Lúkas segir frá
7 Þegar hann hafði lokið við að tala til fólksins gekk hann inn í Kapernaúm. 2 Liðsforingi nokkur átti þjón sem var honum mjög kær. Þjónninn var alvarlega veikur og lá fyrir dauðanum.+ 3 Þegar hann frétti af Jesú sendi hann nokkra af öldungum Gyðinga til að biðja hann að koma og lækna þjón sinn. 4 Þeir komu til Jesú, sárbændu hann um að lækna þjóninn og sögðu: „Liðsforinginn verðskuldar að þú gerir þetta fyrir hann 5 því að hann elskar þjóð okkar og það var hann sem byggði samkunduhúsið okkar.“ 6 Jesús fór þá með þeim. En þegar hann nálgaðist húsið sendi liðsforinginn vini sína og lét segja honum: „Herra, gerðu þér ekki meira ómak því að ég er ekki þess verðugur að þú komir inn í hús mitt.+ 7 Mér fannst ég ekki heldur þess verðugur að koma til þín. En segðu eitt orð þannig að þjónn minn læknist. 8 Ég þarf sjálfur að lúta valdi annarra en ræð líka yfir hermönnum. Ég segi einum: ‚Farðu,‘ og hann fer, og öðrum: ‚Komdu,‘ og hann kemur, og við þjón minn segi ég: ‚Gerðu þetta,‘ og hann gerir það.“ 9 Jesús varð undrandi þegar hann heyrði þetta, sneri sér að mannfjöldanum sem fylgdi honum og sagði: „Svona sterka trú hef ég ekki einu sinni fundið í Ísrael.“+ 10 Þegar vinir liðsforingjans sneru aftur heim til hans fundu þeir þjóninn heilan heilsu.+
11 Skömmu síðar hélt hann til borgar sem heitir Nain og lærisveinar hans fylgdu honum ásamt miklum mannfjölda. 12 Þegar hann nálgaðist borgarhliðið var verið að bera út látinn mann. Hann var einkasonur móður sinnar+ sem var auk þess ekkja. Töluverður fjöldi fólks úr borginni var með henni. 13 Þegar Drottinn kom auga á hana kenndi hann í brjósti um hana+ og sagði: „Gráttu ekki.“+ 14 Síðan gekk hann að líkbörunum og snerti þær en þeir sem báru þær námu staðar. Þá sagði hann: „Ungi maður, ég segi þér: Rístu upp!“+ 15 Hinn látni settist þá upp og fór að tala, og Jesús gaf hann móður hans.+ 16 En ótti greip alla og þeir lofuðu Guð og sögðu: „Mikill spámaður er kominn fram meðal okkar,“+ og: „Guð hefur gefið gaum að fólki sínu.“+ 17 Fréttirnar af þessu bárust um alla Júdeu og allt svæðið í kring.
18 Lærisveinar Jóhannesar sögðu honum nú frá öllu þessu.+ 19 Jóhannes kallaði þá til sín tvo lærisveina sína og sendi þá til Drottins til að spyrja hann: „Ert þú sá sem á að koma+ eða eigum við að búast við öðrum?“ 20 Þegar mennirnir komu til Jesú sögðu þeir: „Jóhannes skírari sendi okkur til að spyrja: ‚Ert þú sá sem á að koma eða eigum við að búast við öðrum?‘“ 21 Þá stundina var hann að lækna marga af veikindum+ og alvarlegum sjúkdómum. Hann rak út illa anda og gaf mörgum blindum sjón. 22 Hann svaraði mönnunum: „Farið og segið Jóhannesi það sem þið hafið séð og heyrt: Blindir sjá,+ fatlaðir ganga, holdsveikir hreinsast, heyrnarlausir heyra,+ dánir eru reistir upp og fátækum er fluttur fagnaðarboðskapurinn.+ 23 Sá sem hneykslast ekki á mér+ er hamingjusamur.“
24 Þegar sendimenn Jóhannesar voru farnir fór Jesús að tala við mannfjöldann um hann og sagði: „Hvað fóruð þið til að sjá í óbyggðunum? Reyr sem sveiflast til í vindi?+ 25 Hvað fóruð þið þá til að sjá? Mann í fínum* fötum?+ Nei, þeir sem eru skartklæddir og lifa munaðarlífi halda til í konungshöllum. 26 Hvað fóruð þið þá eiginlega til að sjá? Spámann? Já, segi ég ykkur, og miklu meira en spámann.+ 27 Það er hann sem skrifað er um: ‚Ég sendi sendiboða minn á undan þér sem greiðir veg þinn.‘+ 28 Ég segi ykkur: Enginn sem er fæddur af konu er meiri en Jóhannes en hinn minnsti í ríki Guðs er meiri en hann.“+ 29 (Þegar allt fólkið og skattheimtumennirnir heyrðu þetta lýstu þeir yfir að Guð væri réttlátur enda höfðu þeir skírst hjá Jóhannesi.+ 30 En farísearnir og hinir löglærðu höfðu leiðbeiningar* Guðs að engu+ því að þeir höfðu ekki skírst hjá honum.)
