Er til staður þar sem Guð pínir látna?
SUMIR segja já, sumir nei; aðrir hreinlega vita það ekki. Fyrir fáeinum öldum var sú trú nánast undantekningarlaus í kristna heiminum að til væri helvíti þar sem iðrunarlausar sálir væru píndar í eldi og brennisteini eftir dauðann. Nú til dags vísa margir slíkum hugmyndum á bug og taka fram yfir þá heimatilbúnu speki að „helvíti sé hérna á jörðinni.“ Hver er sannleikur málsins? Er til eitthvert helvíti þangað sem óguðlegir eru sendir til píningar?
Til eru margvíslegar kenningar um helvíti. Á miðöldum var sú hugmynd almenn að helvíti væri staður í undirheimum þar sem iðrunarlausir syndarar liðu ægilegustu kvalir eilíflega. Hið kunna ljóðskáld Dante, sem fæddist á 13. öld, sagði í bók sinni „Hinar ellefu kvalir helvítis“:
Þar eru brennandi tré sem á eru hengdar sálir þeirra sem aldrei vildu fara í kirkju í þessu lífi.
Þar er ofurheitur ofn og hjá honum standa sjö djöflar sem skófla inn í hann sálum hina seku. . . .
Sálir hina seku hljóta enga hvíld.
Í myndskreytingum Michaelangelos í Sixtínsku kapellunni í Páfagarði er lýst ógnvekjandi helvíti af þessu tagi. Sagt er að myndir hans hafi gert Pál páfa III, sem lét gera skreytingarnar, vitstola af ótta.
Bæði Kalvín og Lúther aðhylltust hugmynd kaþólskra um helvíti. Enn þann dag í dag er kenningunni um loga vítis haldið á lofti. „Aðaleinkenni helvítis,“ segir The New Catholic Encyclopedia, „er það að eldurinn er óslökkvandi . . . og eilífur . . . Hvað svo sem kann að felast í orðunum ‚óslökkvandi eldur‘ og ‚eilífur eldur‘ ætti ekki að skýra þau sem merkingarlaus.“ Hinn kunni ameríski vakningarprédikari Billy Graham bætir við: „Kenninguna um bókstaflegt helvíti er að finna í trú allra helstu kirkjudeildanna. . . . Guð áleit helvíti nógu raunverulegt til að senda einkason sinn í heiminn til að bjarga mönnum frá helvíti.“
Á síðustu árum hefur þó verið tilhneiging í þá átt að túlka kenninguna um eld og vítiskvalir ekki bókstaflega, heldur á þann veg að þær lýsi þeirri hugmynd að hægt sé að glatast og vera fjarlægur Guði um eilífð — líða angist og andlega þjáningu. En bréf frá Páfagarði, gefið út árið 1979 með samþykki Jóhannesar Páls páfa II, ítrekaði þá trú að iðrunarlausir syndarar fari í brennandi helvíti, og varaði við því að út væru breiddar efasemdir um það.
Áhrif á hina lifandi
Sú hugsun ein að til sé brennandi helvíti hefur valdið mörgum manni ómældri hugarkvöl. John Bunyan, höfundur bókarinnar Pilgrim’s Progress, segir frá því að sem níu eða tíu ára dreng hafi sótt á hann „hræðilegir draumar og [hann hafi] . . . skolfið af tilhugsuninni um hinar ógurlegu kvalir í eldum vítis.“ Margir fleiri hafa þjáðst þannig. Maður í Durban í Suður-Afríku segir: „Sem drengur fékk ég hræðilegar martraðir í sambandi við helvíti og grét oft á nóttinni. Ástríkir foreldrar mínir reyndu að hugga mig en gátu ekki.“
Um aldaraðir hefur trúarsetningin um elda vítis verið hömruð inni í hrifnæma hugi barna og þrumuð frá prédikunarstólnum. Hvaða áhrif hefur þessi hugmynd haft á hjörtu fólks? Hefur hún komið því til að vera góðviljaðra, vingjarnlegra og ástríkara í samskiptum við aðra?
Eftir að hafa nefnt að þeir sem stýrðu hinum illræmda rannsóknarrétti álitu að bjarga mætti trúvilltum fórnarlömbum þeirra „með stundlegum eldi frá eilífum,“ segir sagnfræðingurinn Henry C. Lea í bók sinni A History of the Inquisition of the Middle Ages: „Ef réttlátur og almáttugur Guð refsaði harðlega þeim sköpunarverum sínum, sem móðguðu hann, var það ekki fyrir mann að véfengja að vegir hans væru réttir, heldur að líkja auðmjúkur eftir fordæmi hans og fagna því þegar honum var gefið tækifæri til þess.“
Spænski sagnfræðingurinn Felipe Fernández-Armesto segir líka: „Það er að sjálfsögðu rétt að dómstólar rannsóknarréttarins voru vægðarlausir í beitingu sinni á pyndingum til að fá fram sannanir, en sem fyrr verður að meta hrottaskap pyndingana í samanburði við þá píningu sem beið villutrúarmanns, sem ekki játaði, í helvíti.“ — Leturbreyting okkar.
Trúarkenningin um eilífar vítiskvalir hefur breytt mörgum kirkjuræknum manni í guðsafneitara. Jafnvel Billy Graham viðurkennir að hún hafi verið „erfiðust allra kenninga kristninnar að meðtaka.“ En styður Biblían í raun þessa kenningu?
Kenning kristninnar
‚Að sjálfsögðu er hún í Biblíunni,‘ segja margir. Biblían talar um að fólki sé kastað í eld. Tákn- og líkingamál er hins vegar algengt í Biblíunni. Er eldurinn bókstaflegur eða táknrænn? Ef hann er táknrænn, hvað merkir hann þá?
