Bíddu þolinmóður
FJÁRHIRÐIRINN, sem var alltaf að hrópa „úlfur! úlfur!“ þegar enginn var úlfurinn, komst að raun um að menn hættu að taka mark á honum. Eins er það núna að margir skeyta ekki um hve nálægur dagur Jehóva er af því að þeir hafa heyrt ótal viðvaranir sem reynst hafa rangar. Hinn falski ‚ljósengill‘ Satan, erkióvinur Guðs, notfærir sér einmitt þá staðreynd að mjög margir bera ekki skyn á hvaða viðvörun er sönn og taka þar af leiðandi ekki mark á henni. — 2. Korintubréf 11:14.
Sinnuleysi er hættulegt jafnvel þeim sem hafa þjónað Jehóva um hríð. Af hverju? Lítum á viðvörun Péturs postula á fyrstu öld.
Hugsaðu skýrt
Annað innblásið bréf Péturs var áminning til frumkristinna manna, og það er líka áminning til okkar. „Þetta er nú annað bréfið, sem ég skrifa yður, þér elskaðir,“ segir Pétur, „og í þeim báðum hef ég reynt að halda hinu hreina hugarfari vakandi hjá yður.“ (2. Pétursbréf 3:1) Hvaða ástæðu hafði Pétur til að vera áhyggjufullur? Hann leggur áherslu á að spottarar verði á sjónarsviðinu og að spott þeirra geti dregið úr þeirri tilfinningu þjóna Guðs, sem þeir þurfa að hafa, að mikið liggi á. Núna er áríðandi að láta ekki spottara hafa sig að ginningarfífli. Pétur hvetur lesendur sína til að „rifja upp . . . þau orð, sem hinir heilögu spámenn hafa áður talað.“ (2. Pétursbréf 3:2; Postulasagan 3:22, 23) Hvað sögðu spámennirnir?
Trúfastir þjónar Guðs höfðu margsinnis vakið athygli á hvernig dómar hans bundu enda á illsku. Pétur minnir lesendur sína á hvernig Guð tók í taumana með Nóaflóðinu þegar jörðin var orðin full af illsku. Þetta stórflóð batt í raun enda á þann heim sem þá var. En Guð varðveitti Nóa og fjölskyldu hans í örkinni ásamt lifandi dýrum „af öllu holdi.“ Flóðsagnir um heim allan bera því vitni að frásaga Biblíunnar af flóðinu sé sannsöguleg.a — 1. Mósebók 6:19; 2. Pétursbréf 3:5, 6.
Pétur segir að sumir ‚gleymi viljandi‘ að Guð hafi skorist í leikinn á þennan hátt. Aðrir leyfðu síðan spotturum samtíðarinnar að gera sig sinnulausa. En við megum aldrei missa sjónar á því sem Jehóva hefur gert nú þegar. Pétur segir okkur: „Þeir himnar, sem nú eru ásamt jörðinni, geymast eldinum fyrir hið sama orð og varðveitast til þess dags, er óguðlegir menn munu dæmdir verða og tortímast.“ (2. Pétursbréf 3:7) Guð á eftir að skerast í leikinn enn á ný.
Guð er ekki seinn á sér
Árþúsundir eru liðnar. Af hverju hefur Guð beðið svona lengi með að leysa vandamál mannkynsins? Pétur beinir athyglinni að annarri staðreynd. Hann segir: „Þetta eitt má yður ekki gleymast, þér elskuðu, að einn dagur er hjá [Jehóva] sem þúsund ár og þúsund ár sem einn dagur.“ (2. Pétursbréf 3:8) Jehóva sér tímann öðrum augum en við. Í augum hins eilífa Guðs jafnast tíminn frá sköpun Adams þar til nú ekki einu sinni á við viku. En hvernig svo sem við metum tímann færir hver árþúsund og hver dagur, sem líður, okkur nær því að tilgangur Jehóva nái fram að ganga.
„Sýður seint í potti sem á er horft,“ segir máltækið. Tíminn virðist líða hægar en ella þegar við bíðum einhvers og aðhöfumst ekkert. En Pétur hvetur okkur til að ‚vænta og hafa stöðugt í huga návist dags Jehóva.‘ (2. Pétursbréf 3:12, NW) Hvernig getum við ræktað með okkur það hugarfar sem gerir okkur vökul gagnvart yfirvofandi íhlutun Guðs?
Verkin segja meira en orðin
Pétur beinir athyglinni að verkum og breytni. Hann talar bæði um ‚heilaga breytni‘ og ‚guðræknisverk.‘ (2. Pétursbréf 3:11, NW) Í hverju eru þau fólgin?
Sannur þjónn Guðs hegðar sér þannig að hann þóknist honum. Trú slíks manns endurspeglast í verkum hans. Það skilur milli hans og þess sem einungis segist trúa á Guð og fyrirheit hans. Kannski hefurðu veitt því athygli að vottar Jehóva skera sig úr fjöldanum vegna boðunarstarfs síns meðal almennings. Þeir banka upp á hjá þér til að vekja athygli á fyrirheitum Guðs sem er að finna í Biblíunni. En þeir bera líka vitni um von sína og trú hvar sem þeir hitta fólk.
