Orð Jehóva er lifandi
Höfuðþættir 2. Samúelsbókar
ER FULLKOMIN hlýðni nauðsynleg til að virða drottinvald Jehóva? Gerir ráðvandur maður alltaf rétt í augum Guðs? Hvers konar fólk er ‚eftir Guðs hjarta‘? (1. Samúelsbók 13:14) Þessum spurningum er svarað í 2. Samúelsbók.
Það voru spámennirnir Gað og Natan sem skrifuðu 2. Samúelsbók og báðir áttu náin samskipti við Davíð Ísraelskonung.a Bókin var fullgerð um árið 1040 f.o.t., þegar 40 ára stjórnartíð Davíðs var að ljúka, og hún fjallar aðallega um hann og tengsl hans við Jehóva. Þessi hrífandi frásaga segir frá því hvernig hrjáð þjóð breytist í sameinað ríki undir forystu frækins konungs og öðlast mikla hagsæld. Þetta er magnþrungin saga af fólki og sterkum tilfinningum þess.
DAVÍÐ „EFLDIST MEIR OG MEIR“
Viðbrögð Davíðs, þegar hann fréttir að Sál og Jónatan séu látnir, lýsa vel tilfinningum hans í garð þeirra og Jehóva. Davíð er tekinn til konungs yfir Júdaættkvísl, með stjórnarsetur í Hebron. Ísbóset, sonur Sáls, er tekinn til konungs yfir hinum ættkvíslunum. En Davíð „efldist meir og meir“ og sjö og hálfu ári síðar var hann orðinn konungur alls Ísraels. — 2. Samúelsbók 5:10.
Davíð tekur Jerúsalem af Jebúsítum og gerir hana að höfuðborg ríkisins. Í fyrra sinnið, þegar hann reynir að flytja sáttmálsörkina þangað, endar það með ósköpum. Síðari tilraunin tekst með ágætum og Davíð dansar af gleði. Jehóva gerir sáttmála við hann um ríki. Davíð sigrar óvini sína því að Guð er með honum.
Biblíuspurningar og svör:
2:18 — Af hverju eru Jóab og bræður hans tveir kenndir við móður sína og kallaðir Serújusynir? Í Hebresku ritningunum eru ættir yfirleitt raktar frá föður. Hugsanlegt er að maður Serúju hafi dáið um aldur fram eða ekki talist hæfur til að vera nefndur í hinni helgu frásögn. Eins má vera að Serúja sé nefnd vegna þess að hún var alsystir eða hálfsystir Davíðs. (1. Kroníkubók 2:15, 16) Faðir þeirra bræðra er ekki nefndur nema í sambandi við greftrunarstað hans í Betlehem. — 2. Samúelsbók 2:32.
5:1, 2 — Hve langur tími leið frá því að Ísbóset var ráðinn af dögum þangað til Davíð varð konungur yfir öllum Ísrael? Ætla má að tveggja ára stjórnartíð Ísbósets hafi hafist skömmu eftir að Sál var allur, um svipað leyti og Davíð tók við konungstign í Hebron. Davíð ríkti yfir Júda í sjö og hálft ár með stjórnarsetur þar. Skömmu eftir að hann varð konungur yfir öllum Ísrael flutti hann stjórnarsetrið til Jerúsalem. Það liðu því um fimm ár frá því að Ísbóset var ráðinn af dögum þangað til Davíð varð konungur yfir öllum Ísrael. — 2. Samúelsbók 2:3, 4, 8-11; 5:4, 5.
8:2 — Hve margir Móabítar voru teknir af lífi eftir stríð Ísraelsmanna við þá? Vera má að talan hafi verið ákveðin með mælingu en ekki talningu. Davíð virðist hafa látið Móabítana leggjast hlið við hlið á jörðina. Því næst lét hann mæla með vað eða reipi hve löng röðin var. Tvær vaðlengdir af Móabítum, það er að segja tveir þriðju, voru líflátnar en ein vaðlengd (þriðjungur) látin halda lífi.
Lærdómur:
2:1; 5:19, 23. Davíð gekk til frétta við Jehóva áður en hann settist að í Hebron og áður en hann fór í hernað gegn óvinum sínum. Við ættum sömuleiðis að leita leiðsagnar Jehóva áður en við tökum ákvarðanir sem hafa áhrif á trú okkar.
3:26-30. Hefndarhugur hefur slæmar afleiðingar. — Rómverjabréfið 12:17-19.
3:31-34; 4:9-12. Davíð er til fyrirmyndar fyrir það að vera ekki hefnigjarn og bera ekki kala til annarra.
5:12. Gleymum ekki að Jehóva hefur frætt okkur um vegi sína og gefið okkur tækifæri til að eiga gott samband við sig.
