Þeir halda áfram að lifa í sannleikanum
„Ég hef enga meiri gleði en þá að heyra, að börnin mín lifi í sannleikanum.“ — 3. JÓHANNESARBRÉF 4.
1. Um hvað fjallar ‚sannleikur fagnaðarerindisins‘?
JEHÓVA hefur einungis velþóknun á þeim sem tilbiðja hann „í anda og sannleika.“ (Jóhannes 4:24) Þeir hlýða sannleikanum og viðurkenna hinar kristnu kenningar Biblíunnar í heild. Þessi ‚sannleikur fagnaðarerindisins‘ fjallar einkum um Jesú Krist og að ríki hans réttlæti drottinvald Jehóva. (Galatabréfið 2:14) Guð leyfir að ‚megn villa‘ gangi yfir þá sem kjósa villuna. Hjálpræði er hins vegar undir því komið að trúa á fagnaðarerindið og lifa í sannleikanum. — 2. Þessaloníkubréf 2:9-12; Efesusbréfið 1:13, 14.
2. Hvað gladdi Jóhannes postula sérlega og hvers eðlis var samband hans við Gajus?
2 Boðberar Guðsríkis eru „samverkamenn sannleikans.“ Þeir halda sig staðfastlega við sannleikann, líkt og Jóhannes postuli og Gajus vinur hans. Jóhannes hafði Gajus í huga er hann skrifaði: „Ég hef enga meiri gleði en þá að heyra, að börnin mín lifi í sannleikanum.“ (3. Jóhannesarbréf 3-8) Jóhannes var aldraður, þroskaður í trúnni og föðurlegur í ást sinni. Gajus virðist hafa verið yngri og það var því viðeigandi að líta á hann sem andlegt barn Jóhannesar, hvort sem Gajus kynntist sannleikanum hjá honum eða ekki.
Sannleikurinn og kristin tilbeiðsla
3. Hvaða tilgangi þjónuðu samkomur frumkristinna manna og hvaða gagn höfðu þeir af þeim?
3 Kristnir menn hittust sem söfnuðir, oft á einkaheimilum, til að læra sannleikann. (Rómverjabréfið 16:3-5) Þannig uppörvuðust þeir saman og hvöttu hver annan til kærleika og góðra verka. (Hebreabréfið 10:24, 25) Tertúllíanus (um árið 155 fram yfir 220) skrifaði um þá sem nefndu sig kristna á þeim tíma: „Við söfnumst saman til að lesa bækur Guðs . . . Við nærum trú okkar á þessum helgu orðum, við lyftum upp von okkar, við staðfestum traust okkar.“ — Apologeticum (Varnarrit), 39. kafli.
4. Hvaða hlutverki hefur söngur gegnt á samkomum kristinna manna?
4 Líklegt er að frumkristnir menn hafi sungið á samkomum sínum. (Efesusbréfið 5:19; Kólossubréfið 3:16) Henry Chadwick, prófessor, skrifar að gagnrýnandanum Celsusi, sem var uppi á annarri öld, hafi greinilega þótt hljómfagrir söngvar kristinna manna „svo fallegir að honum hafi gramist tilfinningaáhrif þeirra.“ Chadwick bætir við: „Klemens frá Alexandríu er fyrstur kristinna rithöfunda til að ræða hvers konar tónlist sé viðeigandi fyrir kristna menn að nota. Hann mælir svo fyrir að hún skuli ekki líkjast kynæsandi danstónlist.“ (The Early Church, bls. 274-5) Vottar Jehóva syngja oft söngva með áhrifamiklum biblíustefjum þar sem þeir lofa Guð og ríki hans, ekki ósvipað og frumkristnir menn virðast hafa gert þegar þeir söfnuðust saman.
5. (a) Hvernig fengu frumkristnu söfnuðirnir andlega leiðsögn? (b) Hvernig hafa sannkristnir menn fylgt orðum Jesú í Matteusi 23:8, 9?
