5. KAFLI
Sköpunarmáttur – „skapari himins og jarðar“
1, 2. Hvernig er sólin dæmi um sköpunarmátt Jehóva?
HEFURÐU einhvern tíma ornað þér við bál á köldu síðkvöldi? Þú yljaðir þér á höndunum en gættir þess að halda þeim í hæfilegri fjarlægð frá logunum. Ef þú fórst of nærri eldinum varð hitinn óbærilegur en ef þú færðir þig of langt frá bálinu setti að þér hroll í kvöldkulinu.
2 Það logar „bál“ á himni sem vermir okkur á daginn. Þetta „bál“ er í um það bil 150 milljóna kílómetra fjarlægð frá jörð.a Það gefur augaleið að afl sólarinnar er ógurlegt fyrst við finnum fyrir varma hennar úr þessari fjarlægð. En jörðin gengur um þennan ógurlega kjarnaofn í nákvæmlega réttri fjarlægð. Væri hún of nærri myndi allt vatn á jörðinni gufa upp en væri hún of fjarri myndi allt gaddfrjósa. Jörðin væri lífvana hvort heldur væri. Og sólarljósið er ekki bara nauðsynlegt lífinu heldur er það líka hreint og hagkvæmt, að ekki sé nú minnst á hve yndislegt það er. – Prédikarinn 11:7.
3. Um hvaða mikilvægu sannindi vitnar sólin?
3 En flestir líta á sólina sem sjálfsagðan hlut þó að líf þeirra sé undir henni komið. Þeir átta sig ekki á hvaða lærdóm má draga af sólinni. „Þú skapaðir ljósið og sólina,“ segir Biblían um Jehóva. (Sálmur 74:16) Já, sólin er Jehóva, „skapara himins og jarðar“, til heiðurs. (Sálmur 19:1; 146:6) Hún er aðeins eitt af ótal himintunglum sem fræða okkur um feikilegan sköpunarmátt Jehóva. Við skulum líta nánar á nokkur þeirra og síðan beinum við athygli okkar að jörðinni og lífinu á henni.
Jehóva ‚skapaði ljósið og sólina‘.
„Horfið upp til himins og sjáið“
4, 5. Hve öflug og hve stór er sólin en hvernig er hún í samanburði við aðrar stjörnur?
4 Sólin er stjarna eins og þú sjálfsagt veist. Hún virðist stærri en stjörnurnar sem við sjáum á dimmri nóttu af því að hún er býsna nálægt jörðinni í samanburði við þær. Hversu öflug er sólin? Hitinn í miðju hennar er um 15 milljónir gráða á Celsíus. Ef þú gætir tekið brot á stærð við títuprjónshaus úr miðju sólarinnar og komið því fyrir hér á jörðinni væri mönnum ekki vært innan 140 kílómetra frá þessum agnarsmáa hitagjafa. Á hverri sekúndu sendir sólin frá sér orku sem samsvarar því að sprengdar væru mörg hundruð milljónir kjarnasprengna.
5 Sólin er svo stór að það kæmust fyrir meira en 1,3 milljónir hnatta á stærð við jörðina inni í henni. Er sólin þá óvenjustór af stjörnum að vera? Nei, stjörnufræðingar kalla hana gula dvergstjörnu. Páll postuli skrifaði að ‚ljómi einstakra stjarna væri mismunandi‘. (1. Korintubréf 15:41) Hann gat ómögulega vitað hve mikill sannleikur fólst í þessum innblásnu orðum. Það er til svo stór stjarna að hún myndi ná út fyrir braut jarðar ef hún væri staðsett þar sem sólin er. Önnur risastjarna myndi ná alla leið til Satúrnusar ef hún væri sett í stað sólarinnar – og Satúrnus er svo langt í burtu að geimfar var fjögur ár á leiðinni þangað og fór þó 40 sinnum hraðar en byssukúla úr öflugri skammbyssu!
