð og virðingu.“ (1. Pétursbréf 3:15, 16) Örvæntu ekki þótt þér finnist þú ekki alltaf reiðubúinn að „svara hverjum manni.“ Settu þér raunhæf markmið sem hjálpa þér að færast nær þessari kröfu. Með því að undirbúa þig geturðu haft breytilega kynningu eða flett upp einum til tveim ritningarstöðum. Þú gætir sett þér það markmið að dreifa fleiri biblíuritum, fara í fleiri endurheimsóknir eða hefja biblíunámskeið. Þú ættir ekki að leggja aðaláherslu á magn — svo sem fjölda klukkustunda, rita eða námskeiða — heldur gæði. Með því að setja sér raunhæf markmið og leggja sig fram um að ná þeim er hægt að njóta þess að gefa af sjálfum sér í boðunarstarfinu. Það er það sem Jehóva vill — að við þjónum sér „með gleði.“ — Sálmur 100:2; samanber 2. Korintubréf 9:7.
10. Nefndu nokkur fleiri kristin verk sem við þurfum að vinna. Hvernig hjálpa þau okkur?
10 Við getum líka gert ýmislegt í söfnuðinum sem byggir okkur upp í Kristi. Hið mikilvægasta er að sýna hvert öðru kærleika því að það er auðkenni sannkristinna manna. (Jóhannes 13:34, 35) Margir tengjast kennara sínum nánum böndum meðan þeir eru enn að nema, og það er eðlilegt. En getum við ekki farið eftir ráðum Páls um að ‚láta verða rúmgott hjá okkur‘ með því að kynnast öðrum í söfnuðinum? (2. Korintubréf 6:13) Öldungarnir þarfnast líka kærleika okkar og þakklætis. Við auðveldum þeim störf sín til muna með því að vinna með þeim, leita biblíulegra ráðlegginga þeirra og fara eftir þeim. (Hebreabréfið 13:17) Það stuðlar jafnframt að því að við byggjumst upp í Kristi.
11. Hvaða raunsæja afstöðu ættum við að hafa til skírnar?
11 Skírn er spennandi viðburður. En við megum ekki reikna með að allar stundir lífsins eftir það verði jafnspennandi. Að byggjast upp í Kristi er að verulegu leyti fólgið í því að „ganga þá götu, sem vér höfum komist á.“ (Filippíbréfið 3:16) Það er enginn litlaus og leiðinlegur lífsstíll heldur snýst einfaldlega um að vera stefnufastur — það er að segja að byggja upp góðar, andlegar venjur og halda þær dag eftir dag og ár eftir ár. Munum að „sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.“ — Matteus 24:13.
Ert þú ‚staðfastur í trúnni‘?
12. Hvað merkir það að vera ‚staðfastur í trúnni‘?
12 Í þriðja setningarliðnum, þar sem Páll talar um að ganga sameinaðir Kristi, hvetur hann okkur til að vera „staðfastir í trúnni.“ Ein biblíuþýðing segir „staðfestur vegna trúarinnar“ því að gríska orðið, sem Páll notar, getur merkt „að staðfesta, ábyrgjast og gera lagalega óafturkallanlegt.“ Þegar við vöxum í þekkingu sjáum við fleiri ástæður fyrir því að trú okkar á Jehóva Guð stendur á traustum grunni og er í rauninni staðfest með lögum. Árangurinn er aukin staðfesta. Það verður æ erfiðara fyrir heim Satans að hafa áhrif á okkur. Þetta minnir á hvatningu Páls um að „sækja fram til þroska.“ (Hebreabréfið 6:1, NW) Þroski og staðfesta haldast í hendur.
13, 14. (a) Hvað ógnaði staðfestu kristinna Kólossumanna á fyrstu öld? (b) Hvað kann að hafa valdið Páli postula áhyggjum?
