Hjálpum karlmönnum að taka andlegum framförum
„Héðan í frá skalt þú [fólk] veiða.“ – LÚK. 5:10.
1, 2. (a) Hvernig brugðust karlar við boðun Jesú? (b) Um hvað er rætt í þessari grein?
JESÚS og lærisveinar hans voru í boðunarferð um Galíleu. Dag nokkurn fóru þeir á báti á óbyggðan stað. En mikill mannfjöldi elti þá fótgangandi. Í hópnum voru „um fimm þúsundir karlmanna, auk kvenna og barna“. (Matt. 14:21) Öðru sinni kom fjöldi fólks til Jesú til að fá lækningu meina sinna og heyra hann tala. Þetta voru „fjórar þúsundir karlmanna, auk kvenna og barna“. (Matt. 15:38) Ljóst er að margir karlar voru meðal þeirra sem komu til Jesú og sýndu áhuga á því sem hann kenndi. Jesús gerði ráð fyrir að margir til viðbótar myndu gera það og taka við sannleikanum. Eftir að hafa unnið það kraftaverk að fylla net lærisveinanna af fiski sagði hann Símoni að þaðan í frá skyldu þeir „menn [eða fólk] veiða“. (Lúk. 5:10) Þeir áttu að kasta netum sínum í mannhafið og máttu búast við að margir karlar væru með í aflanum.
2 Karlar sýna líka oft áhuga á boðskap Biblíunnar sem við flytjum. (Matt. 5:3) Hins vegar er algengt að karlar taki ekki andlegum framförum þó að þeir þiggi biblíunámskeið. Hvernig getum við aðstoðað þá? Þótt Jesús hafi ekki notað sértækar aðferðir til að ná til karlmanna kom hann vissulega inn á mál sem voru þeim hugleikin. Við skulum kanna hvernig Jesús kenndi körlum, og læra af honum hvernig hægt sé að takast á við þrennt sem getur tálmað þeim að taka við sannleikanum. Þetta eru (1) áhyggjur af því að sjá sér farborða, (2) ótti við almenningsálitið og (3) minnimáttarkennd.
Að sjá sér farborða
3, 4. (a) Hvað er mikilvægast í hugum margra karla? (b) Af hverju leggja karlar oft meira upp úr fjárhagslegu öryggi en því að kynna sér Biblíuna?
3 „Meistari, ég vil fylgja þér hvert sem þú ferð,“ sagði fræðimaður nokkur við Jesú. En þegar Jesús svaraði: „Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla,“ runnu tvær grímur á manninn. Ekkert bendir til þess að hann hafi gerst fylgjandi Krists. Sennilega leist honum miður vel á að vera ekki öruggur um fæði og húsaskjól. – Matt. 8:19, 20.
4 Karlar leggja oft meira upp úr fjárhagslegu öryggi en því að kynna sér Biblíuna og fara eftir henni. Mörgum þykir mest um vert að afla sér æðri menntunar og komast í vel launaða vinnu. Þeir vita að þeir þurfa að afla sér tekna til að hafa í sig og á. Þeir hugsa því sem svo að vinnan og tekjurnar geri þeim miklu meira gagn en biblíunám og gott samband við Guð. Boðskapur Biblíunnar höfðar kannski til þeirra en „áhyggjur heimsins“ og „tál auðæfanna“ er þeim til trafala svo að þeir láta þar við sitja. (Mark. 4:18, 19) En Jesús hjálpaði lærisveinunum að forgangsraða rétt og við getum líkt eftir kennsluaðferðum hans.
5, 6. Hvað varð þess valdandi að Andrés, Pétur, Jakob og Jóhannes komust að þeirri niðurstöðu að boðunarstarfið væri mikilvægara en brauðstritið?
5 Andrés og Símon Pétur, bróðir hans, voru með sameiginlega útgerð. Hið sama er að segja um bræðurna Jakob og Jóhannes og Sebedeus, föður þeirra. Veiðarnar gengu nógu vel til þess að feðgarnir voru með daglaunamenn í vinnu. (Mark. 1:16-20) Eftir að Jóhannes skírari benti þeim Andrési og Jóhannesi á Jesú voru þeir sannfærðir um að þeir hefðu fundið Messías. Andrés fór til Símonar Péturs og sagði honum tíðindin og ef til vill hefur Jóhannes líka verið fljótur til að segja Jakobi frá. (Jóh. 1:29, 35-41) Á næstu mánuðum ferðuðust fjórmenningarnir með Jesú meðan hann prédikaði í Galíleu, Júdeu og Samaríu. Síðan sneru þeir sér aftur að fiskveiðum. Þeir höfðu áhuga á því sem Jesús kenndi en á þeim tíma var þeim ekki efst í huga að boða fagnaðarerindið.
