Hvers vegna við þörfnumst nákvæmrar þekkingar
„Frá þeim degi, er vér heyrðum þetta, höfum vér því ekki látið af að biðja fyrir yður. Vér biðjum þess, að þér mættuð fyllast þekkingu á vilja Guðs með allri speki og skilningi andans.“ — KÓLOSSUBRÉFIÐ 1:9.
1. Lýstu muninum á almennri þekkingu og nákvæmri.
ALLIR vita hvað úr er en hversu margir vita hvernig það vinnur? Þú hefur kannski allgóða hugmynd um það, en gætir þú tekið úr í sundur, gert við það og sett saman á ný? Það getur úrsmiður gert. Hvers vegna? Vegna þess að hann hefur nákvæma og djúptæka þekkingu á því hvernig úr vinnur. Þetta dæmi lýsir vel muninum á almennri þekkingu og nákvæmri þekkingu á einhverju viðfangsefni.
2. Hvaða mun á þessari tvenns konar þekkingu hefur þú veitt athygli á vettvangi trúmálanna?
2 Milljónir manna gera sér einhverjar hugmyndir um Guð. Þeir segjast trúa á Guð enda þótt verk þeirra sýni annað. Trúboði spurði stundum fólk sem hann heimsótti: „Úr því að þú ert kaþólskrar trúar hlýtur þú að trúa á Guð, er ekki svo?“ Svarið var yfirleitt eitthvað á þessa leið, með bendingu til himins: „Nú, ég trúi að það hljóti að vera eitthvað þarna uppi.“ Myndir þú kalla það nákvæma þekkingu á Guði? Tæpast. Og afleiðing þessarar litlu þekkingar manna, sem segjast kristnir, er oft hegðun sem er alls ekkert kristileg. (Samanber Títusarbréfið 1:16.) Staðan er því oft sú sem Páll postuli lýsti: „Þar eð þeir hirtu ekki um að varðveita þekkinguna á Guði, ofurseldi Guð þá ósæmilegu hugarfari.“ — Rómverjabréfið 1:28.
3. Hvað gerist þegar fólk hafnar nákvæmri þekkingu á vilja Guðs?
3 Hvaða afleiðingar hafði skortur á nákvæmri þekkingu á fyrstu öldinni? Menn „gjörðu það sem ekki er tilhlýðilegt, fylltir alls konar rangsleitni, vonsku, ágirnd, illsku, fullir öfundar, manndrápa, deilu, sviksemi, illmennsku. Þeir eru rógberar, bakmálugir, guðshatarar, smánarar, hrokafullir, gortarar, hrekkvísir, foreldrum óhlýðnir, óskynsamir, óáreiðanlegir, kærleikslausir, miskunnarlausir.“ Skortur þeirra á nákvæmri þekkingu hafði í för með sér að hjörtu þeirra hneigðust ekki til réttlátra verka. — Rómverjabréfið 1:28-31; Orðskviðirnir 2:2, 10.
Hver er munurinn?
4, 5. Hvernig lýsa grískufræðingar muninum á gnosis og epignosis?
4 Grísku ritningarnar gefa í skyn muninn á almennri þekkingu og nákvæmri. Á grísku er talað um gnosis, þekkingu, og epignosis, nákvæma þekkingu. Fyrra orðið merkir, að sögn grískufræðingsins W. E. Vines, „fyrst og fremst leit að vitneskju, fyrirspurn, athugun,“ í Ritningunni einkum á andlegum sannindum.
5 Epignosis merkir, að sögn grískufræðingsins Thayers, „nákvæm og rétt þekking.“ Samsvarandi sagnorð merkir „að kynnast til hlítar, að þekkja til hlítar, að þekkja nákvæmlega, þekkja vel.“ W. E. Vine segir að epignosis merki „nákvæma og ítarlega þekkingu, skilning, viðurkenningu.“ Hann bætir við að orðið láti í ljós „fyllri eða ítarlegri þekkingu, meiri þátttöku þess sem þekkir í því sem hann þekkir, og því hafi það sterkari áhrif á hann.“ (Skáletur okkar.) Eins og við munum sjá hefur síðasta atriðið mikla þýðingu fyrir kristna menn.
6. Hvaða biblíuritarar nota orðin sem þýdd eru „þekking“ og „nákvæm þekking“ og hvers vegna er nákvæm þekking þýðingarmikil?
6 Aðeins tveir biblíuritarar nota orðið epignosis. Það eru þeir Pétur og Páll sem nota það alls um 20 sinnum.a Auk Lúkasar eru þeir einnig einir um að nota orðið gnosis. Páll notar það 23 sinnum og Pétur 4 sinnum. Rit þeirra eru því verðmætur leiðarvísir um mikilvægi nákvæmrar þekkingar í hjálpræði manna. Eins og Páll sagði Tímóteusi: „Þetta er gott og þóknanlegt frelsara vorum Guði, sem vill að allir menn verði hólpnir og komist til [nákvæmrar] þekkingar [á grísku, epignosin] á sannleikanum.“ — 1. Tímóteusarbréf 2:3, 4.
