Haldið áfram að ganga í ljósi Guðs
Þegar þessi grein er numin í söfnuðinum, svo og þær tvær sem fylgja henni, skal eins og tími leyfir lesa þá staði í 1. Jóhannesarbréfi sem vísað er í.
„Guð er ljós.“ — 1. JÓHANNESARBRÉF 1:5.
1, 2. Hvenær og hvar var 1. Jóhannesarbréf skrifað og hverjum?
VOTTAR Jehóva eru þakklátir fyrir ljós Guðs og ætla sér að halda áfram að framganga í því. Það er þó ekki auðvelt því að jafnvel meðal fyrstu lærisveina Jesú átti sé stað fráhvarf frá trúnni. Drottinhollir postular Jesú gátu þó hindrað að það breiddist út, og einn þeirra sem ‚hélt aftur af‘ var Jóhannes postuli. (2. Þessaloníkubréf 2:1-12) Hann var orðinn fjörgamall og bjó í Efesus eða þar í grennd um árið 98 þegar hann skrifaði fyrsta innblásna bréfið sitt. Heilræði þess hjálpuðu kristnum mönnum á fyrstu öld að halda áfram að ganga í ljósi Guðs. En hvað um okkur?
2 Orð Jóhannesar eru jafngagnleg kristnum mönnum á 20. öld. Í einkanámi þínu í þessari grein og þeim tveim, sem fylgja henni, skaltu því lesa öll þau vers í fyrsta bréfi Jóhannesar sem vísað er í. Í bréfi postulans og athugasemdum okkar um það á fornafnið „vér“ (eða ‚við‘) fyrst og fremst við smurða fylgjendur Jesú. En frumatriðin sem varða réttlæti, kærleika, trú og annað slíkt eiga líka við kristna menn sem hafa jarðneska von.
Samfélag sem veitir gleði
3. Hvaða sönnunargögn eru fyrir því að sonur Guðs hafi lifað, þjáðst og dáið sem maður, og hvers vegna er hann kallaður „orð lífsins“?
3 Jóhannes byrjar á að tala um gleðiríkt „samfélag.“ (Lestu 1. Jóhannesarbréf 1:1-4.) Jesús, „orð lífsins,“ var hjá Jehóva „frá upphafi“ sem fyrsta sköpunarverk hans. Fyrir hans milligöngu var ‚allt annað skapað.‘ (Kólossubréfið 1:15, 16) Ýmsir fráhvarfsmenn fyrstu aldar þóttust vera syndlausir og afneituðu því að Kristur gegndi réttmætu hlutverki í ráðstöfun Guðs. En postular Jesú höfðu heyrt hann tala, fylgst gaumgæfilega með honum og snert hann. Þeir vissu að kraftur Guðs starfaði í honum. Því lá fyrir vitnisburður sjónarvotta um að hann væri sonur Guðs sem hefði lifað, þjáðst og dáið sem maður. Hann er „orð lífsins“ því að „lífið [hið eilífa] var opinberað“ fyrir milligöngu Jesú sem Guð gaf til lausnargjalds. — Rómverjabréfið 6:23; 2. Tímóteusarbréf 1:9, 10.
4. Hvað táknar „samfélag“ hinna smurðu?
4 Með því sem postularnir sögðu og skrifuðu ‚vottuðu‘ þeir eða báru vitni um hinn syndlausa mann Jesú Krist. Jóhannes ‚boðaði‘ slík mál til að hinir smurðu gætu átt „samfélag“ við aðra erfingja Guðsríkis, við föðurinn og við son hans. Þetta „samfélag“ er tákn einingar og uppspretta mikillar gleði. (Sálmur 133:1-3; Jóhannes 17:20, 21) Fráhvarfsmenn, sem hata sína fyrri félaga í þjónustu Jehóva, eiga ekki lengur slíkt samfélag við Guð og Krist.
