Höldum fast í dýrmæta trú okkar!
„[Til þeirra] sem hlotið hafa hina sömu dýrmætu trú og vér.“ — 2. PÉTURSBRÉF 1:1.
1. Hvað sagði Jesús postulunum til viðvörunar en hvað sagði Pétur borginmannlega?
KVÖLDIÐ fyrir dauða sinn sagði Jesús að allir postularnir myndu yfirgefa hann. Einn þeirra, Pétur, sagði borginmannlega: „Þótt allir hneykslist á þér, skal ég aldrei hneykslast.“ (Matteus 26:33) En Jesús vissi betur. Þess vegna sagði hann Pétri við sama tækifæri: „Ég hef beðið fyrir þér, að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú bræður þína, þegar þú ert snúinn við.“ — Lúkas 22:32.
2. Hvað sýndi að trú Péturs var veik þrátt fyrir sjálfsöryggi hans?
2 Pétur, sem hafði verið svo öruggur um trú sína, afneitaði Jesú þessa sömu nótt. Þrívegis neitaði hann jafnvel að þekkja Krist! (Matteus 26:69-75) Þegar hann ‚sneri við‘ hljóta orð meistarans, „styrk þú bræður þína,“ að hafa ómað hátt og skýrt í eyrum hans. Þessi áminning hafði djúpstæð áhrif á líf Péturs það sem eftir var ævinnar eins og sjá má af tveim bréfum sem hann skrifaði og eru varðveitt í Biblíunni.
Hvers vegna Pétur skrifaði bréfin
3. Til hvers skrifaði Pétur fyrra bréf sitt?
3 Pétur skrifaði fyrra bréf sitt um 30 árum eftir dauða Jesú. Það er stílað á trúbræður hans í Pontus, Galatíu, Kappadókíu, Asíu og Biþýníu, á svæði sem nú tilheyrir norður- og vesturhluta Tyrklands. (1. Pétursbréf 1:1) Eflaust voru Gyðingar í hópi þeirra sem Pétur skrifaði og sumir þeirra kunna að hafa tekið kristna trú á hvítasunnunni árið 33. (Postulasagan 2:1, 7-9) Margir voru af þjóðunum og voru að ganga gegnum miklar prófraunir af hendi andstæðinganna. (1. Pétursbréf 1:6, 7; 2:12, 19, 20; 3:13-17; 4:12-14) Pétur skrifaði þessum bræðrum til að uppörva þá og hvetja. Markmið hans var að hjálpa þeim að „ná takmarki trúar [sinnar], frelsun sálna [sinna].“ Þess vegna hvatti hann þá í lokaorðum bréfsins: „Standið gegn [djöflinum] stöðugir í trúnni.“ — 1. Pétursbréf 1:9; 5:8-10.
4. Til hvers skrifaði Pétur annað bréf sitt?
4 Síðar skrifaði Pétur þessum kristnu mönnum annað bréf. (2. Pétursbréf 3:1) Af hverju? Af því að enn alvarlegri ógn steðjaði að. Siðlausir menn myndu reyna að stuðla að óhreinu hátterni meðal hinna trúuðu og afvegaleiða suma. (2. Pétursbréf 2:1-3) Og Pétur varaði við spotturum. Hann hafði skrifað í fyrra bréfi sínu að ‚endir allra hluta væri í nánd‘ og nú voru sumir greinilega farnir að gera gys að slíkri hugmynd. (1. Pétursbréf 4:7; 2. Pétursbréf 3:3, 4) Við skulum rannsaka síðara bréf Péturs og sjá hvernig það styrkti bræðurna til að vera staðfastir í trúnni. Í þessari grein skoðum við fyrsta kafla Síðara Pétursbréfs.
Tilgangur fyrsta kaflans
5. Hvernig býr Pétur áheyrendur sína undir það að fjalla um vandamál?
5 Pétur snýr sér ekki strax að hinum alvarlegu vandamálum heldur undirbýr jarðveginn með því að byggja upp þakklæti lesenda fyrir það sem þeir hlutu þegar þeir gerðust kristnir. Hann minnir þá á hin stórkostlegu fyrirheit Guðs og hve áreiðanlegir spádómar Biblíunnar séu. Hann gerir það með því að segja frá ummynduninni, sýninni sem hann sjálfur sá af Kristi í ríki sínu. — Matteus 17:1-8; 2. Pétursbréf 1:3, 4, 11, 16-21.
