Sýndu biðlund
„Ég vil . . . bíða eftir Guði hjálpræðis míns! Guð minn mun heyra mig!“ — MÍKA 7:7.
1, 2. (a) Hvernig varð rangt hugarfar Ísraelsmanna í eyðimörkinni þeim til tjóns? (b) Hvernig gæti farið fyrir kristnum manni sem tileinkar sér ekki rétt hugarfar?
ÞAÐ er margt í lífinu sem við getum séð annaðhvort jákvætt eða neikvætt, allt eftir hugarfari okkar. Jehóva vann það kraftaverk að gefa Ísraelsmönnum manna í eyðimörkinni. Þeir hefðu átt að virða fyrir sér hrjóstrugt umhverfið og vera innilega þakklátir fyrir að hann skyldi sjá þeim fyrir fæðu. Það hefði borið vott um jákvætt hugarfar. En þeir hugsuðu um hið fjölbreytta fæði í Egyptalandi og kvörtuðu undan því að mannað væri ekki nógu lystugt. Það hlýtur að kallast neikvætt hugarfar. — 4. Mósebók 11:4-6.
2 Kristnir menn geta líka haft annaðhvort jákvætt eða neikvætt hugarfar. Ef hugarfarið er ekki rétt er auðvelt að missa gleðina og það væri alvarlegt mál því að Nehemía sagði að ‚gleði Jehóva væri hlífiskjöldur okkar.‘ (Nehemíabók 8:10) Gleði og jákvæðni gerir okkur sterk og stuðlar að friði og einingu í söfnuðinum. — Rómverjabréfið 15:13; Filippíbréfið 1:25.
3. Hvernig varð rétt hugarfar Jeremía til góðs á erfiðleikatímum?
3 Jeremía var jákvæður þótt hann lifði erfiða tíma. Hann sá ýmislegt jákvætt þó að hann yrði að horfa upp á hryllinginn samfara eyðingu Jerúsalem árið 607 f.o.t. Jehóva myndi ekki gleyma Ísrael og þjóðin myndi lifa áfram. Jeremía sagði í Harmljóðunum: „Náð [Jehóva] er ekki þrotin, miskunn hans ekki á enda, hún er ný á hverjum morgni, mikil er trúfesti þín!“ (Harmljóðin 3:22, 23) Þjónar Guðs hafa á öllum tímum og við erfiðustu aðstæður gert sér far um að vera jákvæðir og jafnvel glaðir. — 2. Korintubréf 7:4; 1. Þessaloníkubréf 1:6; Jakobsbréfið 1:2.
4. Hvaða hugarfar sýndi Jesús og hvernig hjálpaði það honum?
4 Jesús var uppi sex hundruð árum eftir daga Jeremía, og hann var þolgóður vegna þess að hann var jákvæður. Við lesum: „Vegna gleði þeirrar, er beið hans, leið hann þolinmóðlega á krossi, mat smán einskis og hefur nú setst til hægri handar hásæti Guðs.“ (Hebreabréfið 12:2) Í allri andstöðunni sem Jesús mátti þola — jafnvel kvölinni á aftökustaurnum — var hann með hugann við ‚gleðina er beið hans.‘ Þetta var sú gleði og þau sérréttindi að mega upphefja drottinvald Jehóva og helga nafn hans, auk vonarinnar um að færa hlýðnu mannkyni mikla blessun í framtíðinni.
Temdu þér biðlund
5. Nefndu dæmi um það hvernig biðlund getur hjálpað okkur að sjá hlutina í réttu ljósi.
5 Ef við tileinkum okkur sams konar hugarfar og Jesús glötum við ekki gleði Jehóva þó svo að hlutirnir fari ekki alltaf eins og við væntum. „Ég vil mæna til [Jehóva], bíða eftir Guði hjálpræðis míns!“ sagði spámaðurinn Míka. (Míka 7:7; Harmljóðin 3:21, NW) Við getum líka sýnt biðlund á marga vegu. Kannski finnst okkur að bróðir í áhrifastöðu hafi farið rangt að og að það þurfi að leiðrétta það tafarlaust. Ef við sýnum biðlund spyrjum við okkur hvort hann hafi raunverulega farið rangt að eða hvort okkur skjátlist. Hafi hann farið rangt að, getur þá hugsast að Jehóva láti málin hafa sinn gang af því að hann telur að þessi bróðir eigi eftir að bæta sig og að það þurfi ekki að grípa til róttækra aðgerða og leiðrétta hann?