5 Í söfnuðum frumkristninnar voru umsjónarmenn sem kenndu sannleikann og safnaðarþjónar sem aðstoðuðu trúsystkini sín á ýmsa vegu. (Filippíbréfið 1:1) Stjórnandi ráð veitti andlega leiðsögn sem byggð var á orði Guðs og handleiðslu heilags anda. (Postulasagan 15:6, 23-31) Trúarlegir titlar voru ekki notaðir, enda hafði Jesús fyrirskipað lærisveinunum: „Þér skuluð ekki láta kalla yður meistara, því einn er yðar meistari og þér allir bræður. Þér skuluð ekki kalla neinn föður yðar á jörðu, því einn er faðir yðar, sá sem er á himnum.“ (Matteus 23:8, 9) Vottar Jehóva líkjast frumkristnum mönnum á þessu sviði og mörgum öðrum.
Ofsóttir fyrir að prédika sannleikann
6, 7. Hvernig hefur verið farið með sannkristna menn þó að þeir boði friðsaman boðskap?
6 Frumkristnir menn voru ofsóttir líkt og Jesús, þó að þeir boðuðu friðsaman boðskap sem fjallaði um ríki Guðs. (Jóhannes 15:20; 17:14) Sagnfræðingurinn John L. von Mosheim kallar kristna menn fyrstu aldar „hóp manna sem var fullkomlega meinlaus og friðsamur, menn sem ólu aldrei í brjósti sér ósk eða hugsun sem var skaðleg velferð ríkisins.“ Dr. Mosheim segir að „Rómverjum hafi sérstaklega verið í nöp við kristna menn sökum þess hve tilbeiðsla þeirra var einföld og gerólík helgisiðum allra annarra.“ Hann bætir við: „Þeir stunduðu ekki fórnir og voru ekki með musteri, líkneski, véfréttir eða prestareglur, og þetta var nóg til þess að kalla yfir þá brigsl fáfróðs fjölda sem ímyndaði sér að trú væri ekki til án þessa. Þar af leiðandi var litið á þá sem nokkurs konar guðleysingja, og samkvæmt rómverskum lögum voru menn lýstir þjóðfélagsplága ef hægt var að ákæra þá fyrir guðleysi.“
7 Prestar, handverksmenn og aðrir, sem höfðu atvinnu af skurðgoðadýrkun, æstu almenning upp á móti kristnum mönnum sem stunduðu ekki skurðgoðadýrkun. (Postulasagan 19:23-40; 1. Korintubréf 10:14) Tertúllíanus skrifar: „Þeir kenna kristnum mönnum um allar hörmungar ríkisins, um sérhverja ógæfu almennings. Ef Tíber flæðir upp að borgarmúrunum, ef Níl flæðir ekki yfir akrana, ef ekki drýpur úr lofti eða ef jörðin skelfur, ef hungur sverfur að, ef plága leggst á, þá er strax hrópað: ‚Hendum kristnum mönnum fyrir ljónin!‘“ Sannkristnir menn ‚gæta sín fyrir skurðgoðum,‘ óháð afleiðingunum. — 1. Jóhannesarbréf 5:21.
Sannleikurinn og helgihald
8. Hvers vegna halda þeir sem lifa í sannleikanum ekki jól?
8 Þeir sem lifa í sannleikanum forðast óbiblíulegt helgihald vegna þess að ‚ljós hefur ekkert samfélag við myrkur.‘ (2. Korintubréf 6:14-18) Þeir halda til dæmis ekki jól í lok desember. „Enginn veit nákvæmlega hvenær Kristur fæddist,“ viðurkennir alfræðibókin The World Book Encyclopedia. Alfræðibókin The Encyclopedia Americana (útgefin 1956) segir: „Satúrnusarhátíð, rómversk hátíð haldin um miðjan desember, var fyrirmynd margra af gleðskaparsiðum jólanna.“ Cyclopædia M’Clintocks og Strongs segir: „Jólahald var hvorki fyrirskipað af Guði né sótt í N[ýja] t[estamentið].“ Og bókin Daily Life in the Time of Jesus segir: „Fénaður . . . var hafður í húsi yfir veturinn og það eitt sýnir að hefðbundin dagsetning jólanna, um vetur, getur varla verið rétt, því að guðspjöllin segja að fjárhirðar hafi verið úti í haga.“ — Lúkas 2:8-11.