Til dæmis segir Opinberunarbókin 20:15: „Og ef einhver fannst ekki skráður í lífsins bók, var honum kastað í eldsdíkið.“ En 14. versið segir: „Og dauðanum og Helju var kastað í eldsdíkið.“ En undarlegt! Á að pína Helju? Og hvernig er hægt að kasta dauðanum, sem er ástand, í bókstaflegan eld? Síðari hluti 14. versins segir: „Þetta [eldsdíkið] er hinn annar dauði.“ Opinberunarbókin 21:8 endurtekur þetta. Hver er þessi „annar dauði“? Hin kaþólska Jerusalem Bible segir í neðanmálsathugasemd um ‚hinn annan dauða‘: „Eilífur dauði. Eldurinn . . . er táknrænn.“ Það eru orð að sönnu því að hann táknar algera tortímingu eða eyðingu.
Það er athyglisvert að ‚Helja‘ skuli eiga að eyðast! Vert er að gefa því gaum að gríska orðið, sem þýtt er ‚Helja,‘ er Hades sem merkir „gröf“ samkvæmt Exhaustive Concordance of the Bible. Hafa hinir dauðu meðvitund eða þjást þeir í Helju? Biblían svarar: „Hinir dauðu vita ekki neitt . . . Í dánarheimum, þangað sem þú fer, er hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska.“ — Prédikarinn 9:5, 10.
Eru hinir dauðu endalaust í Helju? Nei. Jesús var sjálfur í Helju en „reis upp á þriðja degi“ eins og bæði Biblían kennir og trúarsetningar kirknanna. (1. Korintubréf 15:4; Postulasagan 2:29-32; Sálmur 16:10) Einnig eiga í gegnum hann ‚að rísa upp bæði réttlátir og ranglátir.‘ (Postulasagan 24:15) Helja mun því tæmast og hætta að vera til — „kastað í eldsdíkið.“
En einhver kann að spyrja hvers vegna Opinberunarbókin 20:10 segi að djöfullinn verði kvalinn í eldsdíkinu. Ef eldsdíkið er táknrænt, eins og við höfum séð, hlýtur kvölin að vera það líka.
Á biblíutímanum tíðkaðist að fangaverðir kveldu fanga sína grimmilega og voru því nefndir „kvalarar.“ Í einni af dæmisögum sínum talaði Jesús um grimman þjón sem var ‚afhentur böðlunum‘ (á grísku basanistes, merkir bókstaflega „kvalarar“ eða „böðlar“ og er svo þýtt í mörgum biblíuþýðingum, einnig þýtt fangaverðir). (Matteus 18:34) Þegar því Opinberunarbókin talar um að djöfullinn og aðrir séu „kvaldir . . . um aldir alda“ í eldsdíkinu, þá merkir það að þeir verði „fangelsaðir“ um alla eilífð í hinum öðrum dauða sem er alger tortíming. Djöfullinn, dauðinn sem menn hafa erft frá Adam og iðrunarlausir, óguðlegir menn eru allir sagðir farast að eilífu — „fangelsaðir“ í eldsdíkinu. — Samanber Hebreabréfið 2:14; 1. Korintubréf 15:26; Sálmur 37:38.
Það að gera sér grein fyrir táknmáli Biblíunnar hjálpar okkur að skilja hvað Jesús átti við þegar hann talaði um að syndurum væri ‚kastað í helvíti þar sem ormarnir deyja ekki og eldurinn slokknar ekki.‘ (Markús 9:47, 48) Gríska orðið, sem hér er notað og þýtt „helvíti,“ er geenna eða Gehenna. Rétt utan múra Jerúsalem var dalur með því nafni þangað sem sorpi var hent. Eldar brunnu þar dag og nótt til að eyða sorpinu frá borginni. Stundum var kastað þangað líkum glæpamanna sem álitnir voru óverðugir sómasamlegrar útfarar eða upprisu. Í dalnum voru einnig ormar sem áttu þátt í eyðingunni, en þeir voru auðvitað ekki ódauðlegir! Jesús var einfaldlega að lýsa á myndríku máli, sem Júdeumenn skildu mætavel, að iðrunarlausir, óguðlegir menn myndu tortímast eilíflega. Gehenna hefur því sömu merkingu og „eldsdíkið“ — það táknar hinn annan dauða, eilífa tortímingu.
Trúarsetningin um eilífar kvalir er byggð á kenningunni um ódauðlega sál. Biblían segir hins vegar greinilega: „Sú sálin, sem syndgar, hún skal deyja.“ (Esekíel 18:4, 20; sjá einnig Postulasöguna 3:23.) Þeir sem boðað hafa kenningar um vítiseld hafa látið hinn sanna Guð, Jehóva, virðast grimman og illúðlegan í stað þess sem er sannleikanum samkvæmt: Hann er Guð kærleika, „miskunnsamur og líknsamur . . . gæskuríkur.“ — 2. Mósebók 34:6.
Í kærleika sínum hefur Guð gert ráðstöfun til að bjarga mönnum, ekki frá kvölum heldur eilífri tortímingu. Jesús sagði: „Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ — Jóhannes 3:16.
[Innskot á blaðsíðu 29]
Meðlimir rannsóknarréttarins trúðu að hinar skelfilegu pyndingar þeirra björguðu syndurum frá enn verri örlögum.
[Mynd á blaðsíðu 28]
Þar til nýverið trúði nær allur kristni heimurinn að til væru staðir líkir þessum.