6:1-7. Þó að Davíð hafi gengið gott eitt til braut hann fyrirmæli Guðs með því að reyna að flytja örkina á vagni, og tilraunin mistókst. (2. Mósebók 25:13, 14; 4. Mósebók 4:15, 19; 7:7-9) Það var líka af góðu tilefni sem Ússa greip í örkina, en bæði þessi atvik sýna að góður ásetningur breytir ekki kröfum Guðs.
6:8, 9. Davíð varð mjög þungt í skapi einu sinni þegar á móti blés, en síðan varð hann hræddur. Ef til vill sakaði hann Jehóva um að illa fór. Við verðum að gæta þess að kenna ekki Jehóva um ef við lendum í erfiðleikum af því að við fylgjum ekki fyrirmælum hans.
7:18, 22, 23, 26. Davíð er verður eftirbreytni fyrir auðmýkt sína, óskipta hollustu við Jehóva og áhuga sinn á því að upphefja nafn hans.
8:2. Um 400 ára gamall spádómur rætist. (4. Mósebók 24:17) Jehóva stendur alltaf við orð sín.
9:1, 6, 7. Davíð hélt loforð sitt. Við verðum líka að leggja okkur fram um að vera orðheldin.
JEHÓVA LÆTUR ÓLÁN KOMA YFIR SMURÐAN KONUNG SINN
„Sjá, ég læt ólán koma yfir þig frá húsi þínu,“ segir Jehóva við Davíð, „og tek konur þínar fyrir augunum á þér og gef þær öðrum manni, svo að hann hvíli hjá konum þínum að sólinni ásjáandi.“ (2. Samúelsbók 12:11) Ástæðan fyrir þessum dómi er synd Davíðs með Batsebu. Davíð iðrast og hlýtur fyrirgefningu en þarf engu að síður að taka afleiðingum syndarinnar.
Fyrst deyr barn þeirra Batsebu. Því næst gerist það að Amnon, sonur Davíðs, nauðgar Tamar, hálfsystur sinni. Absalon, albróðir hennar, myrðir Amnon í hefndarskyni. Absalon gerir samsæri gegn föður sínum og lýsir sjálfan sig konung í Hebron. Davíð neyðist til að flýja frá Jerúsalem. Absalon hefur mök við tíu af hjákonum föður síns sem hann hafði skilið eftir til að gæta hússins. Davíð endurheimtir ekki konungstignina fyrr en Absalon er veginn. Seba Benjamíníti gerir uppreisn sem endar með dauða hans.
Biblíuspurningar og svör:
14:7 — Hvað merkir orðalagið ‚sá neisti sem mér er eftir skilinn‘? Með neistanum er átt við lifandi afkomanda.
19:29 — Af hverju brást Davíð með þessum hætti við skýringu Mefíbósets? Eftir að hafa hlustað á Mefíbóset hlýtur konungur að hafa áttað sig á því að það hafi verið misráðið af sér að taka orð Síba góð og gild. (2. Samúelsbók 16:1-4; 19:24-28) Sennilega fór þetta í taugarnar á Davíð þannig að hann vildi ekki heyra minnst á þetta mál framar.
Lærdómur:
11:2-15. Heiðarleg frásögn Biblíunnar af ávirðingum Davíðs vitnar um að hún sé innblásið orð Guðs.
11:16-27. Ef við drýgjum alvarlega synd ættum við ekki að reyna að fela hana eins og Davíð reyndi. Við ættum að játa synd okkar fyrir Jehóva og leita hjálpar safnaðaröldunganna. — Orðskviðirnir 28:13; Jakobsbréfið 5:13-16.
12:1-14. Natan er safnaðaröldungum góð fyrirmynd. Þeir eiga að hjálpa þeim sem syndga að bæta ráð sitt. Öldungarnir þurfa að gegna þessu verkefni fagmannlega.
12:15-23. Davíð sá í réttu ljósi það sem kom fyrir hann og það hjálpaði honum að bregðast rétt við ógæfu sinni.
15:12; 16:15, 21, 23. Akítófel, ráðgjafi Davíðs, var afburðasnjall en þegar útlit var fyrir að Absalon næði völdum sveik hann konung sökum stolts og metnaðargirni. Greind og gáfur geta orðið manni fjötur um fót ef auðmýkt og hollustu er ekki til að dreifa.
19:24, 30. Mefíbóset var Davíð innilega þakklátur fyrir ástúð hans og umhyggju og sætti sig fúslega við ákvörðun konungs í sambandi við Síba. Við ættum að meta Jehóva og söfnuð hans mikils og vera undirgefin.
20:21, 22. Viska einnar manneskju getur afstýrt ógæfu margra. — Prédikarinn 9:14, 15.
„LÁTUM OSS FALLA Í HENDUR DROTTINS“
Þriggja ára hallæri leggst á landið vegna þess að Sál hafði bakað sér blóðsök með því að drepa Gíbeoníta. (Jósúabók 9:15) Gíbeonítar biðja um að fá að lífláta sjö syni Sáls til að hefna fyrir þessa blóðsök. Davíð lætur þá í hendur Gíbeonítum og þurrkinum linnir með hellirigningu. Fjórir risar af þjóð Filista „féllu . . . fyrir Davíð og mönnum hans“. — 2. Samúelsbók 21:22.
