Átt þú erfitt með að þola gagnrýni?
MANST þú eftir því þegar þú varst síðast gagnrýndur? Endrum og eins verða allir fyrir gagnrýni af ýmsum orsökum.
Ef til vill gagnrýndi einhver þig í þeim tilgangi að upphefja sjálfan sig. Oft kemur gagnrýnin þó frá einstaklingi sem ber hag þinn fyrir brjósti: Maðurinn þinn fann eitthvað athugavert við matargerð þína; konan þín sagði að bindið þitt passaði ekki við jakkafötin; vinur gagnrýndi þig fyrir að hugsa ekki um heilsuna. Kannski var gagnrýnin jafnframt ögun, svo sem frá vinnuveitanda eða foreldri (ef þú ert ófullveðja), og var ætlað að leiðrétta eitthvað sem þú sagðir eða gerðir.
Tókstu gagnrýninni með jákvæðum huga eða fór hún í taugarnar á þér? Sagðirðu þeim sem gagnrýndi þig kannski að skipta sér ekki að því sem kæmi honum ekki við?
Margir eiga mjög erfitt með að taka gagnrýni. Þeir reiðast og móðgast. Aðrir glata sjálfstraustinu, finnst þeir ekki geta gert neitt rétt og verða niðurdregnir.
Ert þú einn af þeim sem eiga erfitt með að taka gagnrýni? Þá ert þú ekkert óvenjulegur því að margir eru þannig stemmdir. Getur þú lært að taka gagnrýni án öfgafullra viðbragða og þannig að hún valdi þér minni sársauka? Í þessari grein verða kannaðar sex leiðir til að gera sér það auðveldara að taka gagnrýni. Þær geta ef til vill hjálpað þér að losna við þann sársauka sem fylgir gagnrýni eða að minnsta kosti tekið sárasta broddinn úr.
1. Þiggðu gagnrýni með þökkum
Þykir þér undarlegt að sumir skuli vilja fá gagnrýni, jafnvel sækjast eftir henni? Tímaritið Bits and Pieces segir: „Snjallir forystumenn . . . vita að þeir munu hafa rangt fyrir sér að ákveðnum hundraðshluta. Þess vegna vilja þeir fá fram andstæð sjónarmið — til að forðast mistök sem frekast er kostur og leiðrétta eins fljótt og þeir geta þau mistök sem þeim hafa orðið á.“
Á sama hátt og sumir geta séð útlitsatriði hjá okkur sem við sjáum ekki — uppbrettan kraga, skakkt bindi — eins geta þeir séð ýmsar hliðar á persónuleika okkar sem við ekki sjáum. Líttu á athugasemdir þeirra sem gagnlegar, ekki ógnandi. Taktu fúslega við gagnrýni þeirra og líttu á hana sem tækifæri til að læra eitthvað. Láttu hana verða þér til styrktar.
2. Hafðu hemil á versta gagnrýnanda þínum
Ert þú mjög gagnrýninn á sjálfan þig? Ert þú sífellt að hugsa um galla þína eða, ef einhver bendir þér á ljóð á ráði þínu, bætir þú honum þá í huga þér við langan lista yfir óskylda veikleika og ágalla?
Dr. Harold Bloomfield bendir á: „Ef við erum þegar undir fargi þungrar sjálfsgagnrýni þá er gagnrýni annarra sérstaklega óþægileg fyrir okkur. Jafnvel þótt einhver hrósi okkur og gagnrýni aðeins eitt smáatriði, þá beinist athygli okkar venjulega meira að gallanum en því sem við gerðum vel.“
Vertu sanngjarn í mati þínu á sjálfum þér. Hvernig getur þú ákveðið hvað sé sanngjarnt? Ímyndaðu þér að náinn vinur fái svipaða gagnrýni og þú. Hvaða viðbragða væntir þú af honum? Sjálfsmeðaumkunar? Reiðikasts? Því að hann hnakkakerrtur hafni góðum ráðum? Nei, líklega vonast þú til að hann hlusti á gagnrýnina og taki hana ekki mjög nærri sér, leggi heiðarlegt mat á hana og noti hana til að bæta sig.
