Dómstund Guðs er komin
„Óttist Guð og gefið honum dýrð, því að komin er stund dóms hans.“ — OPINBERUNARBÓKIN 14:7.
1. Hvað innihalda fyrstu kaflar Opinberunarbókarinnar?
OPINBERUNARBÓKIN inniheldur hrífandi spádóma sem rætast á okkar dögum. Í greininni á undan var fjallað um suma þeirra, meðal annars það er hin sjö táknrænu innsigli voru rofin. Þegar þessi innsigli höfðu verið rofin birtust fjórir riddarar sem höfðu ógn og erfiðleika í för með sér á „síðustu dögum.“ (2. Tímóteusarbréf 2:1; Opinberunarbókin 6:1-8) Þar var líka sagt frá þeim sem munu ríkja með Kristi á himnum og þeim sem munu lifa af ‚þrenginguna miklu‘ og eiga í vændum eilíft líf á jörð. Innsiglin sex sýna greinilega að hinn tiltekni tími Guðs til að fullnægja dómi „er í nánd.“ — Opinberunarbókin 1:3; 7:4, 9-17.
2. Hvernig á að nota hinar sjö táknrænu básúnur í 8. kafla Opinberunarbókarinnar?
2 Enn er eitt innsigli órofið, hið sjöunda. Opinberunarbókin 8:2 segir okkur frá því sem opinberast þegar þetta síðasta innsigli er rofið. Það segir: „Og ég sá englana sjö, sem stóðu frammi fyrir Guði, og þeim voru fengnar sjö básúnur.“ Vers 6 segir: „Og englarnir sjö, sem héldu á básúnunum sjö, bjuggu sig til að blása.“ Á biblíutímanum voru básúnur notaðar til að gefa merki um mikilvæga atburði. Á sama hátt vekur það þegar blásið er í þessar sjö básúnur athygli á málefnum sem varða líf og dauða nú á okkar tímum. Og meðan englarnir blása í básúnurnar fylgja mennskir vottar á jörðinni því eftir með því að útbreiða þær þýðingarmiklu fregnir sem hver básúnublástur boðar.
Það sem básúnublásturinn merkir
3. Hvað merkir það að blásið er í básúnurnar sjö?
3 Básúnublásturinn minnir okkur á plágurnar sem Jehóva úthellti yfir Egypta til forna. Í þessum plágum birtust dómar Jehóva yfir fyrsta heimsveldi mannkynssögunnar og falstrúarbrögðum þess, en þær opnuðu líka þjóð Guðs undankomuleið. Básúnublástur Opinberunarbókarinnar eru plágur sem nú á tímum koma yfir gervallan heim Satans og falstrúarbrögð hans. Þetta eru þó ekki bókstaflegar plágur heldur birtast þær í mynd boðskapar um dóma Jehóva sem er eins og plága. Básúnuhljómurinn bendir líka þjónum Guðs á undankomuleiðina.
4. Hvernig hefur básúnublásturinn uppfyllst á okkar tímum?
4 Í samræmi við það að blásið var í hinar sjö básúnur voru gefnar út harðorðar yfirlýsingar á sjö, sérstökum, árlegum mótum þjóna Jehóva á árunum 1922 til 1928. Dreift var hundruðum milljóna eintaka af þessum yfirlýsingum. En boðun þessara hörðu tíðinda einskorðaðist ekki við þessi ár heldur hefur hún haldið áfram út í gegnum hina síðustu daga. Og núna er hún öflugri en nokkru sinni fyrr þegar milljónir af hinum ‚mikla múgi‘ hafa tekið undir raust hins litla hóps smurðra kristinna manna sem prédikaði fyrst eftir fyrri heimsstyrjöldina. (Opinberunarbókin 7:9) Ár hvert boða þessar milljónir í vaxandi fjölda og af vaxandi þrótti að heimur Satans sé gjörsamlega dæmdur.
