Leitar þú fólginna fjársjóða?
„Náð og friður margfaldist yður til handa með [nákvæmri] þekkingu á Guði og Jesú, Drottni vorum.“ — 2. PÉTURSBRÉF 1:2.
1, 2. Hvers vegna er gull verðmætt?
HVERS vegna er gull svona dýrt? Þótt það sé deigur málmur kostar únsan hundruð dollara (ein únsa er 31,1 gramm). Það er að vísu auðvelt að móta gull og gera úr því fagra skartgripi svo sem hringi eða armbönd. (1. Tímóteusarbréf 2:9; Jakobsbréfið 2:2) En værir þú að deyja úr hungri og þorsta úti í eyðimörk væru skartgripir úr gulli og silfri þér einskis virði. Undir þeim kringumstæðum væri brauðhleifur eða skál með hrísgrjónum og glas af vatni langtum verðmætara en gull.
2 Hvers vegna er gull þá svona verðmætt? Meðal annars vegna þess að gull er sjaldgæfur málmur og erfitt að grafa það úr jörð. Sem dæmi má nefna að þegar Empire-gullnámunni í norðurhluta Kaliforníu var lokað árið 1957, vegna þess að það borgaði sig ekki lengur að vinna þar gull, voru námuverkamennirnir komnir meira en 1500 metra undir yfirborð jarðar en þurftu svo að fara skáhallt niður á við um þriggja kílómetra leið til að komast til gullsins. Gull var í svo háu verði að það hafði eigi að síður borgað sig að halda áfram leitinni fram til þess tíma.
3. Hvaða fjársjóða getum við leitað?
3 Við getum samt sem áður grafið eftir því sem er langtum verðmætara en gull. Hvað er það? Hinn vitri konungur Salómon svaraði því fyrir um 3000 árum: „Já, ef þú kallar á skynsemina og hrópar á hyggindin, ef þú leitar að þeim sem að silfri og grefst eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum, þá munt þú skilja hvað ótti [Jehóva] er, og öðlast þekking á Guði.“ Hugsaðu þér að við skulum hafa þau sérréttindi að öðlast „þekking á Guði“! — Orðskviðirnir 2:3-5.a
Hvers vegna allir þarfnast nákvæmrar þekkingar
4. Hvað ætti að vera fólgið í nákvæmri þekkingu kristins manns?
4 Frá dögum Krists hefur þessi nauðsynlega þekking aukist þannig að nú höfum við aðgang að mun stærri þekkingarsjóði en trúfastir karlar og konur meðal Hebrea til forna. Eins og Páll orðaði það: „Ég bið Guð Drottins vors Jesú Krists, föður dýrðarinnar, að gefa yður anda speki og opinberunar, svo að þér fáið þekkt hann [nákvæmlega]. Ég bið hann að upplýsa sálarsjón yðar, svo að þér skiljið, hver sú von er, sem hann hefur kallað oss til, hver ríkdómur hans dýrlegu arfleifðar er, sem hann ætlar oss meðal hinna heilögu.“ — Efesusbréfið 1:17, 18.
5. Hvers vegna þurfa hinir smurðu að hafa stöðugar gætur á þekkingu sinni á vilja Guðs?
5 Þetta voru á þeim tíma beinar leiðbeiningar til hinna heilögu, smurðu bræðra Krists og eru enn. Þeir eru viðbót við hið fyrirheitna „afkvæmi“ og eru því sérlegur skotspónn Satans. (Galatabréfið 3:26-29; Efesusbréfið 6:11, 12) Sér í lagi hinir smurðu þurfa að gera köllun sína vissa með því að vanrækja ekki náðargjöf Guðs. Þess vegna þurfa þeir stöðugt að styrkja sinn andlega mann með því að byggja upp nákvæma þekkingu á vilja Guðs og orði. — Efesusbréfið 3:7; Hebreabréfið 6:4-6; 2. Pétursbréf 1:9-12.
