Vertu öruggur eins og þú sjáir hinn ósýnilega
„[Móse] var öruggur eins og hann sæi hinn ósýnilega.“ — HEBREABRÉFIÐ 11:27.
1. Hvað sagði Jesús um Guð í fjallræðunni og af hverju er það athyglisvert?
JEHÓVA er ósýnilegur Guð. Þegar Móse bað um að fá að sjá dýrð hans svaraði hann: „Þú getur eigi séð auglit mitt, því að enginn maður fær séð mig og lífi haldið.“ (2. Mósebók 33:20) Og Jóhannes postuli skrifaði: „Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð.“ (Jóhannes 1:18) Jesús Kristur gat ekki einu sinni séð Guð þegar hann var maður hér á jörð. En í fjallræðunni sagði hann: „Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá.“ (Matteus 5:8) Hvað átti hann við með því?
2. Af hverju getum við ekki séð Guð bókstaflega?
2 Biblían talar um Jehóva sem ósýnilegan anda. (Jóhannes 4:24; Kólossubréfið 1:15; 1. Tímóteusarbréf 1:17) Jesús átti sem sagt ekki við það að við mennirnir gætum séð Jehóva bókstaflega. Smurðir kristnir menn munu að vísu sjá hann á himnum eftir að þeir eru reistir upp sem andar. En „hjartahreinir“ menn, sem eiga þá von að lifa að eilífu á jörðinni, geta líka ‚séð‘ Guð. Hvernig er það gerlegt?
3. Hvernig geta menn skynjað suma af eiginleikum Guðs?
3 Við lærum margt um Jehóva af sköpunarverki hans. Það getur til dæmis vakið okkur til vitundar um mátt hans svo að við viðurkennum að hann sé Guð skaparinn. (Hebreabréfið 11:3; Opinberunarbókin 4:11) Páll postuli skrifaði þar um: „Hið ósýnilega eðli [Guðs], bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans.“ (Rómverjabréfið 1:20) Að sjá Guð, eins og Jesús sagði, merkir því meðal annars að skynja suma af eiginleikum hans. Þetta er andleg sjón eða skynjun byggð á nákvæmri þekkingu, og Biblían kallar hana „sálarsjón.“ (Efesusbréfið 1:18) Orð og verk Jesú upplýsa einnig margt um Guð. Jesús sagði því að ‚sá sem hefði séð sig hefði séð föðurinn.‘ (Jóhannes 14:9) Hann endurspeglaði persónuleika Jehóva fullkomlega svo að þekking á ævi hans og kenningum veitir okkur nokkra vitneskju um eiginleika Jehóva.
Andlegt hugarfar er nauðsynlegt
4. Hvernig sýna margir af sér andlegan doða?
4 Trú og andlegt hugarfar er orðið ákaflega fágætt. „Ekki er trúin allra,“ sagði Páll. (2. Þessaloníkubréf 3:2) Margir eru algerlega uppteknir af eigin hugðarefnum og hafa enga guðstrú. Syndsamlegt líferni þeirra og andlegur doði kemur í veg fyrir að þeir sjái Guð með augum skilnings því að Jóhannes postuli skrifaði: „Sá sem illt gjörir hefur ekki séð Guð.“ (3. Jóhannesarbréf 11) Þeir sjá ekki Guð bókstaflega og hegða sér þar af leiðandi eins og hann sjái ekki til þeirra. (Esekíel 9:9) Þeir fyrirlíta það sem andlegt er þannig að þeir geta ekki „öðlast þekking á Guði.“ (Orðskviðirnir 2:5) Páll komst því vel að orði er hann skrifaði: „Maðurinn án anda veitir ekki viðtöku því, sem Guðs anda er, því að honum er það heimska og hann getur ekki skilið það, af því að það dæmist andlega.“ — 1. Korintubréf 2:14.
