Jehóva opinberar „það sem verða á innan skamms“
„Opinberun Jesú Krists sem Guð gaf honum til að sýna þjónum sínum það sem verða á innan skamms.“ – OPINB. 1:1.
HVERT ER SVARIÐ?
Hvaða hluti líkneskisins mikla táknar ensk-ameríska heimsveldið?
Hvernig lýsir Jóhannes tengslum ensk-ameríska heimsveldisins og Sameinuðu þjóðanna?
Hvernig lýsa Daníel og Jóhannes endalokum mannlegra stjórnvalda?
1, 2. (a) Hvað skiljum við ef við berum saman spádóma Daníels og Jóhannesar? (b) Hvað tákna fyrstu sex höfuð dýrsins í 13. kafla Opinberunarbókarinnar?
SPÁDÓMAR Daníels og Jóhannesar kallast á með þeim hætti að við getum skilið þýðingu margra atburða í heiminum, bæði í nútíð og framtíð. Hvaða vitneskju fáum við ef við berum saman sýn Jóhannesar um dýrið með sjö höfuð, sýn Daníels af dýrinu ógnvekjandi með hornin tíu og skýringu Daníels á hvað líkneskið mikla merkti? Og hvað ættum við að gera eftir að hafa fengið skýran skilning á þessum spádómum?
2 Við skulum rýna nánar í sýn Jóhannesar um dýrið í 13. kafla Opinberunarbókarinnar. Eins og fram kom í greininni á undan tákna fyrstu sex höfuð dýrsins Egyptaland, Assýríu, Babýlon, Medíu-Persíu, Grikkland og Rómaveldi. Öll sýndu þau niðjum konunnar fjandskap. (1. Mós. 3:15) Sjötta höfuðið, Rómaveldi, réð lögum og lofum um aldaraðir eftir að Jóhannes skrásetti sýnina. Að lokum átti sjöunda höfuðið að taka við af Rómaveldi. Hvaða heimsveldi reyndist það vera og hvernig myndi það fara með niðja konunnar?
BRETLAND OG BANDARÍKIN KOMAST TIL VALDA
3. Hvað táknar dýrið hræðilega í sýn Daníels og hvað tákna hornin tíu sem spruttu á höfði þess?
3 Við getum glöggvað okkur á hvað sjöunda höfuð dýrsins í 13. kafla Opinberunarbókarinnar táknar með því að bera þessa sýn saman við sýn Daníels um dýrið hræðilega með hornin tíu.a (Lestu Daníel 7:7, 8, 23, 24.) Dýrið, sem Daníel sá, táknar Rómaveldi. (Sjá yfirlitið á bls. 12-13.) Rómaveldi tók að liðast í sundur á fimmtu öld. Hornin tíu, sem spruttu á höfði dýrsins hræðilega, tákna ríkin sem urðu til þegar Rómaveldi hnignaði.
4, 5. (a) Hvað gerði smáa hornið? (b) Hvað táknar sjöunda höfuð dýrsins?
4 Fjögur af hornunum á höfði þessa hræðilega dýrs eru nefnd sérstaklega til sögunnar. Þrjú horn eru rifin upp til að rýma fyrir öðru horni og „smærra“. Þetta rættist þegar Bretlandi óx fiskur um hrygg en það hafði áður tilheyrt Rómaveldi. Bretland hafði verið fremur áhrifalítið fram á 17. öld. Þrjú önnur ríki – Spánn, Holland og Frakkland – voru mun valdameiri en þau höfðu líka tilheyrt Rómaveldi. Bretland velti þessum ríkjum úr sessi hverju á fætur öðru. Um miðbik 18. aldar var Bretland á góðri leið með að verða voldugasta ríki heims. En það var enn ekki orðið sjöunda höfuð dýrsins.
5 Þótt Bretland væri orðið voldugasta ríki heims lýstu nýlendur þess í Norður-Ameríku yfir sjálfstæði. Bretland leyfði Bandaríkjunum að vaxa að völdum og beitti meira að segja sjóhernum þeim til varnar. Um það leyti sem dagur Drottins rann upp árið 1914 var Bretland orðið stærsta heimsveldi sögunnar og Bandaríkin mesta iðnríki jarðar.b Bandaríkin og Bretland bundust sérstökum böndum í fyrri heimsstyrjöldinni. Sjöunda höfuð dýrsins var nú komið fram sem ensk-ameríska heimsveldið. Hvernig fór það með niðja konunnar?