6, 7. (a) Hvað getum við lært af inngangsorðunum í bréfi Péturs? (b) Hvað gæti stundum verið gott að viðurkenna þegar við gefum ráðleggingar?
6 Getum við dregið lærdóm af inngangsorðum Péturs? Er ekki auðveldara fyrir fólk að taka við ráðleggingum ef við rifjum fyrst upp með því ýmsa þætti hinnar stórkostlegu vonar um Guðsríki sem er okkur sameiginleg? Og hvað um það að minnast á eigin reynslu? Líklega sagði Pétur oft frá sýninni um dýrð Krists í ríki sínu eftir að Kristur var dáinn. — Matteus 17:9.
7 Munum líka að Matteusarguðspjall og bréf Páls postula til Galata voru að öllum líkindum búin að fara víða þegar Pétur skrifaði síðara bréfið. Því má vera að samtíðarmönnum Péturs hafi verið vel kunnugt bæði um mannleg mistök hans og trú. (Matteus 16:21-23; Galatabréfið 2:11-14) En það dró ekki úr djörfung hans. Vera má að bréf hans hafi þess vegna höfðað enn sterkar til þeirra sem voru sér meðvita um eigin veikleika. Þegar við erum að hjálpa þeim sem eiga við vandamál að stríða gæti verið áhrifaríkt að viðurkenna að okkur hættir líka til að gera mistök. — Rómverjabréfið 3:23; Galatabréfið 6:1.
Styrkjandi kveðja
8. Í hvaða skilningi notaði Pétur líklega orðið „trú“?
8 Lítum nú á kveðju Péturs. Hann minnist strax á trúna og kallar lesendur sína þá „sem hlotið hafa hina sömu dýrmætu trú og vér.“ (2. Pétursbréf 1:1) Orðið „trú“ merkir hér líklega „sannfæring“ og á við kristna trú eða kenningar í heild sinni sem Ritningin kallar stundum „sannleikann.“ (Galatabréfið 5:7; 2. Pétursbréf 2:2; 2. Jóhannesarbréf 1) Orðið „trú“ er oft notað í þessari merkingu frekar en almennu merkingunni tiltrú eða traust til persónu eða hlutar. — Postulasagan 6:7; 2. Korintubréf 13:5; Galatabréfið 6:10; Efesusbréfið 4:5; Júdasarbréfið 3.
9. Hvers vegna hlýtur mönnum af heiðnum uppruna að hafa þótt kveðja Péturs sérlega hlýleg?
9 Þeim lesendum bréfsins, sem voru af heiðnum uppruna, hlýtur að hafa þótt kveðja Péturs sérlega hlýleg. Gyðingar áttu engin samskipti við heiðingja, fyrirlitu þá jafnvel, og fordóma gegn mönnum af heiðnum uppruna gætti meðal Gyðinga sem tekið höfðu kristna trú. (Lúkas 10:29-37; Jóhannes 4:9; Postulasagan 10:28) En Pétur, sem var Gyðingur frá fæðingu og postuli Jesú Krists, sagði að lesendur sínir — bæði af gyðinglegum og heiðnum uppruna — hefðu sömu dýrmætu trú og sérréttindi og hann.
10. Hvað getum við lært af kveðju Péturs?
10 Hugleiddu þann góða lærdóm sem draga má af kveðju Péturs. Guð er ekki hlutdrægur; hann tekur ekki einn kynþátt eða þjóðerni fram yfir annað. (Postulasagan 10:34, 35; 11:1, 17; 15:3-9) Eins og Jesús kenndi sjálfur eru allir kristnir menn bræður og engum ætti að finnast hann yfir aðra hafinn. Og kveðja Péturs leggur áherslu á að við séum sannkallað heimsbræðralag sem hefur „sömu“ dýrmætu trú og Pétur og hinir postularnir. — Matteus 23:8; 1. Pétursbréf 5:9.
Þekking og fyrirheit Guðs
11. Hvaða mikilvæg mál leggur Pétur áherslu á að kveðjunni lokinni?
11 Að kveðjunni lokinni skrifar Pétur: „Náð og friður margfaldist yður til handa.“ Hvernig eiga náð og friður að margfaldast okkur til handa? „Með þekkingu á Guði og Jesú, Drottni vorum,“ svarar Pétur. Síðan segir hann: „Hans guðdómlegi máttur hefur veitt oss allt, sem leiðir til lífs og guðrækni.“ En hvernig fáum við þetta sem er svo nauðsynlegt? „Með þekkingunni á honum, sem kallaði oss með sinni eigin dýrð og dáð.“ Pétur leggur því tvisvar áherslu á að þekking á Guði og syni hans sé nauðsynleg og er þar að tala um nákvæma þekkingu. — 2. Pétursbréf 1:2, 3; Jóhannes 17:3.
