1. KAFLI
„Fylgið mér“ – hvað átti Jesús við?
1, 2. Hvert er besta boð sem nokkur maður gæti fengið og hvaða spurningar ættum við að spyrja okkur?
HVERT er besta boð sem þú hefur fengið á ævinni? Þér dettur ef til vill í hug þegar þér var boðið að vera viðstaddur sérstakan viðburð, svo sem brúðkaup tveggja einstaklinga sem þér þykir afar vænt um. Eða hugsarðu til þess dags þegar þér var boðið að taka að þér mikilvægt starf? Hafirðu einhvern tíma fengið boð af slíku tagi varstu eflaust spenntur að þiggja það og þér þótti það mikill heiður. En sannleikurinn er sá að þú hefur fengið miklu betra boð en þetta. Við höfum öll fengið það. Og viðbrögð okkar við þessu boði hafa djúpstæð áhrif á líf okkar. Þetta er mikilvægasta ákvörðun sem við tökum á ævinni.
2 Hvaða boð er þetta? Það kemur frá Jesú Kristi, eingetnum syni hins alvalda Guðs, Jehóva, og það stendur skrifað í Biblíunni. Við lesum orð Jesú í Matteusi 4:19: „Komið og fylgið mér.“ Þetta boð Jesú nær til okkar allra. Við ættum að spyrja okkur hvernig við bregðumst við því. Svarið gæti virst liggja í augum uppi. Myndi nokkur maður hafna svona frábæru boði? Flestir gera það þótt ótrúlegt sé. Hvers vegna?
3, 4. (a) Hvað kann að hafa talist öfundsvert við manninn sem kom til Jesú og spurði hann um eilíft líf? (b) Hvaða góðu eiginleika skyldi Jesús hafa séð í fari unga mannsins?
3 Tökum sem dæmi mann sem fékk þetta boð í eigin persónu fyrir tæplega 2.000 árum. Þetta var mikils virtur maður. Hann bjó yfir að minnsta kosti þrennu sem mörgum þykir eftirsóknarvert eða jafnvel öfundsvert. Hann var ungur, ríkur og voldugur. Í Biblíunni er notað orðalagið: „ungi maðurinn“, „mjög ríkur“ og „einn af leiðtogum fólksins“. (Matteus 19:20; Lúkas 18:18, 23) En það var annað og mikilvægara sem ungi maðurinn hafði til að bera. Hann hafði frétt af Jesú, kennaranum mikla, og honum féll vel það sem hann hafði heyrt.
4 Fáir valdamenn á þeim tíma sýndu Jesú þá virðingu sem hann verðskuldaði. (Jóhannes 7:48; 12:42) En þessi leiðtogi kom öðruvísi fram. Í Biblíunni segir: „[Jesús] hélt nú leiðar sinnar og kom þá maður hlaupandi, féll á kné frammi fyrir honum og spurði: ‚Góði kennari, hvað þarf ég að gera til að hljóta eilíft líf?‘“ (Markús 10:17) Við tökum eftir hve ákafur ungi maðurinn var að fá að tala við Jesú. Hann hljóp til hans á almannafæri rétt eins og fátækt alþýðufólk átti til að gera. Og hann kraup með virðingu frammi fyrir Jesú. Hann sýndi vissa auðmýkt og bar greinilega skyn á andlega þörf sína. Slíkir eiginleikar voru Jesú að skapi. (Matteus 5:3; 18:4) Það er því skiljanlegt að Jesús skyldi horfa á hann „með ástúð“. (Markús 10:21) Hvernig svaraði hann spurningu unga mannsins?
Einstakt boð
5. Hvernig svaraði Jesús unga, ríka manninum og hvernig vitum við að það var ekki aðeins auðurinn sem var honum fjötur um fót? (Sjá einnig neðanmálsgrein.)