Hvers vegna nákvæm þekking er þýðingarmikil
7. (a) Hvaða áhrif þarf þekking að hafa á okkur til að vera til gagns? (b) Hvaða hætta er á ferðum ef við vanrækjum þekkinguna?
7 Það að afla sér nákvæmrar þekkingar á sannleikanum, eins og Biblían kennir hann, er því lykill að hjálpræðinu. Sú þekking verður samt sem áður að ná til hjartans, setur hvata og tilefna. Hún má ekki vera aðeins fræðileg þekking. Eftir að þekkingar á sannleikanum hefur verið aflað þarf síðan að nota hana og endurnýja. Hvers vegna? Vegna þess að minnið getur orðið gloppótt og slappt, líkt og ónotaður vöðvi, og þá gætum við farið að vanrækja hinn andlega mann og orðið veik í trúnni. ‚Þekkingin á Guði‘ gæti smám saman runnið okkur úr greipum. Innan skamms gæti þessi veiklulega trú farið að birtast í slappri hugsun eða jafnvel ókristilegri hegðun. — Orðskviðirnir 2:5; Hebreabréfið 2:1.
8. Hvert var gildi visku og þekkingar að mati Salómons?
8 Við skiljum því hvers vegna Salómon mat mjög mikils visku, dómgreind og íhygli meðan hann enn var trúfastur. Hann skrifaði: „Því að speki mun koma í hjarta þitt, og þekking verða sálu þinni yndisleg. Aðgætni mun vernda þig og hyggindin varðveita þig, til þess að frelsa þig frá vegi hins illa.“b (Orðskviðirnir 2:10-12) Þessi orð gefa til kynna að við verðum að rækta með okkur brennandi löngun í nákvæma þekkingu sem getur haft áhrif á hjarta okkar og innsta mann. Auk þess er hún grundvöllur íhygli, hæfninnar til að hugsa. Hvers vegna er það svo þýðingarmikið nú á dögum?
9. Nefndu nokkra óvini andlegs hugarfars kristins manns.
9 Við lifum á „síðustu dögum“ sem hafa í för með sér ‚örðugar tíðir‘ eins og Páll spáði. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Það verður sífellt erfiðara að varðveita kristna ráðvendni í spilltum heimi. Kristin siðfræði, verðmætamat og lífsstaðlar eru fyrirlitnir og gert gys að þeim. Trú votta Jehóva sætir árásum frá öllum hliðum — frá klerkum kristna heimsins sem hata boðskapinn um Guðsríki sem við berum hús úr húsi, frá fráhvarfsmönnum sem eru fúsir samlagsmenn klerka kristna heimsins, frá læknum sem vilja þvinga okkur og börn okkar til að þiggja blóðgjafir, frá vísindamönnum sem afneita trú á Guð og sköpunina og frá þeim sem reyna að þvinga okkur til að víkja frá hlutleysi okkar. Öll þessi andstaða er runnin undan rifjum Satans, höfðingja myrkurs og fáfræði, óvinar nákvæmrar þekkingar. — 2. Korintubréf 4:3-6; Efesusbréfið 4:17, 18; 6:11, 12.
10. Hvaða þrýstingi og álagi verðum við fyrir og hvernig þurfum við að berjast gegn því?
10 Oft er í hinu daglega lífi þrýst mjög fast á kristinn mann til að gera það sem aðrir gera, hvort heldur það er neysla fíkniefna, óhófleg drykkja, siðleysi og ofbeldi, þjófnaður, lygar, svik, að hætta skólagöngu eða einfaldlega það að lifa fyrir eigingjarnar nautnir. Þess vegna er nákvæm þekking mikilvæg. Ítarleg þekking á orði Guðs og tilgangi getur beint hugsunum okkar og athöfnum á jákvæðar brautir. — Rómverjabréfið 12:1, 2.
Glataður sonur
11, 12. Sýndu fram á með raunsönnu dæmi hvílík flónska það er að hafna nákvæmri þekkingu á sannleikanum.
11 Við getum lýst þessu með raunsönnu dæmi. Það segir frá skírðum, fjórtán ára pilti sem varð fyrir því að það reyndi á kærleika hans til sannleikans. Eins og títt er um ungt fólk hafði hann gaman af íþróttum, einkum knattspyrnu. Vandinn var bara sá að skólaliðið hans hafði knattspyrnuæfingar sama kvöld og samkomur voru á dagskrá hjá söfnuðinum. Pilturinn var ekki nógu sterkur andlega til að bera skyn á hið yfirborðslega gildi knattspyrnu í samanburði við hið varanlega gildi þess að sækja kristnar samkomur með móður sinni, sem var ekkja, og yngri systkinum. Hann hætti því að hegða sér í samræmi við nákvæma þekkingu og ákvað að segja skilið við sannleikann. Loks var hann gerður rækur úr söfnuðinum. Síðar gegndi hann herþjónustu og tók að neyta fíkniefna.
