Hafðu dag Jehóva stöðugt í huga
„Á hinum síðustu dögum munu koma spottarar.“ — 2. PÉTURSBRÉF 3:3.
1. Hvernig hugsaði kristinn maður nokkur um tímann?
MAÐUR, sem þjónað hefur í fullu starfi í meira en 66 ár, skrifar: „Ég hef alltaf fundið fyrir því að mikið lægi á. Í huga mér hefur Harmagedón alltaf verið á næsta leiti. (Opinberunarbókin 16:14, 16) Líkt og faðir minn og afi hef ég lifað lífinu eins og postulinn [Pétur] hvatti til og ‚haft návist dags Jehóva stöðugt í huga.‘ Ég hef alltaf litið á hinn fyrirheitna, nýja heim sem ‚veruleika er ekki var auðið að sjá.‘“ — 2. Pétursbréf 3:11, 12, NW; Hebreabréfið 11:1, NW; Jesaja 11:6-9; Opinberunarbókin 21:3, 4.
2. Hvað merkir það að hafa dag Jehóva stöðugt í huga?
2 Þau orð Péturs að hafa dag Jehóva „stöðugt í huga“ merkja að við frestum honum ekki í huganum. Við ættum aldrei að gleyma að dagurinn er mjög nálægur þegar Jehóva eyðir þessu heimskerfi til að ryðja hinum fyrirheitna, nýja heimi braut. Hann ætti að vera okkur svo raunverulegur að við sjáum hann skýrt, alveg eins og hann sé rétt framundan. Þannig var hann í augum spámanna Guðs til forna og þeir töluðu oft um að hann væri nálægur. — Jesaja 13:6; Jóel 1:15; 2:1; Óbadía 15; Sefanía 1:7, 14.
3. Hver er greinilega hvatinn að ráðleggingum Péturs um dag Jehóva?
3 Hvers vegna hvatti Pétur okkur til að líta á dag Jehóva eins og hann væri „á næsta leiti“? Vegna þess að sumir voru greinilega farnir að gera gys að hugmyndinni um fyrirheitna nærveru Krists þegar syndurum yrði refsað. (2. Pétursbréf 3:3, 4) Pétur svarar því aðfinnslum þessara spottara í þriðja kafla síðara bréfs síns.
Hlýleg hvatning til að muna
4. Hvað vill Pétur að við munum?
4 Ást Péturs á bræðrum sínum birtist í því að hann ávarpar þá margsinnis „þér elskaðir“ í þessum kafla. Hann hvetur þá hlýlega til að gleyma ekki því sem þeim hafi verið kennt og hefur kaflann með þessum orðum: „Þér elskaðir, . . . ég [hef] reynt að halda hinu hreina hugarfari vakandi hjá yður. Það reyni ég með því að rifja upp fyrir yður þau orð, sem hinir heilögu spámenn hafa áður talað, og boðorð Drottins vors og frelsara, er postular yðar hafa flutt.“ — 2. Pétursbréf 3:1, 2, 8, 14, 17.
5. Hvað sögðu sumir spámenn um dag Jehóva?
5 Hvaða „orð, sem hinir heilögu spámenn hafa áður talað,“ hvetur Pétur lesendurna til að muna? Orðin um nærveru Krists sem konungur Guðsríkis og um dóminn yfir hinum óguðlegu. Pétur hafði áður beint athyglinni að þessum orðum. (2. Pétursbréf 1:16-19; 2:3-10) Júdas talar um Enok, fyrsta spámanninn sem getið er um að hafi varað við óhagstæðum dómi Guðs yfir illvirkjum. (Júdasarbréfið 14, 15) Aðrir spámenn komu á eftir Enok og Pétur vill ekki að við gleymum því sem þeir skrifuðu. — Jesaja 66:15, 16; Sefanía 1:15-18; Sakaría 14:6-9.
