Heilagur leyndardómur opinberast
„Heilagur leyndardómur guðrækninnar er vissulega mikill.“ — 1. TÍMÓTEUSARBRÉF 3:16, NW.
1. Hvaða leyndardómi er lýst í 1. Tímóteusarbréfi 3:16?
Þykja þér leyndardómar spennandi? Hefur þú gaman af að komast til botns í leyndarmáli? Það höfum við flest! Við skulum því öll saman rannsaka stórkostlegasta leyndardóm sem hugsast getur — leyndardóm sem geymdur hefur verið í orði Guðs um þúsundir ára. Þessi heilagi leyndardómur hefur mjög mikil áhrif á líf okkar bæði nú og í framtíðinni. Þetta er ‚heilagur leyndardómur guðrækninnar‘ sem lýst er fyrir okkur í 1. Tímóteusarbréfi 3:16. Við ættum að vera þakklát fyrir að Jehóva, hann sem „opinberar leynda hluti,“ skuli af örlæti sínu ljúka upp fyrir okkur þessum mikilfenglega leyndardómi og þýðingu hans! — Daníel 2:28,29.
2. (a) Hvenær minntist Jehóva fyrst á heilagan leyndardóm og hverju lofaði hann þá? (b) Hvaða spurningar kalla á svör?
2 Jehóva talaði fyrst um leyndardóm í Eden. Það var eftir að höggormurinn hafði tælt Evu og Adam fylgt henni í uppreisninni. Jehóva lofaði þar „sæði“ eða afkvæmi sem myndi knosa höfuð höggormsins. (1. Mósebók 3:15) Hver er þetta sæði? Hvernig myndi það sigra höggorminn? Myndi það upphefja sannsögli Guðs og tilgang hans með jörðina.
3. Hvaða vísbendingar gáfu spádómar Guðs um það hvert sæðið væri og hvað það myndi gera?
3 Smám saman birtust í spádómum vísbendingar um það hvert þetta sæði framtíðarinnar væri og hvað það myndi gera. Það yrði afkomandi Abrahams, myndi erfa ríki Daviðs og yrði kallað Friðarhöfðingi. ‚Mikill skyldi höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka.‘ (Jesaja 9: 6,7; 1. Mósebók 22:15-18; Sálmur 89:36-38) En eins og Rómverjabréfið 16:25 segir var þessi heilagi leyndardómur ‚dulinn frá eilífum tíðum.‘
Leyndardómurinn ráðinn
4. Hvernig byrjaði hinn heilagi leyndardómur að afhjúpast árið 29?
4 Loksins, eftir fjórar árþúsundir, var hann upplýstur! Á hvaða hátt? Árið 29 eftir okkar tímatali skírði Jóhannes Jesú frá Nasaret í Jórdan og rödd Guðs lýsti yfir frá himni: „Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.“ (Matteus 3:17) Loksins var sæði fyrirheitsins komið! Hinn heilagi leyndardómur var byrjaður að upplýsast og allar hans margþættu hliðar, meðal annars sú er varðar guðrækni.
5. Hvað er „guðrækni“ og havða áhrif hefur hun á þá sem iðka hana?
5 Hvaða merkingu leggjum við í orðið „guðrækni“? Í kristnu Grísku ritningunum kemur þetta orð aðeins 20 sinnum fyrir, þar af yfir 10 sinnum í hinum tveim bréfum Páls til Tímóteusar. Fræðibókin Insight on the Scriptures skilgreinir „guðrækni“ sem „lotningu, tilbeiðslu og þjónustu við Guð, samfara hollustu við alheimsdrottinvald hans.“ Lotning á rætur sínar í hjarta sem er nátengt Guði, í óttablandinni aðdáun á hátign hans, eilífð og hinum ótalmörgu sköpunarverkum, auk þakklætis fyrir þær andlegu og efnislegu gjafir sem hann lætur rigna yfir menn sem kunna að meta þær. Vissulega getur eitt og sérhvert okkar sagt eins og stendur í Sálmi 104:1: „Lofa þú [Jehóva], sála mín! [Jehóva], Guð minn, þú ert harla mikill. Þú ert klæddur hátign ogh vegsemd.“
6. (a) Hvað er ólíkt með dýrkendum Jehóva og þeim sem sækja kirkjur kristna heimsins? (b) Hvað sagði Páll í Rómverjabréfinu 11:33, 34 og hvaða spurningar vakna því?