„Guð er ljós“
5. Hvaða ‚boðskap‘ fengu postularnir frá Jesú og hvaða áhrif hefur hann á breytni votta Jehóva?
5 Þessu næst nefnir Jóhannes ‚boðskap‘ sem postularnir fengu frá Jesú. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 1:5-7.) Hann er þessi: „Guð er ljós, og myrkur [eitthvað vanheilagt, siðlaust, ósatt eða illt] er alls ekki í honum.“ Vottar Jehóva forðast því allar syndsamlegar athafnir tengdar myrkrinu. (Jobsbók 24:14-16; Jóhannes 3:19-21; Rómverjabréfið 13:11-14; 2. Korintubréf 6:14; 1. Þessaloníkubréf 5:6-9) Þar eð ýmsir fráhvarfsmenn viðurkenndu ekki að til væru nein syndsamleg verk voru þeir í andlegu myrkri. Þeir þóttust búa yfir leyndri þekkingu, en Guð er ljós, ekki myrkur og dulúð. Hann gefur andlegt ljós aðeins trúföstum vottum sínum. — Matteus 5:14-16; 1. Pétursbréf 2:9.
6. Hvaða blessun hljótum við ef við ‚iðkum sannleikann‘?
6 Ef við segjum að við höfum „samfélag“ við Guð en „göngum þó í myrkrinu“ sem leiðir til syndugs lífernis, „þá ljúgum vér og iðkum ekki sannleikann,“ lifum ekki í samræmi við hann. En ef líf okkar er í samræmi við sannleikann göngum við í ljósinu alveg eins og Guð. Við eigum þá „samfélag“ við aðra kristna menn sem allir eru sameinaðir í kenningu, andlegum viðhorfum, kennslu nýrra lærisveina og öðrum þáttum hreinnar guðsdýrkunar.
7. Hvernig getur blóð Jesú ‚hreinsað okkur af allri synd‘?
7 Ólíkt sumum fráhvarfsmönnum fyrstu aldar viðurkennum við sem „göngum í ljósinu“ að synd er óhrein. Blóð Jesú „hreinsar oss af allri synd“ vegna þess að við syndgum ekki að yfirlögðu ráði. (Matteus 12:31, 32) Við erum innilega þakklát fyrir að Guð skuli sýna miskunn jafnvel villuráfandi en iðrunarfullum kristnum mönnum. — Sálmur 103:8-14; Míka 7:18, 19.
Grundvöllur friðþægingar
8, 9. (a) Á hvaða grundvelli fyrirgefur Jehóva okkur? (b) Hvað sögðu sumir fráhvarfsmenn um syndina og hvers vegna var það rangt?
8 Jóhannes nefnir þessu næst á hvaða grundvelli fáist hreinsun frá syndinni. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 1:8-2:2.) Ef við segjum: „Vér höfum ekki synd,“ þá afneitum við þeirri staðreynd að allir ófullkomnir menn eru syndugir og „sannleikurinn er ekki í oss.“ (Rómverjabréfið 5:12) En Guð er „trúr“ og fyrirgefur okkur „ef vér játum syndir vorar“ fyrir honum með iðrunarhug sem kemur okkur til að snúa baki við allri rangsleitni. (Orðskviðirnir 28:13) Guð sagði um þá sem fengju aðild að nýja sáttmálanum: „Ég mun . . . ekki framar minnast syndar þeirra.“ (Jeremía 31:31-34; Hebreabréfið 8:7-12) Þetta loforð heldur hann þegar hann fyrirgefur þeim.
9 Auk þess er Guð „réttlátur,“ heldur alltaf staðal sinn á réttlætið. Hann hefur fullnægt réttlætinu með lausnargjaldinu og getur ‚fyrirgefið okkur syndirnar og hreinsað af öllu ranglæti‘ ef við játum syndir okkar í trú á fórn Jesú. (Hebreabréfið 9:11-15) Með dauða sínum bar Messías syndirnar burt eins og syndum hlaðinn geithafurinn var sendur út í eyðimörkina á friðþægingardeginum. (3. Mósebók 16:20-22; Jesaja 53:5, 8, 11, 12; 1. Pétursbréf 2:24) Sumir fráhvarfsmenn sögðu: „Vér höfum ekki syndgað,“ og gerðu þar með ‚Jehóva að lygara.‘ En ‚Guð lýgur ekki‘ og orð hans sýnir að allir ófullkomnir menn eru syndarar. (Títusarbréfið 1:2; Prédikarinn 7:20; Rómverjabréfið 3:23) Ef við segjum: „Vér höfum ekki syndgað,“ þýðir það að orð Guðs sé ekki „í oss,“ ekki í hjörtum okkar! — Samanber Hebreabréfið 8:10.