Hvers vegna þá ekki að koma eins fram við sjálfan þig?
3. Biddu um smáatriði
„Mér geðjast ekki að afstöðu þinni!“ Myndir þú vilja að það væri sagt við þig? Líklega ekki, því að athugasemdir af þessu tagi eru særandi.
Bestu viðbrögðin við slíkri athugasemd eru þau að biðja um að nefnd séu einstök atriði eða atvik. Alan Garner segir í bók sinni Conversationally Speaking: „Gagnrýni er oft almennt og óljóst orðuð. . . . Ef þú biður um að nefnd séu ákveðin atvik og atriði kemst þú að raun um nákvæmlega hvaða ástæða er fyrir aðfinnslum hins aðilans. . . . Þú gerir það eitt að spyrja spurninga líkt og fréttamaður, svo sem hver, hvað, hvenær, hvar, hvers vegna og hvernig.“
Þú gætir til dæmis svarað áðurnefndri yfirlýsingu eftir þessum nótum: ‚Hvaða afstöðu hafðir þú sérstaklega í huga?‘ Ef gagnrýnandi þinn er enn þá ekki nógu nákvæmur í svari gætir þú líka spurt: ‚Hvers vegna ergir þetta þig? Viltu nefna mér dæmi um hvenær ég gerði þetta?‘ Spurningar af þessu tagi, sprottnar af löngun til að skiptast á skoðunum við þann sem gagnrýnir þig en ekki að bera brigður á orð hans, geta hjálpað ykkur báðum að einbeita ykkur að ákveðnum atriðum. Spurningarnar geta leitt í ljós hvort gagnrýnin eigi rétt á sér eða ekki, og þær gefa þér aðeins meiri tíma til að hugsa málið.
4. Róaðu gagnrýnanda þinn
Hvað getur þú gert ef sá sem gagnrýnir þig er í uppnámi? Dr. David Burns leggur til eftirfarandi: Hvort sem gagnrýnandi þinn hefur rétt eða rangt fyrir sér skaltu í fyrstu finna einhverja leið til að samsinna honum.“ Hvernig er það þér til framdráttar? Á vissan hátt afvopnar það gagnrýnanda þinn, róar hann og gerir hann opnari fyrir samræðum og skoðanaskiptum.
Ef þú ferð hins vegar strax í varnarstöðu — eins og flestir hafa tilhneigingu til ef þeir verða fyrir óréttmætum ásökunum — þá gætir þú fengið þeim sem gagnrýnir þig fleiri vopn í hendur. Eins og dr. Burns bendir á: „Þú kemst að raun um að andstæðingurinn herðir árásina!“ Það besta, sem þú getur gert, er því að koma auga á eitthvert atriði sem þú getur fallist á, áður en byrjað er að ræða nokkurt af ágreiningsatriðunum.
5. Einbeittu þér að efninu, ekki framsetningunni
Móðir nokkur fékk kvörtun út af hegðun sonar hennar í hverfinu. Kvörtunin var hranalega borin fram og í rifrildistón. Móirin hefði hæglega getað vísað orðum nágrannans á bug sem óréttmætum eða óeinlægum og henni fannst það vissulega freistandi.
Þess í stað sagði hún syni sínum, eftir að hafa komist að þeirri niðurstöðu að það væri nokkur sannleikur í gagnrýninni: „Það eru ekki alltaf þeir sem eru í uppáhaldi hjá okkur sem benda á galla okkar, jafnvel þótt við höfum gott af því. Við skulum líta á þetta sem tækifæri til að taka framförum.“
Hefur einhver ávítað þig harðlega? Kannski hættir þessum einstaklingi til að vera tilfinningasljór eða jafnvel öfundsjúkur. Þú eða einhver annar hefur kannski tækifæri til að hjálpa honum á þessu sviði þegar vel stendur á, en vísaðu orðum hans ekki á bug aðeins vegna þess að hann var hranalegur í orðum. Einbeittu þér að efni gagnrýninnar. Er hún réttmæt? Ef hún er það skaltu ekki neita þér um þetta tækifæri til að taka út þroska.
