Sjónarmið Biblíunnar:
„Hvers vegna tók Guð barnið mitt?“
ÞAÐ er mikið áfall fyrir foreldra að missa barn. Það er gríðarleg eldraun sem ekki er hægt að afmá með orðum einum. En hafir þú orðið fyrir slíkum missi og sért þú að velta fyrir þér hvers vegna Guð hafi tekið barnið þitt, þá ert þú undir áhrifum rangrar hugmyndar sem getur einungis aukið angist þína. Þú þarft að vita hið sanna í málinu sem er að Guð tók ekki barnið þitt.
Margir trúa þó hinu gagnstæða. Kona ein starði óhuggandi niður í opna líkkistu þar sem 17 ára sonur hennar lá. Hár hans var gisið af völdum meðferðar sem dugði þó ekki til að lækna hann af krabbameini. Hún sneri sér að gestkomandi manni og sagði skjálfandi röddu: „Guð vildi hafa Tommy uppi á himnum hjá sér.“ Hún var rómversk-kaþólskrar trúar og það var þetta sem áralöng kirkjuganga hafði kennt henni. Mótmælendur hafa líka lengi kennt Guði um dauða barna. Hinn kunni siðbótarmaður mótmælenda, Jóhannes Kalvín, sagði harmþrunginn eftir að sonur hans dó, tveggja vikna gamall: „Drottinn hefur sannarlega veitt okkur biturt sár með dauða barns okkar.“
Forn arfsögn meðal Gyðinga er á þá leið að tvíburasynir rabbína nokkurs hafi dáið að honum fjarstöddum. Er hann kom heim aftur og spurði um syni sína sagði konan: „Ef þér væru lánaðir tveir dýrmætir gimsteinar og sagt að þú mættir njóta þeirra svo lengi sem þú gættir þeirra, mundir þú geta andmælt þegar eigandinn bæði þig að skila þeim?“ „Auðvitað ekki!“ svaraði hann. Þá sýndi hún honum synina tvo látna og sagði einfaldlega: „Guð vildi fá gimsteinana sína aftur.“
Hvorki hughreystandi né biblíuleg
Er skaparinn þá svo grimmur að hann deyði börn eftir duttlungum augnabliksins, þótt hann viti hvílíkri sorg það veldur foreldrum þeirra? Nei, ekki Guð Biblíunnar því að „Guð er kærleikur“ samkvæmt orðum 1. Jóhannesarbréfs 4:8. Taktu eftir að þarna segir ekki að Guð búi yfir kærleika eða sé kærleiksríkur heldur að Guð sé kærleikur. Svo sterkur, svo hreinn og svo fullkominn er kærleikur Guðs, svo rækilega gagnsýrir hann persónuleika hans og athafnir að réttilega má tala um hann sem sjálfan persónugerving kærleikans. Þetta er ekki Guð sem drepur börn ‚af því að hann vill fá gimsteinana sína aftur.‘
Staðreyndin er sú að Guð ber brennandi og óeigingjarnan kærleika til barna. Jesús Kristur, sem endurspeglaði persónuleika föður síns á himnum í sérhverju orði og verki, sýndi börnum persónulegan áhuga og hlýju. Einu sinni vafði hann lítið barn örmum og kenndi lærisveinum sínum að þeir yrðu að temja sér barnslegt sakleysi og auðmýkt. (Matteus 18:1-4; Markús 9:36) Öldum áður hafði Jehóva kennt þjóð sinni að líta á börn sem dýrmæt og ala þau upp, kenna og annast í samræmi við það. (5. Mósebók 6:6, 7; Sálmur 127:3-5) Hann vill að fjölskyldur séu sameinaðar í lífi, ekki sundraðar í dauða.
