Önnur Mósebók
22 Ef maður stelur nauti eða sauð og slátrar skepnunni eða selur hana á hann að bæta naut með fimm nautum og sauð með fjórum sauðum.+
2 (Ef þjófur+ er staðinn að verki við innbrot og honum er veitt banahögg telst það ekki blóðsekt. 3 En ef það gerist eftir sólarupprás telst það blóðsekt.)
Þjófur skal greiða bætur. Ef hann á ekkert skal selja hann sem þræl í bætur fyrir það sem hann stal. 4 Ef hið stolna finnst lifandi hjá honum, hvort heldur naut, asni eða sauður, á hann að greiða tvöfalt í bætur.
5 Ef einhver beitir skepnum sínum á akur eða víngarð og lætur þær bíta á akri annars manns á hann að bæta það með því besta af sínum eigin akri eða víngarði.
6 Ef eldur kviknar og kemst í þyrnirunna og eyðir kornknippum, óslegnu korni eða akri á sá sem kveikti eldinn að bæta það sem brann.
7 Ef maður felur öðrum manni að geyma fyrir sig peninga eða hluti og því er stolið úr húsi hans skal þjófurinn bæta það tvöfalt ef hann næst.+ 8 Ef þjófurinn finnst ekki á að leiða húseigandann fram fyrir hinn sanna Guð+ til að skera úr um hvort hann hafi stolið eigum hins. 9 Þegar maður sakar annan mann um að hafa undir höndum eitthvað sem hann á ekki, hvort sem það er naut, asni, sauður, fatnaður eða annað sem hefur tapast, eiga þeir báðir að ganga fram fyrir hinn sanna Guð til að ákvarða hvor sé réttmætur eigandi þess.+ Sá sem Guð úrskurðar sekan skal bæta hinum það tvöfalt.+
10 Ef maður felur öðrum manni að sjá um asna, naut, sauð eða aðra skepnu og hún deyr, skaðast illa eða er tekin þegar enginn sér til 11 eiga báðir að ganga fram fyrir Jehóva. Sá sem gætti skepnunnar á að sverja þess eið að hann hafi ekki stolið eigum náunga síns og eigandinn skal samþykkja það. Hinn á þá ekki að greiða bætur.+ 12 En hafi skepnunni verið stolið frá honum á hann að bæta eigandanum hana. 13 Hafi villidýr rifið skepnuna á hann að koma með hana til sönnunar. Hann þarf ekki að greiða bætur fyrir það sem villidýr hefur drepið.
14 En ef maður fær skepnu að láni og hún skaðast illa eða deyr en eigandinn er ekki á staðnum skal sá sem fékk skepnuna að láni bæta hana. 15 Ef eigandinn er viðstaddur skal hinn ekki greiða bætur. Ef skepnan var tekin á leigu eru bæturnar fólgnar í leigunni.
16 Ef maður tælir mey sem er ekki trúlofuð og hefur samfarir við hana skal hann taka sér hana fyrir konu og greiða brúðarverðið fyrir hana.+ 17 Ef faðir hennar vill alls ekki gefa honum hana á maðurinn að greiða upphæð sem samsvarar brúðarverðinu.
18 Þú skalt ekki láta galdrakonu halda lífi.+
19 Sá sem hefur samfarir við dýr skal tekinn af lífi.+
20 Sá sem færir nokkrum öðrum guðum en Jehóva fórnir skal deyja.+
21 Þú skalt ekki fara illa með útlending eða kúga hann+ því að þið voruð útlendingar í Egyptalandi.+
22 Þú skalt ekki níðast á nokkurri ekkju né föðurlausu barni.*+ 23 Ef þú níðist á þeim svo að þau hrópa til mín heyri ég hróp þeirra+ 24 og reiði mín blossar upp. Ég mun drepa ykkur með sverði þannig að konur ykkar verða ekkjur og börn ykkar föðurlaus.
25 Ef þú lánar einhverjum fátækum* af þjóð minni peninga máttu ekki koma fram við hann eins og lánveitandi.* Þú mátt ekki krefjast vaxta af honum.+
26 Ef þú tekur yfirhöfn náunga þíns að veði*+ áttu að skila henni fyrir sólsetur. 27 Hún er eina ábreiðan sem hann hefur, fötin sem skýla honum. Hverju á hann annars að vefja um sig þegar hann leggst til svefns?+ Ég heyri þegar hann hrópar til mín því að ég finn til með honum.+
28 Þú skalt ekki bölva* Guði+ né bölva höfðingja* fólks þíns.+
29 Þú skalt ekki hika við að færa fórnir af ríkulegri uppskeru þinni og því sem flæðir úr vín- og olíupressu þinni.+ Þú átt að gefa mér frumgetinn son þinn.+ 30 Þú skalt gera eftirfarandi við frumburði nauta þinna og sauða:+ Þeir skulu vera sjö daga hjá móður sinni en á áttunda degi skaltu færa mér þá.+
31 Þið skuluð vera mér heilagt fólk.+ Þið megið ekki borða kjöt af neinu sem villidýr hefur rifið á víðavangi.+ Þið skuluð henda því fyrir hundana.