10. Á hvaða veg er fórn Jesú „friðþæging“?
10 Jóhannes skrifar „þetta“ um synd, fyrirgefningu og hreinsun til að við iðkum ekki synd. Orð hans ættu að fá okkur til að leggja mikið kapp á að syndga ekki. (1. Korintubréf 15:34) En ef við samt sem áður syndgum og iðrar þess höfum við „árnaðarmann hjá föðurnum, Jesú Krist, hinn réttláta“ sem talar máli okkar við Guð. (Hebreabréfið 7:26; samanber Jóhannes 17:9, 15, 20.) Jesús er „friðþæging.“ Dauði hans fullnægði réttlætinu og gerði Guði mögulegt að sýna miskunn og sýkna bæði andlega Ísraelsmenn og ‚allan heiminn,‘ þeirra á meðal ‚múginn mikla,‘ af ákæru um synd. (Rómverjabréfið 6:23; Galatabréfið 6:16; Opinberunarbókin 7:4-14) Við metum þessa fórn afar mikils!
Hlýðum Guði og sýnum kærleika
11. Af hverju merkjum við að við séum ‚í Guði‘?
11 Til að halda áfram að ganga í ljósi Guðs verðum við að hlýða Jehóva. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 2:3-6.) Við gerum okkur ljóst að við höfum lært að ‚þekkja‘ Guð, að skilja hann og eiginleika hans, „ef vér höldum boðorð hans.“ Hver sá sem segist þekkja Jehóva en hlýðir honum ekki „er lygari.“ Á hinn bóginn er „kærleikur til Guðs orðinn fullkominn“ hjá þeim sem halda boðorð hans. „Af því,“ það er hlýðni og kærleika til Guðs, vitum við að „vér erum í honum.“ Og okkur er skylt að framganga eins og sonur hans gerði, í því að gera menn að lærisveinum, í samskiptum við aðra og svo framvegis.
12. Hvaða „gamalt boðorð“ hafa kristnir menn og hvernig er það líka „nýtt“?
12 Bróðurkærleikur er líka þýðingarmikill. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 2:7, 8.) Jóhannes skrifar um „gamalt boðorð“ sem hinir trúföstu hafa haft „frá upphafi“ þjónustu sinnar sem kristnir menn. Það er „gamalt“ vegna þess að Jesús gaf það mörgum árum áður þegar hann sagði fylgjendum sínum að ‚elska hver annan eins og hann hefði elskað þá.‘ (Jóhannes 13:34) Samt er það líka „nýtt“ vegna þess að það gengur lengra en náungakærleikurinn sem lögmálið krafðist, og gerir þá kröfu að við séum fús til að leggja sál okkar í sölurnar fyrir trúbræður okkar. (3. Mósebók 19:18; Jóhannes 15:12, 13) Fórnfús kærleikur okkar er sönnun um að við fylgjum þessu nýja boðorði og þess vegna ‚er myrkrið að hverfa og hið sanna ljós þegar farið að skína‘ okkar á meðal.
13. Hver er „í ljósinu“ og hver ekki samkvæmt 1. Jóhannesarbréfi 2:9-11?
13 En hver er raunverulega „í ljósinu“? (Lestu 1. Jóhannesarbréf 2:9-11.) Nú, „sá sem segist vera í ljósinu og hatar bróður sinn,“ er „enn þá“ í andlegu myrkri. En „sá sem elskar bróður sinn, hann er stöðugur í ljósinu“ og hjá honum er ekkert sem „leitt geti til falls.“ Hér er notað grískt orð sem vísar til dýragildru með agni og táknar því eitthvað sem geti komið okkur til að syndga. Sá sem játar sig kristinn en hatar bróður sinn veit í raun ekki „hvert hann fer, því að myrkrið hefur blindað augu hans.“ (Matteus 13:13-15) Mun þessi aðvörun koma þér til að forðast andlegt myrkur með því að láta ekki persónuágreining, lygar fráhvarfsmanna eða nokkuð annað spilla bróðurkærleika þínum?