6. Hvaða orð Krists og postula hans upplýsa okkur um dag Jehóva?
6 Auk þess segir Pétur lesendum sínum að minnast ‚boðorða Drottins vors og frelsara.‘ Boðorð Jesú fela meðal annars í sér hvatninguna: „Hafið gát á sjálfum yður, að hjörtu yðar þyngist ekki . . . og komi svo dagur sá skyndilega yfir yður eins og snara.“ „Verið varir um yður, vakið! Þér vitið ekki, nær tíminn er kominn.“ (Lúkas 21:34-36; Markús 13:33) Pétur hvetur okkur líka til að fara eftir orðum postulanna. Páll postuli skrifaði til dæmis: „Dagur [Jehóva] kemur sem þjófur á nóttu. Vér skulum þess vegna ekki sofa eins og aðrir, heldur vökum og verum algáðir.“ — 1. Þessaloníkubréf 5:2, 6.
Girndir spottaranna
7, 8. (a) Hvers konar menn eru það sem gera gys að viðvörunarboðskap Guðs? (b) Hvað segja spottararnir?
7 Eins og áður er getið var ástæðan fyrir áminningu Péturs sú að sumir voru farnir að hæðast að slíkum viðvörunum, líkt og Ísraelsmenn fyrrum höfðu gert gys að spámönnum Jehóva. (2. Kroníkubók 36:16) Pétur segir: „Þetta skuluð þér þá fyrst vita, að á hinum síðustu dögum munu koma spottarar er stjórnast af eigin girndum.“ (2. Pétursbréf 3:3) Júdas talar um ‚óguðlegar girndir‘ þessara spottara. Hann kallar þá ‚holdlega menn sem eigi hafa andann.‘ — Júdasarbréfið 17-19.
8 Falskennararnir, sem Pétur sagði „stjórnast af saurlífisfýsn,“ eru líklega í hópi þessara spottara sem eru ekki andlega sinnaðir. (2. Pétursbréf 2:1, 10, 14) Þeir spyrja trúfasta kristna menn hæðnislega: „Hvað verður úr fyrirheitinu um komu hans? Því að frá því feðurnir sofnuðu stendur allt við sama eins og frá upphafi veraldar.“ — 2. Pétursbréf 3:4.
9. (a) Hvers vegna reyna spottarar að draga úr því að mikið liggi við? (b) Hvernig er það vernd fyrir okkur að hafa dag Jehóva stöðugt í huga?
9 Hvers vegna spotta þeir? Hvers vegna gefa þeir í skyn að nærvera Krists verði kannski aldrei, að Guð hafi aldrei skipt sér af mönnunum og geri það aldrei? Með því að draga úr því að mikið liggi á, sem orð Guðs leggur ríka áherslu á, reyna þessir holdlegu spottarar að svæfa aðra, gera þá andlega sinnulausa svo að þeir verði auðtæld bráð. Þetta er sterk hvatning fyrir okkur til að halda okkur andlega vakandi! Megum við hafa dag Jehóva stöðugt í huga og alltaf muna að augu hans hvíla á okkur! Þá finnum við okkur knúin til að þjóna Jehóva með eldmóði og varðveita okkur siðferðilega hreina. — Sálmur 11:4; Jesaja 29:15; Esekíel 8:12; 12:27; Sefanía 1:12.
Þrjóskir og auvirðilegir
10. Hvernig sýnir Pétur fram á að spottararnir hafi rangt fyrir sér?
10 Slíkir spottarar látast ekki sjá mikilvæga staðreynd. Þeir hunsa hana vísvitandi og reyna að fá aðra til að gleyma henni. Til hvers? Til að eiga auðveldara með að tæla aðra. Því að „viljandi gleyma þeir því,“ segir Pétur. Hverju? „Að himnar voru til forðum og jörð til orðin af vatni og upp úr vatni fyrir orð Guðs. Þess vegna gekk vatnsflóðið yfir þann heim, sem þá var, svo að hann fórst.“ (2. Pétursbréf 3:5, 6) Já, Jehóva hreinsaði jörðina af illsku í Nóaflóðinu, og það er staðreynd sem Jesús lagði einnig áherslu á. (Matteus 24:37 -39; Lúkas 17:26, 27; 2. Pétursbréf 2:5) Gagnstætt því sem spottarar segja hefur ekki allt staðið „við sama eins og frá upphafi veraldar.“
