Bænir sem er svarað
LÖNGUNIN til að hafa samband við einhver æðri máttarvöld er jafngömul manninum sjálfum. Nefna má sem dæmi að ýmsar forn-egypskar áletranir hafa að geyma bænir. Í sumum þeirra er beðið um vernd einhvers guðs en aðrar tjá lofgjörð eða trúartraust til þess guðdóms sem ávarpaður er. Meðal Grikkja á áttundu öld f.o.t. voru bænir í bundnu máli og hátíðabænir algengar. Rómverjar urðu að gæta að því hvaða guði þeir ávörpuðu, því að margir guðdómar voru tilbeðnir í þeirra tíð.
Allt fram á þennan dag eru bænir sameiginlegt einkenni helstu trúarbragða heims. Búddhatrúarmenn, hindúar, gyðingar, múslímar og þeir sem játa sig kristna eru þekktir fyrir tíðar bænir í tengslum við guðsdýrkun sína. Enda þótt bænir séu algengar núna á 20. öldinni eru þær svo ótrúlega ólíkar að stíl og gerð að margir, sem langar til að fá svör við bænum sínum, vita ekki sitt rjúkandi ráð.
Er hægt að biðja hvernig sem er?
Úr því að bænir taka á sig svo margar myndir er eðlilegt að spyrja hvort búast megi við því að allar bænir séu heyrðar. Sumir álíta að svo lengi sem einstaklingurinn sé einlægur og „trúi“ skipti ekki miklu máli í hvaða mynd bæn hans er. Hvað álítur þú? Í ljósi þess hve ólíkar skoðanir menn hafa á þessu máli duga okkur tæpast skoðanir manna þar að lútandi heldur verðum við að leita upplýsinga frá æðri máttarvöldum.
Á síðunum hér á eftir verður leitað svara frá heilagri Biblíu. Hún sýnir okkur að það skiptir máli hvernig beðið er ef menn vilja að þeir séu bænheyrðir.
Biblían bendir á:
Hver skuli ávarpaður í bæninni
Hvers vegna sumum bænum er ekki svarað
Um hvað megi biðja
Hvers er krafist af þeim sem biður?
Ein undirstöðukrafan er trú, ekki aðeins einlæg tiltrú á að Guð sé til og geti heyrt bænir. (Hebreabréfið 11:6) Trúin þarf að birtast í því að menn kappkosti að lifa í samræmi við réttlátar meginreglur Guðs sem standa í Biblíunni. Í fjallræðu sinni lagði Jesús Kristur áherslu á þetta atriði: „Ekki mun hver sá, sem við mig segir: ‚Herra, herra,‘ ganga inn í himnaríki, heldur sá einn, er gjörir vilja föður míns, sem er á himnum.“ — Matteus 7:21.
Hebreski spámaðurinn Jesaja nefndi dæmi um menn sem hljóta ekki bænheyrslu. Hann skrifaði: „Þótt þér biðjið mörgum bænum, þá heyri ég [Jehóva Guð] ekki. Hendur yðar eru alblóðugar.“ (Jesaja 1:15) Sá sem ekki virðir heilagleika lífsins getur ekki ætlast til að fá bænheyrslu, óháð því hve oft og innilega hann biður.
Hvers vegna fá sumir „trúaðir“ ekki bænheyrslu?
Trúin ein er ekki nóg til að þóknast Guði og fá bænheyrslu. Jafnvel auðtrúa maður getur fullyrt að hann trúi. Til að trúin sé innihaldsrík verður hún að byggjast á nákvæmri þekkingu sem aðeins er hægt að afla sér með námi í Biblíunni. Enn fremur þarf trúin að birtast í þeim verkum sem hún gefur af sér. „Eins og líkaminn er dauður án anda, eins er og trúin dauð án verka.“ — Jakobsbréfið 2:26.
Sanntrúaður maður þarf að hafa Guð með í ráðum daglega. Það er ekki nóg að grípa til bænarinnar aðeins í neyðartilvikum. Hann ætti að vinna trúarverk, rétt verk sem felast meðal annars í að segja öðrum frá trú sinni á Guð.
Hvernig ber að biðja?
Bænin ætti ekki að vera einungis ytri viðhafnarsiður eða lesin af bók. Hún ætti ekki heldur að vera staglsöm endurtekning rétt eins og endurtekningin gerði hana áhrifaríkari. Og bæn ætti ekki að vera „sviðsett“ í því skyni að hafa áhrif á aðra. Jesús gaf þessar góðu leiðbeiningar um það hvernig bænir okkar ættu að vera og hvað okkur beri að forðast: „Verið ekki eins og hræsnararnir þegar þið biðjið. Þeir biðja á áberandi hátt á götuhornum og í samkomuhúsunum, þar sem allir sjá þá. . . . Þyljið ekki bænir ykkar í belg og biðu eins og heiðingjarnir. Þeir halda að bænin verði heyrð ef hún er nógu löng og fagurlega orðuð.“ — Matteus 6:5-7, Lifandi orð.