13 Staðfestu kristinna Kólossumanna á fyrstu öld var ógnað. Páll varaði við: „Gætið þess, að enginn verði til að hertaka yður með heimspeki og hégómavillu, sem byggist á mannasetningum, er runnið frá heimsvættunum, en ekki frá Kristi.“ (Kólossubréfið 2:8) Páll vildi ekki að Kólossumenn, sem voru orðnir þegnar ‚ríkis hins elskaða sonar Guðs,‘ yrðu herteknir og leiddir burt frá þeirri andlegu blessun sem þeir nutu. (Kólossubréfið 1:13) Hvað gat afvegaleitt þá? Páll nefndi „heimspeki,“ og það er í eina skiptið sem orðið kemur fyrir í Biblíunni. Var hann að tala um heimspeki Grikkja eins og Platóns og Sókratesar? Sannkristnum mönnum stafaði vissulega hætta af þeim en orðið „heimspeki“ hafði yfirgripsmikla merkingu á þeim tíma. Það var almennt notað um marga hópa og stefnur — jafnvel trúarlegar. Fyrstu aldar Gyðingarnir Jósefus og Fílon kölluðu trú sína heimspeki — hugsanlega til að auka aðdráttarafl hennar.
14 Sumar heimspekihugmyndir, sem kunna að hafa valdið Páli áhyggjum, voru trúarlegs eðlis. Síðar í sama kafla bréfsins til Kólossumanna ávarpar hann þá sem kenndu: „Snertu ekki, bragðaðu ekki, taktu ekki á,“ og vísaði þar til ákvæða Móselaganna sem féllu úr gildi með dauða Krists. (Rómverjabréfið 10:4) Auk heiðinnar heimspeki ógnuðu ýmis önnur áhrif andlegu hugarfari safnaðarins. (Kólossubréfið 2:20-22) Páll varaði við heimspeki „heimsvættanna“ og átti þar við undirstöðuþætti heimsins. Þessi falsfræðsla var af mennskum uppruna.
15. Hvernig getum við forðast að óbiblíulegur hugsunarháttur hafi áhrif á okkur?
15 Það getur ógnað kristinni staðfestu að halda fram hugmyndum manna og hugsunarhætti sem á sér ekki sterka stoð í orði Guðs. Við nútímamenn þurfum að vera á verði gegn slíkum hættum. Jóhannes postuli hvatti: „Þér elskaðir, trúið ekki sérhverjum anda, heldur reynið andana, hvort þeir séu frá Guði.“ (1. Jóhannesarbréf 4:1) Ef skólafélagi reynir að sannfæra þig um að það sé gamaldags að lifa eftir mælikvarða Biblíunnar eða nágranni reynir að vekja efnishyggju hjá þér, eða þá að vinnufélagi þrýstir lævíslega á þig að brjóta gegn biblíufræddri samvisku þinni, eða jafnvel að trúbróðir er gagnrýninn og neikvæður í garð annarra í söfnuðinum, þá skaltu ekki taka það gott og gilt sem þeir segja. Vinsaðu úr það sem stingur í stúf við orð Guðs. Þannig varðveitum við staðfestu okkar er við göngum sameinaðir Kristi.
„Auðugir að þakklátsemi“
16. Hver er fjórði þátturinn í því að ganga sameinaðir Kristi og hvaða spurningar gætum við spurt?
16 Fjórði þáttur þess að ganga sameinaðir Kristi, sem Páll nefnir, er sá að vera ‚auðugur að þakklátsemi.‘ (Kólossubréfið 2:7) Orðið ‚auðugur‘ gefur í skyn það sem er mikið að vöxtum og magni. Það segir að við, kristnir menn, þurfum að venja okkur á að vera þakklátir. Við ættum öll að spyrja okkur hvort við séum þakklát.
17. (a) Af hverju má segja að við höfum öll margt til að vera þakklát fyrir, jafnvel þegar á móti blæs? (b) Nefndu nokkrar gjafir frá Jehóva sem þú ert sérstaklega þakklátur fyrir.