6. Hvernig hefur sjöunda höfuðið farið með fólk Guðs?
6 Skömmu eftir að dagur Drottins rann upp réðst sjöunda höfuðið á þjóna Guðs, það er að segja þá sem eftir voru af bræðrum Krists á jörð. (Matt. 25:40) Jesús gaf til kynna að þeir yrðu starfandi á jörðinni á þeim tíma. (Matt. 24:45-47; Gal. 3:26-29) Ensk-ameríska heimsveldið háði stríð við hina heilögu. (Opinb. 13:3, 7) Meðan fyrri heimsstyrjöldin stóð yfir kúgaði það fólk Guðs, bannaði sum af ritum þess og lét fangelsa suma af þeim sem fóru með forystuna. Sjöunda höfuð dýrsins stöðvaði nánast boðun fagnaðarerindisins um tíma. Jehóva sá þennan atburð fyrir og opinberaði Jóhannesi hann. Hann upplýsti Jóhannes einnig um að andi Guðs myndi blása nýju lífi í niðja konunnar og þeir færu að boða fagnaðarerindið aftur. (Opinb. 11:3, 7-11) Nútímasaga þjóna Jehóva staðfestir að þetta átti sér stað.
ENSK-AMERÍSKA HEIMSVELDIÐ OG FÆTURNIR ÚR JÁRNI OG LEIR
7. Hvernig tengjast sjöunda höfuð dýrsins og líkneskið mikla?
7 Hvernig tengjast sjöunda höfuð dýrsins og líkneskið mikla? Bretland klofnaði frá Rómaveldi og segja má að Bandaríkin hafi gert það óbeint sökum tengsla sinna við Bretland. En hvað um fætur líkneskisins? Þeir eru blanda úr járni og leir. (Lestu Daníel 2:41-43.) Þessi lýsing á við tímann þegar sjöunda höfuðið, það er að segja ensk-ameríska heimveldið, komst til verulegra áhrifa. Rétt eins og leirblandað járn er veikara en hreint járn er ensk-ameríska heimsveldið veikara en Rómaveldi sem það kom af. Hvað veldur því?
8, 9. (a) Hvernig sýndi sjöunda heimsveldið styrk járnsins? (b) Hvað táknar leirinn í fótum líkneskisins?
8 Sjöunda höfuð dýrsins hefur stundum sýnt styrk járnsins. Það sýndi til dæmis mátt sinn og megin með því að sigra andstæðinga sína í fyrri heimsstyrjöldinni. Styrkur járnsins var einnig áberandi í síðari heimsstyrjöldinni.c Eftir stríðið sýndi sjöunda höfuðið enn eiginleika járnsins af og til. En járnið reyndist snemma blandað leir.
9 Þjónum Jehóva hefur lengi verið hugleikið að skilja hvað fætur líkneskisins tákna. Í Daníel 2:41 er talað um að blanda járnsins og leirsins sé eitt og sama „ríkið“ en ekki mörg ríki. Leirinn táknar því öfl innan áhrifasvæðis ensk-ameríska heimsveldisins sem gera það veikara en Rómaveldi sem táknað var með hreinu járni. Leirinn er kallaður ,niðjar mannkyns‘, það er að segja almennir borgarar. (Dan. 2:43, NW) Fólk hefur risið upp og veikt ensk-ameríska heimsveldið með verkalýðsbaráttu og sjálfstæðishreyfingum, og með því að berjast fyrir borgaralegum réttindum. Almenningur gerir ensk-ameríska heimsveldinu erfitt um vik að beita hörku járnsins. Ólíkar stjórnmálaskoðanir og naumir sigrar í kosningum gera auk þess að verkum að leiðtogar, jafnvel þeir vinsælu, hafa ekki skýrt umboð til að hrinda stefnumálum sínum í framkvæmd. Daníel spáði: „Eftir því verður það ríki öflugt að nokkru en máttlítið að nokkru.“ – Dan. 2:42; 2. Tím. 3:1-3.
10, 11. (a) Hvaða framtíð eiga fætur líkneskisins? (b) Hefur fjöldi táa á líkneskinu einhverja sérstaka þýðingu?
10 Bretland og Bandaríkin hafa viðhaldið sterkum tengslum fram á þennan dag. Oft koma þau fram sem ein heild í heimsmálum. Spádómarnir um risalíkneskið og dýrið staðfesta að ensk-ameríska heimsveldið á ekki eftir að víkja fyrir einhverju ókomnu heimsveldi. Það er síðasta heimsveldi sögunnar. Það er vissulega veikara en Rómaveldi, sem fótleggirnir af járni tákna, en það líður samt ekki undir lok af sjálfu sér.