6 Síðar bauð Jesú þeim Pétri og Andrési að fylgja sér og „menn veiða“. Hvernig brugðust þeir við? „Þegar í stað yfirgáfu þeir netin og fylgdu honum.“ Jakob og Jóhannes fylgdu dæmi þeirra. „Þeir yfirgáfu jafnskjótt bátinn og föður sinn og fylgdu honum.“ (Matt. 4:18-22) Hvað varð þess valdandi að fjórmenningarnir helguðu sig því að boða fagnaðarerindið? Var þetta einhver skyndiákvörðun? Nei, þeir höfðu hlustað á Jesú um nokkurra mánaða skeið, séð hann vinna kraftaverk, tekið eftir réttlætisást hans og orðið vitni að því hve ótrúlegum árangri hann náði með boðun sinni. Þetta styrkti til muna trú þeirra og traust á Jehóva.
7. Hvernig getum við kennt biblíunemendum að treysta því að Jehóva sjái fyrir þjónum sínum?
7 Hvernig getum við líkt eftir Jesú og kennt biblíunemendum okkar að treysta á Jehóva? (Orðskv. 3:5, 6) Kennsluaðferðir okkar hafa töluvert um það að segja. Þegar við kennum getum við lagt áherslu á að Guð lofi að blessa okkur ríkulega ef við látum ríki hans ganga fyrir. (Lestu Malakí 3:10; Matteus 6:33.) Hægt er að vitna í ýmsa ritningarstaði til að benda á hvernig Jehóva sjái fyrir þjónum sínum. En við getum líka kennt fólki með fordæmi okkar. Við getum kennt nemendum okkar að treysta á Jehóva með því að segja þeim frá okkar eigin reynslu. Það er líka áhrifaríkt að segja þeim hvetjandi frásögur sem birst hafa í ritum okkar.a
8. (a) Af hverju þarf biblíunemandi að kynnast af eigin raun að Jehóva er góður? (b) Hvernig getum við hjálpað nemandanum að finna fyrir gæsku Jehóva?
8 En fólk byggir ekki upp sterka trú aðeins með því að lesa og heyra hvernig Jehóva hefur blessað aðra. Biblíunemandi þarf líka að kynnast gæsku Jehóva af eigin raun. Sálmaskáldið söng: „Finnið og sjáið að Drottinn er góður, sæll er sá maður sem leitar hælis hjá honum.“ (Sálm. 34:9) Hvernig getum við sýnt nemandanum fram á að Jehóva sé góður? Segjum sem svo að biblíunemandinn eigi við fjárhagserfiðleika að stríða og sé jafnframt að reyna að sigrast á reykingum, spilafíkn eða ofneyslu áfengis. (Orðskv. 23:20, 21; 2. Kor. 7:1; 1. Tím. 6:10) Við gætum kennt honum að biðja um hjálp Jehóva til að sigrast á ávana sínum. Ætli hann vakni ekki til vitundar um að Jehóva sé góður þegar hann finnur líf sitt breytast til batnaðar? Við getum bent honum á að hann þurfi að sinna andlegu málunum vel með því að taka sér tíma í hverri viku til biblíunáms, til að búa sig undir safnaðarsamkomur og sækja þær. Trú hans hlýtur að styrkjast þegar hann finnur hvernig Jehóva blessar viðleitni hans.
Ótti við almenningsálitið
9, 10. (a) Af hverju héldu Nikódemus og Jósef frá Arímaþeu því leyndu að þeir væru lærisveinar Jesú? (b) Hvers vegna eru sumir karlar tregir til að fylgja Kristi nú á tímum?
9 Sumir karlar eru tregir til að fylgja Kristi vegna þess að þeir verða fyrir hópþrýstingi. Nikódemus og Jósef frá Arímaþeu héldu því leyndu að þeir væru lærisveinar Jesú af ótta við viðbrögð annarra Gyðinga. (Jóh. 3:1, 2; 19:38) Ótti þeirra var ekki ástæðulaus. Svo ákaft var hatur trúarleiðtoganna á Jesú að allir sem játuðu trú á hann voru gerðir samkundurækir. – Jóh. 9:22.
