Mikill múgur sem veitir heilaga þjónustu
„þeir veita honum heilaga þjónustu dag og nótt í musteri hans.“ — OPINBERUNARBÓKIN 7:15, NW.
1. Hvaða tímamót urðu í sambandi við andlegan skilning árið 1935?
HINN 31. maí 1935 ríkti mikil gleði meðal gesta á móti votta Jehóva í Washington, D.C. Þar kom greinilega fram í fyrsta sinn hvernig múgurinn mikli í Opinberunarbókinni 7:9 samræmdist öðru í Biblíunni og þeirri atburðarás sem komin var af stað.
2. Hvað gaf til kynna að æ fleiri gerðu sér ljóst að Guð hafði ekki kallað þá til að lifa á himnum?
2 Um sex vikum áður, þegar kvöldmáltíð Drottins var haldin hátíðleg í söfnuðum votta Jehóva, höfðu 10.681 viðstaddra (um 1 af hverjum 6) ekki tekið af brauðinu og víninu, og af þeim voru 3688 virkir boðberar Guðsríkis. Hvers vegna tóku þeir ekki af brauðinu og víninu? Vegna þess að þeim var ljóst af því sem þeir höfðu lært af Biblíunni að Guð hafði ekki kallað þá til að lifa á himnum heldur gátu þeir öðlast hlutdeild í kærleiksríkum ráðstöfunum hans á annan hátt. Hvað gerðist þá á þessu móti þegar ræðumaðurinn spurði: „Vildu allir þeir sem hafa von um að lifa að eilífu á jörðinni rísa úr sætum“? Þúsundir viðstaddra stóðu upp og í kjölfarið kom langt lófatak.
3. Af hverju var skilningur á múginum mikla lyftistöng fyrir boðunarstarfið og hvað fannst vottunum um það?
3 Það sem mótsgestir lærðu á þessu móti var lyftistöng fyrir þjónustu þeirra. Þeir skildu að núna, fyrir endalok hins gamla heimskerfis, yrði ekki aðeins fáeinum þúsundum manna heldur miklum múgi veitt tækifæri til að lifa eilíflega í paradís á jörð í samræmi við ráðstafanir Jehóva til varðveislu lífs. Þetta var sannarlega hjartnæmur boðskapur fyrir sannleiksunnandi menn! Vottar Jehóva gerðu sér ljóst að mikið starf — en gleðilegt — var framundan. Mörgum árum síðar sagði John Booth sem á núna sæti í hinu stjórnandi ráði: „Mótið gaf okkur margt til að gleðjast yfir.“
4. (a) Að hvaða marki hefur múginum mikla verið safnað saman frá 1935? (b) Á hvaða hátt gefa þeir sem mynda múginn mikla merki um lifandi trú sína?
4 Á næstu árum fjölgaði vottum Jehóva gríðarlega. Þeir nálega þrefölduðust á innan við áratug, þrátt fyrir ofsóknir, oft grimmilegar, sem þeir urðu fyrir á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Og þeim 56.153 boðberum Guðsríkis, sem tóku þátt í opinberu prédikunarstarfi árið 1935, hafði fjölgað upp í liðlega 4.900.000 í meira en 230 löndum árið 1994. Langflestir þeirra horfa með mikilli eftirvæntingu til þess að verða meðal þeirra sem Jehóva veitir fullkomið líf í paradís á jörð. Í samanburði við litlu hjörðina eru þeir svo sannarlega orðinn mikill múgur. Þetta eru ekki menn sem segjast hafa trú en sýna hana ekki í verki. (Jakobsbréfið 1:22; 2:14-17) Allir segja þeir öðrum frá fagnaðarerindinu um Guðsríki. Ert þú í þessum glaða hópi? Að vera virkur vottur er mikilvægt kennimark, en það þarf meira til.