11 Hefur fjöldi táa á líkneskinu einhverja sérstaka þýðingu? Í öðrum sýnum nefnir Daníel ákveðnar tölur, til dæmis hve mörg horn ýmis dýr séu með. Þessar tölur hafa ákveðna merkingu. En þegar Daníel lýsir líkneskinu nefnir hann ekki hve tærnar eru margar. Talan virðist því ekki hafa neina þýðingu frekar en það að líkneskið skuli vera með tvo handleggi, hendur, fótleggi og fætur, auk fingra. Daníel tekur sérstaklega fram að tærnar séu úr járni og leir. Af lýsingu hans má álykta að ensk-ameríska heimsveldið verði við völd þegar „steinninn“, sem táknar ríki Guðs, lendir á fótum líkneskisins. – Dan. 2:45.
ENSK-AMERÍSKA HEIMSVELDIÐ OG TVÍHYRNDA DÝRIÐ
12, 13. Hvað táknar tvíhyrnda dýrið og hvað lætur það gera?
12 Enda þótt ensk-ameríska heimsveldið sé blanda af járni og leir átti það að fara með mikilvægt hlutverk á síðustu dögum. Þetta má sjá af sýnunum, sem Jesús birti Jóhannesi, en þar bregður fyrir dýri með tvö horn og það talaði eins og dreki. Hvað táknar þetta kynlega dýr? Þar sem hornin eru tvö táknar það tvíveldi, það er að segja ensk-ameríska heimsveldið, en nú í sérstöku hlutverki. – Lestu Opinberunarbókina 13:11-15.
13 Þetta dýr lætur gera líkneski af dýrinu með höfuðin sjö. Jóhannes segir að líkneski dýrsins birtist, hverfi og komi svo aftur. Þannig fór fyrir samtökum sem Bretland og Bandaríkin beittu sér fyrir að yrðu stofnuð, en þau áttu að sameina þjóðir heims og vera fulltrúi þeirra.d Þessi samtök voru sett á laggirnar eftir fyrri heimsstyrjöldina og voru kölluð Þjóðabandalagið. Þau hurfu af sjónarsviðinu þegar síðari heimsstyrjöldin braust út. Meðan á stríðinu stóð lýstu þjónar Guðs yfir að samkvæmt spádómum Opinberunarbókarinnar myndi líkneski dýrsins koma aftur. Og það rættist en nú var það nefnt Sameinuðu þjóðirnar. – Opinb. 17:8.
14. Í hvaða skilningi er líkneski dýrsins,áttundi konungurinn‘?
14 Jóhannes kallar líkneski dýrsins með höfuðin sjö,hinn áttunda‘ konung. Hvað á hann við með því? Þetta líkneski kemur ekki fram sem áttunda höfuðið á dýrinu heldur aðeins sem líkneski þess. Það fær vald sitt frá aðildarríkjunum, ekki síst ensk-ameríska heimsveldinu sem er helsti bakhjarl þess. (Opinb. 17:9-11) Það fær hins vegar konungsvald og vinnur ákveðið verk sem hleypir af stað vissri atburðarás og hún breytir gangi sögunnar.
LÍKNESKI DÝRSINS RÍFUR SKÆKJUNA Í SIG
15, 16. Hvað táknar skækjan og hvernig hefur dregið úr stuðningi við hana?
15 Að sögn Jóhannesar situr skækja á skarlatsrauða dýrinu – líkneski dýrsins með höfuðin sjö – og ráðskast með það. Hún heitir „Babýlon hin mikla“. (Opinb. 17:1-6) Skækjan er viðeigandi táknmynd um falstrúarbrögðin í heild sinni. Þar eru kirkjudeildir kristna heimsins fremstar í flokki. Falstrúarbrögðin hafa veitt líkneski dýrsins blessun sína og reynt að stjórna því.
16 Á degi Drottins hefur hins vegar dregið stórlega úr stuðningi fólks við Babýlon hina miklu. Það er táknað með vatninu sem þornar upp. (Opinb. 16:12; 17:15) Sem dæmi má nefna að þegar líkneski dýrsins kom fram í fyrra sinnið réðu kirkjudeildir kristna heimsins lögum og lofum á Vesturlöndum. Nú hafa kirkjur og prestar glatað virðingu og stuðningi fjöldans. Margir eru meira að segja þeirrar skoðunar að trúarbrögðin stuðli að átökum eða beinlínis valdi þeim. Hópur menntamanna á Vesturlöndum gerist æ háværari og herskárri og krefst þess að þjóðfélagið losi sig með öllu undan trúarlegum áhrifum.
