Bréfið til Kólossumanna
4 Þið húsbændur, komið fram við þræla ykkar af sanngirni og réttlæti því að þið vitið að þið eigið sjálfir húsbónda á himni.+
2 Verið staðföst í bæninni,+ haldið vöku ykkar með hjálp hennar og þakkið Guði.+ 3 Biðjið jafnframt fyrir okkur.+ Biðjið þess að Guð opni dyr fyrir orðið svo að við getum boðað hinn heilaga leyndardóm um Krist en ég er í fjötrum vegna hans.+ 4 Biðjið að ég geti boðað hann eins skýrt og mér ber.
5 Verið vitur í samskiptum við þá sem eru fyrir utan söfnuðinn og notið tímann sem best.*+ 6 Verið alltaf vingjarnleg í tali og kryddið mál ykkar með salti.+ Þá vitið þið hvernig þið eigið að svara hverjum manni.+
7 Týkíkus,+ kær bróðir minn og samstarfsmaður sem þjónar Drottni trúfastlega með mér, mun segja ykkur hvað er að frétta af mér. 8 Ég sendi hann til ykkar svo að þið fáið að vita hvernig við höfum það og til að hann hughreysti ykkur. 9 Ég sendi Onesímus+ með honum, trúan og elskaðan bróður minn sem er úr ykkar hópi. Þeir segja ykkur frá öllu sem er að gerast hér.
10 Aristarkus,+ sem er í haldi með mér, sendir ykkur kveðju og sömuleiðis Markús+ frændi Barnabasar (þið hafið verið beðin um að taka vel á móti honum+ ef hann kemur til ykkar). 11 Jesús, sem er kallaður Jústus, biður einnig að heilsa. Þeir eru einu samstarfsmenn mínir fyrir ríki Guðs meðal hinna umskornu og hafa verið mér til mikillar hughreystingar.* 12 Epafras,+ sem er þjónn Krists Jesú úr ykkar hópi, biður að heilsa ykkur. Hann biður alltaf ákaft fyrir ykkur svo að þið getið að lokum orðið fullþroskuð* og haft bjargfasta sannfæringu um að vilji Guðs nái fram að ganga í öllu. 13 Ég get fullvissað ykkur um að hann leggur hart að sér fyrir ykkur og þá sem eru í Laódíkeu og Híerapólis.
14 Lúkas,+ læknirinn kæri, sendir ykkur kveðju og Demas+ sömuleiðis. 15 Ég bið að heilsa bræðrum og systrum í Laódíkeu og einnig Nýmfu og söfnuðinum sem kemur saman heima hjá henni.+ 16 Þegar búið er að lesa þetta bréf hjá ykkur sjáið þá til þess að það verði líka lesið+ í söfnuði Laódíkeumanna og að þið lesið bréfið þeirra. 17 Og segið Arkippusi:+ „Gættu þjónustunnar sem Drottinn fól þér svo að þú getir sinnt henni vel.“
18 Ég, Páll, skrifa þessa kveðju með eigin hendi.+ Minnist fjötra minna.+ Einstök góðvild Guðs sé með ykkur.