Grundvöllur trúartrausts
14. Hver eru ‚börnin‘ og ‚feðurnir‘ sem Jóhannes ávarpar?
14 Jóhannes lætur þessu næst í ljós trúartraust sitt til ‚barnanna.‘ Bersýnilega á hann þar við allan söfnuðinn. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 2:12-14.) Syndir okkar hafa verið fyrirgefnar ‚fyrir sakir nafns Krists‘ því að einungis fyrir hans milligöngu hefur Guð opnað leið til hjálpræðis. (Postulasagan 4:12) Hinir smurðu ‚þekkja föðurinn‘ því að hann hefur getið þá með anda sínum. Sumir eru nefndir „feður“ — líklega í þeirri merkingu að þeir séu fullorðnir, reyndir og andlega þroskaðir kristnir menn. Þeir þekkja Jesú sem „er frá upphafi“ því að Guð skapaði hann á undan öllu öðru.
15. (a) Hverjir eru ‚ungu mennirnir‘ sem Jóhannes ávarpar og hvernig hafa þeir „sigrað hinn vonda“? (b) Nefndu dæmi um hvernig við getum „sigrað“ Satan nú á dögum.
15 ‚Ungu mennirnir,‘ sem Jóhannes ávarpar, eru kannski hinir yngri og óreyndari í trúnni. Þeir hafa „sigrað hinn vonda“ með því að falla ekki fyrir ‚vélráðum‘ hans. (2. Korintubréf 2:11) Til dæmis felur það í sér nú á tímum að forðast óhreinar skemmtanir, lostafulla tónlist og klám sem getur grafið undan kristinni ráðvendni og leitt menn út í siðleysi. ‚Ungu mennirnir‘ sigra Satan vegna þess að þeir eru andlega „styrkir“ og „orð Guðs“ er stöðugt í þeim. Megum við líkjast þeim í að notfæra okkur andlegar ráðstafanir Guðs, vísa fráhvarfi á bug og halda áfram að ganga í ljósi Guðs.
Það sem við megum ekki elska
16. Hvað megum við ekki elska og hvað gerist ef við tileinkum okkur veraldleg sjónarmið og metnaðarlanganir?
16 Hvort sem við erum ung í sannleikanum eða gömul er það til sem við megum ekki elska. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.) Við megum ‚ekki elska heiminn eða það sem í honum er.‘ Við verðum að varast að láta spillingu hins rangláta mannfélags setja á okkur blett og megum ekki láta „anda“ hans eða hin ríkjandi, syndugu viðhorf hafa áhrif á okkur. (Efesusbréfið 2:1, 2; Jakobsbréfið 1:27) Ef við hefðum veraldleg viðhorf og metnaðarlanganir myndi ‚kærleikur til föðurins‘ ekki vera í okkur. (Jakobsbréfið 4:4) Það er efni sem vert er að íhuga með hjálp bænarinnar, er ekki svo?
17. Hvaða veraldlegum fýsnum má kristinn maður ekki fullnægja?
17 Ekkert af því „sem í heiminum er“ er komið frá Guði. Hér má nefna meðal annars „fýsn holdsins.“ Það að fullnægja henni merkir að láta undan syndugum tilhneigingum svo sem til siðleysis. (1. Korintubréf 6:15-20; Galatabréfið 5:19-21) Einnig ber að forðast að láta undan „fýsn augnanna.“ Eva lét freista sín með ávexti sem var freistandi á að líta og Davíð leiddist út í grófa synd eftir að hafa horft á Batsebu baða sig. (1. Mósebók 3:6; 2. Samúelsbók 11:2-17) Til að halda áfram að ganga í ljósi Guðs verðum við því að forðast siðspillandi skemmtun og annað sem höfðar til syndugra langana og spillir hjartanu. — Orðskviðirnir 2:10-22; 4:20-27.