11. Hvaða ótímabærar væntingar frumkristinna manna voru tilefni fyrir suma til að spotta þá?
11 Spottarar hafa kannski hæðst að trúföstum kristnum mönnum fyrir þessar óuppfylltu væntingar. Skömmu fyrir dauða Jesú höfðu lærisveinarnir ímyndað sér „að Guðs ríki mundi þegar birtast.“ Síðan, eftir upprisu hans, spurðu þeir hann hvort ríkið yrði endurreist þegar í stað. Og um tíu árum áður en Pétur skrifaði síðara bréfið komust sumir „í uppnám“ við „orð“ eða „bréf,“ sem átti að vera frá Páli postula eða félögum hans, þess efnis að „dagur [Jehóva] væri þegar fyrir höndum.“ (Lúkas 19:11; 2. Þessaloníkubréf 2:2; Postulasagan 1:6) En slíkar væntingar lærisveina Jesú voru ekki rangar heldur bara ótímabærar. Dagur Jehóva átti eftir að koma!
Orð Guðs er áreiðanlegt
12. Hvernig hafa spádómar orðs Guðs um ‚dag Jehóva‘ reynst áreiðanlegir?
12 Eins og áður er nefnt vöruðu spámenn fyrir daga kristninnar oft við því að hefndardagur Jehóva væri nálægur. ‚Dagur Jehóva‘ kom í smækkaðri mynd árið 607 f.o.t. þegar hann fullnægði hefndardómi á þrjóskri þjóð sinni. (Sefanía 1:14-18) Síðar kom slíkur ‚dagur Jehóva‘ yfir aðrar þjóðir, þeirra á meðal Babýloníumenn og Egypta. (Jesaja 13:6-9; Jeremía 46:1-10; Óbadía 15) Endalok gyðingakerfisins á fyrstu öld voru einnig sögð fyrir og þau áttu sér stað þegar rómverskur her eyddi Júdeu árið 70. (Lúkas 19:41-44; 1. Pétursbréf 4:7) En Pétur bendir á að ‚dagur Jehóva‘ í framtíðinni verði jafnvel margfalt stærri í sniðum en heimsflóðið!
13. Hvaða sannsöguleg dæmi sýna að þetta heimskerfi líður örugglega undir lok?
13 Í lýsingu sinni á þessari komandi eyðingu segir Pétur: „Fyrir hið sama orð.“ Hann var nýbúinn að segja að „fyrir orð Guðs“ hafi heimurinn fyrir flóðið verið „af vatni og upp úr vatni,“ það er að segja verið umluktur vatni. Þessi staða, sem sköpunarsaga Biblíunnar lýsir, gerði flóðið mögulegt þegar vötnin steyptust niður að boði Guðs eða fyrir orð hans. Pétur heldur áfram: „Þeir himnar, sem nú eru ásamt jörðinni, geymast eldinum fyrir hið sama orð [Guðs] og varðveitast til þess dags, er óguðlegir menn munu dæmdir verða og tortímast.“ (2. Pétursbréf 3:5-7; 1. Mósebók 1:6-8) Við höfum áreiðanlegt orð Jehóva fyrir því! Hann bindur enda á ‚himin og jörð‘ — þetta heimskerfi — í brennandi reiði síns mikla dags! (Sefanía 3:8) En hvenær?
Áköf eftirvænting eftir endinum
14. Af hverju getum við verið örugg um að við lifum núna á „síðustu dögum“?
14 Lærisveinar Jesú vildu vita hvenær endirinn kæmi svo að þeir spurðu hann: „Hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?“ Þeir voru greinilega að spyrja hvenær gyðingakerfið liði undir lok, en svar Jesú fjallar fyrst og fremst um það hvenær núverandi ‚himinn og jörð‘ farist. Jesús spáði til dæmis miklum styrjöldum, hallærum, jarðskjálftum, sjúkdómum og glæpum. (Matteus 24:3-14; Lúkas 21:5-36) Frá 1914 höfum við séð uppfyllast tákn „endaloka veraldar“ eða heimskerfisins, sem Jesús spáði, og einnig það sem Páll postuli sagði myndu einkenna ‚síðustu daga.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Vissulega eru yfirþyrmandi rök fyrir því að við lifum á endalokatíma þessa heimskerfis.
