Fyrsta Mósebók
47 Því næst fór Jósef og sagði við faraó:+ „Faðir minn og bræður eru komnir frá Kanaanslandi með sauði sína, nautgripi og allt sem þeir eiga og eru nú í Gósenlandi.“+ 2 Hann hafði tekið með sér fimm af bræðrum sínum og kynnti þá fyrir faraó.+
3 Faraó spurði bræður hans: „Við hvað starfið þið?“ Þeir svöruðu honum: „Þjónar þínir eru fjárhirðar eins og forfeður okkar.“+ 4 Þeir bættu við: „Við erum komnir til að búa í landinu sem útlendingar+ því að hungursneyðin er mikil í Kanaanslandi+ og þar eru engin beitilönd fyrir hjarðir okkar. Leyfðu því þjónum þínum að setjast að í Gósenlandi.“+ 5 Faraó sagði þá við Jósef: „Faðir þinn og bræður þínir eru komnir til þín. 6 Egyptaland er í þínum höndum. Láttu föður þinn og bræður setjast að á besta stað í landinu.+ Þeir mega búa í Gósenlandi og ef þú veist um duglega menn á meðal þeirra skaltu fela þeim umsjón með hjörðum mínum.“
7 Jósef sótti nú Jakob föður sinn og kynnti hann fyrir faraó. Og Jakob blessaði faraó. 8 Faraó spurði Jakob: „Hversu gamall ertu?“ 9 Jakob svaraði faraó: „Vegferð mín hefur staðið* í 130 ár. Þetta hafa verið erfið ár og fá+ – færri en þau ár sem forfeður mínir náðu á vegferð sinni.“*+ 10 Jakob blessaði síðan faraó og gekk burt frá honum.
11 Jósef gaf föður sínum og bræðrum jarðir í Egyptalandi og þeir settust að á besta stað í landinu, í Ramseslandi,+ eins og faraó hafði fyrirskipað. 12 Jósef sá föður sínum, bræðrum og öllum skyldmennum föður síns fyrir mat* í samræmi við fjölda barna í hverri fjölskyldu.
13 Í landinu var hvergi mat* að fá því að hungursneyðin var mjög mikil og íbúar Egyptalands og Kanaanslands voru örmagna af hungri.+ 14 Fólkið lét Jósef hafa alla peninga sem til voru í Egyptalandi og Kanaanslandi í skiptum fyrir korn.+ Jósef safnaði þeim saman og kom þeim fyrir í húsi faraós. 15 Þegar peningarnir í Egyptalandi og Kanaanslandi þrutu komu allir Egyptar til Jósefs og sögðu: „Gefðu okkur mat! Hvers vegna ættum við að deyja fyrir augunum á þér af því að við erum uppiskroppa með peninga?“ 16 Jósef svaraði: „Ef peningarnir eru búnir komið þá með búfé ykkar og ég læt ykkur fá mat í staðinn.“ 17 Þeir færðu þá Jósef búféð og hann gaf þeim mat í skiptum fyrir hestana, sauðféð, nautgripina og asnana. Það árið sá hann þeim fyrir mat í skiptum fyrir allan búfénað þeirra.
18 Árið leið og næsta ár komu þeir til hans og sögðu: „Við viljum ekki halda því leyndu fyrir herra okkar að við höfum þegar látið þig hafa alla peninga okkar og fénað. Við eigum ekkert eftir til að bjóða herra okkar nema okkur sjálfa og jarðir okkar. 19 Hvers vegna ættum við að farast fyrir augunum á þér, bæði við og jarðir okkar? Taktu okkur og jarðirnar í skiptum fyrir mat og við verðum þrælar faraós og jarðirnar eign hans. Gefðu okkur sáðkorn svo að við höldum lífi og deyjum ekki og jarðirnar leggist ekki í eyði.“ 20 Jósef keypti þá allar jarðir Egypta handa faraó. Allir Egyptar seldu jarðir sínar því að hungursneyðin var mjög mikil. Þannig eignaðist faraó landið.
21 Síðan flutti hann fólkið inn í borgirnar, frá einum enda Egyptalands til annars.+ 22 Jarðir prestanna voru þær einu sem hann keypti ekki+ því að faraó sá prestunum fyrir mat og þeir lifðu á því sem hann gaf þeim. Þess vegna seldu þeir ekki jarðir sínar. 23 Jósef sagði við fólkið: „Í dag hef ég keypt ykkur og jarðir ykkar handa faraó. Hér hafið þið sáðkorn. Sáið því í akrana. 24 Gefið faraó síðan einn fimmta hluta uppskerunnar+ en haldið eftir fjórum fimmtu hlutum til að sá í akrana og til að framfleyta ykkur, heimilisfólki ykkar og börnum.“ 25 Fólkið sagði þá: „Þú hefur bjargað lífi okkar.+ Sýndu okkur velvild, herra, svo að við getum orðið þrælar faraós.“+ 26 Þá gaf Jósef út þá tilskipun, sem gildir allt fram á þennan dag í Egyptalandi, að faraó skyldi fá fimmtung af uppskerunni. Jarðir prestanna voru þær einu sem faraó eignaðist ekki.+
27 Ísraelsmenn voru um kyrrt í Gósenlandi+ í Egyptalandi. Þeir settust þar að, voru frjósamir og þeim fjölgaði mjög.+ 28 Jakob bjó í Egyptalandi í 17 ár og varð 147 ára.+
29 Þegar Ísrael átti skammt eftir ólifað+ kallaði hann á Jósef son sinn og sagði: „Ef þér er hlýtt til mín settu þá hönd þína undir læri mitt og lofaðu að sýna mér trúfesti og tryggan kærleika: Jarðaðu mig ekki í Egyptalandi.+ 30 Farðu með mig úr Egyptalandi þegar ég dey* og jarðaðu mig í gröf forfeðra minna.“+ Jósef svaraði: „Ég skal gera eins og þú segir.“ 31 Ísrael sagði þá: „Sverðu mér eið að því.“+ Og hann sór honum eið. Síðan laut Ísrael niður við höfðalagið á rúmi sínu og bað.+