Matteus segir frá
7 Hættið að dæma+ svo að þið verðið ekki dæmd 2 því að þið verðið dæmd á sama hátt og þið dæmið aðra+ og ykkur verður mælt í sama mæli og þið mælið öðrum.+ 3 Hvers vegna horfirðu á flísina í auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í þínu eigin auga?+ 4 Eða hvernig geturðu sagt við bróður þinn: ‚Leyfðu mér að taka flísina úr auga þínu,‘ þegar þú ert sjálfur með bjálka í auganu? 5 Hræsnari! Fjarlægðu fyrst bjálkann úr þínu eigin auga, þá sérðu skýrt til að taka flísina úr auga bróður þíns.
6 Gefið ekki hundum það sem er heilagt og kastið ekki perlum ykkar fyrir svín+ því að þau myndu troða þær niður, snúa sér við og ráðast á ykkur.
7 Haldið áfram að biðja og ykkur verður gefið,+ haldið áfram að leita og þið munuð finna, haldið áfram að banka og það verður opnað fyrir ykkur+ 8 því að allir fá sem biðja,+ allir finna sem leita og opnað verður fyrir öllum sem banka. 9 Hver myndi gefa syni sínum stein ef hann bæði um brauð? 10 Og varla myndi hann rétta honum höggorm ef hann bæði um fisk. 11 Fyrst þið, sem eruð vond, hafið vit á að gefa börnum ykkar góðar gjafir hlýtur faðir ykkar á himnum miklu frekar að gefa þeim góðar gjafir+ sem biðja hann.+
12 Allt sem þið viljið að aðrir geri fyrir ykkur skuluð þið gera fyrir þá.+ Um þetta snúast lögin og spámennirnir.+
13 Gangið inn um þrönga hliðið+ því að vítt er hliðið og vegurinn breiður sem liggur til tortímingar og margir fara þar inn. 14 En þröngt er hliðið og vegurinn mjór sem liggur til lífsins og fáir finna hann.+
15 Varið ykkur á falsspámönnum+ sem koma til ykkar í sauðargærum+ en eru undir niðri gráðugir úlfar.+ 16 Þið þekkið þá af ávöxtum þeirra. Ekki tína menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum.+ 17 Hvert gott tré ber sömuleiðis góða ávexti en fúið tré vonda.+ 18 Gott tré getur ekki borið vonda ávexti og ekki heldur fúið tré góða.+ 19 Hvert tré sem ber ekki góða ávexti er höggvið og því kastað í eldinn.+ 20 Á sama hátt þekkið þið þessa menn af ávöxtum þeirra.+
21 Ekki munu allir sem segja við mig: ‚Drottinn, Drottinn,‘ ganga inn í himnaríki heldur aðeins þeir sem gera vilja föður míns sem er á himnum.+ 22 Margir munu segja við mig á þeim degi: ‚Drottinn, Drottinn,+ spáðum við ekki í þínu nafni, rákum út illa anda í þínu nafni og unnum mörg máttarverk í þínu nafni?‘+ 23 Þá svara ég þeim: ‚Ég hef aldrei þekkt ykkur. Farið frá mér, illvirkjar!‘+
24 Hver sem heyrir þessi orð mín og fer eftir þeim er eins og skynsamur maður sem byggði hús sitt á klöpp.+ 25 Nú skall á hellirigning, það kom flóð og stormur geisaði og buldi á húsinu en það hrundi ekki af því að það var byggt á klöpp. 26 En hver sem heyrir þessi orð mín og fer ekki eftir þeim er eins og heimskur maður sem byggði hús sitt á sandi.+ 27 Nú skall á hellirigning, það kom flóð og stormur geisaði og buldi á húsinu,+ og það hrundi og gereyðilagðist.“
28 Þegar Jesús lauk ræðunni var mannfjöldinn agndofa yfir kennslu hans+ 29 því að hann kenndi eins og sá sem hefur vald+ en ekki eins og fræðimennirnir.