6. Hvernig bendir Biblían á að stjörnumergðin sé ógurleg frá mannlegum bæjardyrum séð?
6 Fjöldi stjarnanna er enn magnaðri en stærð þeirra. Biblían gefur raunar í skyn að stjörnurnar séu nánast óteljandi, þær verði ekki taldar frekar en „sandur sjávarins“. (Jeremía 33:22) Þessi orð bera með sér að stjörnurnar séu margfalt fleiri en hægt er að sjá með berum augum. Hefði biblíuritari eins og Jeremía reynt að telja stjörnurnar á næturhimni hefði hann aðeins komist upp í um það bil þrjú þúsund. Það er sá fjöldi sem mannsaugað getur séð án sjónauka á heiðskírri nóttu. Þessi tala er kannski sambærileg við kornin í einni lúku af sandi. En í rauninni er stjörnusægurinn feikilegur, líkt og sandkorn sjávarins.b Hver getur talið slíka mergð?
7. Hvernig myndir þú lýsa tölu stjarnanna í Vetrarbrautinni okkar eða tölu vetrarbrauta í alheiminum?
7 Jesaja 40:26 svarar: „Horfið upp til himins og sjáið. Hver hefur skapað allt þetta? Það er hann sem leiðir stjörnurnar eins og her og telur þær, hann nefnir þær allar með nafni.“ Sálmur 147:4 segir: „Hann þekkir tölu stjarnanna.“ Hver er ‚tala stjarnanna‘? Þessari spurningu er ekki auðsvarað. Stjörnufræðingar áætla að í Vetrarbrautinni einni séu rösklega 100 milljarðar stjarna.c Sumir segja að þær séu miklu fleiri. En Vetrarbrautin okkar er aðeins ein af mörgum og margar þeirra eru með enn fleiri stjörnum. Hve margar eru vetrarbrautirnar? Stjörnufræðingar áætla að þær séu hundurðir milljarða, jafnvel billjónir. Maðurinn virðist ekki einu sinni getað ákvarðað fjölda vetrarbrautanna, að ekki sé nú talað um nákvæma tölu alls þess aragrúa af stjörnum sem í þeim er. En Jehóva veit töluna og nefnir meira að segja hverja stjörnu með nafni!
8. (a) Lýstu stærð Vetrarbrautarinnar. (b) Hvað notar Jehóva til að skipuleggja hreyfingar himintunglanna?
8 Stærð vetrarbrautanna getur ekki annað en aukið lotningu okkar fyrir Guði. Vetrarbrautin okkar er talin vera 100.000 ljósár í þvermál. Hugsaðu þér ljósgeisla á ferð. Hraðinn er um 300.000 kílómetrar á sekúndu. Á þessum hraða tekur það ljósið 100.000 ár að ferðast þvert yfir Vetrarbrautina. Og sumar vetrarbrautir eru margfalt stærri en hún. Biblían segir að Jehóva ‚þenji út himininn‘ eins og hann væri tjalddúkur. (Sálmur 104:2) Hann skipuleggur líka hvernig þessi sköpunarverk hreyfast. Hreyfingar minnstu rykagnar í geimnum og stærstu vetrarbrautar lúta eðlisfræðilögmálum sem Guð hefur upphugsað og komið af stað. (Jobsbók 38:31–33) Vísindamenn hafa líkt nákvæmum hreyfingum himintunglanna við tilkomumikla ballettsýningu. Hugsaðu þá til hans sem skapaði allt þetta. Þú hlýtur að standa agndofa frammi fyrir þeim Guði sem ræður yfir þessum ógurlega sköpunarmætti.
„Hann skapaði jörðina með mætti sínum“
9, 10. Hvernig birtist máttur Jehóva í staðsetningu sólkerfisins, Júpíters, jarðarinnar og tunglsins?
9 Sköpunarmáttur Jehóva er greinilegur á heimili okkar, jörðinni. Hún er mjög vandlega staðsett í víðáttu geimsins. Sumir vísindamenn eru á því að margar vetrarbrautir myndu reynast fjandsamlegar hnetti eins og jörðinni og lífinu á henni. Stór hluti Vetrarbrautarinnar okkar er greinilega ekki gerður til að hýsa lifandi verur. Miðja hennar er hlaðin stjörnum. Þar er sterk geislun og oft liggur við að stjörnur rekist saman. Úti við jaðar Vetrarbrautarinnar vantar mörg þau frumefni sem eru nauðsynleg lífi. Sólkerfið okkar er eins vel staðsett og verið getur, mitt á milli þessa.
