Skækjan og „konungar jarðarinnar“
SAGA kristna heimsins er full af dæmum um hrossakaup með völd og áhrif og íhlutunarsemi á vettvangi stjórnmálanna. Við skulum líta á fáein þeirra. Karlamagnús (742-814) var valdhafi sem kom auga á kosti þess að hafa trúarbrögðin með sér og hljóta blessun klerkastéttar kaþólsku kirkjunnar.
Alfræðibókin The New Encyclopædia Britannica segir frá því að páfinn hafi smurt Karlamagnús, föður hans og bróður sem grundvöll nýrrar konungaættar eftir að þeirri ætt, sem áður hélt um valdataumanna, hafði verið ‚vikið til hliðar.‘ Síðan segir: „Stjórnmálabandalagið milli Franka [þjóðar Karlamagnúsar] og páfans gegn Langbörðum var staðfest við sama tækifæri. . . . Karl [sem var síðar nefndur Karlamagnús eða Karl mikli] viðurkenndi snemma hin nánu tengsl milli veraldlegs valds og kirkjunnar.“
Árið 800 „afréð“ Leó páfi III „að gera Karl að keisara“ Vest-rómverska ríkisins og krýndi hann við jólamessu í Péturskirkjunni í Róm.
Ágjörn skækja
En skækja heimtar greiðslu. Hvað gat Karlamagnús greitt fulltrúa Babýlonar, Róm? „Karl . . . ítrekaði í Péturskirkjunni loforð föður síns um að færa stóra hluta Ítalíu undir yfirráð páfa.“ Í sama heimildarriti segir: „Við pólitíska trúrækni hans bræddust keisaradæmi og kirkja saman í stofnunarlega og andlega heild.“
Wolsey, kardináli á Englandi (1475-1530), er annað dæmi um öflug áhrif trúarbragðanna fyrrum á stjórnmálin. Britannica segir að hann hafi verið „kardináli og stjórnmálamaður sem drottnaði yfir stjórn Englands á tímum Hinriks konungs VIII. . . . Í desember árið 1515 varð Wolsey forseti lávarðadeildar enska þingsins. . . . Wolsey beitti sínu mikla veraldlega og kirkjulega valdi til að raka saman slíkum auði að einungis konungurinn stóð honum framar.“ Með táknmáli Opinberunarbókarinnar má orða það svo að yfirstéttarvændi kalli á yfirstéttargreiðslur.
Richelieu kardináli og hertogi (1585-1642) er annað alþekkt dæmi um áhrif kirkjulegs embættismanns á málefni ríkisins. Hann fór með gríðarleg völd í Frakklandi og sankaði einnig að sér slíkum auði „að óhóflegt þótti jafnvel á mælikvarða samtíðarinnar,“ segir Britannica.
Af Richelieu tók við annar kardináli, Jules Mazarin (1602-61). Hann þjónaði sem forsætisráðherra Frakklands í stjórnartíð Loðvíks konungs XIV. Þótt Mazarin hefði ekki hlotið prestvígslu skipaði Úrbanus páfi VIII hann kardinála árið 1641. Mazarin kardináli var einnig fégráðugur. Alfræðibókin segir: „Óvinir Mazarins álösuðu honum fyrir græðgi hans. Hann hafði sölsað undir sig embætti og prestaköll og stundum ruglað tekjum konungs saman við sínar eigin.“
Á okkar tímum safna fölsk trúarbrögð sér enn auði til að hafa áhrif á og stýra stjórnmálaöflunum ef mögulegt er. Kaþólsku leynisamtökin Opus Dei (Verk Guðs) eru áberandi dæmi um slíkt. Þau njóta um þessar mundir velvildar páfa og eru, að sögn rithöfundarins Lawrence Lader, „algerlega helguð hægrisinnuðum stjórnmálum og baráttunni gegn kommúnisma.“ Það er stefna þeirra að láta gáfaðasta hluta kaþólskra æskumanna ganga í menntaskóla og háskóla sína og koma síðan sínum mönnum fyrir í háum áhrifa- og valdastöðum á sviði stjórnsýslu, fjármála og fjölmiðlunar. Þeir áttu sér velmektardaga á Spáni undir einræði kaþólska fasistans Francos er 10 af 19 ráðherrum í ríkisstjórn hans voru félagar í úrvalsreglu Opus Dei.a
Í Bandaríkjunum eru sjónvarpsprédikarar kunnir fyrir óhóflega auðsöfnun sína og bruðlsamt líferni. Sumir af klerkum mótmælenda hafa stoltir í bragði stigið inn á leikvang stjórnmálanna og jafnvel stefnt til forsetaembættis. Engin vafi leikur á að hin aldagamla skækja fær enn að njóta þeirra skartklæða og íburðar, sem eru völdum samfara, og reynir í einhvers konar gervi að fara með húsbóndavaldið, þótt fallin sé. — Opinberunarbókin 17:4.
En hvað um nafn skækjunnar, Babýlon hin mikla? Hvernig er það hjálp til að bera kennsl á þessa táknrænu konu Opinberunarbókarinnar?
[Neðanmáls]
a Nánari upplýsingar um Opus Dei og afskipti kirkjunnar af stjórnmálum er að finna í bókunum Hot Money and the Politics of Debt eftir R. T. Naylor og Politics, Power, and the Church eftir L. Lader.
[Myndir á blaðsíðu 6]
Kardinálarnir Wolsey, Mazarin og Richelieu rökuðu saman auði meðan þeir voru í þjónustu ríkisins.
[Rétthafi]
Myndir: Culvet Pictures.