NÁMSGREIN 36
Harmagedón er tilhlökkunarefni
„Þeir söfnuðu þeim saman á þann stað sem ... kallast Harmagedón.“ – OPINB. 16:16.
SÖNGUR 150 Leitum hjálpræðis Guðs
YFIRLITa
1, 2. (a) Hvers vegna er Harmagedón gleðiefni fyrir mannkynið? (b) Hvaða spurningar skoðum við í þessari grein?
SUMIR halda að heimurinn muni farast í kjarnorkustyrjöld eða af völdum umhverfisröskunar. En það kennir Biblían ekki. Hún kennir að bráðum verði stríð sem hefur mjög jákvæðar afleiðingar í för með sér. Þetta stríð er kallað Harmagedón og það sem Biblían segir um það er gleðiefni. (Opinb. 1:3) Harmagedónstríðið mun ekki eyða mannkyninu heldur bjarga því. Hvernig þá?
2 Biblían sýnir fram á að Harmagedónstríðið bjargi mannkyninu með því að binda enda á stjórnir manna. Í stríðinu verður hinum illu eytt en hinir réttlátu verða varðveittir. Harmagedón bjargar líka mannkyninu með því að koma í veg fyrir að mennirnir eyði jörðina. (Opinb. 11:18) Til að skilja þetta betur skulum við leita svara við fjórum spurningum: Hvað er Harmagedón? Hver verður aðdragandi þess? Hvernig getum við verið meðal þeirra sem lifa af Harmagedón? Og hvernig getum við verið trúföst nú þegar Harmagedón færist nær?
HVAÐ ER HARMAGEDÓN?
3. (a) Hvað merkir orðið „Harmagedón“? (b) Hvers vegna getum við sagt að Harmagedón sé ekki bókstaflegur staður miðað við Opinberunarbókina 16:14, 16?
3 Lestu Opinberunarbókina 16:14, 16. Orðið „Harmagedón“ kemur aðeins einu sinni fyrir í Biblíunni. Það er dregið af hebresku orði sem merkir ,Megiddófjall‘. Megiddó var borg í Ísrael til forna. (Jós. 17:11) En Harmagedón er ekki nafn á bókstaflegum stað á jörðinni. Strangt til tekið vísar það til þeirra aðstæðna þegar ,allir konungar í veröldinni‘ safnast saman gegn Jehóva. (Opinb. 16:14) En í þessari grein notum við orðið „Harmagedón“ líka um stríðið sem kemur í kjölfar þess að konungar allrar jarðar safnast saman. Hvernig vitum við að Harmagedón er táknrænn staður? Í fyrsta lagi er Megiddófjall ekki til. Í öðru lagi er svæðið í kringum Megiddó allt of lítið til að rúma ,alla konunga í veröldinni‘ auk hersveita þeirra og vopna. Og í þriðja lagi hefst Harmagedónstríðið þegar ,konungar‘ heimsins ráðast á fólk Guðs, fólk sem býr á víð og dreif um alla jörðina.
4. Hvers vegna tengir Jehóva lokastríð sitt við Megiddó?
4 Hvers vegna tengir Jehóva lokastríð sitt við Megiddó? Margar orrustur voru háðar í Megiddó og á Jesreelsléttu skammt frá. Í sumum þeirra skarst Jehóva í leikinn með beinum hætti. Það gerði hann til dæmis „hjá Megiddóvötnum“ þegar hann hjálpaði Barak, dómara í Ísrael, að sigra her Kanverja undir forystu Sísera hershöfðingja. Barak og Debóra spákona þökkuðu Jehóva fyrir undraverðan sigur. Þau sungu: „Af himni börðust stjörnurnar ... við Sísera, Kísonlækur skolaði þeim burt.“ – Dóm. 5:19–21.
5. Hvaða veigamikli munur verður á Harmagedónstríðinu og orrustunni sem Barak háði?
5 Barak og Debóra luku söng sínum á þessum orðum: „Svo farist allir óvinir þínir, Drottinn. En megi þeir sem þig elska ljóma sem sólarupprás.“ (Dóm. 5:31) Eins verður í Harmagedón – óvinir Guðs farast en þeir sem elska hann bjargast. Hins vegar er einn veigamikill munur á þessum tveim stríðum. Fólk Guðs mun ekki berjast í Harmagedón. Það verður ekki einu sinni vopnað. Styrkur þess felst í „þolinmæði og trausti“ á Jehóva og himneskum hersveitum hans. – Jes. 30:15; Opinb. 19:11–15.