10 Jörðin nýtur góðs af fjarlægum en risastórum verndara. Þetta er reikistjarnan Júpíter. Hann er meira en þúsundfalt stærri en jörðin og aðdráttaraflið er gífurlegt. Það hefur þau áhrif að Júpíter sogar til sín loftsteina sem þjóta um geiminn eða sveigir þá af leið. Vísindamenn telja að ef ekki væri fyrir Júpíter myndi 10.000 sinnum fleiri stórum loftsteinum rigna yfir jörðina en raun ber vitni. Og jörðin á sér óvenjulegan fylgihnött – tunglið. Þessi góði granni er ekki aðeins fallegt „næturljós“. Tunglið stillir líka af möndulhalla jarðar svo að hann helst stöðugur, og möndulhallinn veldur því að árstíðirnar eru reglubundnar og fyrirsjáanlegar sem er mikið lán fyrir lífið hér á jörð.
11. Hvernig er lofthjúpur jarðar hannaður til að skýla henni?
11 Sköpunarmáttur Jehóva er augljós af allri gerð jarðarinnar. Lofthjúpurinn er til dæmis eins og skjöldur sem skýlir henni. Sólin sendir frá sér bæði góða geisla og lífshættulega. Þegar hinir lífshættulegu ná efstu lögum gufuhvolfsins breyta þeir venjulegu súrefni í óson, og þannig myndast ósonlag sem drekkur þessa geisla í sig að mestu leyti. Það má eiginlega segja að jörðin sé búin sinni eigin geislahlíf.
12. Hvernig er hringrás vatnsins merki um sköpunarmátt Jehóva?
12 Andrúmsloftið er flókin blanda lofttegunda sem mynda fullkominn hjúp um þær lífverur sem byggja jörðina. En þetta er aðeins einn eiginleiki af mörgum. Hringrás vatnsins er enn eitt undur andrúmsloftsins. Á ári hverju gufa um 400.000 rúmkílómetrar af vatni upp úr hafinu vegna áhrifa sólarinnar. Vatnsgufan þéttist og myndar ský sem berast vítt og breitt með loftstraumum. Síað og hreinsað vatn fellur síðan til jarðar sem regn og snjór og endurnýjar vatnsforðabúr hennar. Prédikarinn 1:7 orðar þetta þannig: „Allar ár renna í sjóinn en sjórinn fyllist ekki. Þaðan sem árnar renna, þangað snúa þær aftur til að renna á ný.“ Enginn nema Jehóva gat sett slíka hringrás af stað.
13. Hvaða merki sjáum við um mátt skaparans í gróðrinum og jarðveginum?
13 Hvar sem líf er að finna sjást merki um mátt skaparans. Hann birtist í strandrisafurunni sem gnæfir hærra en 30 hæða hús og hann birtist í smásæjum plöntum úthafanna sem mynda mestan hluta þess súrefnis sem við öndum að okkur. Jarðvegurinn undir fótum okkar er meira að segja troðfullur af lífverum – ormum, sveppum og örverum sem vinna saman í flóknu samspili og hjálpa plöntunum að vaxa. Það er vel við hæfi að Biblían skuli tala um að landið, eða jarðvegurinn, hafi kraft. – 1. Mósebók 4:12, neðanmáls.
14. Hvílík orka er fólgin í örsmáa atóminu?
14 Ljóst er að Jehóva „skapaði jörðina með mætti sínum“. (Jeremía 10:12) Máttur hans sýnir sig jafnvel í því smæsta sem hann hefur skapað. Milljón atóm lögð hlið við hlið myndu ekki spanna hársbreidd. Og þó að atóm væri þanið út svo að það næði upp á þak á 14 hæða byggingu væri kjarninn ekki stærri en saltkorn á sjöundu hæð. En úr þessum agnarsmáa kjarna fæst engu að síður sú ógnarorka sem losnar úr læðingi í kjarnorkusprengingu.