12 Árið 1986 var hann leystur frá herþjónustu og kom þá til sjálfs sín og skrifaði fjölskylduvini er setið hafði í dómnefndinni sem gerði hann rækan. Í bréfinu sagði: „Það er mér ánægjuefni að geta flutt þér mikilvægar fréttir: Ég er snúinn aftur til sannleikans. . . . Mér er orðið ljóst það sem Páll postuli sagði í 2. Korintubréfi 4:4, að til sé guð þessa heimskerfis sem blindar hugi manna. Ég hef verið andlega blindur lengi fyrir því sem var að gerast í kringum mig. Ég gerði mér ekki ljóst hvaða áhættu ég var að taka þegar ég yfirgaf sannleikann. Svo er Jehóva Guði fyrir að þakka að ég hef smám saman gert mér grein fyrir því að ég var á alrangri braut.“ — Samanber Lúkas 15:11-24.
13. Hvað getur þeim hlotnast sem hafa fallið frá, ef þeir iðrast í sannleika? (2. Tímóteusarbréf 2:24-26)
13 Þessi ungi maður sneri aftur inn á braut nákvæmrar þekkingar. Nú getur hann ‚hegðað sér eins og Jehóva er samboðið, honum til þóknunar á allan hátt.‘ Hann getur líka „borið ávöxt í öllu góðu verki og vaxið að [nákvæmri] þekkingu á Guði“ um leið og hann stundar samfélag sitt við kristna söfnuðinn. Auk þess hefur hann glatt fjölskyldu sína mjög með því að verða aftur fylgjandi Krists. Þekkir þú einhver áþekk dæmi? — Kólossubréfið 1:9, 10; Matteus 11:28-30.
Skelfilegar afleiðingar andlegrar vanrækslu
14. (a) Hvað verðum við að gera til að falla ekki frá? (b) Hvað hefur komið fyrir suma kristna menn?
14 Hvaða lærdóm má draga af þessu dæmi og öðrum líkum? Að við þurfum stöðugt að endurnýja hinar andlegu rafrásir hugans eftir að við höfum komist til nákvæmrar þekkingar á sannleikanum, til að falla ekki frá trúnni. Við getum orðið andlega veikburða ef við vanrækjum einkanám og fjölskyldunám, kristnar samkomur og þjónustuna á akrinum. Þá getur svo farið að kristinn maður, sem einu sinni var sterkur í trúnni, fjarlægist hana og gerist jafnvel sekur um ranga breytni svo sem siðleysi, eða þá fjarlægist sannleikann vegna efasemda og villandi upplýsinga og gerist fráhvarfsmaður. (Hebreabréfið 2:1; 3:12; 6:11, 12) Sumir hafa jafnvel sýnt þá flónsku að snúa aftur til babýlonskra kenninga um þrenningu og ódauðlega sál!
15. Hvernig varaði Pétur okkur við því að falla frá trúnni?
15 Orð Péturs eiga sannarlega vel við hér: „Ef þeir, sem fyrir þekkingu á Drottni vorum og frelsara Jesú Kristi voru sloppnir frá saurgun heimsins, flækja sig í honum að nýju og bíða ósigur, þá er hið síðara orðið þeim verra en hið fyrra. Því að betra hefði þeim verið að hafa ekki þekkt veg réttlætisins en að hafa þekkt hann og snúa síðan aftur frá hinu heilaga boðorði, sem þeim hafði verið gefið. Fram á þeim hefur komið þetta sannmæli: ‚Hundur snýr aftur til spýju sinnar,‘ og: ‚Þvegið svín veltir sér í sama saur.‘“ — 2. Pétursbréf 2:20-22.
16. (a) Hvernig hafa sumir látið afvegaleiðast? (b) Út í hvers konar hátterni hafa hinir afvegaleiddu leiðst?
16 Þeir sem hafna nákvæmri þekkingu á sannleikanum tileinka sér oft hentugleikasjónarmið. Þeir axla ekki lengur þá ábyrgð að sækja reglulega kristnar samkomur eða taka þátt í þjónustunni hús úr húsi. Sumir byrja jafnvel að reykja á ný! Aðrir eru hinir ánægðustu með að þurfa ekki lengur að skera sig úr fjöldanum vegna kristins hlutleysis eða afstöðunnar til blóðsins. Hvílíkt frelsi! Nú geta þeir jafnvel gefið einhverjum af stjórnmálaflokkum ‚dýrsins‘ atkvæði sitt. (Opinberunarbókin 13:1, 7) Þannig hafa staðfestulausar sálir stundum látið tælast og afvegaleiðast út af hinni beinu braut nákvæmrar þekkingar með fagurgala þeirra sem „heita þeim frelsi, þótt þeir séu sjálfir þrælar spillingarinnar.“ — 2. Pétursbréf 2:15-19.
