‚Fyrirverðum okkur ekki fyrir fagnaðarerindið‘
„Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið. Það er kraftur Guðs til hjálpræðis hverjum þeim sem trúir.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 1:16.
1. Hverjar viðtökur fá gleðifréttir venjulega en hvernig líta trúlausir menn í heiminum á fagnaðartíðindin um Guðsríki?
ÞAÐ SEM eru gleðifréttir í eyrum eins eru það ekki alltaf í eyrum annars. Yfirleitt er boðbera góðra tíðinda tekið opnum örmum og hlustað með ákefð á þær fregnir sem hann hefur að færa. Biblían sagði hins vegar fyrir að trúlausir menn í heiminum myndu ekki líta á fagnaðartíðindin um ríki Guðs og hjálpræðisboðskapinn sem ánægjuleg gleðitíðindi. — Samanber 2. Korintubréf 2:15, 16.
2. Hvað sagði Páll postuli um fagnaðarerindið sem hann boðaði og hvers vegna er sá boðskapur enn fagnaðartíðindi?
2 Páll postuli var einn þeirra sem sendur var til að flytja almenningi gleðifregnir. Hvernig leit hann á hlutverk sitt? Hann sagði: „Svo er ég og fyrir mitt leyti fús til að boða fagnaðarerindið, einnig yður sem eruð í Róm. Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið.“ (Rómverjabréfið 1:15, 16) Eigi fregnirnar enn að vera gleðifregnir núna, nálega 2000 árum eftir að Páll postuli skrifaði kristnum mönnum í Róm, þurfa þær sannarlega að hafa langvarandi gildi. Það hafa þær því þær eru ‚eilífur fagnaðarboðskapur.‘ — Opinberunarbókin 14:6.
3, 4. Hvers vegna fyrirvarð Páll postuli sig ekki fyrir fagnaðarerindið?
3 Hvers vegna skyldi Páll postuli hafa tekið svo til orða að hann skammaðist sín ekki fyrir fagnaðarerindið? Hvaða ástæðu hefði hann getað haft til að fyrirverða sig fyrir það? Þá að það var ekki vinsæll boðskapur. Það fjallaði um mann sem hafði verið líflátinn á kvalastaur eins og fyrirlitinn glæpamaður, og það gaf eftir öllum ytri merkjum að dæma einkar slæma mynd af honum. Í þrjú og hálft ár hafði þessi maður flutt fagnaðarerindið um Palestínu þvera og endilanga og mætt harðri andstöðu frá Gyðingum, einkanlega trúarleiðtogunum. Og núna bar Páll nafn þessa fyrirlitna manns og stóð frammi fyrir sams konar fjandskap. — Matteus 9:35; Jóhannes 11:46-48, 53; Postulasagan 9:15, 20, 23.
4 Vegna þessarar andstöðu gátu sumir haft ástæðu til að álíta Pál og aðra lærisveina Jesú Krists mega fyrirverða sig fyrir stöðu sína og boðskap. Núna aðhylltist Páll meira að segja sjálfur það sem hann áður hafði álitið smánarlegt. Hann hafði í eigin persónu tekið þátt í að úthúða fylgjendum Jesú Krists. (Postulasagan 26:9-11) Nú hafði hann látið af þeirri háttsemi. Af því leiddi að hann, ásamt öðrum sem gerðust kristnir, mátti þola illvígar ofsóknir. — Postulasagan 11:26.
5. Hvernig skýrði Páll þau orð sín að hann skyldi ekki fyrirverða sig fyrir fagnaðarerindið?
5 Ef einhver leyfði sér að fyrirverða sig fyrir að vera fylgjandi Jesú, þá væri hann að horfa á málin frá viðhorfi manna. Páll postuli gerði það ekki. Hann sagði til skýringar því hvers vegna hann fyrirvarð sig ekki fyrir fagnaðarerindið sem hann prédikaði: „Það er kraftur Guðs til hjálpræðis hverjum þeim sem trúir.“ (Rómverjabréfið 1:16) Máttur Guðs er ekkert tilefni til að fyrirverða sig ef hann starfar gegnum lærisvein Jesú til að áorka hinum lofsamlega tilgangi hins dýrlega Guðs sem Jesús Kristur tilbað og dýrkaði. — Samanber 1. Korintubréf 1:18; 9:22, 23.