6. Hvernig getur biðlund hjálpað manni sem á við persónulegt vandamál að stríða?
6 Við getum þurft að sýna biðlund ef við eigum við persónulegt vandamál að stríða eða erum að berjast við veikleika. Segjum að við biðjum Jehóva um hjálp en vandamálið leysist ekki. Hvað þá? Við þurfum þá að gera allt sem við getum til að leysa vandann og treysta síðan orðum Jesú: „Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða.“ (Lúkas 11:9) Haltu áfram að biðja og bíddu eftir Jehóva. Hann svarar bænum þínum þegar það er tímabært og á sinn hátt. — 1. Þessaloníkubréf 5:17.
7. Hvernig lítum við á vaxandi biblíuskilning ef við höfum biðlund?
7 Biblíuskilningur okkar skýrist eftir því sem spádómarnir rætast. En okkur getur fundist að það sé löngu orðið tímabært að skýra ákveðið mál. Erum við tilbúin til að bíða ef skýringin kemur ekki þegar við viljum fá hana? Munum að Jehóva kaus að opinbera „leyndardóm Krists“ smám saman á 4000 ára tímabili. (Efesusbréfið 3:3-6) Höfum við þá ástæðu til að vera óþolinmóð? Efumst við um að ‚trúr og hygginn þjónn‘ hafi verið settur yfir hjúin til að gefa þeim „mat á réttum tíma“? (Matteus 24:45) Af hverju að neita okkur um gleði Guðs þó að við skiljum ekki allt til hlítar? Munum að Jehóva ákveður hvenær og hvernig hann opinberar „ráðsályktun sína.“ — Amos 3:7.
8. Hvernig hefur langlyndi Jehóva verið mörgum til góðs?
8 Sumir verða niðurdregnir eftir áralanga trúfasta þjónustu af því að þeir halda að þeir lifi það ekki að sjá ‚hinn mikla og ógurlega dag Jehóva.‘ (Jóel 3:3, 4) En þeir geta litið málið jákvæðum augum og hert upp hugann. Pétur ráðlagði okkur að ‚álíta langlyndi Drottins vors vera hjálpræði.‘ (2. Pétursbréf 3:15) Langlyndi Jehóva hefur gefið milljónum hjartahreinna manna til viðbótar tækifæri til að kynnast sannleikanum. Er það ekki ánægjulegt? Og því lengur sem Jehóva sýnir þolinmæði, þeim mun lengur getum við ‚unnið að sáluhjálp okkar með ugg og ótta.‘ — Filippíbréfið 2:12; 2. Pétursbréf 3:11, 12.
9. Hvernig getur biðlund hjálpað okkur að þrauka ef það er takmarkað sem við getum gert í þjónustu Jehóva?
9 Biðlund hjálpar okkur að missa ekki kjarkinn þegar andstaða, veikindi, elli eða aðrir erfiðleikar tálma okkur í þjónustunni við Guðsríki. Jehóva ætlast til þess að við þjónum sér af öllu hjarta. (Rómverjabréfið 12:1) En hvorki hann né sonur hans, sem „aumkast yfir bágstadda og snauða,“ ætlast til meira af okkur en við getum gefið með góðu móti. (Sálmur 72:13) Við erum því hvött til að gera eins og við getum og bíða þolinmóð uns aðstæður breytast — annaðhvort í þessu heimskerfi eða í nýja heiminum. Munum að Guð er ekki ranglátur. „Hann gleymir ekki verki yðar og kærleikanum, sem þér auðsýnduð nafni hans, er þér veittuð hinum heilögu þjónustu og veitið enn.“ — Hebreabréfið 6:10.