6. Dragðu úr þunganum
Það kemur þér kannski á óvart, en þú hefur það að nokkru leyti í hendi þér hversu oft þú ert gagnrýndur og hve alvarlega, einkum ef um er að ræða leiðréttandi gagnrýni þeirra sem fara með vald til að stjórna eða ákveða. Hvernig þá?
Endur fyrir löngu var kúmen algeng kryddjurt í Palestínu, en ólíkt öðrum var hún ekki þreskt með þungu vagnhjóli eða þreskisleða. Öllu heldur var hún þreskt með vendi eða staf. Hvers vegna var notuð þessi sérstaka og væga þreskiaðferð? Vegna þess að smágerð og viðkvæm frægin þurftu ekki þung þreskitæki sem hefðu í raun skemmt þau.
Jesajabók Biblíunnar notar kúmenplöntuna sem dæmi til að lýsa mishörðum aga. Þegar maður tekur leiðréttingu af vægara tagi þarf hann ekki alvarlegri leiðréttingu á sama sviði. — Jesaja 28:26, 27.
Þú getur því komist hjá alvarlegri leiðréttingu með því að vera fljótur til að taka leiðréttingu í vægari mynd. Við skulum segja að þú vitir af því að þú mætir oft seint í vinnu. Þá skaltu bæta úr því núna áður en vinnuveitandi þinn talar við þig um það. Hefur hann þegar bent þér á það? Þá skaltu byrja að mæta stundvíslega núna, áður en hann telur sér skylt að grípa til róttækari aðgerða.
Þú getur tekið gagnrýni
Verið getur að þér sárni gagnrýni. Þú óskar þess kannski að fólk láti þig í friði, hætti að fella dóma um þig í tíma og ótíma, hætti að koma með ‚gagnlegar uppástungur.‘
En gagnrýni verður ekki umflúin með óskhyggju eða því að snúast gegn henni. Það að vera gagnrýninn er hluti af mannlegu eðli eins og það er núna. Auk þess ræður þú ekki hve háttvísir aðrir eru þegar þeir óbeðnir gefa þér ráð.
Í stað þess að láta gagnrýni ergja þig skalt þú stjórna því sem þú hefur stjórn á: viðbrögðum þínum. Notfærðu þér einhverjar af tillögunum hér á undan til að taka gagnrýni og slæva sárasta broddinn í henni. Þú munt ekki sjá eftir því.
Að gagnrýna aðra
Ef þú ert viðkvæmur fyrir gagnrýni má vera að þú eigir líka erfitt með að gagnrýna aðra. Hér koma nokkrar ábendingar sem rétt er að hafa í huga þegar koma þarf gagnrýni á framfæri:
Vertu fáorður. Ef þú leggur þig einum of fram við að forðast að særa þann sem þú gagnrýnir gæti kjarni boðskaparins týnst í óhóflegu orðskrúði.
Forðastu að gera veður út af sérhverjum smáum ágalla sem þú finnur í fari annarra. Það ergir fólk og það hættir smám saman að taka mark á skoðunum þínum. Kannski fer það jafnvel að forðast þig. Allir eru ófullkomnir og hafa sína galla. Þeir geta ekki bætt úr þeim öllum samtímis. Ef gallinn, sem þú kemur auga á, er ekki alvarlegur, minnstu þá ekki á hann. Eins og Biblían segir: „Kærleikur hylur fjölda synda.“ — 1. Pétursbréf 4:8.