5. Um hvað er andlega sinnað fólk meðvitað?
5 Við vitum að Jehóva er ekki aðfinnslusamur, en ef við erum andlega sinnuð erum við alltaf meðvituð um að hann veit hvenær við látum undan illum hugsunum og löngunum. „Vegir sérhvers manns blasa við [Jehóva], og allar brautir hans gjörir hann sléttar,“ segja Orðskviðirnir 5:21. Ef við syndguðum vegna veikleika myndum við iðrast og leita fyrirgefningar Jehóva af því að við elskum hann og viljum ekki særa hann. — Sálmur 78:41; 130:3.
Hvað gerir okkur staðföst?
6. Hvað merkir það að vera staðfastur?
6 Þó að við sjáum ekki Jehóva skulum við alltaf hafa hugfast að hann sér okkur. Vitneskjan um tilvist hans og sú sannfæring að hann sé nærri öllum sem ákalla hann stuðlar að staðfestu og óhagganlegri trúfesti við hann. (Sálmur 145:18) Við getum líkst Móse sem Páll skrifaði um: „Fyrir trú yfirgaf hann Egyptaland og óttaðist ekki reiði konungsins, en var öruggur eins og hann sæi hinn ósýnilega.“ — Hebreabréfið 11:27.
7, 8. Af hverju var hugrekki Móse frammi fyrir faraó sprottið?
7 Til að leiða Ísraelsmenn út úr ánauð í Egyptalandi þurfti Móse að ganga margsinnis fram fyrir grimmlyndan faraó í hirðsal hans þar sem krökkt var af áhrifamönnum í trú- og hermálum. Líklega hafa skurðgoð staðið í röðum meðfram hallarveggjunum. En þó að Jehóva væri ósýnilegur var hann raunverulegur í augum Móse, ólíkt öllum skurðgoðunum sem voru tákn hinna líflausu guða Egypta. Við skiljum hvers vegna Móse hræddist ekki faraó.
8 Hvað gaf Móse kjark til að ganga hvað eftir annað á fund faraós, fyrir hönd ‚hins ósýnilega‘? Ritningin segir að ‚maðurinn Móse hafi verið einkar hógvær, framar öllum mönnum á jörðu.‘ (4. Mósebók 12:3) Ljóst er að styrkur hans til að ganga á fund hins miskunnarlausa Egyptalandskonungs var fólginn í sterku andlegu hugarfari og þeirri sannfæringu að hann hefði Guð með sér. Hvernig geta þeir sem „sjá“ hinn ósýnilega Guð sýnt trú sína í verki?
9. Hvað getum við meðal annars gert til að vera staðföst?
9 Að prédika hugrakkur þrátt fyrir ofsóknir er ein leið til að sýna trú og vera öruggur eins og maður sjái hinn ósýnilega. Jesús varaði lærisveinana við því að ‚þeir yrðu hataðir af öllum vegna nafns hans.‘ (Lúkas 21:17) Hann sagði þeim einnig: „Þjónn er ekki meiri en herra hans. Hafi þeir ofsótt mig, þá munu þeir líka ofsækja yður.“ (Jóhannes 15:20) Eins og Jesús hafði sagt voru fylgjendur hans ofsóttir skömmu eftir að hann dó. Þeim var ógnað og þeir voru handteknir og þeim misþyrmt. (Postulasagan 4:1-3, 18-21; 5:17, 18, 40) En postularnir og aðrir lærisveinar héldu áfram að prédika fagnaðarerindið djarfmannlega þrátt fyrir ofsóknarölduna. — Postulasagan 4:29-31.