6. (a) Hvers vegna þörfnumst við öll nákvæmrar þekkingar, óháð því hvort von okkar er himnesk eða jarðnesk? (b) Hvað útheimtir það að afla sér nákvæmrar þekkingar?
6 Hvað um þá sem bera í brjósti von um eilíft líf á jörð? Hvers vegna er nákvæm þekking þýðingarmikil fyrir þá? Vegna þess að kristin ráðvendni er ekki stigskipt, rétt eins og gerðar væru meiri kröfur til hinna smurðu sem hafa himneska von en hinna annarra sauða sem hafa jarðneska von. (Jóhannes 10:16; 2. Pétursbréf 3:13) Kristnar meginreglur gilda jafnt um alla. Af þeim sökum þurfum við öll að hlaða á reglulegum grundvelli hinar andlegu rafhlöður okkar með nákvæmri þekkingu. Það kostar hins vegar tíma og krafta. Við þurfum að grafa andlega eins og værum við að leita fólginna fjársjóða. — Sálmur 105:4, 5.
Kauptu þér tíma til að grafa
7. (a) Hvað getur hindrað okkur í að afla nákvæmrar þekkingar? (b) Hvaða afleiðingar getur andleg vanræksla haft í för með sér?
7 Flestir nútímamenn eiga annríkt og við sem erum kristin virðumst hafa enn meira að gera en flestir aðrir með biblíusamkomur okkar, þjónustu á akrinum, veraldleg störf, heimilisstörf, heimanám fyrir skóla og svo framvegis. En líkt og við tökum okkur tíma daglega til að matast, eins þurfum við að taka okkur tíma til að næra huga okkar og andlegan mann. Það var enginn hégómi sem Jesús fór með er hann vitnaði í 5. Mósebók 8:3: „Ritað er: ‚Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni.‘“ (Matteus 4:4) Ef við vanrækjum andlegt heilbrigði okkar erum við samtímis að vanrækja hin andlegu verðmæti okkar og framtíðarvon. Það getur orðið til þess að við förum að veiklast í trúnni. Hvernig getum við þá skapað okkur tíma til að nema Biblíuna reglulega?
8. Hvaða biblíuleg ráð gefa okkur rétt viðhorf til einkanáms?
8 Hér eiga vel við orð Páls postula: „Hafið því nákvæma gát á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir. Notið hverja stund, því að dagarnir eru vondir. Verið því ekki óskynsamir, heldur reynið að skilja, hver sé vilji [Jehóva].“ Við getum borið skyn á hver er vilji Jehóva aðeins ef við gefum gaum að orði hans með einkanámi. Til þess þurfum við að ‚nota hverja stundina‘ eða ‚kaupa okkur hentugan tíma.‘ — Efesusbréfið 5:15-17, NW.
9. Hvernig getur farið til spillis dýrmætur tími sem hægt væri að nota til einkanáms? Segðu frá eigin reynslu.
9 Hvernig eyðum við frítíma okkar? Er honum að mestu leyti eytt fyrir framan sjónvarpstækið? Þetta tæki, sem hálfpartinn dáleiðir fólk, getur stolið frá okkur allt frá tveim upp í fimm klukkustundir á hverju kvöldi! Hve mörgum stundum á dag eyðir þú fyrir framan sjónvarpið? Oft er það efni, sem sýnt er í sjónvarpi, spillandi vegna þess hve ríka áherslu það leggur á ofbeldi og kynlíf. Algengt er að það sé til þess gert að skírskota til ‚fýsnar holdsins og fýsnar augnanna og auðæfa oflætis.‘ (1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Marga brestur þó viljastyrk til að slökkva á sjónvarpstækinu. Já, þessi nútímauppfinning getur eytt upp því mikilvægasta sem við eigum, tímanum.
