‚Ég flaug upp á vængjum sem örninn‘
Frásaga Ingeborg Berg
ÉG fæddist þann 5. júní árið 1889 í Fredensborg á Norður-Sjálandi í grennd við sumarhöll konungs. Er gestir komu til dönsku konungsfjölskyldunnar, þeirra á meðal konungar og keisarar frá öðrum Evrópulöndum, var konum frá efnameiri heimilum í nágrenninu boðið að koma og hjálpa til við matargerð og þjónustu. Þar eð ég þekkti margar þessara kvenna fékk ég sem lítil stúlka oft að leika mér og hlaupa um í höllinni.
Ég man vel eftir Nikulási II Rússakeisara og fjölskyldu hans. Fyrir utan svefnherbergi hans stóð lífvörðurinn, kósakkar með brugðin sverð í hendi. Kósakkar voru hrifnir af börnum og einu sinni reyndi einn þeirra að faðma mig en ég flúði sem fætur toguðu eftir löngum göngum hallarinnar. Ég var dauðhrædd við hann, einkum vegna skeggsins sem var gríðarmikið.
Einhverju sinni komu Nikulás II keisari, Vilhjálmur II keisari Þýskalands og sonur Viktoríu drottningar, sem síðar varð Játvarður VII Englandskonungur, í heimsókn til Kristjáns IX. Þeir gengu um götur Fredensborgar og röbbuðu vingjarnlega við fólk. Nikulás keisari klappaði mér á kollinn um leið og ég hneigði mig fyrir honum. Þá voru friðsælir tímar og þjóðhöfðingjar óttuðust ekki um öryggi sitt eins og nú.
Friðurinn tekinn burt
Árið 1912 fór ég að starfa sem hjúkrunarkona á Suður-Jótlandi og þjónaði þar fólki Þýskalandsmegin við landamærin er fylgdi Dönum að málum. Suður-Jótland hafði verið undir stjórn Þjóðverja frá stríði Dana og Prússa árið 1864. Ég hjálpaði mæðrum með nýburana og kynntist vel mörgum af þessum ungu fjölskyldum.
Árið 1914 giftist ég Alfred, dönskum landamæraverði, og settist að Danmerkurmegin landamæranna. Skömmu síðar braust út stríð. Síðar var það kallað stríðið mikla og loks fyrri heimsstyrjöldin. Morgun einn var strengdur gaddavír eftir landamærunum þar sem áður hafði verið hægt að komast óhindrað yfir þau. Sá friður og öryggi, sem við höfum notið fram til þess tíma, var horfinn.
Hryllingur og fáránleiki styrjaldarinnar snerti okkur mjög er við fréttum að allir hinir ungu feður fjölskyldnanna, er ég hafði heimsótt sem hjúkrunarkona, hefðu verið kallaðir í herinn. Allir nema einn féllu á vesturvígstöðvunum við Marne! Það var hræðilegt að hugsa um ungu ekkjurnar sem misstu þarna menn sína og litlu börnin sem misstu feður sína. Nú þurftu þær að annast bújarðirnar á eigin spýtur. „Hvar er Guð?“ hugsaði ég.
Oft var mikil spenna við landamærin meðan á stríðinu stóð er flóttamenn reyndu að komast yfir. Mér var falið það starf að leita á konum sem grunaðar voru um smygl. Oftast voru það matvæli sem þær höfðu meðferðis og mér „yfirsást“ það gjarnan og leyfði þeim að fara. Stríðinu lauk árið 1918 og árið 1920 var Suður-Jótland sameinað Danmörku á nýjan leik.
Ég öðlast trú á Guð
Þótt trú mín á Guð hefði dvínað mjög vegna alls ranglætisins, sem ég varð vitni að, var ég enn að leita að einhverjum tilgangi í lífinu. Við hjónin sóttum reglulega kirkju en spurningum okkar var ósvarað.
Árið 1923 fluttumst við til lítils útgerðarbæjar við Flensborgarfjörð og Alfred gerðist fiskimaður. Skömmu síðar kynntumst við baptistafjölskyldu. Þótt við værum lúterstrúar þáðum við einu sinni boð þeirra um að hlusta á biblíuræðu á ferjukránni í Egernsundi. Áður en við lögðum af stað féll ég á kné og bað: „Guð, ef þú ert til, hlustaðu þá á bæn mína!“
Ræðan fjallaði um konuna við brunninn í Síkar og vakti með mér löngun til að lesa Biblíuna. Það gerði mig nánast að nýrri manneskju! Ég skrifaði móður minni: „Þú sagðir alltaf að ég ætti að snúa mér til Guðs. Ég held að það hafi gerst núna, en ég hef ekki þorað að segja þér það fyrr en nú, því að ég óttaðist að gleðin, sem ég hef notið, myndi hverfa. En hún varir enn!“
Nokkru síðar, árið 1927, fann ég uppi á háalofti hjá okkur bækling sem hét Frelsi þjóðanna. Þessi titill vakti forvitni mína og ég sökkti mér svo niður í efni bæklingsins að ég gleymdi bæði stað og stund. Ég gat ekki slitið mig frá lestrinum fyrr en börnin komu heim frá skólanum og heimtuðu mat sinn.
