Varastu falskennara!
„Eins munu falskennendur líka verða á meðal yðar.“ — 2. PÉTURSBRÉF 2:1.
1. Um hvað ætlaði Júdas sér að skrifa en hvers vegna skipti hann um umræðuefni?
ÞETTA er stórfurðulegt. Það voru falskennarar í kristna söfnuðinum á fyrstu öld! (Matteus 7:15; Postulasagan 20:29, 30) Júdasi, hálfbróður Jesú, var líka kunnugt um þessa framvindu. Hann sagðist hafa ætlað að skrifa trúbræðrum sínum um „sameiginlegt hjálpræði vort“ en sagði svo: „Nú kemst ég ekki hjá því að skrifa og hvetja yður til að berjast fyrir [trúnni].“ Hvers vegna skipti Júdas um umræðuefni? Vegna þess að „inn [í söfnuðina] hafa læðst nokkrir menn . . . sem misnota náð Guðs vors til taumleysis.“ — Júdasarbréfið 3, 4.
2. Af hverju eru annar kafli Síðara Pétursbréfs og Júdasarbréfið mjög keimlík?
2 Júdas virðist hafa skrifað þessi orð skömmu eftir að Pétur skrifaði síðara bréf sitt. Eflaust hefur Júdasi verið kunnugt um efni þess enda lét hann í ljós margar svipaðar hugmyndir í kröftugu hvatningarbréfi sínu. Þegar við skoðum annan kafla Síðara Pétursbréfs sjáum við hve keimlíkt það er Júdasarbréfinu.
Afleiðingar falskenninga
3. Hvað gerðist til forna sem Pétur segir að myndi gerast aftur?
3 Eftir að Pétur hefur hvatt bræður sína til að gefa gaum að spádómum segir hann: „En falsspámenn komu einnig upp meðal lýðsins [í Forn-Ísrael]. Eins munu falskennendur líka verða á meðal yðar.“ (2. Pétursbréf 1:14–2:1) Fólk Guðs til forna fékk í hendur sanna spádóma en átti líka í höggi við spilltar kenningar falsspámanna. (Jeremía 6:13, 14; 28:1-3, 15) „Hjá spámönnum Jerúsalem sá ég hryllilegt athæfi,“ segir Jeremía. „Þeir drýgja hór og fara með lygar.“ — Jeremía 23:14.
4. Af hverju verðskulda falskennarar tortímingu?
4 Pétur lýsir því sem falskennarar myndu gera í kristna söfnuðinum og segir: „[Þeir munu] smeygja . . . inn háskalegum villukenningum og jafnvel afneita herra sínum, sem keypti þá, og leiða yfir sig sjálfa bráða glötun.“ (2. Pétursbréf 2:1; Júdasarbréfið 4) Kristni heimurinn eins og við þekkjum hann er endanleg afleiðing sértrúarstefnu fyrstu aldar. Pétur bendir á hvers vegna falskennarar verðskuldi fyllilega tortímingu: „Margir munu fylgja ólifnaði þeirra, og sakir þeirra mun vegi sannleikans verða hallmælt.“ — 2. Pétursbréf 2:2.
5. Hverju báru falskennarar ábyrgð á?
5 Hugsaðu þér! Áhrif falskennara yrðu þess valdandi að margir í söfnuðunum myndu gerast sekir um ólifnað eða lausung. Gríska orðið, sem þýtt er ‚ólifnaður,‘ merkir lauslæti, taumleysi, ósiðsemi, léttúð og blygðunarlausa hegðun. Pétur hafði áður sagt að kristnir menn hefðu „komist undan spillingunni í heiminum, sem girndin veldur.“ (2. Pétursbréf 1:4) En sumir myndu snúa aftur út í þessa spillingu og það var fyrst og fremst sök falskennaranna í söfnuðunum! Það myndi því miður koma óorði á veg sannleikans. Það væri sorglegt. Þetta er mál sem allir vottar Jehóva nú á dögum ættu að gefa nákvæman gaum. Við ættum aldrei að gleyma að með hegðun okkar getum við annaðhvort verið Jehóva Guði og fólki hans til vegsauka eða vansæmdar. — Orðskviðirnir 27:11; Rómverjabréfið 2:24.