31 „Við hverja á ég að líkja mönnum þessarar kynslóðar? Hverjum eru þeir líkir?+ 32 Þeir eru eins og börn sem sitja á markaðstorgi og kalla hvert til annars: ‚Við lékum á flautu fyrir ykkur en þið dönsuðuð ekki, við sungum sorgarljóð en þið grétuð ekki.‘ 33 Eins kom Jóhannes skírari, át hvorki brauð né drakk vín+ og þið segið: ‚Hann er haldinn illum anda.‘ 34 Mannssonurinn er kominn, borðar og drekkur og þið segið: ‚Sjáið! Hann er mathákur og drykkfelldur, vinur skattheimtumanna og syndara!‘+ 35 En viskan sannast af árangrinum.“*+
36 Farísei nokkur bauð honum margsinnis að koma og borða hjá sér. Hann gekk því í hús faríseans og lagðist til borðs. 37 Kona sem var þekkt í borginni fyrir syndsamlegt líferni frétti að hann væri í matarboði* í húsi faríseans. Hún kom þangað með ilmolíu í alabastursflösku+ 38 og tók sér stöðu fyrir aftan hann við fætur hans. Hún grét og vætti fætur hans með tárum sínum og þurrkaði þá með höfuðhári sínu, kyssti fætur hans blíðlega og smurði með ilmolíunni. 39 Þegar faríseinn sem hafði boðið honum sá þetta sagði hann við sjálfan sig: „Ef þessi maður væri raunverulegur spámaður vissi hann hvers konar kona þetta er sem snertir hann, að hún er syndug.“+ 40 Jesús sagði þá við hann: „Símon, ég þarf að segja þér svolítið.“ „Segðu það, kennari,“ svaraði hann.
41 „Tveir menn skulduðu lánveitanda nokkrum peninga, annar 500 denara* en hinn 50. 42 Nú gátu þeir ekki endurgreitt honum og þá gaf hann þeim fúslega upp skuldina. Hvor þeirra skyldi elska hann meira?“ 43 Símon svaraði: „Ætli það sé ekki sá sem skuldaði honum meira.“ „Rétt hjá þér,“ sagði Jesús. 44 Þá sneri hann sér að konunni og sagði við Símon: „Sérðu þessa konu? Ég kom í hús þitt og þú gafst mér ekki vatn til að þvo fætur mína. En þessi kona vætti fætur mína með tárum sínum og þurrkaði þá með hárinu. 45 Þú gafst mér ekki koss en þessi kona hefur ekki hætt að kyssa fætur mína síðan ég kom. 46 Þú helltir ekki olíu á höfuð mér en þessi kona hefur smurt fætur mína með ilmolíu. 47 Þess vegna segi ég ykkur að syndir hennar eru fyrirgefnar þótt margar* séu+ því að hún elskaði mikið. En sá sem er fyrirgefið lítið elskar lítið.“ 48 Síðan sagði hann við hana: „Syndir þínar eru fyrirgefnar.“+ 49 Þeir sem lágu til borðs með honum sögðu þá hver við annan: „Hver er þessi maður sem fyrirgefur jafnvel syndir?“+ 50 En hann sagði við konuna: „Trú þín hefur bjargað þér.+ Farðu í friði.“