15. Hvað hefur kristnum mönnum hætt til að gera þrátt fyrir varnaðarorð Jesú?
15 Vottum Jehóva hefur verið mikið í mun að vita hvenær dagur Jehóva komi. Í ákefð sinni hafa þeir stundum reynt að giska á hvenær það yrði. En þá hafa þeir ekki sinnt varnaðarorðum meistara síns, frekar en lærisveinar hans á fyrstu öld, um að ‚þann dag eða stund viti enginn.‘ (Markús 13:32, 33) Spottarar hafa gert gys að trúföstum kristnum mönnum fyrir ótímabærar væntingar þeirra. (2. Pétursbréf 3:3, 4) En dagur Jehóva mun koma eftir stundaskrá hans eins og Pétur staðfestir.
Við þurfum að hafa sjónarmið Jehóva
16. Hvaða áminningu er viturlegt að taka til okkar?
16 Við þurfum að hafa sjónarmið Jehóva til tímans eins og Pétur minnir okkur á: „En þetta eitt má yður ekki gleymast, þér elskuðu, að einn dagur er hjá [Jehóva] sem þúsund ár og þúsund ár sem einn dagur.“ Mannsævin, sem er bara 70 eða 80 ár, er ósköp stutt í samanburði við þetta. (2. Pétursbréf 3:8; Sálmur 90:4, 10) Ef uppfyllingu fyrirheita Guðs virðist seinka þurfum við að taka til okkar áminningu spámanns hans: „Þótt hún [vitrunin sem hefur sinn ákveðna tíma] dragist, þá vænt hennar, því að hún mun vissulega fram koma og ekki undan líða.“ — Habakkuk 2:3.
17. Hverju megum við treysta enda þótt hinir síðustu dagar hafi orðið lengri en margir bjuggust við?
17 Af hverju hafa hinir síðustu dagar þessa heimskerfis dregist meira á langinn en margir bjuggust við? Það er fullgild ástæða fyrir því eins og Pétur útskýrir: „Ekki er [Jehóva] seinn á sér með fyrirheitið, þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við yður, þar eð hann vill ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar.“ (2. Pétursbréf 3:9) Jehóva hugsar um hvað þjóni best hagsmunum alls mannkyns. Honum er annt um líf fólks eins og hann segir: „Ég [hef] ekki þóknun á dauða hins óguðlega, heldur að hinn óguðlegi hverfi frá breytni sinni og haldi lífi.“ (Esekíel 33:11) Við getum því treyst að endirinn komi á nákvæmlega réttum tíma til að tilgangur okkar alvitra, elskuríka skapara nái fram að ganga.
Hvað líður undir lok?
18, 19. (a) Af hverju er Jehóva staðráðinn í að eyða þessu heimskerfi? (b) Hvernig lýsir Pétur endalokum þessa heimskerfis og hverju verður eytt?
18 Þar eð Jehóva elskar þá sem þjóna honum afmáir hann alla sem valda þeim þjáningum. (Sálmur 37:9-11, 29) Pétur bendir á, eins og Páll gerði áður, að þessi eyðing komi óvænt: „Dagur [Jehóva] mun koma sem þjófur, og þá munu himnarnir með miklum gný líða undir lok, frumefnin sundurleysast í brennandi hita og jörðin og þau verk, sem á henni eru, upp brenna.“ (2. Pétursbréf 3:10; 1. Þessaloníkubréf 5:2) Bókstaflegur himinn og jörð fórust ekki í flóðinu og svo verður ekki heldur á degi Jehóva. Hvað ‚líður þá undir lok‘ eða ferst?
19 Stjórnir manna, sem hafa ríkt yfir mannkyninu eins og ‚himnar,‘ líða undir lok og eins „jörðin“ eða óguðlegt samfélag manna. ‚Gnýrinn mikli‘ gefur kannski til kynna hve snögglega himnarnir líða undir lok. „Frumefnin,“ sem mynda hið spillta mannfélag, „sundurleysast“ eða eyðast. Og „jörðin“ ásamt ‚þeim verkum, sem á henni eru, brennur upp.‘ Jehóva afhjúpar rækilega hin vondu verk mannanna þegar hann bindur verðskuldaðan enda á allt heimskerfið.