5 Jesús benti á að faðir sinn hefði nú þegar svarað hinni mikilvægu spurningu um eilíft líf. Hann vísaði til Ritningarinnar og ungi maðurinn lýsti yfir að hann fylgdi Móselögunum dyggilega. Jesús bjó hins vegar yfir einstöku innsæi og vissi hvað bjó innra með manninum. (Jóhannes 2:25) Hann sá að ungi leiðtoginn átti við vandamál að stríða sem hafði áhrif á samband hans við Guð – og þetta var alvarlegt vandamál. Hann sagði þess vegna: „Þú þarft að gera eitt í viðbót.“ Hvað var þetta eina sem vantaði upp á hjá manninum? Jesús sagði: „Farðu og seldu eigur þínar og gefðu fátækum.“ (Markús 10:21) Var Jesús að segja að maður yrði að vera blásnauður til að geta þjónað Guði? Nei, hann var að opinbera mikilvægan sannleika.a
6. Hvað bauð Jesús unga leiðtoganum og hvað sýndu viðbrögð mannsins um hans innri mann?
6 Til að draga fram hvað vantaði upp á hjá manninum bauð Jesús honum: „Komdu … og fylgdu mér.“ Hugsaðu þér: Sonur hins hæsta Guðs bauð þessum manni í eigin persónu að fylgja sér! Og hann lofaði honum ótrúlegum launum fyrir. Hann sagði: „Þá áttu fjársjóð á himni.“ Greip ungi, ríki leiðtoginn þetta tækifæri? Þáði hann þetta frábæra boð? Frásagan segir: „Hann varð dapur við þetta svar og fór hryggur burt því að hann átti miklar eignir.“ (Markús 10:21, 22) Hin óvæntu orð Jesú drógu fram í dagsljósið alvarlegan brest innra með manninum. Honum þótti allt of vænt um eigur sínar og eflaust líka um virðinguna og valdið sem fylgdi þeim. Því miður þótti honum miklu vænna um þetta heldur en Krist. Það eina sem vantaði upp á var því einlægur og fórnfús kærleikur til Jesú og Jehóva. Þar eð unga manninn vantaði þennan kærleika hafnaði hann þessu einstaka boði sem hann fékk. En hvernig snertir þetta þig?
7. Af hverju getum við verið viss um að boð Jesú nái til okkar sem nú lifum?
7 Boð Jesú einskorðaðist ekki við þennan eina mann eða aðeins fáeinar manneskjur. Jesús sagði: „Sá sem vill fylgja mér … fylgi mér.“ (Lúkas 9:23) Við tökum eftir að hver sem er getur fylgt Jesú ef hann „vill“ það í raun og veru. Guð dregur hjartahreina menn til sonar síns. (Jóhannes 6:44) Hann gefur ekki aðeins ríkum tækifæri til að þiggja boð Jesú, ekki aðeins fátækum, ekki aðeins fólki af ákveðnum kynþætti eða þjóðerni og ekki aðeins fólki sem var uppi á fyrstu öld heldur öllum. Orðunum „komdu … og fylgdu mér“ er því einnig beint til þín. Af hverju ætti þig að langa til að fylgja Kristi og hvað er eiginlega fólgið í því?
Hvers vegna ættum við að fylgja Kristi?
8. Hver er sameiginleg þörf allra manna og hvers vegna?
8 Við þurfum að viðurkenna mikilvægan sannleika: Mannkynið hefur ríka þörf fyrir góða forystu. Það vilja ekki allir viðurkenna þessa þörf en hún er fyrir hendi engu að síður. Jeremía spámanni Jehóva var innblásið að skrásetja þessi eilífu sannindi: „Ég veit, Jehóva, að það er ekki mannsins að velja leið sína. Hann getur ekki einu sinni stýrt skrefum sínum á göngunni.“ (Jeremía 10:23) Menn eru hvorki færir um að stjórna sjálfum sér né hafa rétt til þess. Saga mannkyns er að stórum hluta til saga slæmrar forystu. (Prédikarinn 8:9) Valdamenn á dögum Jesú kúguðu almenning, fóru illa með hann og afvegaleiddu. Jesús komst skarplega að orði þegar hann sagði að þetta fólk væri eins og „sauðir án hirðis“. (Markús 6:34) Hið sama er að segja um mannkynið nú á dögum. Sem einstaklingar og sem hópur þörfnumst við leiðtoga sem við getum virt og treyst. Er Jesús þess konar leiðtogi? Við skulum líta á nokkrar ástæður fyrir því að svara spurningunni játandi.
