„Jesús Kristur er Drottinn“ — hvernig og hvenær?
„SVO segir Drottinn við herra minn: ‚Sest þú mér til hægri handar, þá mun ég leggja óvini þína sem fótskör að fótum þér.‘“ Þetta er þýðing á Sálmi 110:1 samkvæmt íslensku biblíunni frá 1981. Hver er „Drottinn“ hérna og við hvern er hann að tala?
Nákvæmari þýðing hebreska textans svarar fyrri spurningunni strax. „Jehóva segir við minn Drottin: . . . “ (New World Translation) „Drottinn“ er því alvaldur Guð, Jehóva sjálfur. Margar biblíuþýðingar, svo sem hin enska King James Version, viðurkenna að nafn Guðs eigi að standa þarna með því skrifa „LORD“ (DROTTINN) með stórum stöfum í fyrra tilvikinu en „Lord“ (Drottinn) með litlum stöfum í því síðara. En hún var ekki fyrsta biblían til að rugla saman þessum titlum, því að í hinni fornu, grísku Sjötíumannaþýðingu, sem þýdd var úr hebresku, stóð „Drottinn“ í stað Jehóva í yngstu útgáfunum. Af hverju? Af því að titillinn „Drottinn“ var settur í stað nafns Guðs, fjórstafanafnsins (יהוה). Fræðimaðurinn A. E. Garvie segir: „Einfaldasta og líklegasta skýringin á notkun titilsins Drottinn [kyʹrios] er sú að þessi titill var notaður í samkunduhúsum Gyðinga í stað sáttmálanafnsins Jahve [Jehóva] þegar lesið var úr Ritningunni.“
Biblían kallar Jehóva ‚Drottin Guð.‘ (1. Mósebók 15:2, 8) Hann er líka kallaður ‚herra Drottinn‘ og „Drottinn allrar veraldar.“ (2. Mósebók 23:17; Jósúabók 3:13; Opinberunarbókin 11:4) Hver er þá hinn sem nefndur er ‚Drottinn‘ eða „herra“ í Sálmi 110:1 og hvernig kom það til að Jehóva skyldi viðurkenna hann sem ‚Drottin?‘
Jesús Kristur sem „Drottinn“
Jesús er ávarpaður „herra“ eða „Drottinn“ í guðspjöllunum fjórum, oftast hjá Lúkasi og Jóhannesi. Á fyrstu öld okkar tímatals var þetta venjulegur virðingar- og kurteisistitill svipaður og „herra“ nú á dögum. (Jóhannes 12:21; 20:15, Kingdom Interlinear) Í guðspjalli Markúsar er Jesús oftar ávarpaður „Kennari“ eða Rabbúní. (Berðu saman Markús 10:51 og Lúkas 18:41.) Jafnvel spurning Sáls á veginum til Damaskus, „Hver ert þú, herra?“ hafði einnig á sér þennan sama, almenna kurteisisblæ. (Postulasagan 9:5) En þegar fylgjendur Jesú kynntust meistara sínum er ljóst að titillinn „Drottinn“ tók á sig mun dýpri merkingu en almennur kurteisistitill.
Eftir dauða sinn og upprisu, en áður en hann steig upp til himna, birtist Jesús lærisveinum sínum og kom með þessa óvæntu yfirlýsingu: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu.“ (Matteus 28:18) Síðan, á hvítasunnudeginum, vísaði Pétur undir leiðsögn hins úthellta, heilaga anda, í Sálm 110:1 og sagði: „Með öruggri vissu viti þá öll Ísraels ætt, að þennan Jesú, sem þér krossfestuð, hefur Guð gjört bæði að Drottni og Kristi.“ (Postulasagan 2:34-36) Vegna trúfesti sinnar allt til smánarlegs dauða á kvalastaur var Jesús reistur upp og veitt hin æðsta umbun. Þá tók hann við drottinstign eða herradómi sinni á himnum.
Páll postuli staðfesti orð Péturs er hann skrifaði að Guð hefði látið Krist „setjast sér til hægri handar í himinhæðum, ofar hverri tign og valdi og mætti, ofar öllum herradómi og sérhverju nafni, sem nefnt er, ekki aðeins í þessari veröld, heldur og í hinni komandi.“ (Efesusbréfið 1:20, 21) Herradómur Jesú er æðri öllum öðrum herradómum og verður áfram í nýja heiminum. (1. Tímóteusarbréf 6:15) Hann var ‚hátt upp hafinn‘ og gefið „nafnið, sem hverju nafni er æðra,“ til að allir viðurkenni „Guði föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottinn.“ (Filippíbréfið 2:9-11) Þannig uppfylltist fyrri hluti Sálms 110:1 og „englar, völd og kraftar“ voru lagðir undir herradóm Jesú. — 1. Pétursbréf 3:22; Hebreabréfið 8:1.