5. Hver er sá ‚þriðjungur‘ heimsins sem fær fyrst óhagstæðan dóm og hvers vegna?
5 Í Opinberunarbókinni 8:6-12 er blásið í fyrstu fjórar básúnurnar. Úthellt er hagli, eldi og blóði sem hefur í för með sér eyðingu fyrir ‚þriðjung‘ heimsins. Hvers vegna er ‚þriðjungur‘ nefndur sem hinn seki hluti heimsins er taka skuli út dóm sinn fyrst? Vegna þess að þótt allt kerfi Satans sé ámælisvert í augum Guðs er einn hluti hans langverstur. Hvaða hluti? Sá hluti sem kennir sig við nafn Krists — kristni heimurinn! Og þegar dómsboðskapur Guðs kom yfir kristna heiminn eftir fyrri heimsstyrjöldina taldi hann um þriðjung mannkyns.
6. Hvers vegna hefur Jehóva ofurselt kristna heiminn eyðingu?
6 Trúarbrögð kristna heimsins eru ávöxtur nítján alda fráhvarfs frá sannri kristni, fráhvarfs sem Jesús og lærisveinar hans sögðu fyrir. (Matteus 13:24-30; Postulasagan 20:29, 30) Klerkar kristna heimsins ganga fram sem kennarar kristninnar, en kenningar þeirra eru í órafjarlægð frá sannindum Biblíunnar og spillt verk þeirra eru nafni Guðs sífellt til lasts. Blóðsekt þeirra fyrir að styðja styrjaldir 20. aldarinnar hefur verið afhjúpuð. Kristni heimurinn er í öllum atriðum hluti af heimskerfi Satans. Hann fær því frá Jehóva kröftugan boðskap sem er eins og plága fyrir hann og sýnir að hann verðskuldar ekki minnstu velvild frá Guði. Jehóva hefur yfirgefið hús kristna heimsins til að því verði tortímt alveg eins og hann yfirgaf hús Gyðinganna á fyrstu öld! — Matteus 23:38.
Lífgaðir til prédikunar um allan heim
7, 8. (a) Hvað leiðir fimmti básúnublásturinn í ljós í 9. kafla Opinberunarbókarinnar? (b) Hverja tákna engispretturnar?
7 Í Opinberunarbókinni 9:1 blæs fimmti engillinn í básúnu sína og í sýninni kemur í ljós stjarna sem komið hafði niður til jarðar. Þessi stjarna hefur lykil í hendi sér. Með henni opnar hún undirdjúp þar sem mikil engisprettumergð hefur verið innilokuð. Stjarnan er hinn nýkrýndi konungur, Jesús Kristur. Engispretturnar eru þjónar Guðs sem voru ofsóttir og, að því er virtist, rutt úr vegi þegar forystumenn þeirra voru fangelsaðir árið 1918. En Kristur, sem núna er máttugur konungur, leysir þá þannig að þeir geti tekið aftur til við sína opinberu prédikun, til mikils angurs fyrir klerkana sem höfðu ráðgert að stöðva starf þeirra fyrir fullt og allt. — Matteus 24:14.
8 Opinberunarbókin 9:7 lýsir engisprettunum þannig: „Ásýndum voru engispretturnar svipaðar hestum, búnum til bardaga, og á höfðum þeirra voru eins og kórónur úr gulli, og ásjónur þeirra voru sem ásjónur manna.“ Tíunda versið bætir við: „Þær hafa hala og brodda eins og sporðdrekar.“ Þessar engisprettur eru góð táknmynd hinna endurlífguðu leifa erfingja Guðsríkis er þær héldu aftur út í sinn andlega hernað frá og með 1919. Af endurnýjuðum þrótti boðuðu þeir hina stingandi dóma Guðs, einkum gegn hinum spillta kristna heimi.
9, 10. (a) Hvað leiðir sjötti básúnublásturinn í ljós? (b) Hverjir eru hluti af hinum kraftmiklu hestum sem teljast í tíþúsundum?
9 Þessu næst blæs sjötti engillinn í básúnu sína. (Opinberunarbókin 9:13) Þá er sleppt lausu riddaraliði. Sextánda versið segir að liðsaflinn sé „tveim sinnum tíu þúsundir tíu þúsunda,“ það er að segja 200 milljónir! Og í 17. og 19. versi er þeim lýst svo: „Höfuð hestanna voru eins og höfuð ljóna. Af munnum þeirra gekk út eldur, reykur og brennisteinn. . . . Tögl þeirra eru lík höggormum.“ Þessir herir geysast fram undir forystu konungsins, Krists Jesú. Þeir eru ógnvekjandi sjónarspil!