Er Alfred kom heim um kvöldið sagði ég honum með miklum ákafa frá því sem ég hafði lesið. Ég sagði honum að ef það væri satt, sem stæði í bæklingnum, þá væri kirkjan ekki hús Guðs og við ættum að segja okkur úr henni þegar í stað. Alfred taldi það vera nokkurt fljótræði og okkur kom saman um að skrifa útibúi Varðturnsfélagsins í Kaupmannahöfn og óska eftir fleiri ritum.
Við fengum það svar að boðberi fagnaðarerindisins myndi heimsækja okkur ef við hefðum áhuga. Bróðir Christian Rømer kom. Við fengum honum herbergi barnanna til umráða og bjuggum um þau uppi á háalofti. Á morgnana og síðdegis fór bróðir Rømer út að prédika hús úr húsi og nam síðan með okkur á kvöldin. Hann dvaldi hjá okkur í fjóra daga og við áttum saman yndislegar stundir. Er hann var farinn spurði ég Alfred aftur hvort við ættum ekki að segja okkur úr kirkjunni. Hann svaraði: „Jú, nú vil ég gjarnan segja mig úr kirkjunni líka!“
Alfred gerði sér því ferð til prestsins með úrsögn okkar. Presturinn hélt að Alfred væri kominn til að láta skíra nýtt barn en trúði ekki sínum eigin eyrum er hann áttaði sig á til hvers Alfred væri kominn. „Hvað hafið þið á móti kenningu kirkjunnar?“ spurði hann. Alfred nefndi kenningar svo sem um þrenningu, ódauðleika sálarinnar og eilífar kvalir. „Biblían kennir þetta ekki,“ sagði Alfred. „Það segjum við ekki heldur við fólk sem getur hugsað sjálfstætt,“ svaraði presturinn. „Nú, já. Presturinn heldur þá að við sem sitjum í kirkjunni séum ólæs. Þá vil ég segja mig úr kirkjunni!“ Og presturinn lét undan.
Óvænt veiði og skírn
Árið 1928 átti að halda mót í Kaupmannahöfn en við vorum félítil og höfðum ekki efni á að fara þangað. Ég bað Guð að benda okkur á leið til að komast þangað því að okkur langaði til að láta skírast. Skömmu fyrir mótið hélt Alfred út á fjörðinn til fiskjar. Hann veiddi svo mikið af ál að hann fyllti bátinn og við höfðum efni á að fara til mótsins. Hinir fiskimennirnir voru furðu lostnir því að lítill áll veiddist í firðinum það árið. Árið 1979 voru fiskimenn þar á staðnum enn að tala um „kraftaverkið.“ Við kölluðum það „Pétursveiðina.“ Þann 28. águst árið 1928 létum við skírast til tákns um vígslu okkar.
Skírnin var ólík því sem gerist nú á dögum. Tjaldað var fyrir skírnarlaugina og þegar tjaldið var dregið frá stóð bróðir Christian Jensen — í kjólfötum — í miðri skírnarlauginni með vatnið upp að mitti, reiðubúinn að skíra okkur. Við skírnþegarnir voru íklæddir síðum, hvítum kyrtlum. Fyrst voru karlmennirnir skírðir, síðan konurnar.
Við dvöldum hjá foreldrum mínum meðan við vorum í Kaupmannahöfn vegna mótsins. Faðir minn spurði mig hvar við hefðum verið þegar ég kom heim um kvöldið.
„Við höfum verið á samkomu,“ svaraði ég.
„Hvað gerðist þar?“ spurði hann.
„Við létum skírast,“ svaraði ég.
„Lést þú skírast?“ þrumaði hann. „Fékkst þú ekki nógu góða skírn sem barn?“
„Nei, pabbi,“ svaraði ég. Þá löðrungaði hann mig hressilega og sagði: „Ég skal skíra þig!“
Ég var 39 ára gömul og fimm barna móðir er ég fékk síðasta löðrunginn frá föður mínum, en hann var annars dagfarsprúður maður og góðlegur í viðmóti. Við minntumst aldrei framar á þetta atvik. Sem betur fer var Alfred ókominn heim og ég sagði honum ekki hvað gerst hefði fyrr en mörgum árum síðar.