9. Hvers vegna hafa sannkristnir menn ekki haldið páska, hvorki fyrr né síðar?
9 Páskar kristna heimsins eru í orði kveðnu haldnir til að minnast upprisu Krists en áreiðanlegar heimildir setja páskahaldið í samband við falska tilbeiðslu. Orðabókin The Westminster Dictionary of the Bible segir að páskar þessir hafi upphaflega verið „vorhátíð til heiðurs germanskri ljós- og vorgyðju sem Engilsaxar kölluðu Eastre“ eða Eostre. Alfræðibókin Encyclopædia Britannica (11. útgáfa) segir: „Engar vísbendingar eru í Nýja testamentinu um páskahald“ hjá frumkristnum mönnum. Þjónar Jehóva nú á dögum halda ekki heldur páska.
10. Hvaða minningarhátíð stofnaði Jesús og hverjir hafa haldið hana rétt?
10 Jesús minntist ekki á að fylgjendur hans ættu að minnast fæðingar hans eða upprisu. Hins vegar stofnaði hann til minningarhátíðar um fórnardauða sinn sem er reyndar eina hátíðin sem hann fyrirskipaði lærisveinum sínum að halda. (Rómverjabréfið 5:8; Lúkas 22:19, 20) Hún er einnig kölluð kvöldmáltíð Drottins og Vottar Jehóva halda þessa árlegu hátíð enn þann dag í dag. — 1. Korintubréf 11:20-26.
Sannleikurinn boðaður um heim allan
11, 12. Hvernig hafa þeir sem lifa í sannleikanum alltaf stutt prédikunarstarfið?
11 Þeir sem þekkja sannleikann álíta það sérréttindi að verja tíma sínum, kröftum og efnum til að boða fagnaðarerindið. (Markús 13:10) Frumkristnir menn studdu boðunarstarfið með frjálsum framlögum. (2. Korintubréf 8:12; 9:7) Tertúllíanus skrifaði: „Þó að til sé einhvers konar kista er ekki safnað í hana aðgangseyri, rétt eins og trúin væri viðskiptagjörningur. Hver maður kemur einu sinni í mánuði með lága fjárhæð — eða hvenær sem hann vill og aðeins ef hann vill og getur, því að enginn er tilneyddur; þetta er sjálfviljafórn.“ — Varnarrit, 39. kafli.
12 Boðunarstarf Votta Jehóva um heim allan er einnig kostað með frjálsum framlögum vottanna sjálfra og þakkláts fólks sem álítur það heiður að mega styðja þetta starf með framlögum sínum. Hér er einnig samsvörun milli frumkristinna manna og Votta Jehóva.
Sannleikurinn og hegðun
13. Hvaða ráðleggingu Péturs fylgja vottar Jehóva?
13 Frumkristnir menn lifðu í sannleikanum og fylgdu þar af leiðandi ráðleggingu Péturs postula: „Hegðið yður vel meðal heiðingjanna, til þess að þeir, er nú hallmæla yður sem illgjörðamönnum, sjái góðverk yðar og vegsami Guð á tíma vitjunarinnar.“ (1. Pétursbréf 2:12) Vottar Jehóva taka þessi orð mjög alvarlega.
14. Hvernig líta sannkristnir menn á siðlaust skemmtiefni?
14 Þeir sem kölluðu sig kristna forðuðust siðlausa skemmtun, jafnvel eftir að fráhvarf hófst frá trúnni. W. D. Killen, prófessor í kirkjusögu, skrifar: „Leikhúsið var helsta aðdráttaraflið í öllum stórbæjum annarrar og þriðju aldar; leikararnir voru að jafnaði sérlega lauslátir og leiksýningarnar höfðuðu í sífellu til siðspilltrar samtíðar. . . . Allir sannkristnir menn höfðu andstyggð á leikhúsinu. . . . Þá hryllti við klæmni þess, og hin sífellda skírskotun til heiðinna guða og gyðja misbauð trúarsannfæringu þeirra.“ (The Ancient Church, bls. 318-19) Sannir fylgjendur Jesú nú á tímum forðast einnig klúrt og siðspillandi skemmtiefni. — Efesusbréfið 5:3-5.
Sannleikurinn og ‚yfirvöld‘
15, 16. Hvernig hafa þeir sem lifa í sannleikanum litið á ‚yfirvöldin‘?