10. Hvaða eiginleika getum við forðast ef við sýnum biðlund? Skýrðu svarið.
10 Biðlund forðar okkur frá hroka. Sumir hafa afneitað trúnni af því að þeir vildu ekki bíða. Þeim fannst þörf á einhverri breytingu, annaðhvort á biblíuskilningi eða í skipulagsmálum. En þeir sætta sig ekki við það að heilagur andi skuli fá hinn trúa og hyggna þjón til að gera breytingar þegar Jehóva telur það tímabært en ekki þegar okkur finnst þess þurfa. Og allar breytingar verða að vera í samræmi við vilja Jehóva en ekki persónulegar hugmyndir okkar. Hroki brenglar hugsun fráhvarfsmanna svo að þeir fara út á villigötur. Ef þeir hefðu tileinkað sér hugarfar Krists hefðu þeir varðveitt gleðina og haldið sig meðal fólks Jehóva. — Filippíbréfið 2:5-8.
11. Hvernig getum við notað biðtímann og hvaða fordæmi höfum við fyrir því?
11 Biðlund er ekki það sama og leti eða aðgerðarleysi. Við höfum margt að gera. Við þurfum til dæmis að vera duglegir biblíunemendur og sýna sama áhuga og spámennirnir og englarnir á andlegum málum. Pétur segir um þennan áhuga: „Þessa frelsun könnuðu spámennirnir og rannsökuðu vandlega . . . Inn í þetta fýsir jafnvel englana að skyggnast.“ (1. Pétursbréf 1:10-12) Regluleg samkomusókn og bænagerð er ekki síður mikilvæg en einkanám. (Jakobsbréfið 4:8) Þeir sem eru vakandi fyrir andlegum þörfum sínum sýna að þeir hafa tileinkað sér hugarfar Krists með því að nærast andlega og safnast reglulega saman ásamt trúbræðrum sínum. — Matteus 5:3.
Vertu raunsær
12. (a) Hverju vildu Adam og Eva vera óháð? (b) Hvað hlaust af því að mannkynið fylgdi fordæmi Adams og Evu?
12 Þegar Guð skapaði fyrstu mannhjónin áskildi hann sér rétt til að setja ákvæði um rétt og rangt. (1. Mósebók 2:16, 17) Adam og Eva vildu vera óháð handleiðslu Guðs og þess vegna er heimurinn eins og hann er. Páll postuli sagði að ‚syndin hafi komið inn í heiminn fyrir einn mann og dauðinn fyrir syndina, og þannig sé dauðinn runninn til allra manna af því að allir hafi syndgað.‘ (Rómverjabréfið 5:12) Sex þúsund ára saga mannsins frá dögum Adams hefur staðfest sannleiksgildi þess sem Jeremía sagði: „Ég veit, [Jehóva], að örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ (Jeremía 10:23) Það er engin uppgjöf heldur raunsæi að fallast á orð hans. Þau skýra hina aldalöngu ógæfu samfara drottnun manna hver yfir öðrum, af því að mennirnir hafa stjórnað óháðir Guði. — Prédikarinn 8:9.
13. Hvernig eru vottar Jehóva raunsæir í afstöðu til þess sem menn geta áorkað?
13 Vottar Jehóva vita hvernig komið er fyrir mannkyninu og gera sér ljóst að það er takmarkað sem hægt er að áorka í núverandi heimskerfi. Jákvætt hugarfar getur hjálpað okkur að halda gleðinni en það leysir ekki öll vandamál. Snemma á sjötta áratugnum gaf bandarískur prestur úr metsölubókina The Power of Positive Thinking (Afl jákvæðrar hugsunar). Í bókinni var því slegið fram að hægt væri að yfirstíga flestar hindranir með því að nálgast þær með jákvæðu hugarfari. Jákvætt hugarfar er að sjálfsögðu lofsvert. En reynslan sýnir að færni, þekking, fjárhagur og ótalmargt annað setur fólki skorður. Og á heimsmælikvarða eru vandamálin hreinlega ofviða mönnum — hversu jákvæðir sem þeir eru.