10 Sums staðar er það þannig að karlmaður má búast við að vinnufélagar, vinir eða ættingjar áreiti hann ef hann sýnir áhuga á Guði, Biblíunni eða trúmálum almennt. Annars staðar er beinlínis hættulegt að láta í ljós að maður vilji skipta um trú. Hópþrýstingurinn getur verið sérlega mikill hjá þeim sem eru í herþjónustu eða stjórnmálum eða eru áberandi í samfélaginu. Þýskur maður sagði: „Það er rétt sem þið vottarnir segið um Biblíuna. En ef ég gerðist vottur í dag myndu allir vita það á morgun. Hvað myndu vinnufélagarnir hugsa, nágrannarnir eða félagarnir í klúbbnum sem við fjölskyldan tilheyrum? Ég myndi ekki þola það.“
11. Hvernig hjálpaði Jesús lærisveinunum að sigrast á óttanum við almenningsálitið?
11 Postular Jesú voru engar gungur en voru samt allir smeykir við almenningsálitið. (Mark. 14:50, 66-72) Hvernig hjálpaði Jesús þeim að taka framförum þrátt fyrir mikið mótlæti? Hann bjó þá undir andstöðuna sem þeir áttu eftir að verða fyrir. Hann sagði: „Sælir eruð þér þá er menn hata yður, þá er þeir útskúfa yður og smána og bera út óhróður um yður vegna Mannssonarins.“ (Lúk. 6:22) Hann varaði fylgjendur sína við mótlætinu sem þeir áttu í vændum og minnti þá á að það væri „vegna Mannssonarins“. Jesús fullvissaði þá um að Guð myndi standa með þeim ef þeir reiddu sig á hann. (Lúk. 12:4-12) Hann hvatti nýja fylgjendur sína til að blanda geði við lærisveinana og vingast við þá. – Mark. 10:29, 30.
12. Hvernig getum við hjálpað biblíunemanda að hræðast ekki álit annarra?
12 Við þurfum líka að hjálpa biblíunemendum að hræðast ekki álit annarra. Það er oft auðveldara að takast á við áskoranir ef við erum undirbúin. (Jóh. 15:19) Þú gætir notað Biblíuna til að aðstoða nemandann við að undirbúa einföld og rökrétt svör við spurningum og aðfinnslum vinnufélaga og annarra. Auk þess að vera góður vinur nemandans ættirðu að kynna hann fyrir öðrum í söfnuðinum, ekki síst þeim sem hann gæti átt eitthvað sameiginlegt með. Fyrst og fremst skulum við þó kenna nemendum okkar að biðja oft og innilega til Guðs. Þannig geta þeir styrkt sambandið við Guð og leitað hælis hjá honum. – Lestu Sálm 94:21-23; Jakobsbréfið 4:8.
Minnimáttarkennd
13. Hvaða áhrif getur minnimáttarkennd haft á suma?
13 Karlar ímynda sér stundum að þeir ráði ekki við það sem aðrir í söfnuðinum gera. Kannski eiga þeir ekki auðvelt með lestur, finnst erfitt að koma fyrir sig orði eða eru hreinlega feimnir. Þeim hrýs hugur við tilhugsuninni um að stunda biblíunám, svara á safnaðarsamkomum eða boða trúna meðal almennings. Bróðir nokkur segir að honum hafi þótt boðunarstarfið erfitt þegar hann var ungur: „Ég flýtti mér að dyrunum, þóttist hringja bjöllunni og læddist svo burt í von um að enginn hefði séð mig eða heyrt . . . Mér varð hreinlega illt við tilhugsunina um að fara hús úr húsi.“