9. Að hvaða leyti er Jesús frábrugðinn öllum öðrum leiðtogum?
9 Í fyrsta lagi var Jesús útvalinn af Jehóva Guði. Flestir mennskir leiðtogar eru valdir af öðrum ófullkomnum mönnum sem láta oft blekkjast og hættir til að leggja rangt mat á aðra. Jesús er frábrugðinn öðrum leiðtogum. Titillinn sem honum er gefinn segir okkur það. Orðin „Kristur“ og „Messías“ merkja ‚hinn smurði‘. Jesús var smurður eða sérskipaður til að gegna þessu heilaga embætti, og það var enginn annar en Drottinn alheims sem skipaði hann. Jehóva Guð sagði um son sinn: „Sjáið þjón minn sem ég hef valið, hann sem ég elska og hef velþóknun á. Ég læt anda minn koma yfir hann.“ (Matteus 12:18) Enginn veit betur en skaparinn hvers konar leiðtoga okkur vantar. Viska Jehóva er óendanleg þannig að við höfum fulla ástæðu til að treysta að hann hafi valið rétt. – Orðskviðirnir 3:5, 6.
10. Af hverju er Jesús besta fyrirmynd sem menn geta haft?
10 Í öðru lagi gaf Jesús okkur fullkomið og hvetjandi fordæmi. Góður leiðtogi býr yfir eiginleikum sem þegnar hans geta hrifist af og líkt eftir. Hann veitir forystu með því að vera góð fyrirmynd og er öðrum hvatning til að verða betri menn. Hvaða eiginleika myndir þú meta mest í fari leiðtoga? Hugrekki? Visku? Umhyggju? Hvað um þrautseigju þegar á móti blæs? Þegar þú kynnir þér söguna af ævi Jesú hér á jörð uppgötvar þú að hann bjó yfir þessum eiginleikum og mörgum fleiri. Hann var eftirmynd föður síns á himnum í einu og öllu og hafði til að bera sömu eiginleikana og hann. Hann var fullkominn maður að öllu leyti. Við finnum því eitthvað sem er vert eftirbreytni í öllu sem hann gerði, í hverju orði sem hann sagði og í sérhverri tilfinningu sem hann sýndi. Biblían segir að hann hafi látið okkur eftir „fyrirmynd“ til þess að við skyldum „feta náið í fótspor hans“. – 1. Pétursbréf 2:21.
11. Hvernig reyndist Jesús vera „góði hirðirinn“?
11 Í þriðja lagi sagðist Jesús vera „góði hirðirinn“ og reis fyllilega undir því. (Jóhannes 10:14) Þetta líkingamál hitti vel í mark meðal fólks á biblíutímanum. Fjárhirðar lögðu hart að sér við að annast sauðina sem þeir áttu að gæta. ‚Góður hirðir‘ setti öryggi og velferð hjarðarinnar framar sínu eigin. Davíð, sem var forfaðir Jesú, var til dæmis fjárhirðir á unga aldri og hætti lífinu oftar en einu sinni til að verja sauðahjörðina fyrir árásum hættulegra villidýra. (1. Samúelsbók 17:34–36) Jesús gekk enn lengra til að annast fylgjendur sína. Hann lagði lífið í sölurnar fyrir þá. (Jóhannes 10:15) Ætli margir leiðtogar sýni af sér slíka fórnfýsi?