„Þeir stóðu frammi fyrir hásætinu“
5. Hvað er gefið til kynna með því að múgurinn mikli skuli ‚standa frammi fyrir hásætinu‘?
5 Í sýninni, sem Jóhannes postuli fékk að sjá, sá hann þá ‚standa frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu.‘ (Opinberunarbókin 7:9) Að standa frammi fyrir hásæti Guðs gefur í þessu samhengi til kynna að þeir viðurkenni drottinvald Jehóva fullkomlega. Það felur margt í sér, meðal annars að (1) þeir viðurkenna rétt Jehóva til að ákveða fyrir þjóna sína hvað sé gott og hvað sé illt. (1. Mósebók 2:16, 17; Jesaja 5:20, 21) (2) Þeir hlusta á Jehóva þegar hann talar til þeirra í orði sínu. (5. Mósebók 6:1-3; 2. Pétursbréf 1:19-21) (3) Þeir skilja þýðingu þess að vera undirgefnir þeim sem Jehóva hefur falið forystu og umsjón. (1. Korintubréf 11:3; Efesusbréfið 5:22, 23; 6:1-3; Hebreabréfið 13:17) (4) Þrátt fyrir ófullkomleika sinn leggja þeir sig einlæglega fram við að fylgja guðræðislegri leiðsögn, ekki með ólund heldur fúslega og af öllu hjarta. (Orðskviðirnir 3:1; Jakobsbréfið 3:17, 18, NW) Þeir standa frammi fyrir hásætinu til að veita Jehóva heilaga þjónustu, enda bera þeir djúpa virðingu fyrir honum og elska hann heitt. Að þessi mikli múgur skuli ‚standa‘ frammi fyrir hásætinu merkir að hann sem á því situr hefur velþóknun á þeim. (Samanber Opinberunarbókina 6:16, 17) Á hverju byggist sú velþóknun?
„Skrýddir hvítum skikkjum“
6. (a) Hvað merkir það að múgurinn mikli skuli vera ‚skrýddur hvítum skikkjum‘? (b) Hvernig öðlast múgurinn mikli réttláta stöðu frammi fyrir Jehóva? (c) Í hvaða mæli hefur trú á úthellt blóð Krists áhrif á líf þeirra sem mynda múginn mikla?
6 Í lýsingu Jóhannesar postula á því sem hann sá segir að þessi mikli múgur hafi verið ‚skrýddur hvítum skikkjum.‘ Þessar hvítu skikkjur tákna hreina, réttláta stöðu þessara manna frammi fyrir Jehóva. Hvernig komust þeir í þessa stöðu? Við höfum þegar tekið eftir að í sýn Jóhannesar stóðu þeir „frammi fyrir lambinu.“ Þeir viðurkenna Jesú Krist sem „Guðs lamb, sem ber synd heimsins.“ (Jóhannes 1:29) Jóhannes heyrði einn af öldungunum, sem stóð hjá hásæti Guðs í sýninni, segja: „Þeir . . . hafa þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins. Þess vegna eru þeir frammi fyrir hásæti Guðs.“ (Opinberunarbókin 7:14, 15) Í táknrænni merkingu hafa þeir þvegið skikkjur sínar með því að trúa á lausnarblóð Krists. Viðurkenning þeirra á lausnargjaldskenningu Biblíunnar er ekki bara huglæg. Þeir meta þessa ráðstöfun svo mikils að hún hefur áhrif á þeirra innri mann, þannig að þeir trúa „með hjartanu.“ (Rómverjabréfið 10:9, 10) Það hefur víðtæk áhrif á hvernig þeir verja lífi sínu. Í trú vígjast þeir Jehóva á grundvelli fórnar Krists, gefa tákn um þessa vígslu með niðurdýfingarskírn og lifa síðan samkvæmt vígsluheiti sínu. Þannig njóta þeir viðurkenningar Guðs og eiga náið samband við hann. Þetta eru mikil sérréttindi sem ber að gæta vandlega. — 2. Korintubréf 5:14, 15.
7, 8. Hvernig hefur skipulag Jehóva hjálpað múginum mikla að halda klæðum sínum óflekkuðum?