Falskenningum komið á framfæri
6. Hvað stjórnar gerðum falskennaranna og hvernig leitast þeir við að fá það sem þeir sækjast eftir?
6 Það er viturlegt af okkur að gefa því gaum hvernig falskennarar koma spilltum hugmyndum sínum á framfæri. Pétur segir að þeir smeygi þeim inn með slægð svo lítið beri á. Hann bætir við: „Af ágirnd munu þeir með uppspunnum orðum hafa yður að féþúfu.“ Falskennarar láta stjórnast af eigingjörnum hvötum eins og sjá má af orðalagi The Jerusalem Bible: „Þeir reyna ákaft að kaupa ykkur handa sjálfum sér með lúmskum ræðum.“ Og þýðing James Moffatts segir: „Í girnd sinni notfæra þeir sér ykkur með kænlegum rökum.“ (2. Pétursbréf 2:1, 3) Orð falskennara geta hljómað trúverðug í eyrum þess sem er ekki andlega vökull, en orðin eru vandlega valin til að „kaupa“ fólk, lokka það til að þjóna eigingjörnum markmiðum svikarans.
7. Hvaða heimspeki átti fylgi að fagna á fyrstu öld?
7 Eflaust voru falskennarar fyrstu aldar undir áhrifum ríkjandi hugarfars í heiminum. Um svipað leyti og Pétur skrifaði bréf sitt átti heimspeki, sem kallaðist gnostisismi, vaxandi fylgi að fagna. Gnostíkar trúðu að allt efni væri af hinu illa og það eitt væri gott sem væri andans megin. Sumir þeirra sögðu því að það skipti ekki máli hvernig maður notaði líkama sinn. Þeir héldu því fram að sá tími kæmi að maður hefði ekki líkama. Þess vegna töldu þeir að líkamlegar syndir — þeirra á meðal kynferðislegar — skiptu ekki máli. Slík viðhorf virðast hafa verið farin að hafa áhrif á suma sem játuðu kristni.
8, 9. (a) Hvaða rangsnúin rökfærsla hafði áhrif á suma frumkristna menn? (b) Hvað voru sumir í söfnuðinum að gera að sögn Júdasar?
8 Biblíufræðingur nokkur bendir á að „til hafi verið menn í kirkjunni sem rangsneru náðarkenningunni.“ (Efesusbréfið 1:5-8) Að sögn hans hugsuðu sumir eftir þessum nótum: „Segir þú að náð Guðs sé nógu mikil til að breiða yfir hverja einustu synd? . . . Höldum þá áfram að syndga því að náð Guðs getur afmáð sérhverja synd. Reyndar fær náð Guðs þeim mun fleiri tækifæri sem við syndgum meira.“ Hefur þú nokkurn tíma heyrt rangsnúnari rökfærslu?
9 Páll postuli reis gegn röngum hugsunarhætti í sambandi við miskunn Guðs þegar hann spurði: „Eigum vér að halda áfram í syndinni til þess að náðin aukist?“ Hann spurði líka: „Eigum vér að syndga, af því að vér erum ekki undir lögmáli, heldur undir náð?“ Hann svaraði báðum spurningum með áhersluþunga: „Fjarri fer því.“ (Rómverjabréfið 6:1, 2, 15) Ljóst er, eins og Júdas segir, að sumir voru að „misnota náð Guðs vors til taumleysis.“ En Pétur bendir á að ‚glötun slíkra manna blundi ekki.‘ — Júdasarbréfið 4; 2. Pétursbréf 2:3.
Víti til varnaðar
10, 11. Hvaða þrjú dæmi nefnir Pétur til viðvörunar?
10 Pétur tiltekur þrjú dæmi úr Ritningunni til að leggja áherslu á að Guð grípi til aðgerða gegn þeim sem syndga af ráðnum hug. Fyrst segir hann: „Ekki þyrmdi Guð englunum, er þeir syndguðu.“ Júdas segir að englarnir hafi ‚ekki gætt tignar sinnar heldur yfirgefið eigin bústað‘ á himnum. Þeir komu til jarðar fyrir flóðið og holdguðust til að eiga kynmök við dætur mannanna. Þeim var refsað fyrir ranga og óeðlilega hegðun sína með því að þeim var varpað í „undirdjúpin“ eða, eins og frásögn Júdasar segir, voru þeir ‚í myrkri geymdir í ævarandi fjötrum til dóms hins mikla dags.‘ — 2. Pétursbréf 2:4; Júdasarbréfið 6; 1. Mósebók 6:1-3.