Engin fyrirmæli eru gefin um sérstaka bænastellingu. Sá sem biður þarf þó að sýna auðmýkt og djúpa virðingu, bæði með stellingu sinni og bænarorðum.
Hvern ber að ávarpa í bæninni?
Hebreabréfið talar um þann mann „sem gengur fram fyrir Guð.“ (Hebreabréfið 11:6) Hver er þessi Guð? Ekki er til nema einn alvaldur Guð, enda þótt til séu margir guðir, sem menn hafa búið sér til, og falsguðir. (1. Korintubréf 8:5, 6) Hinn alvaldi Guð Biblíunnar er nefndur Jahve eða Jehóva. (Sálmur 83:19, Ísl. bi. 1908) Hann er skapari allra hluta og þar af leiðandi ættu bænir okkar að beinast til hans og einskis annars. Jesús Kristur kenndi fylgjendum sínum að biðja: „Faðir vor, þú sem ert á himnum.“ (Matteus 6:9) Jesús kenndi lærisveinum sínum ekki að biðja til sín, Maríu móður sinnar eða einhvers annars. En Guð krefst þess nú að við virðum stöðu sonar hans og biðjum allra okkar bæna í Jesú nafni. Þess vegna sagði Kristur fylgjendum sínum: „Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.“ — Jóhannes 14:6.
Til að bænir okkar geti verið þóknanlegar Jehóva Guði verðum við því að ávarpa hann fyrir milligöngu sonar hans, Jesú Krists. Við þurfum að biðja til Guðs í nafni Jesú.
Hvað má biðja um?
„Ef vér biðjum um eitthvað eftir hans [Guðs] vilja, þá heyrir hann oss.“ Þetta loforð, sem kann að virðast ótrúlegt, stendur í 1. Jóhannesarbréfi 5:14. En tókstu eftir því hvaða skilyrði bænin þarf að uppfylla? „Eftir hans vilja.“ Helsta ástæðan fyrir því að mörgum bænum er ekki svarað er sú að sá sem biður hefur ekki reynt að kynna sér vilja Guðs fyrst. — Orðskviðirnir 3:5-7.
Bænin, sem þekkt er undir heitinu „Faðirvorið,“ er góð fyrirmynd um það hvað megi biðja um. (Matteus 6:9-13) Þótt ekki beri að þylja hana upp eins og nokkurs konar helgisið bendir hún okkur á hver sé hin rétta forgangsröð hlutanna. Fyrst kemur nafn Guðs og tilgangur. Því næst er minnst á efnislegar þarfir, fyrirgefningu og frelsun úr freistingu hins vonda. Orðin „Faðir vor“ geta verið þeim sem biður hjálp til að biðja ekki aðeins fyrir sjálfum sér og fjölskyldu sinni heldur einnig öðrum sem leitast við að þóknast skapara sínum. — Postulasagan 17:26, 27.
Hve langar ættu bænir að vera?
Biblían tilgreinir enga sérstaka bænalengd. Bæn má vera örstutt og borin fram í hljóði. (Nehemía 2:4; 1. Samúelsbók 1:12, 13) Bænir geta einnig verið býsna langar. Einhverju sinni var Jesús „alla nóttina á bæn til Guðs.“ Þá var hann að biðja um hjálp Guðs til að velja postulana tólf. (Lúkas 6:12) Lengd bænarinnar getur því verið breytileg eftir aðstæðum og þörfum.
Bænum er svarað
Biblían er auðug af frásögnum af bænum sem Jehóva Guð, hann sem „heyrir bænir,“ svaraði. (Sálmur 65:3) Einstakt dæmi um það er frásagan af því er á það reyndi hvort hinn sanni Guð svaraði bæn spámannsins Elía. Frásöguna er að finna í 1. Konungabók 18. kafla. Á fyrstu öldinni fengu lærisveinar Jesú að reyna hvernig bæn þeirra var tafarlaust svarað. „Þegar þeir höfðu beðist fyrir, hrærðist staðurinn, þar sem þeir voru saman komnir, og þeir fylltust allir heilögum anda og töluðu orð Guðs af djörfung.“ — Postulasagan 4:23-31.
