Jóhannes segir frá
11 Maður að nafni Lasarus var veikur. Hann var frá Betaníu, þorpi þeirra Maríu og Mörtu+ systur hennar. 2 Þetta var sú María sem hellti ilmolíu á fætur Drottins og þurrkaði þá með hári sínu.+ Það var Lasarus bróðir hennar sem var veikur. 3 Systur hans sendu því Jesú þessi boð: „Drottinn, sá sem þér þykir svo vænt um er veikur.“ 4 Þegar hann heyrði það sagði hann: „Þessi veikindi leiða ekki til dauða heldur verða Guði til dýrðar+ þannig að sonur Guðs hljóti heiður af.“
5 Jesús elskaði Mörtu og systur hennar og Lasarus. 6 Þegar hann frétti að Lasarus væri veikur hélt hann samt kyrru fyrir á sama stað í tvo daga. 7 Að þeim liðnum sagði hann við lærisveinana: „Förum aftur til Júdeu.“ 8 Lærisveinarnir sögðu: „Rabbí,+ Júdeumenn reyndu nýlega að grýta þig.+ Ætlarðu samt þangað aftur?“ 9 Jesús svaraði: „Er ekki dagsbirta í 12 tíma?+ Sá sem gengur í dagsbirtu hrasar ekki um neitt því að hann sér ljós þessa heims. 10 En sá sem gengur um að nóttu til hrasar því að ljósið er ekki í honum.“
11 Síðan bætti hann við: „Lasarus vinur okkar er sofnaður+ en nú fer ég þangað til að vekja hann.“ 12 Þá sögðu lærisveinarnir: „Drottinn, ef hann er sofandi batnar honum.“ 13 En Jesús átti við að hann væri dáinn. Þeir héldu hins vegar að hann væri að tala um venjulegan svefn. 14 Jesús sagði þá berum orðum: „Lasarus er dáinn+ 15 og ég fagna ykkar vegna að ég var ekki þar því að trú ykkar mun styrkjast. En nú skulum við fara til hans.“ 16 Tómas, sem var kallaður Tvíburinn, sagði þá við hina lærisveinana: „Við skulum fara líka til að deyja með honum.“+
17 Þegar Jesús kom þangað hafði Lasarus legið fjóra daga í gröfinni. 18 Betanía var nálægt Jerúsalem, um þrjá kílómetra* þaðan. 19 Margir Gyðingar voru komnir til Mörtu og Maríu til að hugga þær eftir bróðurmissinn. 20 Þegar Marta frétti að Jesús væri að koma fór hún á móti honum en María+ var eftir heima. 21 Marta sagði við Jesú: „Drottinn, ef þú hefðir verið hér væri bróðir minn ekki dáinn. 22 Ég veit samt að Guð gefur þér allt sem þú biður hann um.“ 23 Jesús sagði við hana: „Bróðir þinn mun rísa upp.“ 24 Marta svaraði: „Ég veit að hann rís upp í upprisunni+ á síðasta degi.“ 25 „Ég er upprisan og lífið,“+ sagði Jesús. „Sá sem trúir á mig lifnar aftur þótt hann deyi 26 og sá sem lifir og trúir á mig mun aldrei nokkurn tíma deyja.+ Trúirðu þessu?“ 27 Hún svaraði: „Já, Drottinn, ég trúi að þú sért Kristur, sonur Guðs, sá sem átti að koma í heiminn.“ 28 Að svo mæltu fór hún, kallaði á Maríu systur sína og sagði við hana í hljóði: „Kennarinn+ er kominn og spyr eftir þér.“ 29 Þegar hún heyrði það spratt hún á fætur og fór til hans.
