Jóhannes segir frá
7 Eftir þetta hélt Jesús áfram ferð* sinni um Galíleu. Hann vildi ekki fara um Júdeu því að Gyðingar sátu um líf hans.+ 2 En tjaldbúðahátíð*+ Gyðinga var í nánd. 3 Bræður hans+ sögðu þá við hann: „Farðu til Júdeu til að lærisveinar þínir geti líka fengið að sjá verkin sem þú gerir. 4 Enginn sem vill vera þekktur gerir neitt í leynum. Fyrst þú gerir þetta ættirðu að láta umheiminn sjá það.“ 5 Bræður hans trúðu reyndar ekki á hann.+ 6 Jesús sagði því við þá: „Minn tími er enn ekki kominn+ en ykkur hentar hvaða tími sem er. 7 Heimurinn hefur enga ástæðu til að hata ykkur en hann hatar mig því að ég sýni fram á að verk hans séu vond.+ 8 Þið skuluð fara upp eftir á hátíðina en ég fer ekki þangað strax því að minn tími er enn ekki kominn.“+ 9 Eftir að hafa sagt þeim þetta var hann um kyrrt í Galíleu.
10 Þegar bræður hans voru farnir upp eftir til hátíðarinnar fór hann líka þangað en ekki svo menn vissu af heldur með leynd. 11 Gyðingar fóru nú að leita að honum á hátíðinni og spurðu: „Hvar er þessi maður?“ 12 Fólk pískraði mikið um hann sín á milli. Sumir sögðu: „Hann er góður maður.“ Aðrir sögðu: „Nei, hann afvegaleiðir fólk.“+ 13 Enginn talaði þó opinberlega um hann af ótta við Gyðinga.+
14 Þegar hátíðin var hálfnuð fór Jesús upp í musterið og fór að kenna. 15 Gyðingar voru undrandi og sögðu: „Hvernig getur þessi maður þekkt Ritningarnar*+ svona vel án þess að hafa gengið í skóla?“*+ 16 Jesús svaraði þeim: „Það sem ég kenni kemur ekki frá mér heldur þeim sem sendi mig.+ 17 Sá sem vill gera vilja Guðs gerir sér grein fyrir hvort það sem ég kenni er frá Guði+ eða hvort ég kenni mínar eigin hugmyndir. 18 Sá sem boðar eigin hugmyndir leitast við að upphefja sjálfan sig en sá sem vill upphefja þann sem sendi hann+ er sannorður og ekkert ranglæti er í honum. 19 Gaf ekki Móse ykkur lögin?+ Enginn ykkar fylgir þó lögunum. Hvers vegna viljið þið drepa mig?“+ 20 Fólkið svaraði: „Þú ert andsetinn. Hver vill drepa þig?“ 21 Jesús svaraði: „Ég vann eitt verk og þið eruð öll undrandi. 22 Munið að Móse gaf ykkur umskurðinn+ – hann er reyndar ekki frá Móse heldur forfeðrunum+ – og þið umskerið drengi jafnvel á hvíldardegi. 23 Fyrst þið umskerið á hvíldardegi til að brjóta ekki lög Móse, hvers vegna reiðist þið mér þá fyrir að gera mann alheilbrigðan á hvíldardegi?+ 24 Hættið að dæma eftir ytra útliti. Dæmið heldur réttlátan dóm.“+
25 Nokkrir Jerúsalembúar sögðu þá: „Er þetta ekki maðurinn sem þeir vilja drepa?+ 26 Samt talar hann á almannafæri og þeir segja ekkert við hann. Eru leiðtogarnir orðnir sannfærðir um að þetta sé Kristur? 27 Við vitum nú hvaðan þessi maður er+ en þegar Kristur kemur á enginn að vita hvaðan hann er.“ 28 Jesús var að kenna í musterinu og nú kallaði hann: „Þið þekkið mig og vitið hvaðan ég er. Ég er ekki kominn að eigin frumkvæði+ en sá sem sendi mig er raunverulegur og þið þekkið hann ekki.+ 29 Ég þekki hann+ því að ég er fulltrúi hans og hann sendi mig.“ 30 Þeir vildu nú grípa hann+ en enginn lagði hendur á hann því að tími hans var enn ekki kominn.+ 31 Margir tóku þó trú á hann+ og sögðu: „Varla gerir Kristur fleiri tákn þegar hann kemur en þessi maður hefur gert.“
32 Farísearnir heyrðu fólkið muldra þetta um hann og þeir og yfirprestarnir sendu musterisverði til að handtaka hann. 33 Þá sagði Jesús: „Ég verð hjá ykkur aðeins lengur áður en ég fer til þess sem sendi mig.+ 34 Þið munuð leita mín en ekki finna mig, og þið komist ekki þangað sem ég fer.“+ 35 Gyðingar sögðu þá sín á milli: „Hvert ætlar þessi maður að fara svo að við finnum hann ekki? Hann ætlar þó ekki að fara til Gyðinga sem eru dreifðir meðal Grikkja og kenna Grikkjum? 36 Hvað á hann við þegar hann segir: ‚Þið munuð leita mín en ekki finna mig, og þið komist ekki þangað sem ég fer‘?“
37 Síðasta daginn, hátíðardaginn+ mikla, steig Jesús fram og kallaði: „Sá sem er þyrstur skal koma til mín og drekka.+ 38 ‚Lækir lifandi vatns munu streyma frá innstu hjartarótum þess‘ sem trúir á mig, rétt eins og ritað er.“+ 39 Hér átti hann við andann sem þeir áttu að fá sem trúðu á hann, en fram að þessu hafði enginn fengið andann+ þar sem Jesús var ekki orðinn dýrlegur enn þá.+ 40 Sumir í mannfjöldanum sem heyrðu þetta sögðu: „Þetta er sannarlega spámaðurinn.“+ 41 Aðrir sögðu: „Þetta er Kristur.“+ En sumir sögðu: „Kristur kemur nú varla frá Galíleu.+ 42 Segir ekki í Ritningunni að Kristur eigi að vera afkomandi Davíðs+ og frá Betlehem,+ þorpinu þaðan sem Davíð var?“+ 43 Þannig kom upp misklíð um hann meðal fólksins. 44 Einhverjir vildu handtaka hann en enginn lagði þó hendur á hann.
45 Musterisverðirnir sneru nú aftur til yfirprestanna og faríseanna og þeir síðarnefndu spurðu þá: „Af hverju komuð þið ekki með hann?“ 46 Musterisverðirnir svöruðu: „Enginn maður hefur nokkurn tíma talað eins og hann.“+ 47 Þá sögðu farísearnir: „Ekki hefur hann afvegaleitt ykkur líka? 48 Enginn af leiðtogunum eða faríseunum hefur tekið trú á hann, er það?+ 49 En þessi almúgi sem kann ekkert í lögunum, hann er bölvaður.“ 50 Nikódemus, sem hafði áður komið til hans og var sjálfur farísei, sagði við þá: 51 „Segir ekki í lögum okkar að maður skuli ekki dæmdur nema hann sé yfirheyrður fyrst og kannað hvað hann hefur gert?“+ 52 Þeir svöruðu honum: „Ert þú líka frá Galíleu eða hvað? Kannaðu bara málið og þá sérðu að enginn spámaður á að koma frá Galíleu.“*