-
Hann var Guði þóknanlegurVarðturninn (almenn útgáfa) – 2017 | Nr. 1
-
-
„UM ÞESSA MENN SPÁÐI ENOK“
Enok hafði sterka trú og þess vegna kann hann að hafa verið einmana í trúlausum heimi. En Jehóva Guð tók eftir honum. Það kom að því að Jehóva miðlaði boðskap til þessa trúfasta þjóns. Hann gaf Enok boðskap sem hann átti að færa samtímamönnum sínum. Þar með var Enok orðinn spámaður Guðs, sá fyrsti sem á spádóm í Biblíunni. Við vitum það vegna þess að mörgum öldum síðar var Júdasi, hálfbróður Jesú, innblásið að skrá spádóm Enoks.a
Hver var spádómur Enoks? Hann var þessi: „Sjá, Drottinn er kominn með sínum þúsundum heilagra til að halda dóm yfir öllum, og til að sanna alla óguðlega menn seka um öll þau óguðlegu verk sem þeir hafa drýgt og um öll þau hörðu orð sem óguðlegir syndarar hafa talað gegn honum.“ (Júdasarbréfið 14, 15) Þú tókst kannski eftir því að Enok talaði í þátíð, rétt eins og Guð hefði þegar fullnægt dóminum. Þannig voru einnig margir síðari spádómar. Hugmyndin er sú að spádómurinn sé svo áreiðanlegur að hægt sé að tala um hann eins og hann hafi þegar ræst. – Jesaja 46:10.
Hvernig var fyrir Enok að flytja þennan boðskap, kannski fyrir öllum sem heyra vildu? Viðvörunin var mjög kröftug. Orðið „óguðlegir“ er notað nokkrum sinnum til að fordæma fólkið og verk þess. Í spádóminum fengu allir jarðarbúar að heyra að heimurinn, sem menn höfðu byggt upp allt frá syndafallinu í Eden, væri gjörspilltur. Sá heimur hlyti hörmuleg endalok þegar Jehóva Guð kæmi með „sínum þúsundum heilagra“ – herfylkingum máttugra engla – til að tortíma honum. Enok boðaði þessa viðvörun frá Guði óttalaust og hann var sá eini sem gerði það. Kannski dáðist hinn ungi Lamek að hugrekki afa síns. Hafi hann gert það var það vel skiljanlegt.
Trú Enoks ætti að vera okkur hvatning til að hugleiða hvort við sjáum heim nútímans sömu augum og Guð. Dómurinn, sem Enok boðaði af hugrekki, stendur enn. Hann á við heim nútímans rétt eins og heiminn á dögum Enoks. Eins og Enok varaði við lét Jehóva flóðið koma yfir óguðlegan heim á dögum Nóa. En sú eyðing var fyrirmynd að enn meiri eyðingu sem er ókomin. (Matteus 24:38, 39; 2. Pétursbréf 2:4-6) Rétt eins og þá er Guð, ásamt sínum þúsundum heilagra, í viðbragðsstöðu til að framfylgja réttlátum dómi gegn óguðlegum heimi nútímans. Við þurfum öll að taka viðvörun Enoks til okkar og segja öðrum frá henni. Fjölskylda okkar og vinir gætu fjarlægst okkur og við gætum stundum orðið einmana. En Jehóva yfirgaf Enok aldrei og hann yfirgefur heldur ekki trúfasta þjóna sína nú á dögum.
-
-
Hann var Guði þóknanlegurVarðturninn (almenn útgáfa) – 2017 | Nr. 1
-
-
a Sumir biblíufræðingar halda því fram að Júdas hafi vitnað í apókrýfubók sem er kölluð Enoksbók. En hún er staðlaus bók af óþekktum uppruna sem er ranglega eignuð Enok. Í bókinni er farið rétt með spádóm Enoks en tilvitnunin getur verið komin úr fornri heimild sem er glötuð núna – hvort sem hún var rituð eða varðveittist í munnlegri geymd. Júdas kann að hafa stuðst við sömu fornu heimild eða heyrt um Enok af Jesú sem fylgdist með ævi Enoks frá himnum.
-