10. Hvers vegna er svona mikilvægt nú á dögum að nota tíma okkar viturlega?
10 Ef við erum heiðarleg gagnvart sjálfum okkur komumst við að raun um að það er yfirleitt hægt að finna tíma til þess sem nauðsynlegt er, svo sem biblíunáms. Og einkabiblíunám, sem leiðir til nákvæmrar þekkingar, er nauðsynlegt kristnum manni á okkar örðugu tímum. Í ljósi þess að árið 1988 voru yfir 41.000 einstaklingar gerðir rækir úr kristna söfnuðinum er þó auðsætt að margir bræður og systur hafa vanrækt andlegt heilbrigði sitt. Það er ekki hægt að bera og viðhalda „alvæpni Guðs“ með því að nota það af og til. Það þarf að gera daglega líkt og hermaður í stríði. — Efesusbréfið 6:10-18; Rómverjabréfið 1:28-32; 2. Tímóteusarbréf 3:1.
11. Hvaða fordæmi setur Betelfjölskyldan í sambandi við reglulegt fjölskyldunám?
11 Betelfjölskyldurnar við hin 95 útibú Varðturnsfélagsins um víða veröld telja yfir 9000 einstaklinga og þær hafa sitt fjölskyldunám hvert mánudagskvöld. Þær nema Varðturninn til undirbúnings samkomum næstu helgar, og oft er haldin biblíuræða eða námskeið að auki fyrir nýja fjölskyldumeðlimi. Mánudagskvöld eru helguð biblíunámi hjá öllum Betelfjölskyldum um víða veröld. Hvenær nemur þú Biblíuna, einn saman eða með fjölskyldu þinni? — Hebreabréfið 10:24, 25.
Verkfæri og notkun þeirra
12. Nefndu nokkra af kostum Nýheimsþýðingarinnar með tilvísunum.
12 Á sama hátt og námuverkamaður þarf ákveðin verkfæri höfum við ákveðin verkfæri til að grafa í þá gullnámu sem orð Guðs er. Lítum til dæmis á Nýheimsþýðingu Heilagrar ritningar með tilvísunum. Hún er nú fáanleg á ensku, frönsku, hollensku, ítölsku, japönsku, portúgölsku, spænsku og þýsku. Vottar Jehóva víða um heim hafa því í höndum afbragðsverkfæri til að afla sér nákvæmrar þekkingar á hinum sanna Guði. Í þessari útgáfu Biblíunnar eru þúsundir millivísana og fjölmargar neðanmálsathugasemdir. Í henni er einnig 36 síðna viðauki þar sem fjallað er ítarlega um ýmsar, þýðingarmiklar biblíuspurningar.b
13. Hvað er hægt að segja um notkun hugtakanna „þekking“ og „nákvæm þekking“ í Hebresku ritningunum og Grísku ritningunum?
13 Aftast í Nýheimsþýðingunni með tilvísunum er orðalykill („Bible Words Indexed“). Hvernig getum við notað hann? Ef þú flettir til dæmis upp á orðunum „nákvæm þekking“ („accurate knowledge“) finnur þú tilvísun í 10 ritningarstaði. Enginn þeirra er þó í Hebresku ritningunum. Ber að skilja það svo að Hebresku ritningarnar leggi ekki áherslu á nauðsyn slíkrar þekkingar? Nei. Undir orðinu „þekking“ („knowledge“) er vísað í 24 ritningarstaði, þar af 18 í Hebresku ritningunum. Hebresk tunga hefur hins vegar ekkert sérstakt orð fyrir „nákvæma þekkingu.“ Eins og þú getur séð af þeim ritningarstöðum, sem vísað er til, leggur hún stundum áherslu á þörfina fyrir meira en aðeins venjulega þekkingu með því að tengja „þekkingu“ orðunum „fróðir“ og „hyggindi“ eða tala um að þekkingin muni „vaxa.“ — Daníel 1:4; 12:4; Jeremía 3:15.