11 Síðan nefnir Pétur samtíðarmenn Nóa. (1. Mósebók 7:17-24) Hann segir að á dögum Nóa hafi Guð ‚ekki þyrmt hinum forna heimi er hann lét vatnsflóð koma yfir heim hinna óguðlegu.‘ Að lokum segir Pétur að Guð hafi ‚brennt borgirnar Sódómu og Gómorru til ösku og sett þær til viðvörunar þeim er síðar lifðu óguðlega.‘ Júdas bætir við að þetta fólk hafi ‚drýgt saurlifnað og stundað óleyfilegar lystisemdir.‘ (2. Pétursbréf 2:5, 6; Júdasarbréfið 7) Karlmenn höfðu ekki aðeins óleyfileg kynmök við konur heldur brunnu í losta til annarra karlmanna, og girntust hugsanlega jafnvel kynmök við skepnur. — 1. Mósebók 19:4, 5; 3. Mósebók 18:22-25.
12. Hvernig er mönnum umbunuð rétt breytni að sögn Péturs?
12 En samtímis nefnir Pétur að Jehóva umbuni þeim sem þjóni honum í trúfesti. Til dæmis greinir hann frá því hvernig Guð „varðveitti Nóa, prédikara réttlætisins, við áttunda mann“ þegar hann lét flóðið koma. Hann nefnir líka frelsun ‚hins réttláta Lots‘ frá Sódómu og segir svo: „Þannig veit [Jehóva], hvernig hann á að hrífa hina guðhræddu úr freistingu, en refsa hinum ranglátu og geyma þá til dómsdags.“ — 2. Pétursbréf 2:5, 7-9.
Refsiverð verk
13. Hverjir eiga sérstaklega dóm yfir höfði sér og um hvað virðast draumar þeirra snúast?
13 Pétur tiltekur nákvæmlega hverjir eigi dóm Guðs sérstaklega yfir höfði sér, það er að segja þeir „sem í breytni sinni stjórnast af saurlífisfýsn og fyrirlíta drottinvald.“ Við skynjum næstum reiði Péturs er hann segir: „Þessir fífldjörfu sjálfbirgingar skirrast ekki við að lastmæla tignum.“ Júdas segir að ‚þessir draumvilltu menn saurgi líkamann og lastmæli tignum.‘ (2. Pétursbréf 2:10; Júdasarbréfið 8) Ef til vill snúast draumar þeirra um óhreina kynlífsóra sem hvetja þá til að sækjast eftir siðlausri kynnautn. En í hvaða skilningi ‚fyrirlíta þeir drottinvald‘ og „lastmæla tignum“?
14. Í hvaða skilningi „fyrirlíta“ falskennarar „drottinvald“ og „lastmæla tignum“?
14 Þeir gera það á þann hátt að þeir fyrirlíta yfirráð sem sett eru af Guði. Kristnir öldungar eru fulltrúar hins dýrlega Jehóva Guðs og sonar hans og er þar af leiðandi veitt ákveðin dýrð og tign. Þeir gera að vísu mistök eins og Pétur, en Ritningin hvetur safnaðarmenn til að vera undirgefnir slíkum tignum mönnum. (Hebreabréfið 13:17) Veikleikar þeirra eru engin ástæða til að lastmæla þeim. Pétur segir að englar ‚fari ekki með last þegar þeir ákæri falskennarana,‘ enda þótt þeir verðskuldi það virkilega. „Þessir menn,“ segir Pétur, „eru eins og skynlausar skepnur, sem eru fæddar til að veiðast og tortímast. Þeir lastmæla því, sem þeir þekkja ekki, og munu þess vegna í spillingu sinni undir lok líða.“ — 2. Pétursbréf 2:10-13.
