Fyrra bréfið til Korintumanna
4 Menn ættu að líta á okkur sem þjóna* Krists og ráðsmenn heilagra leyndardóma+ Guðs. 2 Nú er þess vænst af ráðsmönnum að þeir reynist trúir. 3 Það skiptir mig ósköp litlu máli hvaða mat þið eða dómstóll manna leggur á mig. Ég legg ekki einu sinni sjálfur mat á mig. 4 Ég veit ekki til þess að ég hafi gert neitt rangt en það sannar þó ekki að ég sé réttlátur. Það er Jehóva* sem rannsakar mig.+ 5 Dæmið því engan+ fyrir tímann, áður en Drottinn kemur. Hann leiðir í ljós það sem leynist í myrkrinu og dregur fram hvað býr í hjörtum manna, og þá fær hver og einn það hrós frá Guði sem hann á skilið.+
6 Nú hef ég, bræður og systur, heimfært þetta upp á* sjálfan mig og Apollós+ ykkar vegna, til að þið lærðuð af okkur regluna: „Gangið ekki lengra en skrifað er,“ og þið ofmetnist ekki+ og takið einn fram yfir annan. 7 Hvað hefur þú fram yfir aðra? Hvað hefur þú sem þú hefur ekki fengið að gjöf?+ Og ef þér var gefið það, hvers vegna stærirðu þig eins og þú hafir ekki fengið það að gjöf?
8 Hafið þið ekki fengið allt sem þið viljið? Eruð þið ekki orðin rík? Eruð þið farin að ríkja sem konungar+ án okkar? Ég vildi óska að þið væruð orðin konungar svo að við gætum ríkt sem konungar með ykkur.+ 9 Mér virðist Guð hafa látið okkur postulana koma síðasta inn á sviðið, eins og dauðadæmda menn.+ Við erum orðnir eins og leiksýning frammi fyrir heiminum,+ englum og mönnum. 10 Við erum heimskir+ vegna Krists en þið eruð vitur vegna Krists. Við erum veikburða en þið sterk. Þið eruð höfð í hávegum en við fyrirlitnir. 11 Allt til þessa höfum við þolað hungur+ og þorsta,+ verið illa klæddir,* þolað barsmíðar,*+ verið heimilislausir 12 og við höfum stritað og unnið með höndum okkar.+ Þegar við erum smánaðir blessum við,+ þegar við erum ofsóttir þraukum við þolinmóðir+ 13 og við svörum mildilega þegar við erum rægðir.+ Fram að þessu höfum við verið álitnir sorp heimsins, úrhrak samfélagsins.
14 Ég skrifa þetta ekki til að þið finnið til skammar heldur til að áminna ykkur eins og ástkær börn mín. 15 Þó að þið hefðuð 10.000 kennara* til að kenna ykkur að fylgja Kristi hafið þið samt ekki marga feður. En í Kristi Jesú er ég orðinn faðir ykkar með því að flytja ykkur fagnaðarboðskapinn.+ 16 Ég hvet ykkur því til að líkja eftir mér.+ 17 Þess vegna sendi ég Tímóteus til ykkar en hann er elskað og trúfast barn mitt í Drottni. Hann mun minna ykkur á hvernig ég fer að* í þjónustu Krists Jesú,+ hvernig ég kenni alls staðar í öllum söfnuðunum.
18 Sumir hafa ofmetnast því að þeir gera ekki ráð fyrir að ég komi til ykkar. 19 En ég kem til ykkar fljótlega ef Jehóva* vill. Ég hef ekki áhuga á því sem þessir stoltu einstaklingar segja heldur vil ég kynna mér kraft þeirra.* 20 Ríki Guðs byggist ekki á orðum heldur krafti. 21 Hvort viljið þið heldur að ég komi til ykkar með vönd+ eða í kærleika og mildi?