10. Hvernig er það til hjálpar í boðunarstarfinu að treysta á vernd og umhyggju Jehóva?
10 Fyrstu fylgjendur Jesú létu ekki sýnilega óvini, þótt margir væru, skelfa sig. Þeir trúðu á Guð, líkt og Móse, og þar af leiðandi gátu þeir þolað hinar grimmilegu ofsóknir sem á þeim dundu. Þeir voru öruggir eins og þeir sæju hinn ósýnilega. Stöðug vitund um vernd og umhyggju Jehóva gefur okkur kjark og hugrekki er við boðum Guðsríki. Orð Guðs segir að ‚ótti við menn leiði í snöru en þeim sé borgið sem treystir Jehóva.‘ (Orðskviðirnir 29:25) Þar af leiðandi veigrum við okkur ekki við að boða ríkið, af ótta við ofsóknir, og erum hreykin af þjónustu okkar. Trúin er okkur hvati til að vitna djarfmannlega fyrir nágrönnum, vinnufélögum, skólafélögum og öðrum. — Rómverjabréfið 1:14-16.
Hinn ósýnilegi leiðbeinir fólki sínu
11. Hvernig sýndu sumir safnaðarmenn óandlegt hugarfar, að sögn Péturs og Júdasar?
11 Við sjáum með augum trúarinnar að Jehóva stjórnar jarðnesku skipulagi sínu, þannig að við erum ekki gagnrýnin á þá sem fara með ábyrgð í söfnuðinum. Pétur og Júdas, hálfbróðir Jesú, vöruðu báðir við því að til væru svo óandlegir menn að þeir lastmæltu þeim sem færu með forystuna í söfnuðinum. (2. Pétursbréf 2:9-12; Júdasarbréfið 8) Ætli aðfinnslumennirnir hefðu talað þannig í návist Jehóva ef þeir hefðu séð hann bókstaflega? Örugglega ekki. En þar sem Guð er ósýnilegur hugsuðu þessir holdlega sinnuðu menn ekki um það að þeir þyrftu að standa honum reikningsskap gerða sinna.
12. Hvaða afstöðu ættum við að sýna gagnvart þeim sem fara með forystu í söfnuðinum?
12 Það eru auðvitað ófullkomnir menn sem mynda kristna söfnuðinn. Öldungum verða á mistök sem hafa stundum áhrif á okkur persónulega. Jehóva notar þessa menn engu að síður sem hirða hjarðarinnar. (1. Pétursbréf 5:1, 2) Andlega sinnaðir karlar og konur vita að Jehóva leiðbeinir fólki sínu meðal annars fyrir atbeina öldunganna. Þess vegna erum við ekki gagnrýnin eða kvörtunarsöm heldur virðum guðræðisfyrirkomulag Jehóva. Með því að hlýða þeim sem fara með forystuna á meðal okkar sýnum við að við sjáum hinn ósýnilega. — Hebreabréfið 13:17.
Að sjá Guð sem kennara okkar
13, 14. Hvað merkir það að sjá Jehóva sem kennara sinn?
13 Andleg sjón er nauðsynleg á öðru sviði. Jesaja spáði: ‚Augu þín munu líta hann sem kennir þér.‘ (Jesaja 30:20) Það þarf trú til að játa að Jehóva kenni okkur fyrir milligöngu hins jarðneska skipulags síns. (Matteus 24:45-47) Að sjá Guð sem kennara okkar merkir ekki aðeins að temja sér góðar biblíunámsvenjur og sækja safnaðarsamkomur að staðaldri heldur einnig að notafæra sér andlegar ráðstafanir hans til fulls. Við þurfum til dæmis að vera sívakandi fyrir handleiðslu hans, sem hann veitir fyrir milligöngu Jesú, svo að við berumst ekki af réttri leið. — Hebreabréfið 2:1.
14 Stundum þarf að leggja sig sérstaklega fram til að hafa fullt gagn af andlegu fæðunni. Okkur hættir kannski til að renna aðeins lauslega yfir sumar frásagnir Biblíunnar sem við eigum erfitt með að skilja. Við hlaupum ef til vill yfir vissar greinar í Varðturninum og Vaknið! af því að efni þeirra höfðar ekki sérstaklega til okkar. Kannski leyfum við huganum að reika á safnaðarsamkomum. En við getum haldið árvekni okkar ef við hugsum vandlega um það sem til umræðu er. Við sýnum að við viðurkennum Jehóva sem kennara ef við erum innilega þakklát fyrir fræðsluna sem við fáum.
