Fjórða Mósebók
3 Þetta voru afkomendur* Arons og Móse á þeim tíma sem Jehóva talaði við Móse á Sínaífjalli.+ 2 Synir Arons hétu: Nadab, frumburðurinn, og Abíhú,+ Eleasar+ og Ítamar.+ 3 Þetta eru nöfn sona Arons, hinna smurðu presta sem höfðu verið vígðir* til að þjóna sem prestar.+ 4 En Nadab og Abíhú dóu frammi fyrir Jehóva þegar þeir báru fram óleyfilegan eld fyrir Jehóva+ í óbyggðum Sínaí. Þeir áttu enga syni. Eleasar+ og Ítamar+ þjónuðu hins vegar áfram sem prestar ásamt Aroni föður sínum.
5 Jehóva sagði við Móse: 6 „Láttu ættkvísl Leví+ ganga fram og standa frammi fyrir Aroni presti. Þeir eiga að þjóna+ honum. 7 Þeir eiga að gegna þjónustu við samfundatjaldið með því að rækja skyldur sínar gagnvart honum og öllum söfnuðinum við tjaldbúðina. 8 Þeir eiga að sjá um allan búnað+ samfundatjaldsins og rækja skyldur sínar gagnvart Ísraelsmönnum með því að annast þjónustuna við tjaldbúðina.+ 9 Þú átt að gefa Aroni og sonum hans Levítana. Þeir eru aðgreindir frá öðrum Ísraelsmönnum og gefnir honum.+ 10 Þú skalt skipa Aron og syni hans í embætti og þeir eiga að sinna prestsskyldum sínum.+ Ef einhver óviðkomandi* kemur nálægt helgidóminum skal hann tekinn af lífi.“+
11 Jehóva hélt áfram og sagði við Móse: 12 „Ég tek Levítana af Ísraelsmönnum í stað allra frumburða þeirra*+ og Levítarnir skulu tilheyra mér 13 því að allir frumburðir tilheyra mér.+ Daginn sem ég banaði öllum frumburðum í Egyptalandi+ helgaði ég sjálfum mér alla frumburði í Ísrael, bæði manna og skepna.+ Þeir skulu tilheyra mér. Ég er Jehóva.“
14 Jehóva sagði einnig við Móse í óbyggðum Sínaí:+ 15 „Skrásettu syni Leví eftir ættfeðrum þeirra og ættum. Þú átt að skrásetja alla sem eru karlkyns, mánaðargamlir og eldri.“+ 16 Og Móse skrásetti þá eins og Jehóva hafði sagt honum að gera. 17 Synir Leví hétu Gerson, Kahat og Merarí.+
18 Þetta voru nöfn sona Gersons og ættanna sem komu af þeim: Libní og Símeí.+
19 Synir Kahats og ættanna sem komu af þeim voru Amram, Jísehar, Hebron og Ússíel.+
20 Synir Merarí og ættanna sem komu af þeim voru Mahelí+ og Músí.+
Þetta voru ættir og ættfeður Levítanna.
21 Af Gerson komu ætt Libníta+ og ætt Símeíta. Þetta voru ættir Gersoníta. 22 Hjá þeim voru skrásettir 7.500 karlmenn og drengir, mánaðargamlir og eldri.+ 23 Ættir Gersoníta tjölduðu fyrir aftan tjaldbúðina+ vestan megin. 24 Ættarhöfðingi Gersoníta var Eljasaf Laelsson. 25 Synir Gersons+ höfðu það verkefni í samfundatjaldinu að sjá um tjaldbúðina ásamt tjalddúkunum,+ yfirtjaldinu+ og forhenginu+ fyrir inngangi samfundatjaldsins, 26 og um tjöldin+ kringum forgarðinn, forhengið+ fyrir inngangi forgarðsins í kringum tjaldbúðina og altarið, stögin og öll störf sem tengdust því.