15 Þrátt fyrir góða hegðun frumkristinna manna lögðu flestir keisarar Rómar rangt mat á þá. Sagnfræðingurinn E. G. Hardy segir að keisararnir hafi litið á þá sem „hálf-fyrirlitlega ákafamenn.“ Af bréfaskiptum Plíníusar yngri, landstjóra í Biþýníu, og Trajanusar keisara sést að hinar ráðandi stéttir kunnu yfirleitt ekki skil á raunverulegu eðli kristninnar. Hvernig líta kristnir menn á ríkið?
16 Vottar Jehóva sýna „yfirvöldum“ skilyrta undirgefni, líkt og fylgjendur Jesú forðum daga. (Rómverjabréfið 13:1-7) Ef kröfur manna stangast á við vilja Guðs taka þeir þá afstöðu að ‚framar beri að hlýða Guði en mönnum.‘ (Postulasagan 5:29) Bókin After Jesus — The Triumph of Christianity segir: „Kristnir menn tóku að vísu ekki þátt í keisaradýrkun en þeir stóðu ekki fyrir múgæsingum, og heimsveldinu stóð engin ógn af trú þeirra, þótt hún væri framandleg í augum heiðingja og angraði þá stundum.“
17. (a) Hvaða stjórn studdu frumkristnir menn? (b) Hvernig hafa sannir fylgjendur Krists farið eftir orðunum í Jesaja 2:4?
17 Frumkristnir menn voru talsmenn Guðsríkis, líkt og ættfeðurnir Abraham, Ísak og Jakob sem iðkuðu trú á þessa fyrirheitnu ‚borg er Guð byggði.‘ (Hebreabréfið 11:8-10) Þeir ‚voru ekki af heiminum‘ frekar en Jesús, meistari þeirra. (Jóhannes 17:14-16) Og þeir tóku ekki þátt í hernaði og átökum manna heldur ástunduðu frið með því að ‚smíða plógjárn úr sverðum sínum.‘ (Jesaja 2:4) Geoffrey F. Nuttall, lektor í kirkjusögu, bendir á athyglisverða hliðstæðu: „Okkur þykir óþægilegt að viðurkenna að afstaða frumkristinna manna til hernaðar er nauðalík afstöðu fólks sem kallar sig Votta Jehóva.“
18. Hvers vegna hafa engin stjórnvöld ástæðu til að óttast Votta Jehóva?
18 Frumkristnir menn voru hlutlausir og „yfirvöldum“ undirgefnir þannig að engu stjórnmálaafli stóð ógn af þeim. Hið sama er að segja um Votta Jehóva. „Það þarf fordómafullt ímyndunarafl og sjúklega tortryggni til að trúa því að nokkurri pólitískri stjórn stafi minnsta ógn af Vottum Jehóva,“ skrifaði norður-amerískur leiðarahöfundur. „Þeir eru eins friðelskandi og lausir við niðurrifsstarfsemi sem nokkurt trúfélag getur verið.“ Upplýstir ráðamenn vita að þeim stafar engin hætta af Vottum Jehóva.
19. Hvað má segja um skil frumkristinna manna og Votta Jehóva á sköttum?
19 Frumkristnir menn sýndu „yfirvöldum“ meðal annars virðingu með því að greiða skatta skilvíslega. Jústínus píslarvottur skrifaði Antóníusi Píusi Rómarkeisara (138-161) að kristnir menn greiði skatta „manna fúsastir.“ (Fyrsta varnarrit, 17. kafli) Og Tertúllíanus sagði rómverskum valdhöfum að skattheimtumenn þeirra stæðu í „þakkarskuld við kristna menn“ fyrir að greiða skatta samviskusamlega. (Varnarrit, 42. kafli) Kristnir menn nutu góðs af lögum og reglu Rómarfriðarins, Pax Romana, góðum vegum og tiltölulega öruggum siglingum. Þeir viðurkenndu skuld sína við samfélagið og hlýddu orðum Jesú: „Gjaldið keisaranum það, sem keisarans er, og Guði það, sem Guðs er.“ (Markús 12:17) Fólk Jehóva nú á dögum fylgir þessu ráði og hefur fengið lof fyrir heiðarleika sinn, til dæmis varðandi skil á sköttum. — Hebreabréfið 13:18.
Sannleikurinn — sameiningarband
20, 21. Hvað má segja um friðsamlegt bræðralag frumkristinna manna og Votta Jehóva nú á tímum?