12, 13. (a) Í hvaða skilningi þekkir fjárhirðir sauðina og hvernig þekkja þeir hann? (b) Af hverju langar þig til að lúta forystu góða hirðisins?
12 Jesús var „góði hirðirinn“ í öðrum skilningi. „Ég þekki sauði mína og þeir þekkja mig,“ sagði hann. (Jóhannes 10:14) Veltu fyrir þér myndinni sem Jesús dregur upp hérna. Fljótt á litið gæti sauðahjörð virst vera lítið annað en sægur af ullarreyfum. Fjárhirðirinn þekkir hins vegar sauðina hvern frá öðrum. Hann veit hvaða ær bera fljótlega og þurfa á hjálp hans að halda. Hann veit hvaða lömbum hann þarf að halda á af því að þau eru enn of lítil og veikburða til að ganga langan veg. Hann veit sömuleiðis hvaða sauðir hafa veikst eða meiðst nýlega. Og sauðirnir þekkja fjárhirðinn. Þeir villast aldrei á rödd hans og rödd annars fjárhirðis. Þeir bregðast skjótt við þegar þeir skynja ákafa eða viðvörunartón í rödd hans. Þeir fylgja honum hvert sem hann fer. Og hann veit hvert hann á að leiða þá. Hann veit hvar grasið er grænt og gróskumikið, hvar árnar eru ferskar og tærar og bithaganir öruggir. Sauðirnir finna að þeir eru óhultir undir umsjón hans. – Sálmur 23.
13 Þráir þú ekki forystu af þessu tagi? Góði hirðirinn hefur alltaf komið fram við sauði sína eins og hér er lýst. Hann lofar að leiða þig með þeim hætti að þú njótir hamingju og lífsfyllingar núna og að eilífu. (Jóhannes 10:10, 11; Opinberunarbókin 7:16, 17) Við þurfum þess vegna að glöggva okkur á hvað sé fólgið í því að fylgja Kristi.
Hvað er fólgið í því að fylgja Kristi?
14, 15. Af hverju er ekki nóg að segjast vera kristinn eða eiga tilfinningaleg tengsl við Krist til að vera fylgjandi hans?
14 Ótalmargir hugsa líklega sem svo að þeir hafi þegið boð Jesú og þeir kalla sig kristna. Þeir tilheyra ef til vill sömu kirkjudeild og foreldrar þeirra voru í þegar þeir létu skíra þá. Sumir segjast tengdir Jesú tilfinningaböndum og hafa tekið við honum sem persónulegum frelsara sínum. En verða þeir þar með fylgjendur Krists? Var það þetta sem Jesús hafði í huga þegar hann bauð okkur að fylgja sér? Nei, það er miklu meira fólgið í því.
15 Lítum á kristna heiminn sem dæmi, það er að segja þær þjóðir þar sem meirihlutinn telur sig fylgja Kristi. Lifir kristni heimurinn í samræmi við kenningar Jesú Krists eða sjáum við hatur, kúgun, glæpi og óréttlæti í þessum löndum að sama skapi og annars staðar í heiminum?
16, 17. Hvað vantar oft upp á hjá þeim sem kalla sig kristna og hvað einkennir sanna fylgjendur Krists?
16 Jesús sagði að sannir fylgjendur hans myndu ekki þekkjast aðeins af orðum sínum eða nafninu sem þeir kenndu sig við heldur fyrst og fremst af verkunum. Hann sagði til dæmis: „Ekki munu allir sem segja við mig: ‚Drottinn, Drottinn,‘ ganga inn í himnaríki heldur aðeins þeir sem gera vilja föður míns sem er á himnum.“ (Matteus 7:21) Af hverju gera fáir vilja föðurins þó að margir kalli Jesú Drottin sinn? Mundu eftir unga, ríka höfðingjanum. Það er allt of algengt að eitt vanti upp á hjá þeim sem kalla sig kristna – heils hugar kærleika til Jesú og þess sem sendi hann.