10 Hvað tákna þessir kraftmiklu hestar? Þar eð þeir teljast í milljónum geta þeir ekki táknað aðeins hinar smurðu leifar sem eru núna aðeins um 8800 á jörðinni. Þetta mikla hestastóð hlýtur að innifela ‚múginn mikla‘ í 7. kafla Opinberunarbókarinnar, þá sem hafa von um að lifa að eilífu á jörðinni. Í Biblíunni er orðið sem þýtt er ‚tíu þúsundir‘ oft notað um mikinn, ótiltekinn fjölda. Þessir táknrænu hestar tákna því ekki aðeins hinar smurðu leifar, sem nú fer fækkandi, heldur líka hinar atorkumiklu milljónir ‚múgsins mikla‘ sem halda áfram því opinbera starfi sem leifarnar, líkt við engisprettur, hófu. — Jóhannes 10:16.
11. Hvers vegna er sagt að ‚vald hestanna sé í munni þeirra‘ og hvernig ‚granda þeir með töglum sínum‘?
11 Opinberunarbókin 9:19 segir: „Vald hestanna er í munni þeirra og í töglum þeirra . . . og með þeim granda þeir.“ Í hvaða skilningi er vald í munni þeirra? Þeim að um áratuga skeið hefur þjónum Guðs verið kennt í Guðveldisskólanum og á öðrum samkomum hvernig prédika eigi dómsboðskap Guðs valdsmannslega með orðum munnsins. Og hvernig granda þeir með töglunum? Í þeim skilningi að þeir hafa dreift biblíuritum í milljarðatali um allan heim, skilið eftir sig stingandi boðskap gegn heimi Satans. Í augum andstæðinganna er þetta riddaralið eins og tíþúsundir tíþúsunda.
12. Hvað verða engispretturnar og hestarnir táknrænu að halda áfram að gera og með hvaða afleiðingum?
12 Hinar táknrænu engisprettur og hestarnir verða þannig að láta þennan boðskap hljóma skýrar og hærra eftir því sem hefndardagur Guðs nálgast. Fyrir þá sem hafa hreint hjarta er boðskapurinn um Guðsríki bestu fréttirnar sem til eru á jörðinni. Fyrir þá sem vilja fylgja heimi Satans er hann ill tíðindi því að hann merkir að heimur þeirra verður brátt lagður í rúst.
13. Hvað felst í ‚þriðja veiinu‘ sem er tengt sjöunda básúnublæstrinum, og hvernig er það ‚vei‘?
13 Engisprettuplágunni og riddarasveitinni er lýst sem fyrsta og öðru „veii“ af þrem sem Guð ákvarðar. (Opinberunarbókin 9:12; 11:14) Hvert er þriðja „veiið“? Í Opinberunarbókinni 10:7 er okkur sagt: „Þegar kemur að rödd sjöunda engilsins og hann fer að básúna, mun fram koma leyndardómur Guðs, eins og hann hafði boðað þjónum sínum, spámönnunum.“ Þessi heilagi leyndardómur fjallar meðal annars um ‚sæðið‘ sem fyrst var heitið í Eden. (1. Mósebók 3:15) Þetta „sæði“ er fyrst og fremst Kristur og í öðru lagi smurðir félagar hans sem munu ríkja með honum á himnum. Hinn heilagi leyndardómur varðar því hið himneska ríki Guðs. Þetta ríki lætur koma þriðja „veiið,“ sem Guð hefur ákveðið, því að það fullnægir til enda dómi Guðs á heimi Satans.
Guðsríki er stofnsett
14. Hvað boðar sjöundi básúnublásturinn í Opinberunarbókinni 11:15?
14 Og núna gerist það! Opinberunarbókin 11:15 segir: „Og sjöundi engillinn básúnaði. Þá heyrðust raddir miklar á himni er sögðu: ‚Drottinn [Jehóva] og Kristur hans hafa fengið vald yfir heiminum og hann mun ríkja um aldir alda.‘“ Já, nú er tilkynnt að Guðsríki í höndum Krists hafi loksins verið stofnsett á himnum tímamótaárið 1914. Og þegar leifarnar voru endurlífgaðar eftir fyrri heimsstyrjöldina héldu þær þessum tíðindum hátt á lofti.