17. Hvaða hætta er á ferðum fyrir þá sem falla frá nákvæmri þekkingu á sannleikanum?
17 Nema því aðeins að þessir einstaklingar iðrist og snúi aftur til sannleikans eiga þeir í vændum þann dóm sem Páll lýsti: „Ef vér syndgum af ásettu ráði, eftir að vér höfum öðlast þekkingu sannleikans, þá er úr því enga fórn að fá fyrir syndirnar, heldur er það óttaleg bið eftir dómi og grimmilegur eldur, sem eyða mun andstæðingum Guðs.“ Það er mikil heimska og skammsýni að yfirgefa nákvæma þekkingu á Jehóva Guði og Kristi Jesú í skiptum fyrir fráhvarfskenningar kristna heimsins! — Hebreabréfið 6:4-6; 10:26, 27.
Kostgæfni samfara nákvæmri þekkingu
18. Hvers vegna tók klerkastétt Gyðinga ekki við Kristi, að sögn Páls?
18 Klerkastétt Gyðinga á dögum Páls bjó vissulega yfir þekkingu á Hebresku ritningunum, en var það nákvæm þekking? Dró þessi þekking þá til Krists, hins fyrirheitna Messíasar? Páll færir rök fyrir því að þeir hafi verið svo uppteknir af að koma til vegar eigin réttlæti út frá Móselögunum að þeir hafi ekki viljað lúta ‚Kristi sem er endalok lögmálsins.‘ Því gat Páll sagt um þá: „Það ber ég þeim, að þeir eru kappsfullir Guðs vegna, en ekki með réttum skilningi [nákvæmri þekkingu].“ — Rómverjabréfið 10:1-4.
19, 20. (a) Hvernig getum við aflað okkur nákvæmrar þekkingar? (b) Hvaða spurningum er ósvarað?
19 Hvernig getum við eignast þessa nákvæmu þekkingu? Með einkanámi og hugleiðingu, samfara bæn og samkomusókn. Þannig erum við stöðugt að hlaða hinar andlegu rafhlöður okkar, ef svo má að orði komast. Við höfum ekki efni á að láta okkur nægja þá þekkingu sem við öfluðum okkur er við tókum við sannleikanum á sínum tíma. Við þurfum stöðuglega að innbyrða fasta, andlega fæðu, nákvæma þekkingu, með samviskusömu einkanámi. Leiðbeiningar Páls eru mjög raunhæfar fyrir okkur: „Fasta fæðan er fyrir fullorðna, fyrir þá, sem jafnt og þétt hafa tamið skilningarvitin til að greina gott frá illu. Þess vegna skulum vér sleppa byrjunar-kenningunum um Krist og sækja fram til fullkomleikans. Vér förum ekki aftur að byrja á undirstöðuatriðum eins og afturhvarfi frá dauðum verkum og trú á Guð, . . . Og þetta munum vér gjöra, ef Guð lofar.“ — Hebreabréfið 5:14-6:3.
20 Hvaða verkfæri höfum við þá til að afla okkur nákvæmrar þekkingar? Hvernig getum við fundið tíma til að nema orð Guðs í öllu annríki hversdagslífsins? Fjallað verður um þessar spurningar og fleiri í greininni sem fylgir.
[Neðanmáls]
a Samkvæmt lista Comprehensive Concordance of the New World Translation of the Holy Scriptures, bls. 17; sjá einnig Fílemonsbréfið 6 í The Kingdom Interlinear Translation of the Greek Scriptures.
b Nánari upplýsingar um merkingarmun orðanna „þekking“ („knowledge“), „íhygli“ („thinking ability“), „viska“ („wisdom“) og annarra sem koma fyrir í Orðskviðunum er að finna í Insight on the Scriptures, 2. bindi, bls. 180, 1094, 1189, gefin út á ensku af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
Upprifjun
◻ Hver er munurinn á þekkingu og nákvæmri þekkingu?
◻ Hvers vegna er nákvæm þekking mjög þýðingarmikil núna á síðustu dögum?
◻ Hvernig gætu sumir freistast til að falla frá sannleikanum?
◻ Hvaða aðvörun fáum við frá Pétri gegn því að hafna nákvæmri þekkingu?
◻ Hvað verðum við að gera til að afla okkur nákvæmrar þekkingar og varðveita hana?