14. Eru vottar Jehóva neikvæðir? Skýrðu svarið.
14 Vottar Jehóva eru stundum sakaðir um neikvæðni af því að þeir eru raunsæir hvað þetta varðar. En þeir eru ekki neikvæðir heldur áhugasamir um að segja fólki frá honum sem einn getur bætt hlutskipti mannkyns til frambúðar. Þar líkja þeir eftir hugarfari Krists. (Rómverjabréfið 15:2) Og þeir eru önnum kafnir við að hjálpa fólki að eignast gott samband við Guð. Þeir vita að það áorkar mestu til langs tíma litið. — Matteus 28:19, 20; 1. Tímóteusarbréf 4:16.
15. Hvernig er starf votta Jehóva mannbætandi?
15 Vottar Jehóva loka ekki augunum fyrir þjóðfélagsvandamálum umheimsins — sérstaklega óbiblíulegu háttalagi. Áhugasamt fólk breytir sér áður en það gerist vottar Jehóva, og sumir þurfa að sigrast á ávanalöstum sem Guð hefur vanþóknun á. (1. Korintubréf 6:9-11) Vottar Jehóva hafa hjálpað fólki að sigrast á ofdrykkju, fíkniefnaneyslu, siðleysi og spilafíkn. Þetta fólk hefur síðan lært að sjá fjölskyldunni farborða á ábyrgan og heiðarlegan hátt. (1. Tímóteusarbréf 5:8) Það dregur úr þjóðfélagsvandamálum þegar einstaklingar og fjölskyldur fá þess konar hjálp — fíkniefnaneytendum fækkar, heimilisofbeldi minnkar og svo framvegis. Vottar Jehóva draga úr álaginu á samtök og stofnanir, sem hafa þjóðfélagsvandamál á sinni könnu, með því að vera sjálfir löghlýðnir borgarar og hjálpa öðrum að breyta sér til hins betra.
16. Af hverju taka vottar Jehóva ekki þátt í umbótahreyfingum?
16 Hafa vottar Jehóva þá breytt siðferðisástandi heimsins? Á síðastliðnum tíu árum fjölgaði virkum vottum úr tæplega 3,8 milljónum í nærri 6 milljónir. Fjölgunin nemur næstum 2,2 milljónum manna og margir þeirra hættu ýmiss konar ranglætisverkum þegar þeir gerðust kristnir. Fjöldi fólks hefur bætt líf sitt. En auðvitað er þetta lág tala í samanburði við mannfjölgunina í heiminum á sama tíma, sem var 875 milljónir. Vottar Jehóva hafa notið þess mjög að hjálpa fólki, þó svo að þeir viti að tiltölulega fáir rati inn á veginn til lífsins. (Matteus 7:13, 14) Þeir bíða þeirra heimsbóta sem Guð einn getur komið til leiðar, en forðast þátttöku í umbótahreyfingum sem fara oft af stað með góðan ásetning í farteskinu en enda með vonbrigðum og jafnvel ofbeldi. — 2. Pétursbréf 3:13.
17. Hvernig hjálpaði Jesús samferðafólki sínu en hvað gerði hann ekki?
17 Með þessari stefnu sýna vottar Jehóva sams konar traust á Jehóva og Jesús gerði hér á jörð. Jesús vann lækningakraftaverk á fyrstu öldinni. (Lúkas 6:17-19) Hann reisti fólk jafnvel upp frá dauðum. (Lúkas 7:11-15; 8:49-56) En hann upprætti hvorki sjúkdóma né sigraði óvininn dauðann fyrir fullt og allt. Hann vissi að tími Guðs til þess var ekki kominn. Hann hefði sennilega getað farið langleiðina með að leysa alvarleg stjórnmála- og þjóðfélagsvandamál sökum þess að hann var fullkominn og mjög hæfileikaríkur. Það virðist vera að sumir af samtíðarmönnum hans hafi viljað að hann tæki völd og gerði þetta en hann vildi það ekki. Við lesum: „Þegar menn sáu táknið, sem hann gjörði, sögðu þeir: ‚Þessi maður er sannarlega spámaðurinn, sem koma skal í heiminn.‘ Jesús vissi nú, að þeir mundu koma og taka hann með valdi til að gjöra hann að konungi, og vék því aftur upp til fjallsins einn síns liðs.“ — Jóhannes 6:14, 15.