6 Hollusta okkar við Guð þarf að birtast á einhvern hátt; hún þarf að birtast í verki. Að því leyti eru dýrkendur hins sanna Guðs, Jehóva, harla ólíkir þeim sem sitja á fáskipuðum bekkjum kirkna kristna heimsins. Fyrir marga jarðarbúa er trú — ef þeir hafa enn þá einhverja trú — ytra form, skikkja sem þeir geta brugðið yfir sig til að vera heilagir á að líta um stund, þótt þeir lifi sams konar lífi og hinn spillti heimur umhverfis þá. Þeir vita ekki einu sinni hver Guð er. Svo sannarlega þurfa slíkir menn að hugleiða orð Páls í Postulasögunni 17:23 er hann sagði við Aþenumenn sem dýrkuðu ‚ókunnan guð‘: „Þetta, sem þér nú dýrkið og þekkið ekki, það boða ég yður.“ Páll segir um þennan mikilfenglega Guð í Rómverjabréfinu 11:33,34: „Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs! Hversu órannsakandi dómar hans og órekjandi vegir hans! Hver hefur þekkt huga [Jehóva]? Eða hver hefur verið ráðgjafi hans?“ Hvernig kynnumst við þá vegum Guðs? Það er með því að læra ‚hinn heilaga leyndardóm guðrækninnar.‘ En hvernig gerum við það?
7. Hvers vegna má segja að ‚heilagur leyndardómur guðrækninnar sé vissulega mikill‘?
7 Í 1. Tímóteusarbréfi 3. kafla greinir Páll fyrst frá því hvers sé krafist af ábyrgum þjónum í húsi Guðs, en það er í 15. versinu kallað „söfnuður lifanda Guðs, stólpi og grundvöllur sannleikans.“ Síðan bætir Páll við í 16. versinu: „Og víst er leyndardómur guðhræðslunar [guðrækninnar, NW] mikill.“ Hann er sannarlega mikill vegna þess að Jehóva sendi eingetinn son sinn til jarðar til að ljúka upp þessum leyndardómi, til að sýna fram á hvað guðrækni raunverulega sé og hvers vegna hún er lífsnauðsynleg í sannri guðsdýrkun. Líf og lífsstefna Jesú hér á jörð varpar ljósi á heilagan leyndardóm þessarar guðrækni. Allir sem elska Jehóva verða að byggja trú sína og líf á Kristi sem er fordæmi okkar í guðrækni. Hvernig skýrði Jesús þá ‚heilagan leyndardóm guðrækninnar‘?
Sex hliðar
8. (a) Hvaða sex hliðum hins heilaga leyndardóms lýsir Páll í 1. Tímóteuarbréfi 3:16? (b) Hver er „hann“ sem opinberaðist?
8 Páll svarar þeirri spurningu vegna innblásturs frá Guði. Hér í 1. Tímóteusarbréfi 3:16 lýsir hann sex hliðum þessa heilaga leyndardóms og segir: „Hann [1] opinberaðist í holdi, [2] var réttlættur í anda, [3] birtist englum, [4] var boðaður með þjóðum, [5] var trúað í heimi, [6] var hafinn upp í dýrð.“ Hver er „hann“ sem opinberaðist? Augljóslega er „hann“ hið fyrirheitna sæði, Jesús, sem kom til að gera vilja Guðs. Hann er þungamiðja hins heilaga leyndardóms þannig að hann er sannarlega mikill.