Fagnaðarerindið boðað um allan heim
6, 7. (a) Hvaða ábyrgð gagnvart fagnaðarerindinu leitast vottar Jehóva við að rísa undir og með hvaða árangri? (b) Hvað er stundum nauðsynlegt, þótt við viljum aldrei láta ótta hindra okkur í að bera vitni? (Sjá neðanmálsathugasemd.)
6 Líkt og Páll eru nútímavottar Jehóva lærisveinar hins dýrlega gerðar sonar hans, Jesú Krists. Jehóva hefur treyst þessum vottum sínum fyrir fjársjóði ‚hins dýrlega fagnaðarerindis.‘ (1. Tímóteusarbréf 1:11) Vottar Jehóva hafa risið undir þessari miklu ábyrgð og þeir eru hvattir til að fyrirverða sig ekki fyrir hana. (2. Tímóteusarbréf 1:8) Það er mikilvægt að láta aldrei ótta eða óframfærni hindra okkur í að bera vitni og láta í ljós að við séum vottar Jehóva.a
7 Djarfur og óttalaus vitnisburður hefur orðið til þess að nafn hins hæsta Guðs er boðað um alla jörðina og fagnaðarerindið um ríki hans prédikað um víða veröld. Sonur Guðs sagði: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14) Þessi spá mun aldrei bregðast. Fagnaðarerindið er nú prédikað í liðlega 210 löndum og prédikunarstarfinu er enn ekki lokið. Við fyrirverðum okkur ekki fyrir fagnaðarerindið, horfumst hugrakkir í augum við framtíðina og biðjum eins og lærisveinar Jesú Krists á fyrstu öld: „Og nú, [Jehóva], . . . veit þjónum þínum fulla djörfung að tala orð þitt.“ — Postulasagan 4:29.
8. Hvers vegna ættu vottar Jehóva ekki að missa kjarkinn þótt þeir mæti andstöðu meðal allra þjóða jarðar?
8 Vottar Jehóva eru hataðir og mæta andstöðu meðal allra þjóða jarðar, en það er uppfylling þess sem sagt var eiga að vera kennimerki sannra tilbiðjenda hins eina lifandi og sanna Guðs. (Jóhannes 15:20, 21; 2. Tímóteusarbréf 3:12) En það gerir ekki boðendur fagnaðarerindisins niðurdregna og kjarklitla heldur fullvissar þá um að þeir njóti velþóknunar Guðs og tilheyri því skipulagi sem drottinvaldur alheimsins, Jehóva, hefur velþóknun á.
9. Hvers vegna skiptir það ekki máli þótt við höfum allan heiminn á móti okkur?
9 Gleymum aldrei: Hinn hæsti Guð alls alheimsins styður við bakið á okkur. Hvaða máli skiptir það þá þótt heimurinn, með öllum sínum sértrúarflokkum og stjórnmálaflokkum, sé á móti okkur? Eingetinn sonur Guðs hafði allan heiminn á móti sér og við skömmumst okkar ekki fyrir að vera í sömu aðstöðu. Eins og hann sagði við postula sína: „Ef heimurinn hatar yður, þá vitið, að hann hefur hatað mig fyrr en yður. Væruð þér af heiminum, myndi heimurinn elska sitt eigið. Heimurinn hatar yður, af því að þér eruð ekki af heiminum, heldur hef ég útvalið yður úr heiminum.“ — Jóhannes 15:18, 19.
10. Hvaðan er stór hluti ofsóknanna á hendur vottunum kominn og hvers vegna fyrirverða þeir sig ekki fyrir að vera skotspónn þeirra?
10 Vottar Jehóva hafa því mátt þola ofsóknir í öllum heimshornum, en þó sér í lagi innan þeirra þjóða sem mynda hinn svokallaða kristna heim. Þótt kristni heimurinn ofsæki vottana sannar það ekki að þeir séu ókristnir. Það rennir stoðum undir þá fullyrðingu þeirra að þeir séu sannkristnir menn, vottar Guðs og föður Jesú Krists, Jehóva. Með því að þeir eru vottar Guðs fyrirverða þeir sig ekki fyrir að þola ofsóknir af trúarlegum orsökum. Því á áminning Páls postula til kristinna manna á fyrstu öld um að fyrirverða sig ekki vel við votta Jehóva núna. — Sjá Filippíbréfið 1:27-29.