18. (a) Hvernig hefur Jesús alltaf sýnt biðlund? (b) Hvernig breyttist starf Jesú árið 1914?
18 Jesús vildi ekki blanda sér í stjórnmál eða líknar- og velferðarmál, því að hann vissi að það var enn ekki kominn tími til að hann tæki konungsvald og læknaði alla alls staðar. Eftir að hann steig upp til himna sem ódauðlegur andi var hann jafnvel fús til að bíða með að láta til sín taka uns tilsettur tími Jehóva rynni upp. (Sálmur 110:1; Postulasagan 2:34, 35) En síðan hann var settur í hásæti sem konungur Guðsríkis árið 1914 hefur hann gengið fram „sigrandi og til þess að sigra.“ (Opinberunarbókin 6:2; 12:10) Við getum verið þakklát fyrir að mega lúta konungdómi hans því að aðrir, sem kalla sig kristna, vilja lítið vita um kenningar Biblíunnar um Guðsríki.
Að bíða — til vonbrigða eða gleði?
19. Hvenær verður „hjartað sjúkt“ af því að bíða og hvenær er biðin gleðileg?
19 Salómon vissi að ýmis vonbrigði geta fylgt því að bíða. „Langdregin eftirvænting gjörir hjartað sjúkt,“ skrifaði hann. (Orðskviðirnir 13:12) Tilefnislaus eftirvænting getur vissulega gert hjartað sjúkt af vonbrigðum. En ef við bíðum ánægjulegra atburða, svo sem brúðkaups, barnsfæðingar eða endurfunda við ástvini, getur það fyllt okkur eftirvæntingu og gleði löngu áður en stundin rennur upp. Það eykur gleðina ef við notum biðtímann viturlega og búum okkur undir það sem í vændum er.
20. (a) Hvaða stórviðburði erum við viss um að sjá? (b) Hvernig getum við notið þess að sjá tilgang Jehóva rætast?
20 Biðin ‚gerir ekki hjartað sjúkt‘ ef við treystum algerlega að vonin rætist — jafnvel þótt við vitum ekki hvenær. Trúir guðsdýrkendur vita að þúsundáraríki Krists er rétt framundan. Þeir treysta því að þeir sjái sjúkdóma og dauða taka enda. Þeir bíða þess með ákafri eftirvæntingu að taka á móti milljörðum látinna manna upprisnum, þeirra á meðal látnum ástvinum. (Opinberunarbókin 20:1-3, 6; 21:3, 4) Þeir njóta þess á krepputímum í umhverfismálum að bera í brjósti örugga von um að sjá endurreista paradís á jörð. (Jesaja 35:1, 2, 7) Við ættum því að nota biðtímann skynsamlega og vera ‚síauðug í verki Drottins.‘ (1. Korintubréf 15:58) Höldum áfram að neyta andlegrar fæðu. Treystum sambandið við Jehóva. Leitum að öðrum sem þrá að þjóna honum. Hvetjum og uppörvum trúbræður okkar. Notum sem best þann tíma sem Jehóva leyfir þessu heimskerfi að standa. Þá verðum við aldrei ‚sjúk í hjarta‘ af því að bíða Jehóva heldur glöð og fagnandi!
Geturðu svarað?
• Hvernig sýndi Jesús biðlund?
• Undir hvaða kringumstæðum þurfa kristnir menn að sýna biðlund?
• Af hverju eru vottar Jehóva sáttir við að bíða hans?
• Hvernig getum við glaðst og fagnað meðan við bíðum Jehóva?
[Mynd á blaðsíðu 24]
Jesús var þolgóður vegna gleðinnar sem beið hans.
[Mynd á blaðsíðu 25]
Við getum varðveitt gleðina jafnvel eftir áralanga þjónustu.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Milljónir manna hafa bætt líf sitt með því að gerast vottar Jehóva.