„Þegar þeir neyta máltíða með yður“
15. Hvaða aðferðum beita falskennarar og hvar reyna þeir að tæla menn?
15 Enda þótt þessir spilltu menn hafi „yndi af að svalla um miðjan dag“ og séu „skömm og smán“ eru þeir líka undirförulir. Þeir „smeygja“ inn hugmyndum sínum með „uppspunnum orðum“ eins og Pétur nefndi áður. (2. Pétursbréf 2:1, 3, 13) Þeir gagnrýna öldungana kannski ekki opinskátt fyrir að reyna að halda uppi siðferðisreglum Guðs, og þeir fullnægja ekki kynferðisfýsnum sínum fyrir opnum tjöldum. En Pétur segir að þeir hafi „taumlaust yndi af villukenningum sínum þegar þeir sitja að veisluborði með ykkur.“ (NW) Og Júdas skrifar: „Þessir menn eru blindsker við kærleiksmáltíðir yðar.“ (Júdasarbréfið 12) Já, líkt og skörðótt blindsker geta rifið botn úr báti og drekkt óvarkáum sjómönnum, eins voru falskennarar að spilla ógætnum mönnum sem þeir sýndu uppgerðarkærleika við ‚kærleiksmáltíðirnar.‘
16. (a) Hvað voru ‚kærleiksmáltíðirnar‘ og við hvaða sambærilegar aðstæður geta siðlausir menn átt til að starfa nú á dögum? (b) Að hverjum beina falskennarar athygli sinni og hvað verður slíkt fólk að gera?
16 Þessar „kærleiksmáltíðir“ virðast hafa verið samkvæmi þar sem kristnir menn fyrstu aldar komu saman til að njóta matar og félagsskapar. Vottar Jehóva nútímans hittast líka stundum og gera sér glaðan dag, svo sem í brúðkaupsveislum eða fara í lautarferðir eða eiga kvöldstund saman. Hvernig gætu spilltir menn notað slík tækifæri til að draga fórnarlömb sín á tálar? Pétur skrifar: „Augu þeirra eru full hórdóms . . . Þeir fleka óstyrkar sálir.“ (2. Pétursbréf 2:14) Þeir beina ‚hjarta, sem hefur tamið sér ágirnd,‘ að andlega veikburða fólki sem hefur ekki tileinkað sér sannleikann að fullu. Hafðu því til varnaðar það sem gerðist á dögum Péturs og haltu vöku þinni! Hafnaðu öllum siðlausum tilburðum og láttu ekki blekkjast af þokka eða persónutöfrum einhvers sem gerist nærgöngull. — 2. Pétursbréf 2:14.
‚Leið Bíleams‘
17. Hver var ‚leið Bíleams‘ og hvaða áhrif hafði hún á 24.000 Ísraelsmenn?
17 Þessir ‚bölvuðu‘ menn hafa þekkt sannleikann um hríð og virðast kannski enn virkir í söfnuðinum. En Pétur segir: „Þeir hafa farið af rétta veginum og lent í villu. Þeir fara sömu leið og Bíleam, sonur Bósors, sem elskaði ranglætislaun.“ (2. Pétursbréf 2:14, 15) Spámaðurinn Bíleam fór þá leið að ráðleggja Balak Móabskonungi að tæla Ísraelsmenn til siðleysis og græddi á því. Hann sagði honum að Guð myndi bölva Ísrael ef hægt væri að tæla fólkið til að drýgja hór. Það varð til þess að margt af fólki Guðs lét tælast af móabískum konum og 24.000 voru líflátnir fyrir siðlausa hegðun sína. — 4. Mósebók 25:1-9; 31:15, 16; Opinberunarbókin 2:14.
18. Hversu þrjóskur var Bíleam og hvað boða afdrif hans fyrir falskennara?
18 Pétur nefnir að það hafi aftrað Bíleam þegar asni hans talaði við hann en samt ‚elskaði hann ranglætislaunin‘ svo heitt að hann lét ekki af „fásinnu“ sinni. (2. Pétursbréf 2:15, 16) Hann var sannarlega óguðlegur! Vei hverjum þeim sem reynir, líkt og Bíleam, að spilla fólki Guðs með því að freista þess til siðleysis! Bíleam lét lífið fyrir vonsku sína og það er forsmekkur að því hvernig fer fyrir öllum sem fara sömu leið og hann. — 4. Mósebók 31:8.
Djöfullegt tál þeirra
19, 20. (a) Við hvað er þeim líkt sem líkjast Bíleam og hvers vegna? (b) Hverja tæla þeir og hvernig? (c) Af hverju getum við sagt að tál þeirra sé djöfullegt og hvernig getum við verndað okkur og aðra fyrir þeim?