Bestu tíðindi sem hægt er að boða
11. Hvers vegna hættum við ekki að vera fylgjendur Jesú Krists er við tökum okkur nafnið vottar Jehóva?
11 Vottar Jehóva hafa með hugrekki tekið sér það nafn til uppfyllingar loforði Jehóva í Jesaja 43:10 við sáttmálaþjóð sína. Það merkir þó ekki að þeir séu ekki lengur fylgjendur Jesú Krists. Jesús er leiðtogi þeirra, hann sem þeir líkja eftir og fylgja. Sjálfur var hann einn af vottum Jehóva, raunar sá fremsti. — 1. Tímóteusarbréf 6:13; Opinberunarbókin 1:5.
12. Hvers konar tíðindi prédika vottar Jehóva um víða veröld og hvers vegna?
12 Boðskapurinn, sem þessir vottar Jehóva prédika um víða veröld, eru bestu tíðindi sem hægt er að boða. Engin stjórn getur verið betri fyrir mannkynið en Messíasarríkið sem Jehóva hefur stofnsett til að stjórna mannkyni sem hann sendi eingetinn son sinn til að endurkaupa. (Jesaja 9:6, 7) Jarðarbúar, sem fagnaðarerindið um Guðsríki er nú prédikað fyrir, fá tækifæri til að taka við því og sanna sig verðuga þess að hljóta að gjöf eilíft líf sem fullkomnir menn í paradís á jörð.
13. Hvernig getum við verið viss um að Messíasarríkið verði besta stjórn sem hugsast getur og hverju mæla vottarnir með blygðunarlaust?
13 Fyrst Jesús var fús til að deyja sársaukafullum dauðdaga til að endurleysa þá sem áttu eftir að verða þegnar hans má treysta því að stjórnin, sem hann gefur þeim, sé sú allra besta. Við hvetjum hvern einasta jarðarbúa: Vertu trúfastur, hlýðinn þegn þessarar stjórnar. Við fyrirverðum okkur ekki fyrir þá stjórn sem við mælum í einlægni með við allt mannkyn. Við veigrum okkur ekki við að prédika Guðsríki þótt það kunni að kalla yfir okkur ofsóknir. Líkt og Páll postuli segir hver og einn okkar: „Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið.“
14. Hve viðamikil sagði Jesús að prédikun Guðsríkis ætti að vera á okkar dögum?
14 Jesús spáði því að fagnaðarerindið um ríkið yrði prédikað um allan heim og sá spádómur hæfði boðskapnum vel. (Markús 13:10) Hann hikaði ekki við að segja fyrir að ríki Jehóva yrði prédikað út um víða veröld — já, til endimarka jarðar. (Postulasagan 1:8) Jesús vissi að trúfastir fylgjendur hans myndu leggja sig einlæglega fram við að ná til fólks með fagnaðarerindið um Guðsríki, hvar sem það byggi.
15, 16. (a) Hverjir verðskulda að þeim sé flutt fagnaðarerindið? (b) Hvers vegna mun prédikunarstarfið verða fullnað þrátt fyrir ofsóknir skipulags djöfulsins?
15 Jarðarbúar skipta nú þúsundum milljóna og eru dreifðir um öll meginlönd og helstu eyjar hafsins. Enginn staður á jarðríki er þó of afskekktur fyrir votta Jehóva til að leggja það á sig að bera fagnaðarerindið þangað. Öll heimsbyggðin er táknræn fótskör Jehóva Guðs. (Jesaja 66:1) Menn sem búa einhvers staðar á fótskör hans eiga skilið að þeim sé færður boðskapur hjálpræðisins.
16 Hið gleðilega fagnaðarerindi nútímans er á þá lund að ríki Guðs hafi þegar verið stofnsett í höndum Messíasar. Jesús vissi að þrátt fyrir harðvítugustu ofsóknir af hálfu skipulags djöfulsins myndi andi Guðs knýja sanna fylgjendur Messíasar til að ‚prédika þetta fagnaðarerindi um hið stofnsetta ríki um alla heimsbyggðina.‘ — Matteus 24:14.
