FORSÍÐUEFNI | RIDDARARNIR FJÓRIR – HVAÐA ÁHRIF HAFA ÞEIR Á ÞIG?
Riddararnir fjórir Hverjir eru þeir?
Riddararnir fjórir geta virst leyndardómsfullir og ógnvekjandi en svo þarf þó ekki að vera. Biblían og atburðir sem gerst hafa á síðari tímum gera okkur kleift að skilja hvað hver og einn riddari táknar. Og jafnvel þótt reið þeirra tákni hörmungar á jörðinni getur hún einnig merkt að betri tímar séu framundan fyrir þig og fjölskyldu þína. Hvernig þá? Áður en við skoðum það skulum við líta á hvað hver riddari táknar.
RIDDARINN Á HVÍTA HESTINUM
Lýsingin á sýninni byrjar á þessum orðum: „Ég leit upp og sjá: Hvítur hestur. Sá sem á honum sat hélt á boga og honum var fengin kóróna og hann fór út sigrandi og til þess að sigra.“ – Opinberunarbókin 6:2.
Hver er riddarinn á hvíta hestinum? Svarið er að finna síðar í sömu biblíubók, Opinberunarbókinni, en þar er sagt að þessi himneski riddari beri nafnið „Orðið Guðs“. (Opinberunarbókin 19:11-13) Sá sem ber þetta heiti er Jesús Kristur því að hann gegnir því hlutverki að vera talsmaður Guðs. (Jóhannes 1:1, 14) Þar að auki er hann nefndur „Konungur konunga og Drottinn drottna“ og er kallaður „Trúr og Sannur“. (Opinberunarbókin 19:11, 16) Hann hefur greinilega vald til að stjórna sem stríðskonungur og hann misbeitir aldrei valdi sínu á nokkurn hátt. Samt sem áður vakna nokkrar spurningar.
Hver gefur Jesú vald til að sigra? (Opinberunarbókin 6:2) Spámaðurinn Daníel sá Messías í sýn „áþekkan mannssyni“ þar sem honum var falið „valdið, tignin og konungdæmið“ af engum öðrum en ,Hinum aldna‘, það er að segja Jehóva Guði.a (Daníel 7:13, 14) Það er því alvaldur Guð sem gefur Jesú valdið og réttinn til að stjórna og dæma. Hvíti hesturinn er viðeigandi tákn um réttlátt stríð sem sonur Guðs heyr þar sem hvítur litur er oft notaður í Biblíunni sem tákn um réttlæti. – Opinberunarbókin 3:4; 7:9, 13, 14.
Hvenær hófu riddararnir reið sína? Taktu eftir að fyrsti knapinn, Jesús, hefur reið sína þegar honum er fengin kóróna. (Opinberunarbókin 6:2) Hvenær var Jesús krýndur konungur á himnum? Hann var ekki krýndur konungur um leið og hann fékk upprisu til himna eftir dauða sinn. Í Biblíunni segir að þá hafi tími biðar hafist. (Hebreabréfið 10:12, 13) Jesús gaf fylgjendum sínum upplýsingar um hvernig þeir gætu séð að þessi biðtími væri á enda og að hann væri byrjaður að ríkja sem konungur á himni. Hann sagði að þegar hann yrði krýndur konungur myndu aðstæður á jörðinni breytast til hins verra. Þá brytust út stríð, drepsóttir og hungursneyðir. (Matteus 24:3, 7; Lúkas 21:10, 11) Skömmu eftir að fyrri heimstyrjöldin skall á varð ljóst að þetta erfiða tímabil í sögu mannkyns, sem Biblían kallar ,síðustu daga‘, var hafið. – 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.
En hvers vegna hafa aðstæður á jörðinni breyst til hins verra en ekki til hins betra síðan Jesús var krýndur konungur árið 1914? Vegna þess að þá byrjaði Jesús að ríkja sem konungur á himnum en ekki á jörðinni. Við það hófst stríð á himni og hinn nýkrýndi konungur, Jesús, sem kallaður er Mikael, varpaði Satan og djöflum hans niður til jarðar. (Opinberunarbókin 12:7-9, 12) Og þar sem umráðasvæði Satans er nú takmarkað við jörðina og hann veit að hann hefur nauman tíma er hann ofsareiður. Reyndar er þess skammt að bíða að Guð láti vilja sinn ná fram að ganga hér á jörð og eyði Satan. (Matteus 6:10) Skoðum nú hvernig hinir þrír knaparnir hjálpa okkur að sjá að við lifum núna á þessum erfiðu tímum sem Biblían kallar ,síðustu daga‘. Ólíkt fyrsta knapanum, sem táknaði greinilega ákveðinn einstakling, tákna hinir þrír ákveðið ástand í heiminum sem hefur áhrif á allt mannkynið.
RIDDARINN Á RAUÐA HESTINUM
„Þá gekk út annar hestur rauður. Þeim sem á honum sat var fengið sverð mikið og gefið vald að taka burt friðinn af jörðunni til þess að menn brytjuðu hverjir aðra niður.“ – Opinberunarbókin 6:4.
Þessi riddari táknar stríð. Taktu eftir að hann átti ekki einungis að taka friðinn burt frá nokkrum þjóðum heldur af allri jörðinni. Árið 1914 skall á heimsstyrjöld í fyrsta sinn í sögu mannkyns. Á eftir henni kom önnur heimsstyrjöld og henni fylgdu jafnvel enn meiri hörmungar. Talið er að meira en 100 milljónir manna hafi dáið í styrjöldum og hernaðarátökum síðan 1914. Þar að auki hefur gríðarlegur fjöldi fólks hlotið varanlegan skaða af völdum þeirra.