19 Pétur lýsir þeim sem líkjast Bíleam og segir: „Vatnslausir brunnar eru þessir menn, þoka hrakin af hvassviðri.“ Uppþornaður brunnur í eyðimörk getur kostað þyrstan ferðalang lífið. Það er engin furða að „þeirra bíður dýpsta myrkur“ sem eru þannig. „Þeir láta klingja drembileg hégómaorð,“ heldur Pétur áfram, „og tæla með holdlegum girndum og svívirðilegum lifnaði þá, sem fyrir skömmu hafa sloppið frá þeim, sem ganga í villu.“ Þeir tæla óreynda menn með því að „heita þeim frelsi,“ segir Pétur, „þótt þeir séu sjálfir þrælar spillingarinnar.“ — 2. Pétursbréf 2:17-19; Galatabréfið 5:13.
20 Tál svona spilltra kennara er djöfullegt. Þeir segja kannski: ‚Guð veit að við erum veiklunda og fórnarlömb ástríðna okkar. Hann er miskunnsamur þótt við látum undan þeim og fullnægjum kynhvötinni. Ef við játum synd okkar fyrirgefur hann okkur alveg eins og hann gerði þegar við komum inn í sannleikann á sínum tíma.‘ Mundu að djöfullinn notaði svipaða aðferð við Evu og lofaði að hún gæti syndgað sér að skaðlausu. Hann fullyrti að Eva myndi hljóta upplýsingu og frelsi með því að syndga gegn Guði. (1. Mósebók 3:4, 5) Ef við hittum fyrir slíka spillta manneskju í söfnuðinum ber okkur skylda til að vernda okkur og aðra með því að gera viðvart þeim sem bera ábyrgð á velferð safnaðarins. — 3. Mósebók 5:1.
Nákvæm þekking er vernd
21-23. (a) Hvaða afleiðingar hefur það að fara ekki eftir nákvæmri þekkingu? (b) Hvaða annað vandamál ræðir Pétur sem við fjöllum um næst?
21 Pétur lýkur þessum kafla bréfsins með því að lýsa afleiðingunum af því að fara ekki eftir þekkingunni sem hann hafði áður sagt að væri nauðsynleg „til lífs og guðrækni.“ (2. Pétursbréf 1:2, 3, 8) Hann segir: „Ef þeir, sem fyrir þekkingu á Drottni vorum og frelsara Jesú Kristi voru sloppnir frá saurgun heimsins, flækja sig í honum að nýju og bíða ósigur, þá er hið síðara orðið þeim verra en hið fyrra.“ (2. Pétursbréf 2:20) Það væri sorglegt. Slíkir menn á dögum Péturs höfðu kastað frá sér hinni dýrmætu von um ódauðleika á himnum í skiptum fyrir stundlega, kynferðislega fullnægingu.
22 Pétur segir enn fremur: „Betra hefði þeim verið að hafa ekki þekkt veg réttlætisins en að hafa þekkt hann og snúa síðan aftur frá hinu heilaga boðorði, sem þeim hafði verið gefið. Fram á þeim hefur komið þetta sannmæli: ‚Hundur snýr aftur til spýju sinnar,‘ og: ‚Þvegið svín veltir sér í sama saur.‘“ — 2. Pétursbréf 2:21, 22; Orðskviðirnir 26:11.
23 Annað vandamál, sem var greinilega farið að hafa áhrif á frumkristna menn, líktist vandamáli sem hefur áhrif á suma nú á tímum. Á þeim tíma voru sumir greinilega farnir að kvarta yfir því að hin fyrirheitna nærvera Krists ætlaði ekki að hefjast. Við skulum athuga hvernig Pétur tekur á þessu máli.
Manstu?
◻ Hvaða þrjú dæmi nefnir Pétur til viðvörunar?
◻ Hvernig „fyrirlíta“ falskennarar „drottinvald“?
◻ Hver er leið Bíleams og hvernig gætu þeir sem fara hana reynt að tæla aðra?
◻ Hvaða afleiðingar hefur það að fara ekki eftir nákvæmri þekkingu?
[Mynd á blaðsíðu 25]
Bíleam er víti til varnaðar.