Fjórða Mósebók
15 Jehóva sagði nú við Móse: 2 „Segðu við Ísraelsmenn: ‚Þegar þið komið inn í landið sem ég gef ykkur til að búa í+ 3 og þið færið Jehóva nautgrip, sauðkind eða geit að eldfórn sem ljúfan* ilm handa Jehóva,+ hvort sem það er brennifórn,+ sláturfórn til að efna sérstakt heit, sjálfviljafórn+ eða fórn á hátíðum ykkar,+ 4 á sá sem færir fórnina líka að færa Jehóva kornfórn úr fínu mjöli.+ Það á að vera tíundi hluti úr efu* blandað fjórðungi úr hín* af olíu. 5 Með brennifórninni eða sláturfórninni á einnig að færa vín að drykkjarfórn, fjórðung úr hín+ fyrir hvert hrútlamb. 6 Með hrút á að færa kornfórn úr tveim tíundu hlutum úr efu af fínu mjöli blönduðu þriðjungi úr hín af olíu. 7 Og þú skalt bera fram þriðjung úr hín af víni að drykkjarfórn sem ljúfan* ilm handa Jehóva.
8 En ef þú færir naut að brennifórn,+ að sláturfórn til að efna sérstakt heit+ eða að samneytisfórn handa Jehóva+ 9 áttu líka að bera fram með nautinu kornfórn+ úr þrem tíundu hlutum úr efu af fínu mjöli blönduðu hálfri hín af olíu. 10 Berðu einnig fram hálfa hín af víni í drykkjarfórn,+ að eldfórn sem er ljúfur* ilmur handa Jehóva. 11 Þannig skal gert við hvert naut, hrút, hrútlamb eða geit. 12 Þetta skuluð þið bera fram með hverri skepnu sem þið fórnið, hversu margar sem þær eru. 13 Þannig eiga allir innfæddir Ísraelsmenn að fara að þegar þeir bera fram eldfórn sem ljúfan* ilm handa Jehóva.
14 Ef útlendingur sem býr hjá ykkur eða einhver sem hefur búið á meðal ykkar kynslóðum saman ætlar að færa eldfórn sem ljúfan* ilm handa Jehóva á hann að fara að eins og þið.+ 15 Sömu ákvæði skulu gilda um ykkur sem tilheyrið söfnuðinum og útlendinginn sem býr hjá ykkur. Það er varanlegt ákvæði kynslóð eftir kynslóð. Útlendingurinn stendur jafnfætis ykkur frammi fyrir Jehóva.+ 16 Sömu lög og réttur gilda um ykkur og útlendinginn sem býr á meðal ykkar.‘“
17 Jehóva hélt áfram og sagði við Móse: 18 „Segðu við Ísraelsmenn: ‚Þegar þið komið inn í landið þangað sem ég leiði ykkur 19 og þið borðið af brauði* landsins+ skuluð þið færa Jehóva framlag. 20 Gefið í framlag kringlótt brauð úr fyrsta grófmalaða korninu.+ Þið skuluð gefa það á sama hátt og framlagið af þreskivellinum. 21 Þið skuluð gefa Jehóva nokkuð af fyrsta grófmalaða korninu í framlag kynslóð eftir kynslóð.
22 Segjum að ykkur verði það á að halda ekki öll þau boðorð sem Jehóva hefur gefið Móse, 23 öll þau fyrirmæli sem Jehóva gaf ykkur fyrir milligöngu Móse og gilda kynslóð eftir kynslóð frá þeim degi sem Jehóva gaf þau. 24 Segjum að fólk viti ekki af mistökum sínum en átti sig á þeim síðar. Þá á allur söfnuðurinn að fórna ungnauti í brennifórn sem er ljúfur* ilmur handa Jehóva, ásamt tilheyrandi kornfórn og drykkjarfórn eins og venja er,+ og kiðlingi í syndafórn.+ 25 Presturinn skal friðþægja fyrir allan söfnuð Ísraelsmanna. Þá verður þeim fyrirgefið+ af því að þeir gerðu þetta óviljandi og þeir hafa fært Jehóva eldfórn og borið syndafórn fram fyrir Jehóva vegna mistaka sinna. 26 Öllum Ísraelsmönnum og útlendingum sem búa á meðal þeirra verður fyrirgefið því að allt fólkið ber sök á yfirsjóninni.
27 Ef einhver syndgar óviljandi skal hann færa geit,* ekki eldri en veturgamla, í syndafórn.+ 28 Og presturinn á að friðþægja fyrir þann sem syndgaði óviljandi frammi fyrir Jehóva. Þannig er friðþægt fyrir syndina og honum verður fyrirgefið.+ 29 Sömu lög skulu gilda um innfædda Ísraelsmenn og útlendinga sem búa á meðal þeirra ef þeir syndga óviljandi.+
30 En sá sem syndgar af ásettu ráði+ smánar Jehóva, hvort sem hann er innfæddur eða útlendingur. Það á að uppræta hann úr þjóðinni.* 31 Hann hefur fyrirlitið orð Jehóva og brotið boðorð hans og þess vegna skal taka hann af lífi.+ Hann ber sjálfur sök á synd sinni.‘“+
32 Meðan Ísraelsmenn voru í óbyggðunum stóðu þeir mann að því að safna viði á hvíldardegi.+ 33 Þeir sem stóðu hann að verki leiddu hann fyrir Móse, Aron og allan söfnuðinn. 34 Þeir settu hann í varðhald+ því að ekki hafði verið tiltekið hvað ætti að gera við hann.
35 Jehóva sagði við Móse: „Maðurinn skal tekinn af lífi.+ Allur söfnuðurinn á að grýta hann fyrir utan búðirnar.“+ 36 Allur söfnuðurinn fór þá með hann út fyrir búðirnar og grýtti hann til bana eins og Jehóva hafði gefið Móse fyrirmæli um.
37 Jehóva sagði síðan við Móse: 38 „Segðu Ísraelsmönnum að gera kögur neðst á jaðri fata sinna og festa blátt band fyrir ofan kögrið.+ Þetta eiga þeir að gera kynslóð eftir kynslóð. 39 ‚Þegar þið sjáið þetta kögur munið þið eftir öllum boðorðum Jehóva og haldið þau.+ Þið megið ekki fylgja hjarta ykkar og því sem augun girnast, en það myndi leiða ykkur út í andlegt vændi með öðrum guðum.+ 40 Þetta hjálpar ykkur að muna eftir öllum boðorðum mínum, halda þau og vera heilög frammi fyrir Guði ykkar.+ 41 Ég er Jehóva Guð ykkar sem leiddi ykkur út úr Egyptalandi til að sýna að ég er Guð ykkar.+ Ég er Jehóva Guð ykkar.‘“+