6. Hvernig gæti Jehóva sigrað óvini sína í Harmagedón?
6 Hvernig mun Jehóva sigra óvini sína í Harmagedón? Hann getur gert það með ýmsum hætti. Hann gæti til dæmis notað jarðskjálfta, haglél og eldingar. (Job. 38:22, 23; Esek. 38:19–22) Hann gæti látið óvini sína snúast hver gegn öðrum. (2. Kron. 20:17, 22, 23) Hann gæti líka notað engla sína til að eyða hinum vondu. (Jes. 37:36) Sama hvaða aðferð Guð notar verður sigur hans alger. Öllum óvinum hans verður útrýmt. Og öllum réttlátum verður bjargað. – Orðskv. 3:25, 26.
HVER VERÐUR AÐDRAGANDI HARMAGEDÓN?
7, 8. (a) Hvaða óvenjulega yfirlýsing mun koma frá leiðtogum heimsins samkvæmt 1. Þessaloníkubréfi 5:1–6? (b) Hvers vegna verður þetta hættuleg lygi?
7 Áður en dagur Jehóva rennur upp verður lýst yfir ,friði og engri hættu‘. (Lestu 1. Þessaloníkubréf 5:1–6.) Í 1. Þessaloníkubréfi 5:2 vísar „dagur Drottins“ til ,þrengingarinnar miklu‘. (Opinb. 7:14) Hvenær verður okkur ljóst að þrengingin sé í þann mund að hefjast? Í Biblíunni er sagt að gefin verði út óvenjuleg yfirlýsing, yfirlýsing sem verður tákn þess að þrengingin mikla sé að hefjast.
8 Það verður yfirlýsingin um ,frið og enga hættu‘ sem spáð var fyrir. Hvers vegna munu leiðtogar heimsins lýsa þessu yfir? Við vitum það ekki fyrir víst. Munu leiðtogar trúarbragðanna eiga hlut að máli? Hugsanlega. En eitt er víst: Yfirlýsingin verður eins og hver önnur lygi innblásin af illum öndum. En þessi lygi verður sérstaklega hættuleg þar sem hún veitir mönnum falska öryggiskennd rétt áður en mesta þrenging í sögu mannkyns hefst. Já, „þá kemur snögglega tortíming yfir þá eins og jóðsótt yfir þungaða konu“. En hvað um trúa þjóna Jehóva? Vera má að þeim bregði í brún þegar dagur Jehóva rennur skyndilega upp en það mun ekki setja þá út af laginu.
9. Í hvaða röð eyðir Jehóva heimi Satans?
9 Jehóva mun ekki eyða öllum heimi Satans í einu lagi eins og hann gerði á dögum Nóa. Eyðingin verður öllu heldur í tveim megináföngum. Fyrst eyðir hann Babýlon hinni miklu, heimsveldi falstrúarbragðanna. Síðan, í Harmagedón, eyðir hann því sem eftir verður af heimi Satans, þar á meðal öllu sem viðkemur stjórnmálum, hernaði og viðskiptaheiminum. Skoðum nánar þessa tvo mikilvægu atburði.
10. Hvers vegna mun Jehóva eyða Babýlon hinni miklu samkvæmt Opinberunarbókinni 17:1, 6 og 18:24?
10 Dómurinn yfir „skækjunni miklu“. (Lestu Opinberunarbókina 17:1, 6; 18:24.) Babýlon hin mikla hefur smánað nafn Guðs stórlega. Hún hefur kennt lygar um Guð. Hún hefur stundað vændi í andlegum skilningi með því að stofna til bandalaga við valdhafa jarðar. Hún hefur notað vald sitt og áhrif til að kúga og féfletta fylgjendur sína. Auk þess hefur hún úthellt miklu blóði, þar á meðal blóði þjóna Guðs. (Opinb. 19:2) Hvernig ætlar Jehóva að eyða Babýlon hinni miklu?