7 Skipulag Jehóva ber ástríka umhyggju fyrir varanlegri velferð þeirra og hefur margsinnis bent á viðhorf og háttalag sem geta flekkað eða óhreinkað einkennisklæði þeirra, þannig að þeir myndu ekki í reynd samsvara spádómslýsingu Opinberunarbókarinnar 7:9, 10 þótt þeir héldu öðru fram út á við. (1. Pétursbréf 1:15, 16) Árið 1941 og eftir það ítrekaði Varðturninn það sem blaðið hafði áður sagt og benti margsinnis á að það væri með öllu óviðeigandi að prédika fyrir öðrum en drýgja síðan hór eða gera eitthvað annað rangt. (1. Þessaloníkubréf 4:3; Hebreabréfið 13:4) Árið 1947 var lögð áhersla á að kristnir staðlar Jehóva um hjónaband giltu í öllum löndum heims, og að óháð því hvað staðbundnar siðvenjur leyfðu gætu þeir sem lifðu áfram í fjölkvæni ekki verið vottar um Jehóva. — Matteus 19:4-6; Títusarbréfið 1:5, 6.
8 Árið 1973 var vottum Jehóva um heim allan sýnt fram á að þeir yrðu allir að halda sér frá hverju því sem óneitanlega væri saurgandi, svo sem tóbaksnotkun. Ekki væri nóg að forðast tóbak aðeins í ríkissalnum og boðunarstarfinu heldur yrði líka að gera það á vinnustað og eins þar sem aðrir sæju ekki til. (2. Korintubréf 7:1) Árið 1987 var lögð þung áhersla á það á umdæmismótum votta Jehóva að unglingar yrðu að varast að lifa tvöföldu lífi ef þeir vildu standa hreinir frammi fyrir Guði. (Sálmur 26:1, 4) Varðturninn hefur aftur og aftur varað við anda heimsins í sínum ýmsu myndum, vegna þess að „hrein og flekklaus guðrækni fyrir Guði og föður“ felur meðal annars í sér að „varðveita sjálfan sig óflekkaðan af heiminum.“ — Jakobsbréfið 1:27.
9. Hverjir munu standa viðurkenndir frammi fyrir hásæti Guðs eftir þrenginguna miklu?
9 Það eru þeir sem trúin knýr til að vera andlega og siðferðilega hreinlífir sem munu enn ‚standa frammi fyrir hásætinu‘ sem viðurkenndir þjónar Guðs eftir hina komandi miklu þrengingu. Þetta eru þeir sem ekki bara byrja að lifa kristilegu lífi heldur halda því þrautgóðir og trúfastir áfram. — Efesusbréfið 4:24, NW.
„Höfðu pálmagreinar í höndum“
10. Hvaða þýðingu hafa pálmagreinarnar sem Jóhannes sá múginn mikla halda á?
10 Eitt áberandi einkenni múgsins mikla, sem Jóhannes tók eftir, var að ‚hann . . . hafði pálmagreinar í höndum.‘ Hvaða þýðingu hefur það? Vafalaust minntu þessar pálmagreinar Jóhannes á laufskálahátíð Gyðinga, mestu gleðihátíðina á almanaki Hebrea sem haldin var eftir sumaruppskeruna. Eins og lögmálið kvað á um gerðu menn sér laufskála úr pálmagreinum og öðrum trjágreinum og dvöldu í þeim meðan á hátíðinni stóð. (3. Mósebók 23:39, 40; Nehemíabók 8:14-18) Musterisgestir veifuðu einnig pálmagreinum þegar hallelsálmarnir voru sungnir. (Sálmar 113-118) Pálmagreinarnar í höndum múgsins mikla minntu Jóhannes vafalaust líka á það er Jesús reið inn í Jerúsalem og mannfjöldinn veifaði pálmagreinum og hrópaði fagnandi: „Blessaður sé sá, sem kemur, í nafni [Jehóva], konungur Ísraels!“ (Jóhannes 12:12, 13) Pálmagreinarnar, sem múgurinn mikli veifar, gefur þannig til kynna að hann fagni ríki Jehóva og smurðum konungi þess.