„Allt sem dregur andann“
15. Hvað kenndi Jehóva Job með því að ræða um ýmis villidýr?
15 Önnur ljóslifandi sönnun um sköpunarmátt Jehóva er fólgin í hinu auðuga dýralífi jarðar. Sálmur 148 telur upp fjöldamargt sem lofar Jehóva og segir „þið villtu dýr og húsdýrin öll“ í 10. versinu. Jehóva talaði einu sinni til Jobs til að benda honum á af hverju maðurinn ætti að bera lotningu fyrir skaparanum og nefndi þá dýr eins og ljónið, villiasnann, villinautið, behemót (eða flóðhestinn) og Levjatan (eða krókódílinn). Á hvað var Jehóva að benda? Óttist maðurinn þessi sterku, ógnvekjandi og ótemjandi villidýr, ætti hann þá ekki að óttast skapara þeirra? – Jobsbók 38.–41. kafli.
16. Hvað finnst þér hrífandi við suma af fuglunum sem Jehóva hefur skapað?
16 Í Sálmi 148:10 er minnst á ‚fleyga fugla‘. Fjölbreytnin er ótrúleg. Jehóva sagði Job frá strútnum sem „hlær … að hesti og reiðmanni“. Strúturinn, sem er tveir og hálfur metri á hæð, getur að vísu ekki flogið en hlaupandi nær hann 65 kílómetra hraða á klukkustund og stekkur þá fjóra og hálfan metra í einu skrefi. (Jobsbók 39:13, 18) Albatrosinn eyðir hins vegar mestum hluta ævinnar á flugi yfir sjó. Vænghafið er heilir þrír metrar og hann getur svifið klukkustundum saman án þess að blaka vængjunum. Til samanburðar má nefna humalbríann, smæsta fugl í heimi sem er ekki nema 5 sentímetra langur. Hann getur blakað vængjunum allt að 80 sinnum á sekúndu! Kólibrífuglarnir geta staðið kyrrir í loftinu og jafnvel flogið aftur á bak. Og þeir glitra eins og gimsteinar.
17. Hve stór er steypireyðurin og hver ætti að vera niðurstaða okkar eftir að hafa virt fyrir okkur dýrin sem Jehóva skapaði?
17 Sálmur 148:7 segir jafnvel að „sjávardýr“ lofi Jehóva. Steypireyðurin er af mörgum talin stærsta dýr sem jörðin hefur fóstrað. Þetta stórhveli sem syndir í ‚hafdjúpinu‘ getur orðið 30 metrar á lengd eða meira. Það getur vegið álíka mikið og 30 fullvaxnir fílar. Tungan vegur á við heilan fíl. Hjartað er á stærð við smábíl. Þetta stóra hjarta slær aðeins 9 slög á mínútu. Til samanburðar getur hjarta kólibrífuglsins slegið um 1.200 slög á mínútu. Að minnsta kosti ein æð steypireyðarinnar er svo víð að barn gæti skriðið inni í henni. Við getum ekki annað en endurómað hvatninguna sem Sálmunum lýkur með: „Allt sem dregur andann lofi Jah.“ – Sálmur 150:6.
Drögum lærdóm af sköpunarmætti Jehóva
18, 19. Hversu fjölbreyttar eru lífverurnar sem Jehóva hefur skapað hér á jörð og hvað lærum við um drottinvald hans af sköpunarverkinu?
18 Hvað lærum við af því hvernig Jehóva hefur beitt sköpunarmætti sínum? Við erum djúpt snortin af fjölbreytileika sköpunarverksins. Sálmaritari söng: „Hversu mörg eru ekki verk þín, Jehóva! … Jörðin er full af því sem þú hefur skapað.“ (Sálmur 104:24) Þetta eru orð að sönnu. Líffræðingar hafa náð að greina rúmlega milljón tegundir lífvera á jörðinni en það eru skiptar skoðanir á því hve margar milljónir í viðbót gætu verið til. Listamönnum finnst sköpunargáfan stundum bregðast. En sköpunargáfa Jehóva, kraftur hans til að skapa nýja og ólíka hluti, er greinilega óþrjótandi.