15. Hvað gaf merki um stóraukna prédikun Guðsríkis árið 1922?
15 Á móti þjóna Jehóva í Cedar Point í Ohio í Bandaríkjunum árið 1922 heyrðu þær þúsundir, sem viðstaddar voru, þessa hrífandi tilkyningu: „Núna er dagur daganna. Sjáið, konungurinn ríkir! Þið eruð upplýsingafulltrúar hans! Þess vegna kunngerið, kunngerið, kunngerið konunginn og ríki hans.“ Það var upphaf þróttmikillar, opinberrar prédikunar um Guðsríki sem hefur falið í sér boðun þeirra dóma sem englarnir sjö með básúnurnar kunngerðu. Núna taka nærfellt þrjár og hálf milljón þjóna Guðs í meira en 57.000 söfnuðum út um allan heim þátt í prédikun Guðsríkis. Þar eru sannarlega tíþúsundir á ferð!
16. Hvaða þróun tengd himni og jörð kom í ljós í 12. kafla Opinberunarbókarinnar samfara sjöunda básúnublæstrinum?
16 En sjöundi engillinn hafði fleira að opinbera. Opinberunarbókin 12:7 segir að þá hafi ‚stríð hafist á himni.‘ Níunda versið lýsir afleiðingunum af aðgerðum konungsins Krists svo: „Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi, sem heitir djöfull og Satan, honum sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina, og englum hans var varpað niður með honum.“ Vers 12 bætir við: „Fagnið því himnar og þér sem í þeim búið.“ Já, himnarnir voru hreinsaðir af áhrifum Satans sem var hinum trúföstu englum mikið gleðiefni. En hvað hefur það í för með sér fyrir mannkynið? Sama vers svarar: „Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“
17. Hvers vegna er það viðeigandi að lýsa stjórnum veraldar sem ‚villidýrum‘ í 13. kafla Opinberunarbókarinnar?
17 Opinberunarbókin 12:3 lýsir Satan sem ‚miklum dreka með sjö höfuð og tíu horn,‘ sem ferlegu skrímsli er öllu eyðir. Þessi lýsing sýnir að hann er höfundur hins pólitíska ‚villidýrs‘ á jörðinni sem lýst er í 13. kafla, 1. og 2. versi. Það dýr hefur líka sjö höfuð og tíu horn líkt og Satan. Vers 2 segir: „Drekinn [Satan] gaf því mátt sinn og hásæti sitt og vald mikið.“ Það á vel við að lýsa pólitískum stjórnum sem villidýri, því að á 20. öldinni einni hafa yfir hundrað milljónir manna verið drepnar í styrjöldum þjóðanna.
18. Hvert er tvíhyrnda dýrið í Opinberunarbókinni 13:11 og hvernig hjálpa verk þess okkur að bera kennsl á það?
18 Á næstu sviðsmynd í 13. kafla Opinberunarbókarinnar birtist, eins og 11. versið orðar það, ‚annað dýr er stígur upp af jörðinni og hafði það tvö horn lík lambshornum, en það talaði eins og dreki.‘ Þetta tvíhyrnda dýr er ensk-ameríska tvíveldið. Það líkist lambi í því að það lætur líta svo út sem það sé friðsamt og meinlaust og stjórn þess opin og upplýst. En það talar eins og dreki, eins og Satan, og er kallað „annað dýr“ af því að stjórnarathafnir þess eru dýrslegar. Það þvingar og hótar og beitir jafnvel ofbeldi hvar sem hugmyndir þess um stjórnarfar eru ekki viðurkenndar. Það hvetur ekki til undirgefni við ríki Guðs heldur þýlyndi við heim Satans. Þess vegna segir 14. versið: „Það leiðir afvega þá, sem á jörðunni búa.“
19, 20. (a) Hvað leiðir ráðvendni þjóna Jehóva í ljós? (b) Hvernig vitum við með vissu að hinar smurðu leifar munu bera sigurorð af heimi Satans?
19 Þessi heimur undir yfirráðum Satans er erfiður bústaður fyrir þá sem, í samræmi við boð Jesú til sannkristinna manna, tilheyra ekki heiminum. (Jóhannes 17:16) Það er því afbragðsdæmi um mátt Jehóva og blessun að þjónar hans um allan heim skuli varðveita ráðvendni og sameinaðir halda áfram að mikla Jehóva og réttláta vegu hans. Það gera þeir andspænis megnri mótstöðu, ofsóknum og jafnvel dauða.