27 Af Kahat komu ætt Amramíta, ætt Jíseharíta, ætt Hebroníta og ætt Ússíelíta. Þetta voru ættir Kahatíta.+ 28 Karlmenn og drengir hjá þeim, mánaðargamlir og eldri, voru 8.600. Þeir höfðu það verkefni að sjá um helgidóminn.+ 29 Ættir Kahatíta tjölduðu sunnan megin við tjaldbúðina.+ 30 Ættarhöfðingi Kahatíta var Elísafan Ússíelsson.+ 31 Verkefni þeirra var að sjá um örkina,+ borðið,+ ljósastikuna,+ ölturun,+ áhöldin+ sem voru notuð við þjónustuna við helgidóminn, forhengið+ og öll störf sem tengdust því.+
32 Eleasar,+ sonur Arons prests, var yfirhöfðingi Levítanna. Hann hafði umsjón með þeim sem voru með ábyrgðarstörf við helgidóminn.
33 Af Merarí komu ætt Mahelíta og ætt Músíta. Þetta voru ættir Merarí.+ 34 Skrásettir voru 6.200 karlmenn og drengir, mánaðargamlir og eldri.+ 35 Ættarhöfðingi Meraríta var Súríel Abíhaílsson. Þeir tjölduðu norðan megin við tjaldbúðina.+ 36 Synir Merarí höfðu umsjón með veggrömmum+ tjaldbúðarinnar, þverslám+ hennar, súlum,+ undirstöðuplötum, öllum áhöldum+ hennar og öllum störfum sem tengdust þeim+ 37 og einnig með súlunum kringum forgarðinn og undirstöðuplötum þeirra,+ tjaldhælum og stögum.
38 Móse og Aron og synir hans tjölduðu fyrir framan tjaldbúðina austan megin, við framhlið samfundatjaldsins á móti sólarupprásinni. Þeir höfðu þá ábyrgð að sjá um helgidóminn fyrir hönd Ísraelsmanna. Ef einhver óviðkomandi* kæmi nálægt honum átti að taka hann af lífi.+
39 Levítarnir sem Móse og Aron skrásettu eftir ættum samkvæmt fyrirmælum Jehóva, allir karlmenn og drengir, mánaðargamlir og eldri, voru alls 22.000.
40 Jehóva sagði síðan við Móse: „Skrásettu alla karlkyns frumburði Ísraelsmanna, mánaðargamla og eldri.+ Teldu þá og skrifaðu niður nöfn þeirra. 41 Þú skalt taka Levítana frá handa mér í stað allra frumburða Ísraelsmanna+ og taktu búfé Levítanna í stað allra frumburða af búfé Ísraelsmanna.+ Ég er Jehóva.“ 42 Móse skrásetti þá alla frumburði Ísraelsmanna eins og Jehóva hafði sagt honum að gera. 43 Alls voru skrásettir með nafni 22.273 karlkyns frumburðir, mánaðargamlir og eldri.
44 Jehóva hélt áfram og sagði við Móse: 45 „Taktu Levítana frá í stað allra frumburða Ísraelsmanna og taktu búfé Levítanna í staðinn fyrir búfé þeirra, og Levítarnir skulu tilheyra mér. Ég er Jehóva. 46 En þar sem frumburðir Ísraelsmanna eru 273 fleiri en Levítarnir+ á að greiða í lausnargjald+ 47 fimm sikla* fyrir hvern einstakling+ eftir stöðluðum sikli helgidómsins.* Einn sikill er 20 gerur.*+ 48 Þú átt að fá Aroni og sonum hans peningana í lausnargjald fyrir þá sem eru umfram.“ 49 Móse tók við lausnarfénu sem var greitt til að leysa þá sem voru umfram tölu Levítanna. 50 Hann tók við peningunum af frumburðum Ísraelsmanna, 1.365 siklum eftir stöðluðum sikli helgidómsins. 51 Móse lét síðan Aron og syni hans fá lausnarféð í samræmi við orð Jehóva. Hann gerði eins og Jehóva hafði gefið honum fyrirmæli um.