17 Hvernig má það vera? Milljónir manna kalla sig kristna og segjast eflaust elska Jesú. En það er ekki bara nóg að segjast elska Jesú og Jehóva. Jesús sagði: „Sá sem elskar mig heldur orð mín.“ (Jóhannes 14:23) Sömuleiðis sagði hann og talaði þá um sjálfan sig sem hirði: „Sauðirnir mínir heyra rödd mína og ég þekki þá og þeir fylgja mér.“ (Jóhannes 10:27) Já, prófsteinninn á það hvort við elskum Krist er ekki orð okkar eða tilfinningar heldur fyrst og fremst verkin.
18, 19. (a) Hvaða áhrif ætti þekking á Jesú að hafa á okkur? (b) Hvert er markmið þessarar bókar og hvernig geta þeir sem hafa fylgt Kristi um langt skeið haft gagn af henni?
18 En verkin koma auðvitað ekki upp úr þurru heldur endurspegla þau þann mann sem við höfum að geyma innst inni. Þess vegna þurfum við að leggja rækt við okkar innri mann. Jesús sagði: „Til að hljóta eilíft líf þurfa þeir að kynnast þér, hinum eina sanna Guði, og þeim sem þú sendir, Jesú Kristi.“ (Jóhannes 17:3) Ef við öflum okkur nákvæmrar þekkingar á Jesú og hugleiðum það sem við lærum hefur það áhrif á hjartað og kærleikur okkar til hans vex jafnt og þétt. Og þá styrkist löngunin til að fylgja honum dag hvern.
19 Hér erum við einmitt komin að markmiðinu með útgáfu þessarar bókar. Henni er ekki ætlað að gefa heildaryfirlit yfir ævi og þjónustu Jesú heldur skerpa sýn okkar á það hvernig við getum fylgt honum.b Hún á að hjálpa okkur að nota Biblíuna eins og spegil og spyrja okkur: „Fylgi ég Jesú í raun og veru?“ (Jakobsbréfið 1:23–25) Þú hefur ef til vill um langt skeið litið á þig sem einn af sauðum góða hirðisins en þú fellst eflaust á að við höfum endalausa möguleika á að bæta okkur. Biblían hvetur: „Rannsakið stöðugt hvort þið séuð í trúnni og prófið hvaða mann þið hafið að geyma.“ (2. Korintubréf 13:5) Það er full ástæða til að ganga úr skugga um að við fylgjum í raun og veru handleiðslu Jesú, góða hirðisins sem Jehóva hefur falið að gæta okkar.
20. Hvað verður skoðað í næsta kafla?
20 Það er von okkar að þessi bók hjálpi þér að styrkja kærleikann til Jesú og Jehóva. Ef þú lætur slíkan kærleika leiða þig í lífinu muntu hljóta allan þann frið og hamingju sem hægt er að njóta í þessum gamla heimi. Þú getur hlotið eilíft líf og lofað Jehóva um allan aldur fyrir að gefa okkur góða hirðinn. En til að kynna okkur fordæmi Jesú þurfum við auðvitað að byggja á réttum grunni. Það er því viðeigandi að skoða í 2. kafla bókarinnar hlutverk Jesú í fyrirætlun Jehóva.
a Jesús sagði ekki öllum fylgjendum sínum að gefa allar eigur sínar. Hann hafði að vísu á orði að erfitt væri fyrir auðugan mann að ganga inn í Guðsríki en bætti svo við: „Guð getur allt.“ (Markús 10:23, 27) Dæmi eru um að auðmenn gerðust fylgjendur Krists. Þeir fengu ákveðnar leiðbeiningar í kristna söfnuðinum en þeir voru ekki beðnir að gefa fátækum allar eigur sínar. – 1. Tímóteusarbréf 6:17.
b Í bókinni Mesta mikilmenni sem lifað hefur er að finna heildstæða samantekt í tímaröð á ævi og þjónustu Jesú. Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.