20 Hinar smurðu leifar hafa verið sérlegur skotspónn Satans vegna þess að þær eiga að vera meðstjórnendur með Kristi. En 14. kafli Opinberunarbókarinnar sýnir okkur að fullri tölu þeirra, 144.000, er safnað sigri hrósandi til Krists til að ríkja með honum. Þeir hafa drottinhollir stutt meistara sinn, því að 4. versið segir: „Þeir fylgja lambinu hvert sem það fer“ — þrátt fyrir grimmar ofsóknir á hendur þeim sem Satan hefur beitt sér fyrir.
Hún fær dóm Guðs fyrst
21, 22. (a) Hvað tilkynna englarnir í Opinberunarbókinni 14:7, 8? (b) Hvers vegna tilkynnir engill fall hinnar trúarlegu Babýlonar meðan hún enn er starfandi?
21 Í Opinberunarbókinni 14:7 hrópar engill: „Óttist Guð og gefið honum dýrð, því að komin er stund dóms hans. Tilbiðjið þann, er gjört hefur himininn og jörðina og hafið og uppsprettur vatnanna.“ En hver hlýtur fyrst hinn óhagstæða dóm frá Guði? Vers 8 segir: „Og enn annar engill kom á eftir og sagði: ‚Fallin er, fallin er Babýlon hin mikla, sem byrlað hefur öllum þjóðum af reiði-víni saurlifnaðar síns.‘“ Hér er í fyrsta sinn en ekki síðasta talað um ‚Babýlon hina miklu,‘ heimsveldi falskra trúarbragða.
22 Hvers vegna tilkynnir engillinn að Babýlon hin mikla sé nú þegar fallin, þegar haft er í huga að trúarbrögðin fara enn með mikil völd víða um heim? Nú, hvað gerðist árið 539 f.o.t. þegar Forn-Babýlon féll en var þó ekki gereytt? Útlægir þjónar Jehóva sneru heim til ættjarðar sinnar tveim árum síðar til að endurreisa sanna guðsdýrkun! Á sama hátt er endurreisn þjóna Guðs til starfa og andlegrar velsældar, sem hófst árið 1919, glöggt merki þess að Babýlon hin mikla hafi frá sjónarhóli Jehóva fallið árið 1919. Hann dæmdi hana þá til gereyðingar síðar.
23. (a) Hvernig er eyðing Babýlonar hinnar miklu undirbúin? (b) Hvaða spádómar verða ræddir í næsta tölublaði Varðturnsins?
23 Babýlon okkar tíma er þegar í miklum vanda stödd, sem er eins konar undanfari gereyðingarinnar. Spilling hennar, gróft siðleysi, óheiðarleiki og stjórnmálaíhlutun hefur alls staðar verið afhjúpuð. Fáir sækja kirkju lengur víðast hvar í Evrópu. Í mörgum sósíölskum ríkjum eru trúarbrögð skoðuð sem „ópíum fólksins.“ Babýlon hefur líka verið smánuð í augum allra sem þyrstir eftir sannindum orðs Guðs. Hún bíður því eins og dauðadæmdur glæpamaður eftir verðskuldaðri aftöku sinni. Já, „tíminn er í nánd“ að heimurinn nötri og skjálfi vegna stórviðburða frá Guði! Í næsta tölublaði Varðturnsins munu birtast fleiri námsgreinar sem fjalla um spádóma Opinberunarbókarinnar varðandi yfirvofandi eyðingu trúarskækjunnar, svo og heimskerfis Satans í heild.
Hverju svarar þú?
◻ Hvað merkir básúnublásturinn, sem hefst í 8. kafla Opinberunarbókarinnar, fyrir okkar daga?
◻ Hvers vegna hlýtur kristni heimurinn óhagstæðan dóm fyrst?
◻ Hvernig er prédikunarstarfi hinna smurðu leifa og ‚múgsins mikla‘ lýst í 9. kafla Opinberunarbókarinnar?
◻ Hvað þýddi tilkynningin í Opinberunarbókinni 11:15 fyrir himin og jörð?
◻ Hvernig féll hin trúarlega Babýlon árið 1919, eins og lýst er í Opinberunarbókinni 14:8, og hvað þýðir það fyrir hana?