14. Af hverju tókst lærisveinum Jesú ekki að lækna andsetinn dreng?
14 Við getum vel ímyndað okkur hvernig lærisveinum Jesú var innanbrjósts eftir að þeim tókst ekki að lækna dreng sem var haldinn illum anda. Faðir hans kom til Jesú og sagði: „[Drengurinn] er tunglsjúkur og illa haldinn. Oft fellur hann á eld og oft í vatn. Ég fór með hann til lærisveina þinna en þeir gátu ekki læknað hann.“ Jesús rak illa andann út og læknaði drenginn. Lærisveinarnir spurðu þá Jesú: „Hvers vegna gátum við ekki rekið hann út?“ Jesús svaraði: „Vegna þess að ykkur skortir trú. Sannlega segi ég ykkur: Ef þið hafið trú eins og mustarðskorn getið þið sagt við fjall þetta: Flyt þig héðan og þangað og það mun flytja sig. Ekkert verður ykkur um megn.“ (Matt. 17:14-20) Sá sem trúir á Jehóva getur sigrast á erfiðleikum sem virðast óyfirstíganlegir. En hvað gerist ef hann missir sjónar á því og fer að einblína á hvað hann geti eða geti ekki? Þá er viðbúið að honum finnist hann ekki vera hæfur til að þjóna Jehóva.
15, 16. Hvernig getum við hjálpað biblíunemanda að sigrast á minnimáttarkennd?
15 Ef biblíunemandi er haldinn minnimáttarkennd er hægt að hvetja hann til að beina athyglinni að Jehóva í stað þess að einblína á sjálfan sig. Pétur skrifaði: „Beygið ykkur . . . undir Guðs voldugu hönd til þess að hann upphefji ykkur á sínum tíma. Varpið allri áhyggju ykkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir ykkur.“ (1. Pét. 5:6, 7) Nemandi okkar þarf að læra að elska Jehóva og langa til að þiggja leiðsögn hans. Hann þarf að meta mikils það sem hann lærir í Biblíunni og bera ávöxt andans. (Gal. 5:22, 23) Nemandinn verður að vera bænrækinn. (Fil. 4:6, 7) Hann þarf enn fremur að treysta að Guð veiti honum styrk og hugrekki til að takast á við hvað sem er og gera skil öllum verkefnum sem honum eru falin. – Lestu 2. Tímóteusarbréf 1:7, 8.
16 Sumir nemendur gætu líka þurft aðstoð við að æfa sig í lestri og tjáskiptum. Öðrum finnst þeir ef til vill hafa gert svo margt illt áður en þeir kynntust Jehóva að þeir séu óhæfir til að þjóna honum. Í báðum tilfellum getum við hjálpað nemandanum með kærleika og þolinmæði. „Ekki þurfa heilbrigðir læknis við heldur þeir sem sjúkir eru,“ sagði Jesús. – Matt. 9:12.
Hjálpum fleiri karlmönnum að kynnast Jehóva
17, 18. (a) Hvernig getum við náð til fleiri karla í boðunarstarfinu? (b) Um hvað er fjallað í næstu grein?
17 Biblían ein hefur að geyma boðskap sem veitir fólki sanna hamingju, og okkur langar til að hjálpa eins mörgum karlmönnum og hægt er að kynnast honum. (2. Tím. 3:16, 17) Hvernig getum við náð til enn fleiri karla í boðunarstarfinu? Með því að nota meiri tíma til að vitna á kvöldin, síðdegis um helgar eða á frídögum þegar fleiri karlar eru heima. Við getum spurt eftir fjölskylduföðurnum ef það er við hæfi. Vitnum líka óformlega eftir því sem við á fyrir körlum sem við vinnum með og reynum einnig að ná sambandi við vantrúaða eiginmenn trúsystra okkar.
18 Ef við erum iðin við að boða fagnaðarerindið getum við treyst að þeir hlusti sem eru móttækilegir. Við skulum leggja okkur vel fram um að sinna öllum sem sýna einlægan áhuga á sannleikanum. En hvernig er hægt að hvetja karla í söfnuðinum til að sækjast eftir ábyrgðarstörfum? Um það er fjallað í næstu grein.
[Neðanmáls]
a Sjá árbækur Votta Jehóva og ævisögur sem birst hafa í Varðturninum og Vaknið!
Hvert er svarið?
• Hvernig er hægt að vekja áhuga karlmanna á andlegum málum?
• Hvernig getum við hjálpað biblíunemendum að standast hópþrýsting?
• Hvernig getum við hjálpað þeim sem eiga við minnimáttarkennd að stríða?
[Mynd á bls. 25]
Skaparðu þér tækifæri til að koma fagnaðarerindinu á framfæri við karlmenn?
[Mynd á bls. 26]
Hvernig geturðu búið biblíunemanda undir prófraunir?