Falsvinur
Þú átt „vin“ sem þú eignaðist þegar þú varst ungur. Hann lét þér líða eins og þú værir þroskaðri og virtist hjálpa þér að falla í hóp unglinganna. Þú gast alltaf leitað til hans til að fá smá „huggun“ þegar þú varst stressaður. Þú hefur lært að treysta á hann við ýmsar aðstæður.
En með tímanum fórstu að taka eftir neikvæðari hliðum á honum. Hann krefst þess að þú sért alltaf með honum jafnvel þótt þú sért óvelkominn sums staðar vegna þess. Og þótt hann kunni að hafa látið þér líða eins og þú værir þroskaðri gerði hann það á kostnað heilsu þinnar. Og ofan á allt saman er hann búinn að stela hluta af laununum þínum.
Nýlega hefurðu verið að reyna að slíta sambandinu en hann leyfir þér það ekki. Að sumu leyti er eins og hann stjórni þér. Þú sérð eftir að hafa hitt hann.
ÞANNIG er samband margra við sígarettuna. Eftir að hafa reykt í 50 ár segir kona sem heitir Earline: „Sígarettan gat hjálpað mér meira en samskipti við aðra manneskju. Hún var meira en bara gamall vinur, stundum var hún eini vinur minn.“ En Earline áttaði sig á því að sígarettan er í raun bæði falsvinur og hættulegur vinur. Inngangsorð greinarinnar hefðu getað verið skrifuð um hana, með einni undantekningu. Þegar hún komst að því að reykingar eru slæmar í augum Guðs vegna þess að þær skaða líkamann sem hann gaf okkur hætti hún að reykja. – 2. Korintubréf 7:1.
Maður að nafni Frank ákvað einnig að hætta að reykja til að þóknast Guði. En það var ekki liðinn nema sólarhringur frá því að hann reykti síðustu sígarettuna þangað til hann var skríðandi undir húsinu sínu í leit að sígarettustubbum sem höfðu dottið á milli gólffjalanna. „Það var þá sem ég vaknaði,“ sagði Frank. „Hvernig gat ég skriðið á fjórum fótum og rótað í óhreinindum til að finna gamla sígarettustubba? Ég fékk mér aldrei sígarettu aftur.“
Hvers vegna hafa reykingar svona sterk tök á fólki? Vísindamenn hafa fundið nokkrar ástæður: (1) Tóbak getur verið jafn ávanabindandi og eiturlyf. (2) Nikótín getur náð til heilans á aðeins sjö sekúndum. (3) Reykingar eru gjarnan jafn sjálfsagður hlutur í lífi fólks eins og að borða, drekka, hafa samskipti við aðra og slaka á.
En það er hægt að losna undan þessari hættulegu fíkn eins og sjá má í tilfelli Earline og Franks. Að lesa greinarnar sem koma hér á eftir er kannski upphaf af nýjum kafla í þínu lífi ef þú vilt hætta að reykja.