30 Jesús var þó ekki kominn inn í þorpið heldur var enn á staðnum þar sem Marta hafði hitt hann. 31 Gyðingarnir sem voru heima hjá Maríu að hugga hana sáu hana spretta á fætur og fara út. Þeir eltu hana því að þeir héldu að hún ætlaði til grafarinnar+ til að gráta þar. 32 Þegar María kom þangað sem Jesús var og sá hann féll hún til fóta honum og sagði: „Drottinn, ef þú hefðir verið hér væri bróðir minn ekki dáinn.“ 33 Jesús varð sorgmæddur og djúpt snortinn þegar hann sá hana gráta og sá Gyðingana gráta sem voru með henni. 34 „Hvar hafið þið lagt hann?“ spurði hann. Þeir svöruðu: „Drottinn, komdu og sjáðu.“ 35 Þá grét Jesús.+ 36 „Honum þótti greinilega mjög vænt um hann,“ sögðu Gyðingarnir. 37 En sumir þeirra sögðu: „Gat ekki þessi maður, sem gaf blinda manninum sjónina,+ komið í veg fyrir að Lasarus dæi?“
38 Jesús varð aftur djúpt snortinn og fór til grafarinnar. Hún var hellir og steinn var fyrir munnanum. 39 „Takið steininn burt,“ sagði Jesús. Marta, systir hins látna, sagði við hann: „Drottinn, það hlýtur að vera komin nálykt af honum því að það eru liðnir fjórir dagar.“ 40 Jesús svaraði: „Sagði ég þér ekki að þú myndir sjá dýrð Guðs ef þú tryðir?“+ 41 Nú var steinninn tekinn frá. Jesús horfði til himins+ og sagði: „Faðir, ég þakka þér fyrir að hafa bænheyrt mig. 42 Ég veit auðvitað að þú bænheyrir mig alltaf en ég segi þetta vegna fólksins sem stendur hér svo að það trúi að þú hafir sent mig.“+ 43 Síðan hrópaði hann hárri röddu: „Lasarus, komdu út!“+ 44 Maðurinn, sem hafði verið dáinn, kom þá út með línvafninga um hendur og fætur og með klút bundinn um andlitið. Jesús sagði: „Leysið hann og látið hann fara.“
45 Margir Gyðinganna sem höfðu komið til Maríu og sáu það sem Jesús gerði fóru nú að trúa á hann+ 46 en nokkrir þeirra fóru til faríseanna og sögðu þeim hvað hann hafði gert. 47 Yfirprestarnir og farísearnir kölluðu þá Æðstaráðið saman og sögðu: „Hvað eigum við að gera? Þessi maður vinnur mörg kraftaverk.+ 48 Ef við leyfum honum að halda svona áfram fara allir að trúa á hann, og þá koma Rómverjar og taka bæði musteri* okkar og þjóð.“ 49 En einn þeirra, Kaífas,+ sem var æðstiprestur það árið, sagði við þá: „Þið vitið ekki neitt 50 og hafið ekki hugsað út í að það er betra fyrir ykkur að einn maður deyi fyrir fólkið en að öll þjóðin tortímist.“ 51 Það var þó ekki hans eigin hugmynd að segja þetta. Hann var æðstiprestur það árið og þess vegna spáði hann að Jesús ætti að deyja fyrir þjóðina, 52 en ekki aðeins fyrir þjóðina heldur líka til að safna saman dreifðum börnum Guðs. 53 Þennan dag fóru þeir að leggja á ráðin um að drepa hann.
54 Jesús var því ekki lengur á ferli á almannafæri meðal Gyðinga heldur fór hann til staðar í grennd við óbyggðina, til borgar sem heitir Efraím,+ og dvaldist þar með lærisveinunum. 55 Nú nálguðust páskar+ Gyðinga og margir fóru úr sveitunum upp til Jerúsalem fyrir páskana til að hreinsa sig trúarlega. 56 Menn leituðu að Jesú og sögðu sín á milli þar sem þeir stóðu í musterinu: „Hvað haldið þið? Ætli hann komi alls ekki á hátíðina?“ 57 Yfirprestarnir og farísearnir höfðu fyrirskipað að ef einhver kæmist að því hvar Jesús væri ætti hann að tilkynna það svo að þeir gætu handtekið hann.