20 Frumkristnir menn lifðu í sannleikanum og það tengdi þá saman í friðsamt bræðralag, líkt og Votta Jehóva nú á dögum. (Postulasagan 10:34, 35) Í bréfi, sem birt var í The Moscow Times, sagði: „[Vottar Jehóva eru] þekktir sem einkar vinsamlegt, góðviljað og hógvært fólk og þægilegt í umgengni. Þeir beita aldrei þvingunum gagnvart öðrum og sækjast alltaf eftir friðsamlegum samskiptum . . . Meðal þeirra eru hvorki mútuþegar, drykkjumenn né fíkniefnaneytendur og ástæðan er ósköp einföld: Þeir reyna hreinlega að fara eftir biblíutengdri sannfæringu sinni í öllu sem þeir segja eða gera. Ef allir menn í heiminum reyndu að minnsta kosti að lifa í samræmi við Biblíuna, eins og Vottar Jehóva gera, yrði mikil breyting á hinni grimmu veröld sem við byggjum.“
21 Fræðibókin Encyclopedia of Early Christianity segir: „Frumkirkjan leit á sig sem eitt, nýtt mannfélag þar sem Gyðingar og heiðingjar gátu búið saman í friði og einingu, þrátt fyrir fyrri fjandskap.“ Vottar Jehóva eru einnig friðelskandi alþjóðlegt bræðralag — nýtt heimssamfélag. (Efesusbréfið 2:11-18; 1. Pétursbréf 5:9; 2. Pétursbréf 3:13) Yfiröryggisvörður Pretoria Show Grounds sýningarsvæðisins í Suður-Afríku sagði eftir að hafa séð votta Jehóva af öllum kynþáttum hittast þar í friði á móti: „Allir voru og eru háttprúðir, fólk er vingjarnlegt í tali hvert við annað og síðustu daga hefur það sýnt viðmót sem vitnar um mannkosti ykkar fólks og að allir búa saman eins og ein hamingjusöm fjölskylda.“
Umbunað fyrir að kenna sannleikann
22. Hvaða árangur hefur hlotist af því að kristnir menn skuli hafa birt sannleikann?
22 Páll og aðrir kristnir menn ‚birtu sannleikann,‘ bæði með framkomu sinni og prédikun. (2. Korintubréf 4:2) Fellst þú ekki á að Vottar Jehóva geri það einnig og kenni öllum þjóðum sannleikann? Um heim allan er fólk að tileinka sér sanna tilbeiðslu og streyma í vaxandi mæli til ‚fjallsins þar sem hús Drottins stendur.‘ (Jesaja 2:2, 3) Á ári hverju láta þúsundir manna skírast til tákns um að þær hafi vígst Guði, og margir nýir söfnuðir eru stofnaðir.
23. Hvernig líturðu á þá sem kenna öllum þjóðum sannleikann?
23 Þjónar Jehóva eru sameinaðir í sannri tilbeiðslu þó að þeir séu af ýmsum uppruna. Kærleikur þeirra er til vitnis um að þeir eru lærisveinar Jesú. (Jóhannes 13:35) Er þér ljóst að ‚Guð er sannarlega hjá þeim‘? (1. Korintubréf 14:25) Hefurðu tekið afstöðu með þeim sem kenna öllum þjóðum sannleikann? Ef svo er, sýndu þá að þú sért þakklátur fyrir sannleikann og þann heiður að mega lifa í honum að eilífu.
Hvert er svarið?
• Hvað er líkt með tilbeiðslu Votta Jehóva og frumkristinna manna?
• Hver er eina trúarhátíð þeirra sem lifa í sannleikanum?
• Hvernig líta kristnir menn á ‚yfirvöldin‘?
• Hvernig er sannleikurinn sterkt einingarband?
[Mynd á blaðsíðu 19]
Kristnar samkomur hafa alltaf verið þeim til blessunar sem lifa í sannleikanum.
[Myndir á blaðsíðu 21]
Jesús bauð fylgjendum sínum að halda minningarhátíð um fórnardauða sinn.
[Mynd á blaðsíðu 22]
Vottar Jehóva sýna „yfirvöldum“ virðingu, líkt og frumkristnir menn gerðu.