Útgefendum þessa tímarits hafa borist tugir frásagna karla og kvenna á öllum aldri sem fannst þau standa frammi fyrir miklum erfiðleikum. Sökum þess hver málalokin urðu voru þau sannfærð um að þau hefðu fengið bænheyrslu.
Hér fara á eftir nokkur dæmi: Ungur maður, sem býr í afskekktum dal í svissnesku ölpunum í grennd við landamæri Ítalíu, segir: „Vanmáttur minn til að finna lausn [á vandamálum lífsins] var svo augljós að mig langaði bara til að deyja. . . . Það eina sem mér gat dottið í hug að gera var að biðja til Guðs. Ég bað: ‚Þú óþekkti Guð, þú hlýtur að vera til og þú hlýtur að vera Guð kærleikans. Hjálpaðu mér! Ég held þetta ekki út lengur — hjálpaðu mér að finna sannleikann.‘“ Fáeinum dögum síðan komu ung hjón, vottar Jehóva, í heimsókn til þessa manns. Biblíunám var hafið og hann er núna skírður vottur Jehóva.
Hjúkrunarkona, sem var mjög trúhneigð, var mjög óhamingjusöm vegna lauslætis manns síns og skilnaðar þeirra sem stóð fyrir dyrum. Dag einn bað hún í örvæntingu sinni og sárbændi Guð um að vísa sér á tilgang lífsins ef hann hefði einhvern tilgang með því. Þennan sama dag komu vottar Jehóva til hennar í starfinu hús úr húsi. Hún bauð þeim inn fyrir, spurði margra spurninga og gladdist við þau svör sem hún fékk frá Ritningunni. Með tíð og tíma varð hjúkrunarkonan sjálf boðberi ‚fagnaðarerindisins‘ og stofnaði sjálf biblíunám með öðrum. — Matteus 24:14.
Einn votta Jehóva sat í bifreið sinni og var að lesa Varðturninn. Þá var skyndilega gripið um hásinn á honum. Hann bað ákaflega til Jehóva Guðs. Árásarmaðurinn varð sem lamaður og það slaknaði á hálstakinu. Votturinn ræsti bifreiðina, kvaddi manninn og ók burt en hann stóð eftir eins og stytta á miðjum veginum.
Í heimi vaxandi efahyggju geta þeir sem elska Guð og sannleikann leitað hughreystingar í þeirri vissu að Jehóva Guð heyrir bænir sem bornar eru fram eftir réttri samskiptaleið, á réttan hátt og með réttu hugarfari og hjartalagi. Bæði mun alvaldur Guð heyra slíkar bænir og svara þeim í samræmi við vilja sinn og á þeim tíma sem hann veit að er bestur.
[Rammi á blaðsíðu 4]
Bænir í mörgum myndum
Athyglisvert er að skoða stuttlega hinar ýmsu myndir bæna sem algengar eru nú á tímum.
Í hindúatrúnni er oft beðið bænar sem tjáir lotningu ákveðnum guði eða gyðju, sem ætlað er að séu 330 milljónir talsins og eru dýrkaðar í um 10.000 musterum. Oft eru bænir hindúa þó margbrotnar og geta verið tvenns konar — annaðhvort hugleiðsla (dhyana) eða lofgjörð (stotra). Mikil áhersla er lögð á að biðja upphátt.
Í klaustrum kínverskra búddhatrúarmanna og taóista er beðið bæna reglulega þrisvar á dag (snemma morguns, um hádegi og að kvöldi). Þessara bæna er beðið við óminn af lítilli bjöllu. Búddhatrúarmunkar bera talnaband með 108 perlum sem er þeim hjálp við bænaflutninginn. Sumir leikmenn nota einnig slík talnabönd til að halda tölu á því hve oft bænin er sögð.
Hjá guðræknum múslímum er þýðingarmesti hluti guðsdýrkunarinnar hin daglega bæn (salat). Menn skulu hafa hana yfir fimm sinnum á dag og snúa andlitinu í átt til Mekka í Saudí-Arabíu.
Hjá Gyðingum tíðkast bænir teknar beint úr Biblíunni, svo sem úr Sálmunum. Þá er einnig beðið bæna sem ýmsir rabbínar hafa bætt við.
Meðal þeirra sem játa kristna trú er að finna mikinn fjölda bæna og aðferða við að bera þær fram. Þær spanna allt litrófið frá bænum sem þuldar eru upp með hjálp talnabands til prentaðra bæna sem lesnar eru af bók, auk fáeinna orða sem ekki eru lærð utanbókar.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Jesús fékk bænheyrslu. Þú getur fengið hana líka.