11. Af hverju hafa þjónar Jehóva ósvikna gleði af þjónustu sinni við hann?
11 Það er slíkur gleðiandi sem múgurinn mikli sýnir nú þegar í þjónustu sinni við Jehóva. Þar með er ekki sagt að hann verði ekki fyrir neinum erfiðleikum eða finni aldrei til sorgar eða sársauka. Ánægjan, sem fylgir því að þjóna og þóknast Jehóva, vegur hins vegar að nokkru leyti upp á móti því. Trúboðasystir, sem þjónaði ásamt manni sínum í 45 ár í Gvatemala, sagði til dæmis frá þeim frumstæðu skilyrðum er voru umhverfis þau, erfiðinu og hættulegum ferðalögum sem voru samfara því að ná til indíánaþorpanna með boðskapinn um Guðsríki. Hún sagði samt að lokum: „Þetta var framúrskarandi hamingjuríkur ævikafli.“ Enda þótt elli og sjúkdómar væru farnir að segja til sín var eitt það síðasta, sem hún skrifaði í dagbókina sína, á þessa leið: „Þetta var mjög ánægjulegt og umbunarríkt líf.“ Vottar Jehóva um heim allan hugsa eins um þjónustu sína.
‚Heilög þjónusta dag og nótt‘
12. Hvað sér Jehóva hér á jörð jafnt á nóttu sem degi?
12 Þessir glöðu guðsdýrkendur veita Jehóva „heilaga þjónustu dag og nótt í musteri hans.“ (Opinberunarbókin 7:15, NW) Um allan heim taka milljónir manna þátt í þessari heilögu þjónustu. Þegar nótt er í sumum löndum og fólk í svefni er sól hátt á lofti annars staðar og vottar Jehóva önnum kafnir að prédika. Meðan jörðin snýst um möndul sinn syngja þeir Jehóva stöðugt lof dag og nótt. (Sálmur 86:9) En sú þjónusta, sem Opinberunarbókin 7:15 talar um að veitt sé nótt sem dag, er enn persónulegri.
13. Hvernig gefur Biblían til kynna hvað átt er við með þjónustu „dag og nótt“?
13 Þeir sem mynda múginn mikla veita heilaga þjónustu dag og nótt. Merkir það að allt sem þeir gera skuli álitið heilög þjónusta? Vissulega temja þeir sér að gera alla hluti þannig að þeir heiðri Jehóva. (1. Korintubréf 10:31; Kólossubréfið 3:23) En ‚heilög þjónusta‘ á aðeins við það sem snertir beinlínis tilbeiðslu okkar á Guði. Að taka þátt í einhverju „dag og nótt“ gefur til kynna reglufestu eða ástundun og einlæga viðleitni. — Samanber Jósúabók 1:8; Lúkas 2:37; Postulasöguna 20:31; 2. Þessaloníkubréf 3:8.
14. Hvernig getum við látið boðunarstarf okkar samsvara lýsingunni um þjónustu „dag og nótt“?
14 Meðan múgurinn mikli þjónar í jarðneskum forgörðum hins mikla andlega musteris Jehóva leitast hann við að taka reglulega og stöðuglega þátt í boðunarstarfinu. Margir hafa sett sér það markmið að taka einhvern þátt í boðunarstarfinu í hverri viku. Aðrir leggja hart að sér sem reglulegir brautryðjendur eða aðstoðarbrautryðjendur. Oft eru þeir önnum kafnir að bera vitni á götum úti og í verslunum snemma morguns. Sumir vottar nema Biblíuna með áhugasömu fólki seint á kvöldin ef það er eini tíminn sem það hefur aflögu. Þeir bera vitni þegar þeir eru úti að versla, á ferðalögum, í matartímum og símleiðis.
15. Hvað annað en boðunarstarfið er fólgið í heilagri þjónustu okkar?
15 Þátttaka í safnaðarsamkomum er líka hluti af heilagri þjónustu okkar. Hið sama er að segja um vinnu við byggingu og viðhald kristinna samkomustaða. Með því að hvetja kristna bræður okkar og systur og hjálpa þeim efnislega og andlega að vera virk í þjónustu Jehóva erum við líka að veita heilaga þjónustu. Starf spítalasamskiptanefnda, Betelþjónusta í sínum ýmsu myndum og sjálfboðaþjónusta á mótum okkar er allt heilög þjónusta. Heilög þjónusta fyllir líf okkar ef samband okkar við Jehóva er þungamiðjan í því. Eins og ritningarstaðurinn segir veitir fólk Jehóva „heilaga þjónustu dag og nótt“ og hefur mikið yndi af því. — Postulasagan 20:35; 1. Tímóteusarbréf 1:11, Bi 1912.