9. Hvaða sönnun er fyrir því að ekki eigi að standa: „Guð opinberaðist í holdi,“ í 1. Tímóteusarbréfi 3:16?
9 Þrenningartrúarmenn reyna að gera hinn heilaga leyndardóm torskilinn með því að segja að „hann“ í 1. Tímóteusarbréfi 3:16 sé Guð sjálfur. Þeir byggja það á biblíuþýðingu Jakobs konungs sem segir: „Guð opinberaðist í holdi.“ En hvað segja áreiðanlegustu, grísku handritin? Þau nota öll fornafnið „hann“ í staðinn fyrir „Guð.“ Textagagnrýnendur eru nú sammála um að orðið „Guð“ hafi komist inn í þessa ritningargrein sem ritvilla. Þess vegna eru nýlegri þýðingar, svo sem American Standard Version, The New English Bible og íslenska biblían samhljóða Nýheimsþýðingunni sem segir réttilega: „Hann opinberaðist í holdi.“ Það var ekki Guð sjálfur sem opinberaðist „í holdi.“ Það var ástkær sonur hans og fyrsta sköpunarverk, hann sem Jóhannes postuli skrifaði um: „Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.“ — Jóhannes 1:14.
„Opinberaðist í holdi“
10. (a) Hvernig kom fyrsta atriði hins heilaga leyndardóms í ljós við skírn Jesú? (b) Hvers vegna varð Jesús „hinn síðari Adam“?
10 Við skírn Jesú var fyrsta atriði hins heilaga leyndardóms ljóst: Jesús „opinberaðist í holdi“ sem smurður sonur Guðs. Jehóva Guð hafði flutt líf sonar síns frá himnum í móðurkvið Maríu, þannig að Jesús gæti fæðst í holdi sem fullkominn maður. Þannig varð Jesús annar eða ‚hinn síðari‘ Adam eins og 1. Korintubréf 15:45-47 bendir á, fullkominn mannssál sem samsvaraði nákvæmlega hinum fyrri Adam. Og hver var tilgangurinn? Fyrra Tímóteusarbréf 2:5, 6 talar um hann sem ‚manninn Krist Jesú sem gaf sig sjálfan til lausnargjalds fyrir alla.‘ Á þeim lagalega grunni, sem fullkominn mannsfórn skapar, hefur Jesús milligöngu um nýjan sáttmála sem gerður er við 144.000 menn um að verða samerfingjar með honum að ríki hans. — Opinberunarbókin 14:1-3.
11. Til hverra nær árangurinn af lausnarfórn Jesú?
11 Áttu aðrir að njóta góðs af fórnardauða Jesú? Já, svo sannarlega! Fyrsta Jóhannesarbréf 2:2 segir að Jesús Kristur sé „friðþæging fyrir syndir vorar [það er að segja syndir smurðra kristinna mann líkt og Jóhannesar], og ekki einungis fyrir vorar syndir, heldur líka fyrir syndir alls heimsins.“ Gagnið af fórn Jesú nær því til langtum fleiri en hinna 144.000 smurðu kristnu manna; það nær til alls mannheimsins. „Mikill múgur“ núlifandi manna og milljarðar manna, sem reistir verða upp í paradís á jörð, eiga að hljóta eilíft líf á grundvelli trúar sinnar á lausnarfórn Jesú. Eins og spáð er í Opinberunarbókinni 7: 9, 10 hefur mikill múgur manna nú þegar þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær með því að iðka trú á úthellt blóð lambsins, Jesú Krists. Þeir eru taldir réttlátir sem vinir Guðs. Fullir gleði læra þeir að meta hinar ýmsu hliðar þessa heilaga leyndardóms og sýna guðrækni í samræmi við fordæmi Jesú!
Aðrar hliðar
12. Hvernig var Jesús „réttlættur í anda“?
12 Hvað þá um annað atriðið í 1. Tímóteusarbréfi 3:16? Jesús „var réttlættur í anda.“ En hvernig? Með því að Jehóva reisti ráðvandan son sinn upp frá dauðum til lífs sem andaveru. Það jafngilti yfirlýsingu frá Guði um að Jesús væri alréttlátur og verðugur að fá önnur fleiri háleit verkefni. Eins og Rómverjabréfið 1:4 orðar það var Jesús „að anda heilagleikans með krafti auglýstur að vera sonur Guðs fyrir upprisu frá dauðum.“ Pétur staðfestir það og segir okkur í fyrra bréfi sínu, 3. kafla, 18. versi: „Kristur dó í eitt skipti fyrir öll fyrir syndir, réttlátur fyrir rangláta, til þess að hann gæti leitt yður til Guðs. Hann var deyddur að líkamanum til, en lifandi gjörður í anda.“ Leiðir fordæmi Jesú í guðrækni þig til Guðs?