12. (a) Hvernig leggur Pétur áherslu á að nákvæm þekking sé mikilvæg? (b) Hvað verðum við fyrst að gera til að öðlast fyrirheit Guðs?
12 ‚Falskennendurnir,‘ sem Pétur varar við í 2. kafla, beita „uppspunnum orðum“ til að blekkja kristna menn. Þannig reyna þeir að tæla þá aftur út í siðleysið sem þeir frelsuðust frá. Afleiðingarnar eru hrikalegar fyrir hvern þann sem hefur frelsast „fyrir þekkingu á Drottni vorum og frelsara Jesú Kristi“ en verður síðar fórnarlamb slíkrar blekkingar. (2. Pétursbréf 2:1-3, 20) Pétur er greinilega að undirbúa það að fjalla um þetta vandamál síðar þegar hann í upphafi bréfsins leggur áherslu á hlutverk nákvæmrar þekkingar í hreinni stöðu frammi fyrir Guði. Pétur nefnir að Guð hafi „veitt oss hin dýrmætu og háleitu fyrirheit, til þess að þér fyrir þau skylduð verða hluttakendur í guðlegu eðli.“ En til að öðlast þessi fyrirheit, sem eru snar þáttur í trúnni, verðum við fyrst að ‚komast undan spillingunni í heiminum sem girndin veldur.‘ — 2. Pétursbréf 1:4.
13. Hvað eru bæði smurðir kristnir menn og ‚aðrir sauðir‘ staðráðnir í að halda fast í?
13 Hvernig lítur þú á fyrirheit Guðs? Á sama hátt og leifar smurðra kristinna manna? Árið 1991 lýsti Frederick Franz í hnotskurn afstöðu þeirra sem vonast til að ríkja með Kristi, en hann var þá forseti Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn og hafði þjónað í fullu starfi í meira en 75 ár: „Við [höfum] verið staðfastir fram til þessa dags og við ætlum að vera staðfastir uns Guð hefur sýnt og sannað að hann haldi sín ‚dýrmætu og háleitu fyrirheit.‘“ Bróðir Franz treysti á fyrirheit Guðs um himneska upprisu og var staðfastur í trúnni uns hann lést 99 ára gamall. (1. Korintubréf 15:42-44; Filippíbréfið 3:13, 14; 2. Tímóteusarbréf 2:10-12) Milljónir annarra eru staðfastar í trúnni og einbeita sér að fyrirheiti Guðs um jarðneska paradís þar sem fólk mun búa hamingjusamt að eilífu. Ert þú einn þeirra? — Lúkas 23:43, NW; 2. Pétursbréf 3:13; Opinberunarbókin 21:3, 4.
Viðbrögð við fyrirheitum Guðs
14. Hvers vegna talar Pétur fyrst um að auðsýna dyggð í trúnni?
14 Erum við Guði þakklát fyrir það sem hann hefur heitið? Ef svo er ættum við að sýna það, segir Pétur. Einmitt „þess vegna,“ (vegna þess að Guð hefur gefið okkur mjög dýrmæt fyrirheit) ættum við að leggja okkur sérstaklega fram um að vera virk í trúnni. Við getum ekki gert okkur ánægð með það eitt að vera í trúnni eða þekkja til sanninda Biblíunnar. Það er ekki nóg. Kannski var það svo á dögum Péturs að sumir í söfnuðinum töluðu mikið um trúna en gerðu sig seka um siðleysi. Þeir þurftu að vera dyggðugir í hegðun svo að Pétur hvetur: ‚Auðsýnið í trú yðar dyggð.‘ — 2. Pétursbréf 1:5; Jakobsbréfið 2:14-17.
15. (a) Af hverju er þekking nefnd eftir dyggð sem auðsýna þarf í trúnni? (b) Hvaða aðrir eiginleikar gera okkur kleift að halda fast í trúna?