18. Hvers vegna er „auðæfa-oflæti“ tilgangslaust og hvað veitir það ekki?
18 „Auðæfa-oflæti“ er líka frá heiminum komið. Drambsamur maður getur átt til að gorta af auði sínum, fínum fötum og öðrum forgengilegum hlutum. „Oflæti“ hans getur gengið í augun á sumum og veitt honum stundlega upphefð, en ekki blessun Guðs. — Matteus 6:2, 5, 16, 19-21; Jakobsbréfið 4:16.
19. Hvernig mun fara fyrir þessum heimi og hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur?
19 Munum að „heimurinn fyrirferst“ og verður að engu gerður. (2. Pétursbréf 3:6) Langanir hans og vonir munu hverfa með honum ásamt þeim sem elska hann. „En,“ segir Jóhannes, „sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ Við skulum því hafa hið eilífa líf í sjónmáli með því að „afneita óguðleik og veraldlegum girndum“ og halda áfram að ganga í ljósi Guðs. — Títusarbréfið 2:11-14.
Vörn gegn fráhvarfi
20. Hvað voru þeir kallaðir sem voru á móti Kristi og hvað sannaði það að þeir skyldu vera komnir?
20 Jóhannes varar nú við andkristum. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 2:18, 19.) Hann minnir trúbræður sína á að þeir hafi heyrt frá postulunum „að andkristur kemur.“ Sú staðreynd að „margir andkristar“ voru komnir fram sannaði að nú var runninn upp „hin síðasta stund,“ síðasti hluti postulatímans. Þótt þeir sem voru á móti Kristi hafi myndað samsettan ‚andkrist‘ þóttust margir einstakir andkristar dýrka Guð en „heyrðu oss ekki til“ og yfirgáfu sanna kristni. Við fögnum því að burtför eða brottvísun slíkra manna á okkar tímum skuli koma í veg fyrir að söfnuðurinn spillist.
21. Hvers vegna hafa andagetnir kristnir menn þekkingu og hvaða ‚sannleika‘ þekkja þeir?
21 Drottinhollir, andagetnir kristnir menn vísa á bug hugmyndum fráhvarfsmanna. Þar eð „smurning frá hinum heilaga,“ Jehóva, hjálpar þeim að skilja orð hans ‚vita þeir þetta allir.‘ (Lestu 1. Jóhannesarbréf 2:20, 21.) Þeir þekkja „sannleikann“ eins og hann tengist Jesú Kristi, en fráhvarfsmenn hafa rangar hugmyndir um hann. Þar eð „engin lygi getur komið frá sannleikanum“ hafna allir, sem elska Jehóva, slíkum röngum hugmyndum og þeim sem halda þeim á lofti.
22. Hvað gerði C. T. Russell þegar einn samstarfsmanna hans afneitaði lausnargjaldinu?
22 Þegar allt kemur til alls, „hver er lygari, ef ekki sá sem neitar, að Jesús sé Kristur,“ hinn smurði þjónn Guðs? (Lestu 1. Jóhannesarbréf 2:22-25.) Sá sem ‚afneitar föðurnum og syninum er andkristurinn‘! Athyglisvert er að þegar maður, sem starfaði með biblíunemandanum Charles T. Russell í byrjun, afneitaði lausnargjaldinu, skar Russell á tengsl sín við hann og hóf útgáfu þessa tímarits sem hefur alltaf boðað sannleikann um uppruna Krists, messíasarhlutverk hans og ástríka þjónustu sem ‚friðþægingar.‘
23. Hvaða áhrif hefur það að ‚játa soninn‘ á samband okkar við Guð og framtíðarhorfur?
23 Fráhvarfsmenn, sem afneita Kristi, eiga ekki Jehóva fyrir vin. (Jóhannes 5:23) Við sem ‚játum soninn höfum og fundið föðurinn‘ og eignast við hann samband sem hann viðurkennir. (Matteus 10:32, 33) Drottinhollir fylgjendur Jesú á fyrstu öld héldu sér fast við það sem þeir höfðu heyrt um son Guðs „frá upphafi“ ævi sinnar sem kristnir menn. Ef sami sannleikur er í hjörtum okkar munum við „vera stöðugir“ bæði með Guði og Kristi og fá að launum „fyrirheitið“ sem er eilíft líf. — Jóhannes 17:3.