14. Hvaða upplýsingar er að finna undir yfirskriftinni „þekking“ í Insight on the Scriptures?
14 Eins og við lærðum um í greininni á undan kemur fram í grískum texta Biblíunnar að um sé að ræða tvenns konar þekkingarstig. Þegar við gröfum niður í orð Guðs viljum við fá að vita meira um mismuninn á þessum tveim hugtökum eins og þau eiga við kristna menn. Hvers vegna er svona mikilvægt fyrir kristna menn að búa yfir þekkingu, gnosis, og nákvæmri þekkingu, epignosis? Hvar getum við leitað svars? Í biblíufræðibókinni Insight on the Scriptures. Þar er mikla fjársjóði að finna. Flettu til dæmis upp á „þekkingu“ („knowledge“). Þar er að finna langa grein um þau hugtök, sem við erum að fjalla um hér, og skylda eiginleika svo sem visku, skilning, dómgreind og íhygli. Við höfum fundið allt þetta „gull,“ þessa verðmætu vitneskju, með því að nota aðeins fáein hjálpargögn til biblíunáms! En við höfum fleiri hjálpargögn. — Sálmur 19:10, 11.
15. Hvaða önnur rannsóknartæki höfum við og hvernig er hægt að nota þau?
15 Ef þú vildir kafa dýpra í athugun þinni á hugtakinu „þekking“ og skyldum hugtökum gætir þú notað efnisskrá að ritum Varðturnsfélagsins. Við höfum notað hér hugtakið „þekking“ sem dæmi en þú getur notað sömu aðferð til að rannsaka hundruð annarra viðfangsefna. Hugsaðu þér allar þær ríkulegu upplýsingar sem hægt er að fá um nafnið Jehóva! Það er mikill þekkingarsjóður um drottinvald alheimsins sem við höfum aðgang að! — Sálmur 68:20, 21; Postulasagan 4:24.
16. Hvað segir Ritningin um það að leita?
16 Við getum fundið marga fagra ‚fólgna fjársjóði‘ með þessum hjálpargögnum og öðrum sem Biblíu- og smáritafélagið Varðturninn hefur gefið út. Langar þig til að finna þetta „gull“? Finnst þér það ómaksins vert? Munt þú taka þér tíma til að grafa eftir því? — Orðskviðirnir 2:1-5.
Hver tekur forystuna í hinum andlega námugrefti?
17. Hvað verðum við að gera til að afla okkur þekkingar á Guði og Kristi?
17 Hver er lykillinn að því að afla sér þessarar dýrmætu þekkingar um Guð og Krist? Áhugahvöt — sú þrá að standa velþóknanlegur frammi fyrir Jehóva og syni hans og löngun til að hljóta eilíft líf að gjöf. Jesús orðaði það þannig: „Haldið áfram að biðja og ykkur mun gefast, haldið áfram að leita og þið munuð finna, haldið áfram að knýja dyra og opnað verður fyrir ykkur. Því að hver sá öðlast sem biður og hver sá finnur sem leitar og opnað er fyrir hverjum þeim sem knýr dyra.“ En taktu eftir skilyrðunum. Jesús sagði: ‚Haldið áfram að biðja, leita og knýja dyra.‘ Það er ekki nóg að gera það einu sinni. Þekkingarleitin þarf að halda áfram. — Matteus 5:6; 7:7, 8, NW.
18. Hver í fjölskyldunni á að taka forystuna í að leita nákvæmrar þekkingar og hvers vegna?
18 Hver á að taka forystuna í kristinni fjölskyldu í því að grafa eftir nákvæmri þekkingu? Páll svarar: „Þér feður, reitið ekki börn yðar til reiði, heldur alið þau upp með aga og umvöndun [Jehóva].“ Já, foreldrarnir, einkum faðirinn, verða að taka forystuna í að meta andlega fjársjóði að verðleikum. Og það minnir okkur aftur á nauðsyn þess að skipuleggja reglulegt nám sem meðlimir fjölskyldunnar geta hlakkað til. — Efesusbréfið 6:4.