Í Hebresku ritningunum eiga orðin „Drottinn drottnanna“ aðeins við Jehóva. (5. Mósebók 10:17; Sálmur 136:2, 3) En innblásinn af andanum kallaði Pétur Krist Jesú ‚Drottin allra [‚Drottin okkar allra,‘ Goodspeed].‘ (Postulasagan 10:36) Hann er svo sannarlega ‚Drottinn bæði yfir dauðum og lifandi.‘ (Rómverjabréfið 14:8, 9) Kristnir menn viðurkenna Jesú Krist hiklaust sem Drottin sinn og eiganda og hlýða honum fúslega sem þegnar hans, keyptir með dýrmætu blóði hans. Og Jesús Kristur hefur ríkt sem Konungur konunga og Drottinn drottna yfir söfnuði sínum frá hvítasunnunni árið 33. En núna, frá 1914, hefur honum verið fengið konunglegt vald til að ríkja sem slíkur með óvini sína lagða sem ‚fótskör að fótum sér.‘ Nú var tíminn kominn fyrir hann til að ‚drottna mitt á meðal þeirra,‘ allt til uppfyllingar Sálmi 110:1, 2. — Hebreabréfið 2:5-8; Opinberunarbókin 17:14; 19:16.
Hvernig á þá að skilja orð Jesú um að ‚allt sé honum falið af föður hans,‘ sem voru sögð fyrir dauða hans og upprisu? (Matteus 11:25-27; Lúkas 10:21, 22) Þetta er ekki jafnyfirgripsmikil yfirlýsing og þær sem ræddar voru á undan. Bæði hjá Matteusi og Lúkasi leiðir samhengið í ljós að Jesús var að tala um þekkingu sem var hulin veraldarvísum mönnum en opinberuð fyrir milligöngu hans af því að hann „gjörþekkir“ föðurinn. (Matteus 11:27, NW) Þegar Jesús var skírður í vatni og getinn sem andlegur sonur Guðs var hann fær um að muna eftir tilveru sinni á himnum áður en hann varð maður, ásamt allri þeirri þekkingu sem fylgdi því, en það var ekki það sama og herradómur hans síðar. — Jóhannes 3:34, 35.
Jesús Kristur auðkenndur sem Drottinn
Í sumum þýðingum kristnu Grísku ritninganna kemur upp vandamál þegar þýddar eru tilvitnanir í Hebresku ritningarnar þar sem greinilega er átt við „Drottin“ Jehóva Guð. Berðu til dæmis Lúkas 4:19 saman við Jesaja 61:2 í íslensku biblíunni frá 1981. Sumir halda því fram að Jesús hafi tekið við titlinum „Drottinn“ af Jehóva og að Jesús í holdinu hafi raunverulega verið Jehóva, en það er staðhæfing sem á sér enga biblíulega stoð. Í Ritningunni er alltaf vandlega greint milli Jehóva Guðs og sonar hans, Jesú Krists. Jesús kunngerði nafn föður síns og var fulltrúi hans. — Jóhannes 5:36, 37.
Í dæmunum hér á eftir skaltu taka eftir tilvitnununum úr Hebresku ritningunum eins og þær standa í Grísku ritningunum. Jehóva Guð og hans smurði eða Messías eru báðir nefndir í Postulasögunni 4:24-27 þar sem vitnað er í Sálm 2:1, 2. Samhengi Rómverjabréfsins 11:33, 34 sýnir greinilega að átt er við Guð, uppsprettu allrar visku og þekkingar, og þar er vitnað í Jesaja 40:13, 14. Í bréfi til safnaðarins í Korintu endurtekur Páll spurninguna: „Hver hefur þekkt huga Drottins [Jehóva]?“ og bætir svo við: „En vér höfum huga Krists.“ Drottinn Jesús opinberaði fylgjendum sínum huga Jehóva í mjög mörgum mikilvægum málum. — 1. Korintubréf 2:16.