11. Hvað táknar ,skarlatsrauða dýrið‘ og hvernig mun Guð nota það gegn Babýlon hinni miklu?
11 Jehóva mun nota ,„hornin tíu“ á „skarlatsrauðu dýri“ til að eyða „skækjunni miklu“. Dýrið táknar Sameinuðu þjóðirnar og hornin tíu tákna núverandi stjórnmálaöfl sem styðja þau samtök. Þessi stjórnmálaöfl snúast gegn hinni táknrænu Babýlon á þeim tíma sem Guð hefur ákveðið. Þau munu „svipta hana öllu og skilja hana eftir nakta“ með því að láta greipar sópa um auðæfi hennar og afhjúpa illsku hennar. (Opinb. 17:3, 16) Þessi snögglega tortíming – eins og væri „á einum degi“ – kemur flatt upp á fylgjendur hennar, enda hefur hún lengi hreykt sér upp og sagt: „Hér sit ég og er drottning, ekkja er ég eigi, sorg mun ég aldrei sjá.“ – Opinb. 18:7, 8.
12. Hvað leyfir Jehóva þjóðunum ekki og hvers vegna?
12 Guð mun ekki leyfa þjóðunum að eyða þjónum sínum. Þeir bera stoltir nafn hans og hafa hlýtt fyrirmælum hans um að flýja úr Babýlon hinni miklu. (Post. 15:16, 17; Opinb. 18:4) Þeir hafa líka lagt hart að sér til að hjálpa öðrum að forða sér út úr henni. Þjónar Jehóva munu því ekki ,hreppa plágur hennar‘. Engu að síður mun reyna á trú þeirra.
13. (a) Hver er Góg? (b) Hvenær fer Góg á táknræna staðinn sem kallast Harmagedón, samanber Esekíel 38:2, 8, 9?
13 Góg gerir árás. (Lestu Esekíel 38:2, 8, 9.) Þegar öllum falstrúarsamtökum hefur verið eytt mun fólk Guðs standa eftir eins og stakt tré sem hefur staðið af sér ofsaveður. Satan verður skiljanlega vitstola af reiði. Hann gefur reiðinni lausan tauminn með því að nota „óhreina anda“, það er að segja áróður illra anda til að fá bandalag þjóða til að ráðast á þjóna Jehóva. (Opinb. 16:13, 14) Þetta bandalag er kallað „Góg í landinu Magóg“. Þegar þjóðirnar ráðast á fólk Jehóva eru þær komnar á táknræna staðinn sem kallast Harmagedón. – Opinb. 16:16.
14. Hvað kemst Góg að raun um?
14 Góg mun treysta á ,mannlegan mátt‘, það er að segja hernaðarmátt sinn. (2. Kron. 32:8) Við treystum hins vegar á Jehóva Guð okkar – sem virðist heimskulegt í augum þjóðanna. Babýlon hin mikla var voldug en samt gátu guðir hennar ekki bjargað henni frá ,dýrinu‘ og hornum þess tíu. (Opinb. 17:16) Góg mun því búast við auðveldum sigri. Hann ræðst á fólk Jehóva „eins og óveðursský til að hylja landið“. (Esek. 38:16) En fyrr en varir verður honum ljóst að hann hefur gengið í gildru. Líkt og faraó í Rauðahafinu rennur upp fyrir Góg að hann berst gegn Jehóva. – 2. Mós. 14:1–4; Esek. 38:3, 4, 18, 21–23.
15. Hvernig vinnur Kristur fullnaðarsigur?
15 Kristur og himneskar hersveitir hans munu verja fólk Guðs og gera sveitir Gógs að engu. (Opinb. 19:11, 14, 15) En hvað um Satan, erkióvin Jehóva sem laug að þjóðunum og kom þeim til að ráðast á fólk Jehóva í Harmagedón? Jesús mun kasta honum og illum öndum hans í undirdjúp þar sem þeir verða læstir niðri í þúsund ár. – Opinb. 20:1–3.
HVERNIG GETURÐU LIFAÐ AF HARMAGEDÓN?
16. (a) Hvernig sýnum við að við ,þekkjum Guð‘? (b) Hvers vegna verður það okkur til blessunar í Harmagedón að þekkja Jehóva?