15 Eftir að hafa nefnt dyggð telur Pétur upp sex aðra eiginleika sem þarf að stunda eða auðsýna í trúnni. Við þurfum þá alla til að ‚standa stöðugir í trúnni.‘ (1. Korintubréf 16:13) Þar eð fráhvarfsmenn voru að ‚rangsnúa Ritningunni‘ og breiða út falskenningar nefnir Pétur því næst að þekking sé nauðsynleg og segir: „[Auðsýnið] í dyggðinni þekkingu.“ Síðan heldur hann áfram: „[Auðsýnið] í þekkingunni sjálfsögun, í sjálfsöguninni þolgæði, í þolgæðinu guðrækni, í guðrækninni bróðurelsku og í bróðurelskunni kærleika.“ — 2. Pétursbréf 1:5-7; 2:12, 13; 3:16.
16. Hvað gerist ef við auðsýnum í trúnni þá eiginleika, sem Pétur nefnir, en hvað gerist ella?
16 Hvað gerist ef við auðsýnum þessa sjö eiginleika í trú okkar? „Ef þér hafið þetta til að bera og farið vaxandi í því, munuð þér ekki verða iðjulausir né ávaxtalausir í þekkingunni á Drottni vorum Jesú Kristi.“ (2. Pétursbréf 1:8) Síðan segir Pétur: „En sá, sem ekki hefur þetta til að bera, er blindur í skammsýni sinni og hefur gleymt hreinsun fyrri synda sinna.“ (2. Pétursbréf 1:9) Tökum eftir að Pétur skiptir úr annarri persónu í þriðju. Enda þótt sumir séu því miður blindir, gleymnir og óhreinir gefur Pétur vingjarnlega í skyn að lesandinn sé ekki þannig. — 2. Pétursbréf 2:2.
Pétur styrkir bræður sína
17. Hvað kann að hafa ýtt undir hlýlega hvatningu Péturs um að stunda „þetta“?
17 Pétur gerir sér kannski ljóst að nýir eru sérstaklega auðblekktir og hvetur þá blíðlega: „Kostið þess vegna því fremur kapps um, bræður, að gjöra köllun yðar og útvalning vissa. Ef þér gjörið þetta, munuð þér aldrei hrasa.“ (2. Pétursbréf 1:10; 2:18) Smurðir kristnir menn, sem auðsýna þessa sjö eiginleika í trú sinni, hljóta ríkulega umbun eins og Pétur segir: „Á þann hátt mun yður ríkulega veitast inngangur í hið eilífa ríki Drottins vors og frelsara Jesú Krists.“ (2. Pétursbréf 1:11) Hinir ‚aðrir sauðir‘ öðlast eilífa arfleifð á jarðneskum vettvangi Guðsríkis. — Jóhannes 10:16; Matteus 25:33, 34.
18. Af hverju ætlar Pétur ‚ávallt að minna bræður sína á þetta‘?
18 Pétur þráir einlæglega að bræður hans hljóti þessa stórkostlegu umbun. „Þess vegna,“ skrifar hann, „ætla ég mér ávallt að minna yður á þetta, enda þótt þér vitið það og séuð staðfastir orðnir í þeim sannleika, sem þér nú hafið öðlast.“ (2. Pétursbréf 1:12) Pétur notar gríska orðið steriʹzo sem hér er þýtt „staðfastir“ en þýtt ‚styrkja‘ í hvatningu Jesú til Péturs: „Styrk þú bræður þína.“ (Lúkas 22:32) Að Pétur skuli nota þetta orð kann að benda til að hann minnist hinnar sterku hvatningar sem hann fékk frá Drottni sínum. Nú segir Pétur: „Ég álít mér líka skylt, á meðan ég er í þessari tjaldbúð [mannslíkamanum], að halda yður vakandi með því að rifja þetta upp fyrir yður. Ég veit, að þess mun skammt að bíða, að tjaldbúð minni verði svipt.“ — 2. Pétursbréf 1:13, 14.
19. Hvaða áminninga þörfnumst við núna?
19 Enda þótt Pétur segi vingjarnlega að lesendur hans séu ‚staðfastir í sannleikanum‘ er honum ljóst að trú þeirra gæti liðið skipbrot. (1. Tímóteusarbréf 1:19) Hann veit að hann á skammt eftir ólifað og styrkir því bræður sína með því að minnast á ýmislegt sem þeir geta rifjað upp síðar til að halda sér andlega sterkum. (2. Pétursbréf 1:15; 3:12, 13) Eins þurfum við núna stöðugar áminningar um að vera staðfastir í trúnni. Hver sem við erum og hversu lengi sem við höfum verið í sannleikanum megum við ekki vanrækja reglulegan biblíulestur, einkanám og samkomusókn. Sumir afsaka sig að þeir skuli ekki koma á samkomur og segjast of þreyttir eða að samkomurnar séu einhæfar eða flutningur ekki nægilega góður, en Pétur vissi hve fljótt við gætum glatað trúnni ef við yrðum of sjálfsörugg. — Markús 14:66-72; 1. Korintubréf 10:12; Hebreabréfið 10:25.