Sá vottur Jehóva styrkir trú sína sem er önnum kafinn við að boða hana öðrum. Trúin eflist við það að tala um hana og það veitir jafnframt innri gleði og ánægju. Þegar við kunngerum fagnaðarerindið um ríki Guðs erum við líka að þóknast honum. Við vitum að hann er ekki ‚ranglátur og gleymir ekki verki okkar og kærleikanum sem við auðsýnum nafni hans,‘ eins og Páll, sampostuli Péturs, bendir á. — Hebreabréfið 6:10; Rómverjabréfið 10:9, 10.
Hvaða árangri skilar þessi ötula boðun fagnaðarerindisins um ríkið núna á síðustu dögum þessa illa heimskerfis? Hundruð þúsunda hjartahreinna manna eru að læra hvernig þeir geti eignast náið samband við Jehóva, notið góðs af óverðskuldaðri góðvild hans og öðlast sanna hamingju í voninni um eilíft líf í paradís á jörð.
Að vita fyrirfram
Enda þótt Biblían upplýsi okkur um að Jehóva Guð skerist í leikinn í fyllingu tímans þurfum við að taka til okkar aðra viðvörun Péturs postula. „Með því að þér vitið þetta fyrirfram, þér elskaðir, þá hafið gát á yður, að þér látið eigi dragast með af villu þverbrotinna manna og fallið frá staðfestu yðar.“ — 2. Pétursbréf 3:17.
Jehóva vissi örugglega fyrirfram að trú sumra yrði veik og að þeir gætu misst kjarkinn þegar íhlutun hans virtist dragast á langinn. Hann vissi líka að áhrif óguðlegra manna gætu spillt sönnum þjónum hans eða að minnsta kosti grafið undan trú þeirra á að helgun nafns hans væri í nánd. Það væri sorglegt að falla frá staðfestu sinni á allra síðustu dögum þessa heimskerfis!
Nú er ekki rétti tíminn til að vera með efasemdir eða vera óviss um hvað Jehóva ætli að gera. (Hebreabréfið 12:1) Nú er rétti tíminn til að gera sér fulla grein fyrir því sem þolinmæði Jehóva hefur haft í för með sér — von um hjálpræði milljóna manna sem verða hluti mikils múgs af öllum þjóðum er á í vændum að lifa af þrenginguna miklu. (Opinberunarbókin 7:9, 14) Pétur hvetur: „Vaxið í náð og þekkingu Drottins vors og frelsara Jesú Krists. Honum sé dýrðin nú og til eilífðardags.“ — 2. Pétursbréf 3:18.
„Varðveitið sjálfa yður í kærleika Guðs“
Það er vernd fyrir okkur að vera önnum kafin við að prédika og sækja reglulega kristnar samkomur til tilbeiðslu og náms í orði Guðs. Þá höfum við engan tíma til að gera okkur óþarfar áhyggjur af versnandi ástandi hins illa heimskerfis. Líf sannkristinna manna þarf ekki að vera fullt af ótta og áhyggjum. (1. Korintubréf 15:58) Því önnum kafnari sem við erum að þjóna Jehóva, þeim mun hraðar líður tíminn.
Júdas, sem var samtíða Pétri og hálfbróðir Jesú, hvetur okkur: „Þér, elskaðir, byggið yður sjálfa upp í yðar helgustu trú. Biðjið í heilögum anda. Varðveitið sjálfa yður í kærleika Guðs, og bíðið eftir náð Drottins vors Jesú Krists til eilífs lífs.“ (Júdasarbréfið 20, 21) Tökum eftir að þolgæði í bæninni stuðlar að mjög jákvæðu hugarfari. (1. Þessaloníkubréf 5:17) Júdas bætir síðan við: „Verið mildir við suma, þá sem eru efablandnir, suma skuluð þér frelsa, með því að hrífa þá út úr eldinum. Og suma skuluð þér vera mildir við með ótta, og hatið jafnvel kyrtilinn, sem flekkaður er af holdinu.“ (Júdasarbréfið 22, 23) Það er mjög áríðandi að styrkja hver annan á þessum erfiðu tímum. Og það er sannarlega mikilvægt að falla ekki í freistni og nota þennan langa ‚hjálpræðisdag‘ sem afsökun fyrir ‚taumleysi‘ sem er svo algengt í siðspilltum heimi nútímans. — Júdasarbréfið 4; 2. Korintubréf 6:1, 2.
Þú getur líka beðið þolinmóður eftir íhlutun Jehóva með því að taka til þín kærleiksrík ráð Péturs, Páls og Júdasar og verið upptekinn í þjónustu hans. En gerirðu það?
Hikaðu ekki við að setja þig í samband við votta Jehóva á staðnum til að fá hjálp til að styrkja trú þína á fyrirheit skaparans um eilíft líf. Kynntu þér hvaða kröfur þarf að uppfylla til að eiga þátt í að bera vitni um heim allan. Þessi vitnisburður verður aldrei endurtekinn og lýkur í þrengingunni miklu sem nálgast. (Markús 13:10) Þá áttu von um að lifa í nýjum réttlátum heimi sem Pétur lofar. (2. Pétursbréf 3:13) Taktu áminningar hans til þín. Bíddu þolinmóður. Vertu önnum kafinn.
[Neðanmáls]
a Sjá bókina Biblían — orð Guðs eða manna?, bls. 116, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Kynntu þér nú þegar fyrirheit Guðs um paradís.
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 5]
Úlfur: Animals/Jim Harter/Dover Publications, Inc.; ungur fjárhirðir: Children: A Pictorial Archive from Nineteenth-Century Sources/Grafton/Dover Publications, Inc.