Postulasagan
2 Nú var hvítasunnudagur+ runninn upp og lærisveinarnir voru allir samankomnir á einum stað. 2 Skyndilega heyrðist gnýr af himni eins og stormur væri skollinn á og fyllti allt húsið þar sem þeir sátu.+ 3 Þá birtist þeim eitthvað sem líktist eldtungum. Þær kvísluðust og settust á hvern og einn þeirra, 4 og þeir fylltust allir heilögum anda+ og fóru að tala á öðrum tungumálum eins og andinn gerði þeim kleift að tala.+
5 Um þessar mundir dvöldust í Jerúsalem guðræknir Gyðingar frá öllum löndum undir himninum.+ 6 Fjöldi fólks safnaðist saman þegar hljóðið heyrðist og var forviða því að hver og einn heyrði talað á sínu máli. 7 Fólk var agndofa af undrun og sagði: „Eru þetta ekki allt Galíleumenn+ sem tala? 8 Hvernig stendur á því að við heyrum þá tala móðurmál okkar? 9 Við erum Partar, Medar+ og Elamítar,+ við búum í Mesópótamíu, Júdeu og Kappadókíu, Pontus og skattlandinu Asíu,+ 10 Frýgíu og Pamfýlíu, Egyptalandi og héruðum Líbíu í grennd við Kýrene, við erum aðkomin frá Róm, bæði Gyðingar og trúskiptingar,+ 11 Kríteyingar og Arabar – og við heyrum þá tala á okkar tungumálum um stórfengleg verk Guðs.“ 12 Já, fólkið var allt furðu lostið og ráðvillt og sagði hvað við annað: „Hvað er á seyði?“ 13 En aðrir hæddust að þeim og sögðu: „Þau eru drukkin af sætu víni.“*
14 Pétur steig þá fram ásamt þeim ellefu+ og sagði hárri röddu: „Júdeumenn og allir Jerúsalembúar, hlustið og takið vel eftir því sem ég segi. 15 Þetta fólk er ekki drukkið eins og þið haldið enda er ekki nema þriðja stund dags.* 16 Öllu heldur er að rætast það sem Jóel spámaður sagði: 17 ‚„Á síðustu dögum,“ segir Guð, „úthelli ég nokkru af anda mínum yfir alls konar fólk. Synir ykkar og dætur munu spá, ungmenni ykkar munu sjá sýnir og gamalmenni ykkar dreyma drauma.+ 18 Jafnvel yfir þræla mína og ambáttir úthelli ég nokkru af anda mínum á þeim dögum og þau munu spá.+ 19 Ég geri undur* á himni og tákn á jörð – blóð og eld og reykjarmökk. 20 Sólin breytist í myrkur og tunglið verður sem blóð áður en hinn mikli og dýrlegi dagur Jehóva* kemur. 21 Og allir sem ákalla nafn Jehóva* bjargast.“‘+
22 Ísraelsmenn, heyrið þessi orð: Jesús frá Nasaret var maður sem var sendur af Guði. Það sannaðist greinilega með þeim máttarverkum, undrum og táknum sem Guð lét hann gera á meðal ykkar+ eins og þið sjálfir vitið. 23 Þessi maður var framseldur eins og Guð vissi fyrir og hafði ákveðið,*+ og þið rudduð honum úr vegi með því að láta lögbrjóta* negla hann á staur.+ 24 En Guð reisti hann upp.+ Hann leysti hann úr greipum dauðans því að það var ógerlegt að dauðinn héldi honum+ 25 enda segir Davíð um hann: ‚Ég hef Jehóva* stöðugt fyrir augum mér. Hann er mér til hægri handar svo að ég missi aldrei fótanna.* 26 Þess vegna gladdist hjarta mitt og tunga mín fagnaði. Ég* mun lifa í von 27 því að þú skilur mig* ekki eftir í gröfinni* né leyfir að trúr þjónn þinn verði rotnun að bráð.+ 28 Þú kynntir fyrir mér vegi lífsins. Þú fyllir mig gleði þegar ég er nærri þér.‘*+
29 Bræður og systur, leyfið mér að tala opinskátt við ykkur um ættföðurinn Davíð. Hann dó og var grafinn+ og gröf hans er hér enn þann dag í dag. 30 Hann var spámaður og vissi að Guð hafði svarið honum eið að því að setja afkomanda hans í hásæti hans.+ 31 Þess vegna sá hann fyrir og talaði um upprisu Krists, að hann yrði hvorki skilinn eftir í gröfinni* né að hold hans yrði rotnun að bráð.+ 32 Þennan Jesú reisti Guð upp og við erum allir vottar þess.+ 33 Hann var hafinn upp til hægri handar Guðs+ og fékk heilagan anda frá föðurnum+ eins og lofað var og hefur nú úthellt honum eins og þið sjáið og heyrið. 34 Davíð steig ekki upp til himna en hann segir sjálfur: ‚Jehóva* sagði við Drottin minn: „Sittu mér til hægri handar 35 þar til ég legg óvini þína eins og skemil undir fætur þína.“‘+ 36 Öll Ísraelsætt skal því vita með vissu að Guð gerði þennan Jesú, sem þið staurfestuð,+ bæði að Drottni+ og Kristi.“
37 Þegar fólkið heyrði þetta fékk það sting í hjartað og sagði við Pétur og hina postulana: „Menn, bræður, hvað eigum við að gera?“ 38 Pétur svaraði: „Iðrist+ og látið öll skírast+ í nafni Jesú Krists til að fá syndir ykkar fyrirgefnar.+ Þá fáið þið heilagan anda að gjöf 39 því að loforðið+ er gefið ykkur og börnum ykkar og öllum sem eru víðs fjarri, öllum sem Jehóva* Guð okkar kallar til sín.“+ 40 Hann skýrði málin vandlega með mörgum fleiri orðum, hvatti fólkið og sagði: „Látið bjargast frá þessari spilltu kynslóð.“+ 41 Þeir sem tóku fúslega við boðskap hans létu skírast+ og á þeim degi bættust við um 3.000 manns.+ 42 Fólkið einbeitti sér síðan að því sem postularnir kenndu og hélt áfram að safnast saman,* borða saman+ og biðja.+
43 Allir fylltust lotningu en postularnir gerðu mörg undur og tákn.+ 44 Allir sem tóku trú héldu hópinn og höfðu allt sameiginlegt. 45 Þeir seldu eignir sínar+ og muni og skiptu andvirðinu milli allra, eftir þörfum hvers og eins.+ 46 Þeir söfnuðust einhuga saman í musterinu dag eftir dag, borðuðu saman í heimahúsum og skiptu með sér matnum með ánægju og af hjartans einlægni. 47 Þeir lofuðu Guð og nutu velvildar allra. Og Jehóva* bætti daglega við í hópinn nýjum sem létu bjargast.+