Að hvaða marki einkenna stríð okkar tíma? Í fyrsta sinn í sögunni hafa menn getu til að gereyða mannlífinu á jörðinni. Svokallaðar friðarstofnanir, eins og Sameinuðu þjóðirnar, hafa jafnvel ekki getað stöðvað knapann á rauða hestinum.
RIDDARINN Á SVARTA HESTINUM
„Ég leit upp og sjá: Svartur hestur og sá er á honum sat hafði vogarskálar í hendi sér. Og ég heyrði rödd koma frá verunum fjórum er sagði: ,Mælir hveitis fyrir daglaun og þrír mælar byggs fyrir daglaun en eigi skalt þú spilla olíunni og víninu.‘“ – Opinberunarbókin 6:5, 6.
Þessi riddari táknar hungur og matarskort. Í sýninni er dregin upp mynd af matarskorti sem er svo alvarlegur að einn mælir (0,7 kg) af hveiti kostar einn denar, en á fyrstu öld voru það daglaun. (Matteus 20:2) Fyrir sömu upphæð var hægt að kaupa þrjá mæla (2,1 kg) af byggi, en það var minna metið en hveiti. Hversu lengi gæti stór fjölskylda lifað á því? Fólk er síðan hvatt til að fara sparlega með matvæli sem það notar daglega eins og ólífuolíu og vín en það voru undirstöðumatvæli í menningu þess tíma.
Höfum við séð merki um að knapinn á svarta hestinum hafi haldið reið sinni áfram síðan 1914? Svo sannarlega! Um 70 milljónir manna dóu úr hungri á 20. öldinni. Yfirvöld á einum stað telja að „805 milljónir manna – einn af hverjum níu jarðarbúum – hafi verið vannærðar á árunum 2012-2014.“ Í annarri skýrslu segir: „Hungur dregur fleiri til dauða á hverju ári en alnæmi, malaría og berklar til samans.“ Þrátt fyrir einlæga viðleitni margra til að fæða þá sem eru hungraðir heldur knapinn á svarta hestinum áfram reið sinni.
RIDDARINN Á BLEIKA HESTINUM
„Ég leit upp og sjá: Bleikur hestur og sá er á honum sat hét Dauði, og Hel var í för með honum. Þeim var gefið vald yfir fjórða hluta jarðarinnar og áttu að deyða mennina í styrjöldum, í hungursneyð og drepsóttum og láta menn farast fyrir villidýrum jarðarinnar.“ – Opinberunarbókin 6:8.
Fjórði riddarinn táknar drepsóttir og fleiri ógnir. Skömmu eftir 1914 braust spænska veikin út og lagði að velli tugi milljóna manna. Hugsanlega veiktust um 500 milljónir af henni, eða um það bil 1 af hverjum 3 jarðarbúum á þeim tíma.
En spænska veikin var bara byrjunin. Sérfræðingar áætla að hundruð milljónir manna hafi dáið af völdum bólusóttar á 20. öldinni. Fram á okkar daga hafa margar milljónir látið lífið um aldur fram sökum alnæmis, berkla og malaríu þrátt fyrir miklar framfarir í læknavísindum.
Stríð, hungursneyðir og drepsóttir hafa lagt að velli gríðarlegan fjölda fólks. Og gröfin, eða „Hel“, tekur vægðarlaust til sín fórnarlömbin og gefur þeim enga von.
BETRI TÍMAR ERU FRAMUNDAN!
Þessir erfiðu tímar, sem við lifum á, taka brátt enda. Mundu að Jesús „fór út sigrandi“ árið 1914 og takmarkaði umráðasvæði Satans við jörðina. En Jesús lauk ekki sigrinum þá. (Opinberunarbókin 6:2; 12:9, 12) Bráðlega, í Harmagedón, afmáir Jesús öll áhrif Satans og eyðir þeim sem styðja hann. (Opinberunarbókin 20:1-3) Jesús mun ekki aðeins stöðva reið riddaranna þriggja heldur gera að engu þær skaðlegu afleiðingar sem reið þeirra hefur haft í för með sér fyrir mannkynið. Hvernig þá? Skoðum hverju Biblían lofar.
Í stað styrjalda mun friður ríkja. Jehóva „stöðvar stríð til endimarka jarðar, brýtur bogann, mölvar spjótið.“ (Sálmur 46:10) Friðelskandi fólk mun þá „gleðjast yfir miklu gengi“. – Sálmur 37:11.
Í stað hungurs og matarskorts verður nægur matur handa öllum. ,Gnóttir korns verða í landinu, það bylgjast á fjallatindunum.‘ – Sálmur 72:16.
Í stað sjúkdóma og dauða hljóta allir fullkomna heilsu og eilíft líf. Guð mun „þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ – Opinberunarbókin 21:4.
Þegar Jesús var hér á jörð gaf hann forsmekk af því hvernig lífið yrði í framtíðinni undir stjórn hans. Hann stuðlaði að friði, gaf þúsundum manna að borða fyrir kraftaverk, læknaði sjúka og reisti jafnvel dána upp til lífs á ný. – Matteus 12:15; 14:19-21; 26:52; Jóhannes 11:43, 44.
Vottar Jehóva eru meira en fúsir að sýna þér með hjálp Biblíunnar hvernig þú getur verið undirbúinn þegar reið þessara riddara endar. Hefurðu áhuga á að vita meira?
a Jehóva er nafn Guðs samkvæmt frummálum Biblíunnar.