13. Hvaða englum birtist hinn upprisni Jesús og hvers konar boðskap prédikaði hann þeim?
13 Höldum áfram að skoða 1. Tímóteusarbréf 3:16. Páll víkur nú að þriðja þætti hins heilaga leyndardóms og segir að Jesús hafi ‚birst englum.‘ Hvaða englar skyldu það hafa verið? Pétur skrifar um Jesú, sem nú hafði verið ‚gerður lifandi í anda,‘ í fyrra bréfi sínu 3:19,20: „Í andanum fór hann einnig og prédikaði fyrir öndunum í varðhaldi. Þeir höfðu óhlýðnast fyrrum, þegar Guð sýndi langlyndi og beið á dögum Nóa.“ Samkvæmt Júdasarbréfinu 6. versi voru þessir andar ‚englarnir, sem ekki gættu tignar sinnar, heldur yfirgáfu eigin bústað‘ á himnum. Þeir tóku sér efnislíkama til að eiga ólögleg kynmök við konur. Þegar flóðið neyddi þessa engla til að snúa aftur yfir á andlegt tilverusvið var þeim kastað í Tartarus, algert niðurlægingarástand. (2. Pétursbréf 2:4) Þar prédikaði hinn upprisni Jesús fyrir þeim. En var það hjálpræðisboðskapur sem hann flutti? Alls ekki! Jesús fordæmdi illsku þeirra sem sjálfa andstæðu guðrækninnar. Sérhver af þjónum Guðs, sem gælir við siðleysi nú á dögum, ætti að láta sér dóminn yfir þessum englum að kenningu verða!
14. Hvernig var byrjað að ‚boða Jesú með þjóðum‘?
14 Fjórða atriðið í 1. Tímóteusarbréfi 3:16 er það að Jesús hafi verið „boðaður með þjóðum.“ Hvernig rættist það? Rétt fyrir handtöku sína sagði Jesús postulunum: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir á mig, mun einnig gjöra þau verk, sem ég gjöri. Og hann mun gjöra meiri verk en þau, því ég fer til föðurins.“ (Jóhannes 14:12) Skömmu síðar, á hvítasunnunni árið 33, úthellti Jesús heilögum anda yfir lærisveina sína og byrjað var að prédika fyrir Gyðingum fregnir sem gerðu þeim bilt við — „þennan Jesú reisti Guð upp.“ Síðar tóku Samverjar einnig við orði Guðs og byrjuðu að fá heilagan anda. (Postulasagan 2:32; 8:14-17) Síðan, árið 36, prédikaði Pétur fyrir Kornelíusi og öðrum mönnum af þjóðunum sem saman voru komnir í húsi hans. Þannig var byrjað að boða fagnaðarerindið um Jesú „með þjóðum,“ það er að segja meðal manna sem ekki voru Gyðingar, og þeir voru einnig smurðir með heilögum anda.
15. Hvað sannar að kristnir menn á fyrstu öld höfðu lært vel hinn heilaga leyndardóm guðrækninnar?
15 Eins og Postulasagan 12:24 greinir frá ‚efldist orð Guðs og breiddist út.‘ Postulasagan 17:6 segir frá því að í norðurhluta Grikklands hafi andstæðingar hrópað eins og þeir gera allt til þessa dags: „Mennirnir, sem komið hafa allri heimsbyggðinni í uppnám, þeir eru nú komnir hingað.“ Innan 30 ára gat Páll skrifað frá Róm að fagnaðarerindið hefði verið ‚prédikað fyrir öllu, sem skapað er undir himninum.‘ (Kólossubréfið 1:23) Kristnir menn þess tíma höfðu lært vel hinn heilaga leyndardóm guðrækninnar. Þeir notuðu hann af mikilli kostgæfni! Megum við á sama hátt læra hann og nota á pessum mikla hátindi prédikunar Guðsríkis!