16 Ef við viljum hljóta björgun í Harmagedón verðum við að sýna að við ,þekkjum Guð‘ og hlýðum „fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú“, hvort sem við höfum verið mörg ár í sannleikanum eða ekki. (2. Þess. 1:7–9) Við ,þekkjum Guð‘ þegar við þekkjum mælikvarða hans og vitum hvað honum líkar og mislíkar. Við sýnum líka að við þekkjum hann með því að elska hann, hlýða honum og veita honum óskipta hollustu. (1. Jóh. 2:3–5; 5:3) Þegar við sýnum að við þekkjum Guð hljótum við þann heiður að vera ,þekkt af honum‘, það er að segja að njóta velþóknunar hans. (1. Kor. 8:3) Og það mun bjarga okkur í Harmagedón.
17. Hvað felst í því að ,hlýða fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú‘?
17 ,Fagnaðarerindið um Drottin vorn Jesú‘ felur í sér öll sannindin sem Jesús kenndi og eru skráð í orði Guðs. Við hlýðum fagnaðarerindinu með því að lifa í samræmi við það. Það gerum við meðal annars með því að setja þjónustuna við Jehóva í fyrsta sæti, fylgja réttlátum meginreglum hans og boða ríki hans. (Matt. 6:33; 24:14) Við gerum það líka með því að styðja andasmurða bræður Krists við það mikilvæga verk sem þeim hefur verið falið. – Matt. 25:31–40.
18. Hvernig munu andasmurðir bræður Krists geta endurgoldið stuðninginn sem þeim hefur verið sýndur?
18 Andasmurðir þjónar Guðs munu bráðum launa ,öðrum sauðum‘ stuðninginn. (Jóh. 10:16) Hvernig? Allir sem tilheyra hinum 144.000 verða komnir til himna áður en Harmagedónstríðið brestur á og orðnir ódauðlegar andaverur. Þá verða þeir hluti af himnesku hersveitunum sem gersigra Góg og vernda ,mikinn múg‘ þjóna Jehóva. (Opinb. 2:26, 27; 7:9, 10) Hvílíkur heiður fyrir múginn mikla að hafa fengið að styðja andasmurða þjóna Jehóva meðan þeir voru enn á jörð!
HVERNIG GETUM VIÐ VERIÐ TRÚFÖST NÚ ÞEGAR ENDIRINN FÆRIST NÆR?
19, 20. Hvernig getum við verið trúföst nú þegar Harmagedón færist nær, sama hvaða raunir verða á vegi okkar?
19 Á þessum erfiðu síðustu dögum þurfa margir þjónar Jehóva að þola raunir. Þrátt fyrir það getum við haldið út með gleði. (Jak. 1:2–4) Það er mikilvægt að halda stöðugt áfram að biðja innilegra bæna. (Lúk. 21:36) Samfara því verðum við að stunda daglegt nám í Biblíunni og hugleiða efnið, þar á meðal stórkostlega spádóma hennar um okkar tíma. (Sálm. 77:13) Með því að gera þetta og boða trúna af kappi höldum við trú okkar sterkri og voninni lifandi.
20 Hugsaðu þér hve ánægjulegt það verður þegar Babýlon hin mikla heyrir sögunni til og Harmagedón er yfirstaðið. Og það sem mestu máli skiptir, ímyndaðu þér þá ólýsanlegu gleði sem þú munt finna fyrir þegar allir virða nafn Guðs og rétt hans til að stjórna. (Esek. 38:23) Já, Harmagedón er tilhlökkunarefni fyrir þá sem þekkja Guð, hlýða syni hans og halda þolgóðir út allt til enda. – Matt. 24:13.
SÖNGUR 143 Vinnum, vökum og bíðum með gleði
a Þjónar Jehóva hafa lengi beðið eftir Harmagedón. Í þessari grein er rætt hvað Harmagedón er, hver aðdragandi þess verður og hvernig við getum verið trúföst nú þegar endirinn færist nær.
b MYND: Þýðingarmiklir atburðir eiga sér stað í kringum okkur. Við munum (1) boða trúna eins lengi og það er hægt, (2) halda góðum námsvenjum og (3) halda áfram að treysta á vernd Guðs.
c MYND: Lögregluþjónar eru í þann mund að ryðjast inn á heimili vottafjölskyldu sem treystir því að Jesús og englar hans viti hvað er að gerast.