Traustur trúargrundvöllur
20, 21. Hvernig styrkti ummyndunin trú Péturs og lesenda bréfsins, þeirra á meðal okkar?
20 Er trú okkar einfaldlega byggð á snjöllum skröksögum? Pétur neitar því eindregið: „Ekki fylgdum vér uppspunnum skröksögum, er vér kunngjörðum yður mátt og komu Drottins vors Jesú Krists, heldur vorum vér sjónarvottar að hátign hans.“ Pétur, Jakob og Jóhannes voru með Jesú þegar þeir sáu hann í sýn í ríki sínu. Pétur segir: „Hann meðtók af Guði föður heiður og dýrð, þá er raust barst honum frá hinni dýrlegu hátign: ‚Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.‘ Þessa raust heyrðum vér sjálfir, koma frá himni, þá er vér vorum með honum á fjallinu helga.“ — 2. Pétursbréf 1:16-18.
21 Þegar Pétur, Jakob og Jóhannes sáu þessa sýn varð Guðsríki þeim vissulega raunverulegt! „Enn þá áreiðanlegra er oss því nú hið spámannlega orð,“ segir Pétur. „Og það er rétt af yður að gefa gaum að því.“ Já, þeir sem lásu bréf Péturs og þeir sem lesa það nú hafa ærna ástæðu til að gefa gaum að spádómum um ríki Guðs. Á hvaða hátt þurfum við að gefa þeim gaum? Pétur svarar: „Eins og ljósi, sem skín á myrkum stað, þangað til dagur ljómar og morgunstjarna rennur upp í hjörtum yðar.“ — 2. Pétursbréf 1:19; Daníel 7:13, 14; Jesaja 9:6, 7.
22. (a) Fyrir hverju þurfa hjörtu okkar að halda sér vakandi? (b) Hvernig gefum við gaum að spádómsorðinu?
22 Hjörtu okkar væru í myrkri ef ekki nyti upplýsingar spádómsorðsins. En með því að gefa því gaum hafa kristnir menn haldið hjörtum sínum vakandi fyrir því að dagurinn renni upp þegar „morgunstjarnan,“ Jesús Kristur, rís í dýrlegu ríki sínu. (Opinberunarbókin 22:16) Hvernig gefum við gaum að spádómsorðinu nú á dögum? Með biblíunámi, með því að búa okkur undir samkomur og taka þátt í þeim og með því að ‚stunda þetta og vera allur í þessu.‘ (1. Tímóteusarbréf 4:15) Ef spádómsorðið á að vera eins og ljós er skín á „myrkum stað“ (í hjörtum okkar) verðum við að leyfa því að hafa djúpstæð áhrif á okkur — þrár okkar, tilfinningar, áhugahvatir og markmið. Við þurfum að vera biblíunemendur því að Pétur lýkur fyrsta kafla með orðunum: „Enginn þýðir neinn spádóm Ritningarinnar af sjálfum sér. Því að aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns, heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.“ — 2. Pétursbréf 1:20, 21.
23. Undir hvað býr fyrsti kafli Annars Pétursbréfs lesendurna?
23 Í fyrsta kafla síðara bréfs síns kom Pétur með sterka hvatningu fyrir okkur til að halda fast í dýrmæta trú okkar. Við erum nú tilbúin að ræða um þau alvarlegu mál sem á eftir koma. Næsta grein fjallar um annan kafla Síðara Pétursbréfs þar sem postulinn fjallar um siðlaus áhrif sem höfðu borist inn í söfnuðina.
Manstu?
◻ Hvers vegna leggur Pétur áherslu á mikilvægi nákvæmrar þekkingar?
◻ Hver kann að vera ástæðan fyrir því að dyggð er fyrsti eiginleikinn sem auðsýna þarf í trúnni?
◻ Af hverju ætlar Pétur ávallt að minna bræður sína á það sem þarf?
◻ Hvaða sterkan grundvöll að trú okkar leggur Pétur?
[Mynd á blaðsíðu 19]
Ófullkomleiki Péturs kom honum ekki til að gefa trúna upp á bátinn.