16. Hvert var fimmta atriði hins heilaga leyndardóms og í hvaða starfi birtist það?
16 Viðbrögðin við þessari prédikun á fyrstu öldinni létu ekki á sér standa og fimmta atriði hins heilaga leyndardóms í 1. Tímóteusarbréfi 3:16 kom greinilega í ljós. Jesú var núna „trúað í heimi.“ Það stafaði af guðrækni kostgæfra trúboða, meðal annarra Páls og Tímóteusar. Þeir fluttu fagnaðarerindið til Litlu-Asíu og Evrópu, ef til vill allt til Spánar. Boðskapurinn breiddist út til Austur-Afríku fyrir munn hins skírða Eþíópíumanns, og Pétur þjónaði í Babýlon.
17. Hvers vegna er trúað á Jesú um viða veröld nú á dögum?
17 Hvað um okkar daga? Allt frá 1919 hafa hinar smurðu leifar sýnt guðrækni sem er verð eftirbreytni. Þessir smurðu þjónar Guðs hafa byggt vel á þeim trúargrundvelli sem Jesús lagði. Einkum frá 1935 hafa þeir unnið að því að safna saman miklum múgi sem fagnar þeim framtíðarhorfum að fá að ganga gegnum ‚þrenginguna miklu‘ og eignast eilíft líf á jörð sem verður paradís. (Opinberunarbókin 7:9, 14) Þannig er fagnaðarerindinu um Jesú „trúað“ um allan heim okkar tíma. Í guðrækni prédika nú og dafna yfir 3.700.000 vottar Jehóva um víða veröld!
18. Hvernig var Jesús „hafinn upp í dýrð“?
18 Enn er ónefndur einn þáttur hins heilaga leyndardóms, sá sjötti: Jesús „var hafinn upp í dýrð.“ Í 40 daga eftir að hann hafði verið lifandi gerður í anda birtist hann lærisveinum sínum í holdlegum líkömum og talaði við þá „um Guðs ríki.“ Síðan steig hann upp til himna. (Postulasagan 1:3, 6-9) Bæn hans, sem skráð er í Jóhannesi 17:1-5, var þannig svarað: „Faðir, . . . gjör son þinn dýrlegan, til þess að sonurinn gjöri þig dýrlegan. . . . gjör mig nú dýrlegan hjá þér með þeirri dýrð, sem ég hafði hjá þér, áður en heimur var til.“
19. Hvað hlýtur að hafa verið samfara endurkomu Jesú til himna?
19 Það hlýtur að hafa verið mikill fögnuður samfara því er Jesús sneri aftur til himna! Miklu fyrr, er Jehóva grundvallaði jörðina, ‚fögnuðu allir Guðssynir.‘ (Jobsbók 38:7) Hinar himnesku englasveitir hljóta að hafa verið enn glaðari að fá aftur að taka á móti hinum trygga málsvar drottinvalds Jehóva í sinn hóp!
20. Hvers vegna hefur Jesús tekið að erfðum svona háleitt nafn og hvað gerði hann meðan hann var á jörðinni?
20 Í Hebreabréfinu 1:3, 4 segir Páll um hinn sigursæla Jesú: „Hann hreinsaði oss af syndum vorum og settist til hægri handar hátigninni á hæðum. Hann er orðinn englunum þeim mun meiri sem hann hefur að erfðum tekið ágætara nafn en þeir.“ Kristur fékk þetta „nafn“ vegna sigurs síns yfir ranglætinu. Þessi sonur Guðs hafði sannarlega markað braut guðræækninnar hér á jörðinni. Hann hafði einnig sett fordæmi öllum öðrum sem vildu hljóta eilíft líf. Með upphafningu Jesú til hægri handar Guð á himnum opinberuðust allir þættir hins heilaga leyndardóms guðrækninnar.
Hverju svarar þú?
◻ Hvað er „guðrækni“?
◻ Hvernig ‚opinberaðist Jesús í holdi‘ og var síðan „réttlættur í anda“?
◻ Hvaða englum birtist Jesús og hvaða boðskap flutti hann þeim?
◻ Hvernig hefur Kristur verið „boðaður með þjóðum“ og „trúað í heimi“?
◻ Hvenær var Jesús „hafinn upp í dýrð“ og hvað hafði hann gert áður í sambandi við guðrækni?