19 Við lærum sitthvað um drottinvald Jehóva af því hvernig hann beitir sköpunarmætti sínum. Orðið „skapari“ eitt og sér aðgreinir hann frá öllu öðru í alheiminum sem allt saman er „sköpun“. Jafnvel þó að eingetinn sonur Jehóva hafi verið „listasmiður“ meðan á sköpuninni stóð er hann aldrei kallaður skapari eða aðstoðarskapari í Biblíunni. (Orðskviðirnir 8:30; Matteus 19:4) Hann er hins vegar „frumburður alls sem er skapað“. (Kólossubréfið 1:15) Þar sem Jehóva er skaparinn hefur hann eðli málsins samkvæmt rétt til að fara með óskorað alræðisvald yfir öllum alheiminum. – Rómverjabréfið 1:20; Opinberunarbókin 4:11.
20. Í hvaða skilningi hefur Jehóva hvílst síðan hann lauk jarðneskri sköpun sinni?
20 Er Jehóva hættur að beita sköpunarmætti sínum? Biblían segir vissulega að ‚sjöunda daginn hafi hann tekið sér hvíld frá öllu verki sínu‘, eftir að hann lauk sköpunarstarfinu á sjötta degi. (1. Mósebók 2:2) Páll postuli gaf í skyn að þessi sjöundi ‚dagur‘ spanni þúsundir ára því að hann stóð enn á dögum Páls. (Hebreabréfið 4:3–6) En þýðir þetta að Jehóva hafi tekið sér algera hvíld frá störfum? Nei, hann er sístarfandi. (Sálmur 92:4; Jóhannes 5:17) ‚Hvíldin‘ hlýtur þá að vera fólgin í því að hann hafi tekið sér hlé frá jarðnesku sköpunarstarfi. Hann hefur hins vegar haldið áfram að vinna að fyrirætlunum sínum. Til dæmis innblés hann mönnum að skrifa Heilaga ritningu. Hann hefur jafnvel skapað suma einstaklinga á ný. Nánar er fjallað um það í 19. kafla. – 2. Korintubréf 5:17.
21. Hvaða áhrif mun sköpunarmáttur Jehóva hafa á trúfasta menn um alla eilífð?
21 Þegar hvíldardegi Jehóva lýkur getur hann lýst allt verk sitt á jörðinni „mjög gott“, rétt eins og hann gerði við lok sköpunardaganna sex. (1. Mósebók 1:31) Það á eftir að koma í ljós hvernig hann ákveður að beita takmarkalausum sköpunarmætti sínum eftir það. Við getum að minnsta kosti treyst að við munum halda áfram að hrífast af sköpunarmætti hans, hvernig sem hann beitir honum. Sköpunarverkið mun halda áfram að fræða okkur um hann um alla eilífð. (Prédikarinn 3:11) Og því meira sem við lærum um skaparann þeim mun djúpstæðari verður lotning okkar fyrir honum – og þeim mun sterkara verður sambandið við hann.
a Til glöggvunar má nefna að það tæki 170 ár að aka þessa vegalengd ef ekið væri stanslaust allan sólarhringinn á 100 kílómetra hraða miðað við klukkustund.
b Sumir halda að fornmenn á biblíutímanum hafi notað frumstæða sjónauka. Rökin eru þau að ella hefðu þeir ekki getað vitað að stjörnumergðin væri slík, óteljandi frá mannlegum sjónarhóli. En þetta eru tilhæfulausar vangaveltur sem gera ekki ráð fyrir Jehóva, höfundi Biblíunnar. – 2. Tímóteusarbréf 3:16.
c Hve lengi heldurðu að þú yrðir að telja 100 milljarða stjarna? Það tæki 3.171 ár ef við gerum ráð fyrir að þú gætir talið eina nýja stjörnu á sekúndu og yrðir að allan sólarhringinn.