Fyrirverðum okkur ekki fyrir Jesú Krist og Jehóva
17. (a) Hvað blygðast sannir guðsdýrkendur sín ekki fyrir? (b) Hvaða reglu gaf Jesús í Markúsi 8:38 og hvaða gildi hefur hún?
17 Hinn hæsti Guð var ekki hikandi við að gefa sjálfum sér nafn, Jehóva, og trúfastir tilbiðjendur hans ættu ekki heldur að fyrirverða sig fyrir þetta nafn. Það er sönnum tilbiðjendum Guðs fagnaðarefni að vera þekktir fyrir að veita honum óskipta hlýðni og tilbeiðslu. Jesús gaf meginreglu um sjálfan sig í Markúsi 8:38: „Þann sem blygðast sín fyrir mig og mín orð hjá þessari ótrúu, syndugu kynslóð, mun Mannssonurinn blygðast sín fyrir, er hann kemur í dýrð föður síns með heilögum englum.“ Á líkan hátt mun Jehóva réttilega blygðast sín fyrir hvern þann sem fyrirverður sig fyrir Guð og föður Drottins Jesú Krists. Hver sá sem Jehóva blygðast sín fyrir vegna ótrúfesti hans verðskuldar ekki líf neins staðar í ríki Guðs á himni eða jörð. — Lúkas 9:26.
18. (a) Hvers vegna ættu orð Jesú í Matteusi 10:32, 33 að greypast í hugi okkar og hjörtu? (b) Hvað verður um þá sem afneita Jesú og Jehóva vegna ótta við menn? (Nefndu dæmi byggð á neðanmálsathugasemd.)
18 Látum því orð Jesú Krists greypast í hugi okkar og hjörtu: „Hvern þann sem kannast við mig fyrir mönnum, mun og ég við kannast fyrir föður mínum á himnum. En þeim sem afneitar mér fyrir mönnum, mun og ég afneita fyrir föður mínum á himnum.“ (Matteus 10:32, 33; Lúkas 12:8, 9) Á sama grundvelli má segja að Guð muni afneita hverjum þeim sem afneitar Guði og föður Drottins Jesú Krists. Hann mun ekki vera talinn þess verður að tilheyra þeirri fjölskyldu þar sem Jesús Kristur er fremstur sonur. Hann mun því farast á tilteknum tíma Guðs.b
19, 20. (a) Hvers vegna munu þeir sem hafa beðið þess að nafn Jehóva helgist ekki þurfa að fyrirverða sig? (b) Hverju hafa boðberar Guðsríkis áorkað óttalaust og með hvaða stuðningi?
19 Fyrirmyndarbæninni, sem Jesús kenndi lærisveinum sínum, verður svarað: „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:9, 10) Þegar það gerist munu lærisveinar Jesú ekki þurfa að fyrirverða sig fyrir neitt. Bæði milljónir núlifandi manna, sem munu aldrei deyja, og einnig þær þúsundir milljóna manna, sem hann mun kalla fram úr gröfum sínum í þúsundáraríkinu, munu bera lotningu fyrir nafni Jehóva og helga það. Þeir munu fá tækifæri til að lifa að eilífu á jörð sem verður paradís.
20 Þessir óttalausu boðendur fagnaðarerindisins um ríki Guðs hafa, án þess að fyrirverða sig, verið færir um að prédika um víða veröld þrátt fyrir andstöðu, vegna þess að þeir eiga sér að baki ofurmannlegt afl — stuðning englanna á himnum. Þess vegna ‚óttast vottar Jehóva Guð og gefa honum dýrð.‘ — Opinberunarbókin 14:6, 7.
Fyrirverðum okkur ekki fyrir að óttast Guð og gefa honum dýrð
21. Hvað hafa vottar Jehóva ekki þurft að fyrirverða sig fyrir og hvaða afleiðingar hefur það haft?
21 Vottar Jehóva hafa sýnt og sannað að þeir fyrirverða sig ekki fyrir að óttast Guð og gefa honum dýrð, jafnvel að nota einkanafn hans, Jehóva. Það hefur verið þeim til ólýsanlegrar blessunar. Þessi blessun hefur birst á þann hátt að loforð hins hæsta Guðs hafa ræst óbrigðullega. Það hefur verið til mikils lofs fyrir hann sem hinn eina lifandi og sanna Guð, drottinvald alheimsins!