17 Við höfum öll meira en næga ástæðu til að vera auðug að þakklæti til Jehóva dag hvern. Jafnvel þegar á móti blæs geta ýmsir einfaldir hlutir veitt okkur fróun um stund. Vinur sýnir okkur samúð. Ástvinur snertir okkur huggandi. Góð næturhvíld hressir okkur. Lystug máltíð bindur enda á hungurverki. Fuglasöngur, barnshlátur, heiðblár himinn, hressandi gola — allt þetta og margt annað getur borið fyrir á einum degi. Það er allt of auðvelt að ganga að þessum gjöfum sem sjálfsögðum hlut. En eru þær ekki þakkarverðar? Allar eru þær frá Jehóva, uppsprettu ‚sérhverrar góðrar gjafar og sérhverrar fullkominnar gáfu.‘ (Jakobsbréfið 1:17) Og þessar gjafir hverfa í skuggann af öðrum sem hann hefur gefið okkur — til dæmis sjálfu lífinu. (Sálmur 36:10) Og hann hefur gefið okkur tækifæri til að lifa eilíflega. Til að gefa þessa gjöf færði Jehóva stærstu fórnina með því að senda eingetinn son sinn sem var „yndi hans dag hvern.“ — Orðskviðirnir 8:30; Jóhannes 3:16.
18. Hvernig getum við sýnt að við séum Jehóva þakklát?
18 Orð sálmaritarans eru dagsönn: „Gott er að þakka Jehóva.“ (Sálmur 92:1, NW) Páll tók í sama streng og áminnti kristna menn í Þessaloníku: „Þakkið alla hluti.“ (1. Þessaloníkubréf 5:18; Efesusbréfið 5:20; Kólossubréfið 3:15) Við getum öll einsett okkur að vera þakklátari en við erum. Bænir okkar þurfa ekki einvörðungu að vera beiðni til Guðs um nauðsynjar. Það eru auðvitað góðar og viðeigandi bænir, en hugsaðu þér að eiga vin sem talar aðeins við þig þegar hann vantar eitthvað frá þér. Hví ekki að biðja til Jehóva aðeins til að þakka honum og lofa hann? Slíkar bænir hljóta að gleðja hann mjög þegar hann horfir niður á þennan vanþakkláta heim. Auk þess gera slíkar bænir okkur gott af því að þær geta hjálpað okkur að einbeita okkur að björtu hliðunum í lífinu og minnt okkur á hvílíkrar blessunar við njótum.
19. Hvernig ber orðalag Páls í Kólossubréfinu 2:6, 7 með sér að við getum öll haldið áfram að bæta okkur í að ganga með Kristi?
19 Er það ekki ótrúlegt hve mikla viturlega leiðsögn er hægt að sækja í nokkur vers í orði Guðs? Við ættum öll að vilja fara eftir hvatningu Páls um að ganga sameinaðir Kristi. Við skulum því vera ‚rótfestir í Kristi,‘ „byggðir á honum,“ „staðfastir í trúnni“ og „auðugir að þakklátsemi.“ Slík ráð eru sérstaklega þýðingarmikil fyrir þá sem eru nýlega skírðir en þau eiga erindi til okkar allra. Hugsaðu þér hvernig stólparót vex dýpra og dýpra og hvernig hús í byggingu rís jafnt og þétt. Ganga okkar með Kristi er aldrei á enda. Það er meira en nóg vaxtarrými. Jehóva mun hjálpa okkur og blessa því að hann vill að við höldum áfram að ganga endalaust með sér og elskuðum syni sínum.
Hvert er svarið?
◻ Hvað er fólgið í því að ganga sameinaður Kristi?
◻ Hvað merkir það að vera ‚rótfestur í Kristi‘?
◻ Hvernig getum við ‚byggst á Kristi‘?
◻ Af hverju er þýðingarmikið að vera ‚staðfastur í trúnni‘?
◻ Hvaða ástæður höfum við til að vera „auðugir að þakklátsemi“?
[Mynd á blaðsíðu 10]
Trjárætur sjást kannski ekki en þær næra tréð og festa það.