Við verðum að standa Guði reikningsskap
15. Hvernig hafa sumir hegðað sér eins og Jehóva sjái ekki til þeirra?
15 Illskan er orðin svo útbreidd á ‚endalokatímanum‘ að það er sérstaklega mikilvægt að trúa á hinn ósýnilega. (Daníel 12:4) Óheiðarleiki og kynferðislegt siðleysi er taumlaust. Það er auðvitað skynsamlegt að hafa í huga að Jehóva fylgist með okkur jafnvel þegar aðrir menn sjá ekki til okkar. Sumir virðast hafa gleymt þessu og hegða sér í andstöðu við Biblíuna þegar aðrir sjá ekki til. Sumir hafa til dæmis ekki staðist freistinguna að horfa á skaðlegt skemmtiefni og klám á Netinu, í sjónvarpi eða öðrum miðlum sem nútímatækni býður upp á. Þetta gera þeir í einrúmi og láta þá eins og Jehóva sjái ekki til þeirra.
16. Hvað ætti að hjálpa okkur að halda háleitar reglur Jehóva?
16 Það er gott að hafa orð Páls postula í huga: „Sérhver af oss [skal] lúka Guði reikning fyrir sjálfan sig.“ (Rómverjabréfið 14:12) Við verðum að vera meðvita um að í hvert sinn sem við syndgum þá syndgum við gegn Jehóva. Vitundin um það ætti að hjálpa okkur að halda háleitar reglur hans og forðast óhreina breytni. Biblían minnir á að „enginn skapaður hlutur er honum hulinn, allt er bert og öndvert augum hans. Honum eigum vér reikningsskil að gjöra.“ (Hebreabréfið 4:13) Við verðum vissulega að gera Guði reikningsskil en fyrst og fremst ættum við að gera vilja hans og hlýða réttlátum reglum hans vegna þess að okkur þykir innilega vænt um hann. Við skulum því vera vandlát á skemmtiefni og ábyrg í framkomu við hitt kynið.
17. Hvernig fylgist Jehóva með okkur?
17 Jehóva er afar áhugasamur um okkur en það merkir ekki að hann bíði eftir að okkur verði eitthvað á til að geta svo refsað okkur. Hann fylgist með okkur sökum umhyggju og ástar, líkt og faðir sem langar til að umbuna hlýðnum börnum sínum. Það er mjög hughreystandi til að vita að faðir okkar á himnum skuli vera ánægður með trú okkar og ‚umbuna þeim er hans leita.‘ (Hebreabréfið 11:6) Sýnum algera trú á Jehóva og ‚þjónum honum af öllu hjarta.‘ — 1. Kroníkubók 28:9.
18. Hvaða trygging er okkur gefin í Biblíunni í ljósi þess að Jehóva sér til okkar og gefur gaum að trúfesti okkar?
18 Orðskviðirnir 15:3 segja: „Augu [Jehóva] eru alls staðar, vakandi yfir vondum og góðum.“ Hann vakir yfir vondum og fer með þá í samræmi við hegðun þeirra. En ef við erum í hópi ‚hinna góðu‘ getum við treyst að hann gefur gaum að trúarverkum okkar. Það er trústyrkjandi til að vita að ‚erfiði okkar er ekki árangurslaust í Drottni‘ og að hann ‚gleymir ekki verki okkar og kærleikanum sem við auðsýndum nafni hans.‘ — 1. Korintubréf 15:58; Hebreabréfið 6:10.