22. Hvers vegna munu vottar Jehóva mega þola grimmilegar ofsóknir en hvaða gleði munu þeir verða aðnjótandi?
22 Í náinni framtíð munu veraldlegar stjórnir snúast gegn hinum trúarlegu veldum og afmá þau — meðal annars kristna heiminn. (Opinberunarbókin 17:16, 17) Vottar Jehóva munu því um tíma þurfa að þola grimmilegar ofsóknir veraldlegra afla. Þeir myndu ekki fá staðist né geta lifað af ef hinn eilífi Guð stæði ekki með þeim. En hann gerir það og því munu þeir verða þeirrar gleði aðnjótandi að sjá þann Guð, sem þeir tilbiðja án þess að hvika, afmá alla óvini sína og Krists. Þeir munu ekki þola þá smán að vera afhjúpaðir og tortímt sem óvinir hins sanna guðveldis heldur njóta ólýsanlegrar gleði og geta sungið Jehóva lof: „Frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.“ — Sálmur 90:2.
23. Hvers vegna þurfa vottar Jehóva ekki að fyrirverða sig fyrir neitt og með hvaða afleiðingum?
23 Þeir munu gleðjast yfir Guði, föður Jesú Krists, en fyrir milligöngu hans er öll hin mannlega fjölskylda endurleyst til að njóta eilífs lífs og mannlegs fullkomleika og hamingju á jörð sem verður paradís. Jehóva Guð hefur sannarlega sýnt mátt sinn fyrir milligöngu Krists Jesú! Jehóva hefur á fegursta hátt sýnt alvald sitt og beitt því viturlega og með kærleika! Við höfum því ekkert til að fyrirverða okkur fyrir í tengslum við hann og eingetinn son hans, Jesú Krist. Við fyrirverðum okkur ekki fyrir að boða hið dýrlega fagnaðarerindi sem lýsir svo vel hinum alsigrandi mætti Jehóva Guðs fyrir milligöngu Krists Jesú. Jesús sagði skömmu áður en jarðlífi hans lauk: „Verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“ (Jóhannes 16:33) Við skulum fylgja þessari stefnu og líkja eftir fordæmi Páls postula sem fyrirvarð sig aldrei fyrir fagnaðarerindið. Þá mun alvaldur Guð ekki heldur fyrirverða sig fyrir okkur.
[Neðanmáls]
a Enda þótt við viljum ekki skammast okkar fyrir að játa hreinskilnislega að við séum vottar er stundum nauðsynlegt að vera „kænir sem höggormar.“ (Matteus 10:16) Vottarnir í Þýskalandi á valdatíma nasista vissu að stundum var rétt að segja frá því að þeir væru vottar, stundum ekki. — Samanber Postulasöguna 9:23-25.
b Aftur og aftur hefur það sýnt sig að þeir sem hafa afneitað Jesú og Jehóva vegna ótta við menn hafa enga hylli hlotið af heiminum. Sjá til dæmis Varðturninn (enska útgáfu) þann 1. maí 1989, bls. 12; Árbókina 1982, bls. 168; Árbókina 1977, bls. 174-6; Árbókina 1974, bls. 149-50, 177-8. Jafnvel óbilgjarnir andstæðingar fagnaðarerindisins búast hins vegar við því að vottarnir afneiti ekki Jesú og Jehóva. (Árbókin 1989, bls. 116-18) Sjá einnig Matteus 10:39 og Lúkas 12:4.
Upprifjun
◻ Hvernig ættum við að líta á það að boða fagnaðarerindið, líkt og Páll postuli, og hvers vegna?
◻ Hvers vegna er boðskapurinn, sem vottar Jehóva boða, bestu tíðindi sem heyrst hafa?
◻ Hvaða aðvörun gaf Jesús hverjum þeim sem kynni að fyrirverða sig fyrir hann er hann kæmi sem konungur Guðsríkis?
◻ Hvað verður um þá sem afneita Jesú og Jehóva?
◻ Hverju hafa boðberar fagnaðarerindisins getað áorkað án þess að fyrirverða sig og hvers vegna?