Davíð drýgir alvarlega synd með því að fyrirskipa ólöglegt manntal. Hann iðrast þess og kýs að „falla í hendur Drottins“. (2. Samúelsbók 24:14) Plága skellur á í kjölfarið og leggur 70.000 manns að velli. Davíð fylgir fyrirskipun Jehóva og plágunni linnir.
Biblíuspurningar og svör:
21:8 — Nú segir í 2. Samúelsbók 6:23 að Míkal, dóttir Sáls, hafi dáið barnlaus. Af hverju er þá sagt hér að hún hafi átt fimm syni? Líklegasta skýringin er talin vera sú að Merab, systir hennar, hafi átt drengina en hún var gift Adríel. Merab hefur sennilega dáið ung og Míkal tekið drengina í fóstur.
21:9, 10 — Hve lengi vakti Rispa yfir sonum sínum tveim og fimm dóttursonum Sáls sem Gíbeonítar tóku af lífi? Sjömenningarnir voru hengdir „fyrstu daga uppskerunnar“, í mars eða apríl. Lík þeirra voru síðan látin liggja á fjalli uppi. Rispa gætti líkanna um daga og nætur uns Jehóva sýndi að reiði hans hefði linnt með því að stöðva þurrkinn. Ólíklegt er að það hafi hellirignt fyrr en í október þegar uppskerutímanum var lokið. Því er hugsanlegt að Rispa hafi vakað yfir líkunum í fimm eða sex mánuði. Eftir það lét Davíð greftra bein mannanna.
24:1 — Af hverju var það alvarleg synd af hálfu Davíðs að telja þjóðina? Manntal var í sjálfu sér ekki bannað í lögmálinu. (4. Mósebók 1:1-3; 26:1-4) Biblían lætur ósagt hvað Davíð gekk til með því að telja þjóðina. Í 1. Kroníkubók 21:1 kemur hins vegar fram að það hafi verið Satan sem egndi hann til þess. Að minnsta kosti vissi Jóab hershöfðingi að ákvörðun Davíðs um manntal væri röng og reyndi að telja hann af því.
Lærdómur:
22:2-51. Ljóð Davíðs lýsir fagurlega að Jehóva sé hinn sanni Guð og verðskuldi algert traust okkar.
23:15-17. Davíð bar svo djúpa virðingu fyrir lögum Guðs um líf og blóð að hann vildi ekki gera neitt við þessar aðstæður sem bæri keim af því að þau væru brotin. Við þurfum að temja okkur sömu afstöðu til allra boðorða Guðs.
24:10. Samviska Davíðs sló hann svo að hann iðraðist. Er samviska okkar nógu næm til að bregðast þannig við?
24:14. Davíð vissi að Jehóva er miskunnsamari en menn. Erum við sannfærð um það?
24:17. Davíð harmaði að synd sín skyldi koma niður á allri þjóðinni. Iðrandi syndari ætti að harma þann álitshnekki sem söfnuðurinn kann að hafa orðið fyrir sökum atferlis hans.
Við getum verið ‚menn eftir Guðs hjarta‘
Annar konungur Ísraels reyndist vera ‚maður eftir hjarta Jehóva‘. (1. Samúelsbók 13:14) Davíð véfengdi aldrei réttláta mælikvarða Jehóva og reyndi ekki að fara sínu fram óháð honum. Í hvert sinn sem Davíð varð á viðurkenndi hann synd sína, tók ögun og bætti ráð sitt. Davíð var ráðvandur maður. Er ekki viturlegt af okkur að líkja eftir honum, einkum þegar okkur verður eitthvað á?
Ævisaga Davíðs lýsir mjög vel að við viðurkennum drottinvald Jehóva með því að viðurkenna mælikvarða hans á gott og illt og reynum sem best við getum að fylgja honum dyggilega. Við erum fyllilega fær um það. Við megum vera þakklát fyrir þá lærdóma sem draga má af 2. Samúelsbók. Þessi innblásna saga er sannarlega lifandi og kröftug. — Hebreabréfið 4:12.
[Neðanmáls]
a Samúelsbækurnar tvær voru upphaflega ein bókrolla. Þar af leiðandi eru þær báðar kenndar við Samúel þó að hann hafi ekki átt þátt í að skrifa síðari bókina. Samúel skrifaði stærstan hluta fyrri bókarinnar sem kennd er við hann.
[Mynd á blaðsíðu 28]
Davíð minnti sig á hver hefði fest hann í sessi sem konung. Það hjálpaði honum að vera auðmjúkur.
[Myndir á blaðsíðu 30]
„Ég læt ólán koma yfir þig frá húsi þínu.“
Batseba
Tamar
Amnon