17. Hvað verður bráðlega um falstrúarbrögðin og af hverju?
17 En falstrúarbrögðin líða ekki bara hljóðlega undir lok. Skækjan verður áfram áhrifamikið afl og reynir að láta konunga lúta stjórn sinni uns Guð leggur þeim í brjóst að gera vilja sinn. (Lestu Opinberunarbókina 17:16, 17.) Innan skamms lætur Jehóva pólitísku öflin í heimi Satans, sem Sameinuðu þjóðirnar tákna, ráðast á falstrúarbrögðin. Þau munu svipta hana öllum áhrifum og auði. Fyrir fáeinum áratugum hefði þótt ótrúlegt að slíkt gæti gerst en núna riðar skækjan til falls á baki skarlatsrauða dýrsins. Hún á þó ekki eftir að renna hægt af baki heldur dettur hún snögglega og tortímist. – Opinb. 18:7, 8, 15-19.
DÝRIN LÍÐA UNDIR LOK
18. (a) Hvað gerir dýrið og með hvaða afleiðingum? (b) Hvaða ríkjum á Guðsríki eftir að eyða samkvæmt Daníel 2:44? (Sjá skyggða textann á bls. 17.)
18 Eftir að falstrúarbrögðum hefur verið útrýmt verður sjöhöfða dýrinu, sem táknar pólitískt fyrirkomulag Satans á jörðinni, líklega sigað á ríki Guðs. En konungar jarðar geta ekki ráðist á ríki Guðs á himnum svo að þeir láta reiði sína bitna á þeim jarðarbúum sem styðja ríki Guðs. Það getur ekki farið nema á einn veg. (Opinb. 16:13-16; 17:12-14) Daníel lýsir hvernig þessu lokastríði lýkur. (Lestu Daníel 2:44.) Dýrið, sem nefnt er í Opinberunarbókinni 13:1, líkneski þess og tvíhyrnda dýrið verða að engu gerð.
19. Hverju getum við treyst og hvað þurfum við að gera núna?
19 Við lifum á þeim tíma þegar sjöunda höfuðið er við völd. Það eiga ekki eftir að spretta fram fleiri höfuð á dýrinu áður en því er tortímt. Ensk-ameríska heimsveldið fer með völdin þegar falstrúarbrögðunum verður útrýmt. Spádómar Daníels og Jóhannesar hafa ræst í smáatriðum. Við getum treyst að falstrúarbrögðunum verði eytt og stríðið við Harmagedón skelli á innan skamms. Guð hefur opinberað þessa atburðarás nákvæmlega. En gefum við gaum að orðum spámannanna? (2. Pét. 1:19) Nú er rétti tíminn til að taka afstöðu með Jehóva og styðja ríki hans. – Opinb. 14:6, 7.
[Neðanmáls]
a Í Biblíunni er talan tíu oft notuð til að tákna heild. Í þessu tilfelli merkir hún öll ríkin sem spruttu af Rómaveldi.
b Enda þótt bæði Bretland og Bandaríkin væru orðin til á 18. öld lýsir Jóhannes þessu tvíveldi eins og það birtist þegar dagur Drottins hófst. Sýnir Opinberunarbókarinnar áttu einmitt að uppfyllast „á Drottins degi“. (Opinb. 1:10) Það var ekki fyrr en í fyrri heimsstyrjöldinni sem Bretland og Bandaríkin tóku að starfa saman sem eitt heimsveldi, það er að segja sem sjöunda höfuðið.
c Daníel sá fyrir þá skelfilegu eyðileggingu sem þessi konungur olli í síðari heimsstyrjöldinni. „Mikill skaðvaldur verður hann,“ skrifaði Daníel. (Dan. 8:24) Bandaríkin ollu til dæmis ægilegri og áður óþekktri eyðileggingu þegar þau vörpuðu tveim kjarnorkusprengjum á óvinaríki.
d Sjá bókina Revelation – Its Grand Climax at Hand! bls. 240, 241, 253.
[Mynd á bls. 17]
HVER ERU,ÖLL ÞESSI RÍKI‘ Í DANÍEL 2:44?
Í spádóminum í Daníel 2:44 segir að ríki Guðs muni „eyða öllum þessum ríkjum“. Þessi spádómur vísar aðeins til þeirra ríkja sem hinir ólíku hlutar líkneskisins tákna.
Hvað um öll önnur ríki mannanna? Við sjáum heildarmyndina í hliðstæðum spádómi í Opinberunarbókinni. Þar kemur fram að ,allir konungar í veröldinni‘ sameinist gegn Jehóva „á hinum mikla degi Guðs hins alvalda“. (Opinb. 16:14; 19:19-21) Eyðingin í Harmagedón nær því ekki aðeins til ríkjanna sem líkneskið táknar heldur einnig til allra annarra ríkja manna.