Hafðu vonina í brennidepli
20. Hvaða áhrif ætti vitneskjan um atburði framtíðarinnar að hafa á líf okkar?
20 Þar eð þessir stórbrotnu atburðir eru í vændum segir Pétur að við ættum að ‚ganga fram í heilagri breytni og guðrækni meðan við væntum og höfum stöðugt í huga návist dags Jehóva.‘ Það leikur enginn vafi á því að „himnarnir [munu] leysast sundur í eldi og frumefnin bráðna af brennandi hita.“ (2. Pétursbréf 3:11, 12, NW) Sú staðreynd að þessir stórviðburðir gætu hafist á morgun ætti að hafa áhrif á allt sem við gerum eða ætlum okkur að gera.
21. Hvað kemur í stað núverandi himna og jarðar?
21 Pétur segir okkur nú hvað komi í stað hins gamla heimskerfis: „En eftir fyrirheiti hans væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr.“ (2. Pétursbréf 3:13; Jesaja 65:17) Hvílíkur léttir! Kristur og 144.000 meðstjórnendur hans munu mynda ‚nýjan himin‘ eða stjórn, og fólkið, sem lifir af endalok þessa heims, myndar ‚nýja jörð.‘ — 1. Jóhannesarbréf 2:17; Opinberunarbókin 5:9, 10; 14:1, 3.
Vertu ákafur og siðferðilega hreinn
22. (a) Hvað hjálpar okkur að forðast sérhvern andlegan blett eða lýti? (b) Við hvaða hættu varar Pétur?
22 „Með því að þér nú, þér elskuðu, væntið slíkra hluta,“ segir Pétur, „þá kappkostið að vera flekklausir og lýtalausir frammi fyrir honum í friði. Álítið langlyndi Drottins vors vera hjálpræði.“ Áköf eftirvænting og það viðhorf að sérhver töf, sem virðist verða á degi Jehóva, sé merki um þolinmæði hans, hjálpar okkur að forðast sérhvern andlegan blett eða lýti. En hætta er á ferðum! Pétur varar við því að sumt, sem „hinn elskaði bróðir vor, Páll,“ hafi ritað, sé „þungskilið, er fáfróðir og staðfestulausir menn rangsnúa, eins og öðrum ritum [Ritningarinnar], sjálfum sér til tortímingar.“ — 2. Pétursbréf 3:14-16.
23. Hver er lokahvatning Péturs?
23 Falskennarar rangsneru greinilega ritum Páls um náð Guðs og óverðskuldaða góðvild og notuðu þau sem afsökun fyrir taumleysi eða lausung. Kannski hafði Pétur það í huga þegar hann hvatti að lokum: „Með því að þér vitið þetta fyrirfram, þér elskaðir, þá hafið gát á yður, að þér látið eigi dragast með af villu þverbrotinna manna og fallið frá staðfestu yðar.“ Pétur lýkur bréfinu með hvatningunni: „Vaxið í náð og þekkingu Drottins vors og frelsara Jesú Krists.“ — 2. Pétursbréf 3:17, 18.
24. Hvaða viðhorf ættu allir þjónar Jehóva að hafa?
24 Ljóst er að Pétur vill styrkja bræður sína. Hann vill að allir hafi sama viðhorf og hinn trúfasti, 82 ára vottur sem vitnað var til í upphafi: „Ég [hef] lifað lífinu eins og postulinn [Pétur] hvatti til og ‚haft návist dags Jehóva stöðugt í huga.‘ Ég hef alltaf litið á hinn fyrirheitna, nýja heim sem ‚veruleika er ekki var auðið að sjá.‘“ Megum við lifa á sama hátt.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvað merkir það að ‚hafa dag Jehóva stöðugt í huga‘?
◻ Hvað hunsa spottarar vísvitandi og hvers vegna?
◻ Af hvaða ástæðu hafa spottarar
hæðst að trúföstum kristnum mönnum?
◻ Hvaða viðhorf þurfum við að hafa?
[Mynd á blaðsíðu 31]
Hafðu dag Jehóva stöðugt í huga . . .
[Mynd á blaðsíðu 32]
. . . og nýja heiminn sem á eftir kemur.