„Hvers vegna dó barnið mitt þá?“
Mörgum finnst að Guð hljóti, úr því að hann er almáttugur, að standa að tjaldabaki og stjórna öllu því sem gerist í þessum heimi, þar með talinn dauði barna. En það er ekki sjálfgefið. Þegar Job missti öll börnin sín tíu í einu og sama slysinu hélt hann að Jehóva hefði leitt þessa ægilegu ógæfu yfir hann. Hann vissi ekki það sem Biblían opinberar okkur, það er að segja að ofurmannlegur óvinur Guðs, sem nefndur er Satan, hafi í raun staðið að tjaldabaki er þetta gerðist og reynt að pína Job til að ganga af trú sinni á skapara sinn. — Jobsbók 1:6-12.
Eins er það núna að flestir hafa enga hugmynd um hvílík áhrif Satan hefur í heiminum. Biblían opinberar að Satan, ekki Jehóva, sé stjórnandi þessa spillta heimskerfis. Eins og 1. Jóhannesarbréf 5:19 segir: „Allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ Jehóva ber ekki sök á öllum þeim sorglegu atburðum sem verða í þessum heimi. Hann tók ekki barnið þitt.
Ber okkur þá að skilja það svo að Satan hafi tekið barnið þitt? Nei, ekki beint. Í aldingarðinum Eden gekk maðurinn sjálfur undir stjórn Satans er hann gerði uppreisn gegn Guði. Þannig fyrirgerði hann þeirri gjöf sem er eilíft líf við hreysti og heilbrigði, bæði handa sjálfum sér og öllum börnum sínum. (Rómverjabréfið 5:12) Af því leiðir að við búum í heimskerfi sem er fjarlægt Guði, heimi þar sem við verðum að mæta því sem Biblían kallar ‚tíma og tilviljun,‘ það er að segja hinum óvæntu og oft sorglegu atburðum lífsins. (Prédikarinn 9:11) Satan „afvegaleiðir alla heimsbyggðina.“ (Opinberunarbókin 12:9) Það er fremsta hugðarefni hans að gera fólk fráhverft Guði. Þess vegna breiðir hann út ófagrar lygar um Guð. Ein þeirra er sú að Guð hrifsi börn frá foreldrum sínum gegnum dauðann.
„Hvaða von er um barnið mitt?“
Í stað þess að ásaka Guð þurfa sorgmæddir foreldrar að leita þeirrar hughreystingar sem Guð býður fram í Biblíunni. Falstrúarbrögðin hafa gert marga ráðvillta um það hvar látin börn þeirra séu og hvert sé ástand þeirra. Himinn, helvíti, hreinsunareldur og forgarður vítis — allir þessir staðir og ýmsir fleiri eru allt frá því að vera óskiljanlegir til þess að vera hreinlega skelfilegir. Biblían segir á hinn bóginn að hinir dánu séu meðvitundarlausir og líkir ástandi þeirra við svefn. (Prédikarinn 9:5, 10; Jóhannes 11:11-14) Foreldrar þurfa því ekki að gera sér áhyggjur af því hvað börnin þeirra þurfa að ganga í gegnum eftir dauðann, ekki frekar en þeir hafa áhyggjur þegar þeir sjá börnin sín sofa vært. Jesús talaði um þann tíma er ‚allir þeir sem í gröfunum væru‘ myndu „ganga fram“ til endurnýjaðs lífs á jörð sem væri paradís. — Jóhannes 5:28, 29; Lúkas 23:43.
Þessi dýrlega von eyðir auðvitað ekki allri sorg sem fylgir dauðanum. Sjálfur komst Jesús við og grét er vinur hans, Lasarus, dó — og það var aðeins fáeinum mínútum áður en hann reisti hann upp! Dauðinn er þá að minnsta kosti ekki endanlegur. Jesús og faðir hans, Jehóva, hata báðir dauðann. Biblían kallar dauðann ‚síðasta óvininn‘ og segir að hann verði ‚að engu gjörður.‘ (1. Korintubréf 15:26) Í hinni komandi paradís, þegar stjórn Satans verður liðin tíð, mun dauðinn hverfa fyrir fullt og allt. Saklaus fórnarlömb hans munu endurheimta lífið vegna upprisu. Þá, þegar foreldrar sameinast á ný börnum sínum sem þau misstu í dauðann, munum við loks geta sagt: ‚Dauði, hvar eru drepsóttir þínar?‘ — Hósea 13:14.