„Af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum“
16. Hvernig sjáum við múginn mikla streyma að frá öllum þjóðum?
16 Múgurinn mikli streymir að frá öllum þjóðum. Guð fer ekki í manngreinarálit og lausnargjaldsráðstöfun hans með Jesú Krist meira en nægir handa öllum. Þegar fyrst voru borin kennsl á múginn mikla árið 1935 voru vottar Jehóva starfandi í 115 löndum. Þegar kom fram á tíunda áratuginn var leitin að sauðumlíkum mönnum búin að teygja sig til meira en tvöfalt fleiri landa. — Markús 13:10.
17. Hvað er verið að gera til að hjálpa fólki af öllum „kynkvíslum og lýðum og tungum“ að verða hluti af múginum mikla?
17 Við leitina að verðandi meðlimum múgsins mikla hafa vottar Jehóva ekki aðeins gefið gaum að heilum þjóðum heldur einnig ættkvíslum, þjóðabrotum og tungumálahópum innan þeirra. Vottarnir gefa út biblíurit á meira en 300 tungumálum til að ná til þessa fólks. Til þess þarf að þjálfa og viðhalda samstarfshópum hæfra þýðenda, og láta þeim í té tölvubúnað til að meðhöndla öll þessi tungumál, auk þess að prenta sjálf ritin. Á síðastliðnum fimm árum hafa bæst við listann 36 tungumál sem eru töluð af 98.000.000 manna. Að auki leitast vottarnir við að heimsækja þetta fólk persónulega og hjálpa því að skilja orð Guðs. — Matteus 28:19, 20.
„Úr þrengingunni miklu“
18. (a) Hverjir verða verndaðir þegar þrengingin mikla skellur á? (b) Hvaða gleðiyfirlýsingar heyrast þá?
18 Þegar englarnir sleppa eyðingarvindunum lausum, sem minnst er á í Opinberunarbókinni 7:1, munu bæði hinir smurðu ‚þjónar Guðs‘ og eins múgurinn mikli, sem hefur sameinast þeim í sannri tilbeiðslu, njóta ástríkrar verndar Jehóva. Eins og Jóhannesi postula var sagt koma þeir sem mynda múginn mikla lifandi „úr þrengingunni miklu.“ Fullir þakklætis lofa þeir Guð hárri röddu: „Hjálpræðið heyrir til Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.“ Og allir drottinhollir þjónar Guðs á himnum munu taka undir og lýsa yfir: „Amen, lofgjörðin og dýrðin, viskan og þakkargjörðin, heiðurinn og mátturinn og krafturinn sé Guði vorum um aldir alda. Amen.“ — Opinberunarbókin 7:10-14.
19. Hvaða ánægjulegu starfi munu þeir sem komast af taka ákafir þátt í?
19 Það verður mikill gleðitími! Allir lifandi menn verða þjónar hins eina sanna Guðs. Mesta gleði þeirra allra verður sú að þjóna Jehóva. Og það verður mikið verk að vinna — en mjög ánægjulegt! Breyta á jörðinni í paradís. Þúsundir milljóna látinna manna verða reistar upp og síðan fræddar um vegu Jehóva. Hvílík gleði og sérréttindi að fá að vera með í öllu þessu!
Hverju svarar þú?
◻ Hvaða áhrif höfðu atburðir, sem gerðust árið 1935, á boðunarstarf votta Jehóva?
◻ Hvað er gefið til kynna með því að múgurinn mikli ‚stendur frammi fyrir hásætinu‘?
◻ Hvaða áhrif ætti þakklæti fyrir blóð lambsins að hafa á líf okkar?
◻ Hvað táknar það að múgurinn mikli veifar pálmagreinum?
◻ Hvernig veitir múgurinn mikli heilaga þjónustu dag og nótt?
[Mynd á blaðsíðu 32]
Heilög þjónusta þeirra einkennist af reglufestu, kostgæfni og einlægri viðleitni.