Bjóðum Jehóva að rannsaka okkur
19. Hvaða gagn er að sterkri trú á Jehóva?
19 Trúir þjónar Jehóva eru dýrmætir í augum hans. (Matteus 10:29-31) Hann er ósýnilegur að vísu en getur samt sem áður verið okkur raunverulegur, og við getum hlúð að hinu dýrmæta sambandi sem við eigum við hann. Við höfum mikið gagn af því að hugsa þannig til föður okkar á himnum. Sterk trú er okkur hjálp til að hafa hreint hjarta og góða samvisku frammi fyrir honum, og hræsnislaus trú afstýrir því að við lifum tvöföldu lífi. (1. Tímóteusarbréf 1:5, 18, 19) Óhagganleg trú okkar á Guð er góð fyrirmynd og getur haft jákvæð áhrif á þá sem við umgöngumst. (1. Tímóteusarbréf 4:12) Og slík trú stuðlar að hegðun sem gleður hjarta Jehóva. — Orðskviðirnir 27:11.
20, 21. (a) Hvers vegna er æskilegt að Jehóva hafi vakandi auga með okkur? (b) Hvernig getum við heimfært Sálm 139:23, 24 á okkur?
20 Ef við erum vitur fögnum við því að Jehóva skuli vaka yfir okkur, og ekki aðeins það heldur er okkur líka umhugað um að hann rannsaki hugsanir okkar og verk. Það er gott að biðja Jehóva að rannsaka hugsanir okkar til að kanna hvort við höfum einhverjar rangar tilhneigingar. Hann getur hjálpað okkur að takast á við vandamál og gera nauðsynlegar breytingar. Sálmaritarinn Davíð söng: „Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar, og sjá þú, hvort ég geng á glötunarvegi, og leið mig hinn eilífa veg.“ — Sálmur 139:23, 24.
21 Davíð bað Jehóva þess að prófa sig til að kanna hvort hann gengi á „glötunarvegi.“ Þráum við ekki, líkt og sálmaritarinn, að láta Guð rannsaka hjörtu okkar til að kanna hvort þar búi einhverjar óviðeigandi hvatir? Biðjum þá Jehóva um að rannsaka okkur. En hvað getum við gert ef við erum áhyggjufull vegna einhverra yfirsjóna eða ef við vitum af einhverju skaðlegu innra með okkur? Þá skulum við halda áfram að biðja Jehóva einlæglega og lúta auðmjúk handleiðslu heilags anda og leiðbeininga orðs hans. Við getum treyst að hann komi okkur til aðstoðar og hjálpi okkur að ganga veginn sem liggur til eilífa lífsins. — Sálmur 40:12-14.
22. Hvað ættum við að einsetja okkur?
22 Já, Jehóva veitir okkur eilíft líf ef við uppfyllum kröfur hans. Við verðum auðvitað að viðurkenna mátt hans og vald líkt og Páll postuli er hann sagði: „Konungi eilífðar, ódauðlegum, ósýnilegum, einum Guði sé heiður og dýrð um aldir alda. Amen.“ (1. Tímóteusarbréf 1:17) Sýnum Jehóva alltaf slíka lotningu. Og einsetjum okkur að vera örugg eins og við sjáum hinn ósýnilega, hvað sem á dynur.
Hvert er svarið?
• Hvernig geta menn séð Guð?
• Hvað gerum við þegar við erum ofsótt, ef Jehóva er okkur raunverulegur?
• Hvað merkir það að sjá Jehóva sem kennara sinn?
• Af hverju ættum við að vilja láta Jehóva rannsaka okkur?
[Mynd á blaðsíðu 12]
Móse hræddist ekki faraó heldur var öruggur eins og hann sæi Jehóva, hinn ósýnilega Guð.
[Mynd á blaðsíðu 15]
Hegðum okkur aldrei eins og Jehóva sjái ekki til okkar.
[Mynd á blaðsíðu 17]
Við sækjumst eftir þekkingu á Guði af því að við sjáum hann sem kennara okkar.