Fræddir af Jehóva Guði
24. Hverjir hafa ‚smurningu‘ heilags anda og hvers vegna ‚þurfa þeir þess ekki að neinn kenni þeim‘?
24 Til að ganga í ljósi Guðs og láta ekki fráhvarfsmenn leiða okkur á villigötur þurfum við að fá góða, andlega uppfræðslu. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 2:26-29.) Andagetnir menn hafa ‚smurningu‘ heilags anda, hafa kynnst Guði og syni hans og „þurfa þess ekki, að neinn [fráhvarfsmaður] kenni“ þeim. Með hjálp síns heilaga anda „fræðir“ Guð andlega Ísraelsmenn „um allt“ sem þeir þurfa til að tilbiðja hann á velþóknanlegan hátt. (Jóhannes 4:23, 24; 6:45) Við fögnum því að sem vottar Jehóva skulum við fá slíka andlega fræðslu frá Guði fyrir milligöngu ‚hins trúa og hyggna þjóns.‘ — Matteus 24:45-47.
25, 26. (a) Hvers vegna geta hinir smurðu haft „djörfung“? (b) Hvað merkir það að ‚iðka réttlætið‘?
25 Jóhannes hvetur hina uppfræddu, smurðu kristnu menn til að ‚vera stöðugir‘ í Guði. Þeir sem ‚eru í‘ Jehóva eru sömuleiðis sameinaðir syni hans. (Jóhannes 14:19-21) Hvatt er til slíkrar einingar til að ‚þegar Kristur birtist getum við átt djörfung og blygðumst okkar ekki fyrir honum þegar hann kemur,‘ það er að segja meðan nærvera hans stendur.
26 Þar eð við lifum núna nærverutíma Jesú, hvernig getum við fullvissað okkur um að við höfum ekkert til að blygðast okkar fyrir og göngum í raun í ljósi Guðs? Með því að ‚iðka réttlæti.‘ Ef við ‚vitum að Guð er réttlátur,‘ segir Jóhannes, ‚þá skiljum vér einnig að hver sem iðkar réttlætið er fæddur af honum.‘ ‚Að iðka réttlætið‘ felur í sé að hlýða boðorðum Guðs, forðast ranglætið og vera upptekinn af góðum verkum svo sem að gera menn að lærisveinum og aðstoða trúbræður okkar. (Markús 13:10; Filippíbréfið 4:14-19; 1. Tímóteusarbréf 6:17, 18) Það að vera „fæddur af“ Guði þýðir að vera ‚endurfæddur‘ sem andlegt barn hans. — Jóhannes 3:3-8.
27. Hvað sýnir Jóhannes postuli okkur þessu næst?
27 Jóhannes hefur því sýnt okkur hvernig eigi að halda áfram að ganga í ljósi Guðs. Þessu næst sýnir hann fram á hvernig hægt sé að lifa sem börn Guðs. Hvað útheimtir það af okkur?
Hvert er svar þitt?
◻ Hvaða sönnunargögn bendir Jóhannes á fyrir því að sonur Guðs hafi lifað, þjáðst og dáið sem maður?
◻ Á hvaða veg er Jesús Kristur „friðþæging“?
◻ Hvaða boð fá kristnir menn sem er bæði „gamalt“ og „nýtt“?
◻ Hvað mun verða um þennan heim og hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur, kristna menn?
◻ Hvernig geta hinir smurðu fullvissað sig um að þeir gangi í ljósi Guðs?
Sýnir þú að þú metir fórn Jesú að verðleikum?