Stundum á texti í Hebresku ritningunum við Jehóva, en uppfyllist á Jesú Krist vegna þess að Jehóva hefur falið honum mátt og vald. Sálmur 34:9 hvetur okkur til dæmis til að ‚finna og sjá, að Jehóva er góður.‘ En Pétur heimfærir þetta á Drottin Jesú Krist er hann segir: „Enda ‚hafið þér smakkað, hvað Drottinn er góður.‘“ (1. Pétursbréf 2:3) Pétur tekur til meginreglu og sýnir hvernig hún gildir einnig um Jesú Krist. Með því að afla okkur þekkingar bæði á Jehóva Guði og Jesú Kristi og fara eftir henni, geta kristnir menn notið ríkulegrar blessunar bæði frá föðurnum og syni hans. (Jóhannes 17:3) Heimfærsla Péturs gerir alvaldan Drottin Jehóva og Drottin Jesú Krist ekki að sömu persónu. — Sjá neðanmálsathugasemd við 1. Pétursbréf 2:3 í New World Translation Reference Bible.
Afstaða Jehóva Guðs og sonar hans, Jesú Krists, hvor til annars kemur mjög skýrt fram hjá Páli postula þegar hann segir: „Vér [höfum] ekki nema einn Guð, föðurinn, sem allir hlutir eru frá og líf vort stefnir til, og einn Drottin, Jesú Krist, sem allir hlutir eru til orðnir fyrir og vér fyrir hann.“ (1. Korintubréf 8:6; 12:5, 6) Í bréfi til kristna safnaðarins í Efesus sýndi Páll fram á að hinn ‚eini Drottinn,‘ Jesús Kristur, væri algerlega aðgreindur frá hinum ‚eina Guði og föður allra.‘ — Efesusbréfið 4:5, 6.
Jehóva er æðstur yfir öllum
Frá 1914 hafa orðin í Opinberunarbókinni 11:15 uppfyllst: „Drottinn [Jehóva Guð] og Kristur hans hafa fengið vald yfir heiminum og hann mun ríkja um aldir alda.“ The New International Dictionary of New Testament Theology (2. bindi, bls. 514) segir: „Þegar Kristur hefur sigrað sérhvert veldi (1. Kor. 15:25) leggur hann sig undir Guð föðurinn. Herradómur Jesú hefur þá náð markmiði sínu og Guð verður allt í öllu. (1. Kor. 15:28).“ Við lok þúsundáraríkis síns afhendir Kristur Jesús föður sínum, alvöldum Guði, aftur þann mátt og það vald sem honum var áður gefið. Þar með fær Jehóva, „Guð Drottins vors Jesú Krists,“ réttilega allan heiður og tilbeiðslu. — Efesusbréfið 1:17.
Enda þótt Jesús sé núna Drottinn drottna er hann aldrei kallaður Guð guðanna. Jehóva er áfram æðstur yfir öllum. Á þann hátt verður Jehóva „allt í öllu.“ (1. Korintubréf 15:28) Herradómur Jesú gefur honum réttmæta stöðu sem höfuð kristna safnaðarins. Þótt við sjáum marga volduga og háttsetta „herra“ eða „drottna“ í þessum heimi varðveitum við traust okkar á honum sem er Drottinn drottna. Þó er Jesús Kristur, í sinni háu og háleitu stöðu, eftir sem áður undirgefinn föðurnum „til að Guð megi ríka yfir öllum.“ (1. Korintubréf 15:28, The Translator’s New Testament) Jesús er fylgjendum sínum, sem viðurkenna hann sem Drottin sinn, svo sannarlega gott fordæmi í auðmýkt!
[Rammi á blaðsíðu 31]
„Þegar ritarar Nýjatestamentisins tala um Guð eiga þeir við Guð og föður Drottins okkar Jesú Krists. Þegar þeir tala um Jesú Krist tala þeir ekki né hugsa um hann sem Guð. Hann er Kristur Guðs, sonur Guðs, speki Guðs, Orðið Guðs. Jafnvel inngangsorð Jóhannesarguðspjalls, sem ganga Níkeukenningunni næst, verður að lesa í ljósi þeirrar skýru kenningar alls guðspjallsins að Kristur sé undir föðurinn settur; og inngangsorðin eru enn óákveðnari á grísku en þau virðast á ensku þar sem [theosʹ] hefur ekki ákveðinn greini.“ — „The Divinity of Jesus Christ” eftir John Martin Creed.