19. Hvernig er hægt að gera námsstundir fjölskyldunnar skemmtilegar? Segðu frá eigin reynslu.
19 Hægt er að gera námsstundir fjölskyldunnar skemmtilegar og áhugaverðar. Ef þú átt börn gætir þú látið þau velja sér eitthvert viðfangsefni og biðja þau að leita sér upplýsinga um það frá ritum Félagsins — allt eftir aldri og hæfni. Eftir svona hálfa klukkustund getið þið hittst til að athuga hvað hver og einn hefur getað dregið saman um það efni sem hann ætlaði að athuga. Ef biblíuorðalykill er til umráða getur eitthvert barnið talið hve mörgum sinnum ákveðið orð kemur fyrir í Hebresku ritningunum og Grísku ritningunum. Eldri börnin geta ef til vill fundið einhverja gimsteina í bókunum Insight on the Scriptures. Þið foreldrar vitið hvers þið megið vænta af börnum ykkar og hve lengi þau geta einbeitt sér og þið ættuð að taka tillit til þess í fjölskyldunáminu. Verið sveigjanleg og hrósið börnunum. Hvetjið þau í leit sinni að fjársjóðum þekkingarinnar — og hafið rétt tilefni.
Grafið af réttu tilefni
20. Hvaða rangt tilefni með einkanámi ættum við að forðast?
20 Hógværð er kristin dyggð. (Orðskviðirnir 11:2; 1. Tímóteusarbréf 2:9) Ættum við þá að nema í þeim tilgangi að geta stært okkur af því sem við höfum lært? Ættum við að láta ljós okkar skína þannig að öðrum finnist þeir fáfróðir? Ættum við að básúna okkar eigin túlkun og vangaveltur? Páll ráðlagði: „Fyrir þá náð, sem mér er gefin, segi ég yður hverjum og einum að hugsa ekki hærra um sig en hugsa ber, heldur í réttu hófi, og halda sér hver og einn við þann mæli trúar, sem Guð hefur úthlutað honum.“ — Rómverjabréfið 12:3.
21, 22. Hvaða áhrif ætti nákvæm þekking að hafa á okkur?
21 Einlæg viðleitni og heimfærsla nákvæmrar þekkingar getur leitt til trúar, dyggðar, sjálfstjórnar, þolgæðis, guðrækni, bróðurelsku og kærleika. Pétur benti á mikilvægi þessara dyggða er hann skrifaði: „Því ef þér hafið þetta til að bera og farið vaxandi í því, munuð þér ekki vera iðjulausir né ávaxtalausir í þekkingunni á Drottni vorum Jesú Kristi.“ — 2. Pétursbréf 1:2-8.
22 Þekking okkar ætti að hafa áhrif á hjartað. Hún ætti að hvetja okkur til að sýna Guði og náunganum kærleika og vera kristnir menn sem bera ávöxt í hegðun okkar og þjónustu. Það mun síðan stuðla að einingu og dýpri skilningi á fordæmi Krists. (Efesusbréfið 4:13) Það er ríkuleg umbun til handa þeim sem leitar fólginna fjársjóða!
[Neðanmáls]
a Athyglisvert er að í grísku Sjötíumannaþýðingunni er í Orðskviðunum 2:5 notað orðið epignosis, „nákvæm þekking,“ en það er einn af átta stöðum þar sem þetta gríska orð kemur fyrir í Sjötíumannaþýðingunni.
b Sjá Varðturninn (enska útgáfu) þann 1. nóvember 1985, bls. 27-30, þar sem eru ítarlegar skýringar á því hvernig hægt sé að notfæra sér tilvísanabiblíuna sem best.
Spurningar til íhugunar
◻ Hvað er dýrmætara en fólgnir fjársjóðir, að sögn Salómons konungs?
◻ Hvers vegna er nákvæm þekking lífsnauðsynleg hinum smurðu og hinum öðrum sauðum?
◻ Hvernig getum við keypt okkur tíma til einkanáms?
◻ Hvaða sérstök verkfæri höfum við til þess að grafa eftir nákvæmri þekkingu?
◻ Hverjum ber að taka forystuna í fjölskyldunáminu og af hvaða hvötum ættum við að nema?