Reynslutími
Eftir að við komum heim aftur heimsótti ég konu er ég hafði litið á sem systur og sagði henni full af eldmóði frá mótinu og skírn okkar. Hún hlustaði þegjandi en sagði svo: „Vesalings systir Berg. Þú mátt ekki trúa þessu lengur. Það kemur bróðir frá Flensborg einhvern daginn og hann mun útskýra sannleikann fyrir okkur.“
Ég var þrumu lostin. Ég gat varla hjólað heim. Kirkjuklukku var hringt í grenndinni og hvert klukkuslag hljómaði eins og „dauði, dauði“ í eyrum mér. Innra með mér hrópaði ég á hjálp Jehóva og orðin í Sálmi 32:8, 9 komu upp í huga mér: „Ég vil fræða þig og vísa þér veginn, er þú átt að ganga, ég vil kenna þér og hafa augun á þér: Verið eigi sem hestar eða skynlausir múlar; með taum og beisli verður að temja þrjósku þeirra, annars nálgast þeir þig ekki.“
Ég tók fram Biblíuna mína þegar ég kom heim og las: „Faðir vor, . . . til komi þitt ríki; verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ Mér kom í hug dæmisagan um dýrmætu perluna. „Þetta hlýtur að vera satt,“ hugsaði ég. (Matteus 13:45, 46) Guðsríki var eins og perlan sem Jesús talaði um. Ég vildi gefa allt sem ég átti til þess að öðlast Guðsríki. Þessar hugsanir styrktu mig. Ég naut líka fleiri blessana.
Árið 1930 var byrjað að gefa út tímaritið Gullöldina (sem nú heitir Vaknið!) á dönsku undir nafninu Nýi heimurinn. Árið eftir var það okkur biblíunemendunum mikið gleðiefni að taka við nafninu vottar Jehóva. Við vorum ekki mörg á okkar slóðum á þeim tíma og haldnar voru samkomur á heimili okkar af og til. Þar eð gatan, þar sem við bjuggum, var kölluð „Tröppurnar“ var söfnuður okkar kallaður „Tröppusöfnuðurinn.“
Frekari prófraunir
Árið 1934 gekkst ég undir stóra skurðaðgerð og lamaðist fyrir neðan mitti. Ég var rúmliggjandi í tvö og hálft ár og læknar spáðu því að ég yrði bundin hjólastól það sem eftir væri ævinnar. Þetta var afar erfiður tími fyrir mig en fjölskyldan var mér stórkostleg hjálp.
Alfred keypti handa mér biblíu með stóru letri og yngsti sonur okkar gerði stand fyrir hana þannig að ég gæti lesið hana liggjandi í rúminu. En mig langaði líka til að prédika þannig að Alfred setti upp skilti við götuna þar sem nýju tímaritin voru auglýst. Þeir sem áhuga höfðu komu inn til að finna mig og ég talaði við þá. Skiltið varð þess valdandi að fólkið á þessum slóðum kallaði fjölskyldu okkar „nýja heiminn.“
Farandumsjónarmenn voru líka vakandi fyrir því að heimsækja mig þegar þeir áttu leið hjá. Þannig kynntist ég vel þessum þroskuðu og reyndu bræðrum og það var mér mikil uppörvun í veikindum mínum. Ég notaði tímann meðan ég lá veik til biblíunáms og þekkingin hélt mér gangandi. Mér fannst ég ‚fljúga upp á vængjum sem örninn.‘ — Jesaja 40:31.
Þegar ljóst varð árið 1935 hver væri hinn ‚mikli múgur‘ hættu flestir bræður og systur á okkar slóðum, meðal annars elsti sonur okkar og dóttir, að taka af brauðinu og víninu við minningarhátíðina. En sum okkar efuðumst aldrei um himneska köllun okkar. Samt sem áður gladdi það okkur mjög að hafa öðlast hinn nýja skilning á tilgangi Jehóva með múginn mikla og þau laun sem hann á í vændum, eilíft líf á jörð. — Opinberunarbókin 7:9; Sálmur 37:29.
Hægt og hægt fór heilsan batnandi, gagnstætt því sem læknarnir höfðu talið, og að því kom að ég gat aftur tekið fullan þátt í því mikilvæga starfi að prédika og kenna.
Síðari heimsstyrjöldin og það sem á eftir kom
Við sáum yfir til Þýskalands handan fjarðarins og fórum smám saman að finna fyrir áhrifum nasismans. Sumir nágranna okkar snerust á sveif með nasistum og ógnuðu okkur: „Bíðið bara þangað til Hitler kemur. Þá lendið þig í fangabúðum eða á eyðieyju!“
Við töldum hyggilegt að flytjast búferlum. Vinsamlegt fólk útvegaði okkur íbúð í Sønderborg, stórum bæ ekki allfjarri. Við fluttum í mars 1940 og þann 9. apríl hertóku Þjóðverjar Danmörku. Vottar Jehóva í Danmörku voru þó ekki harðrétti beittir á hernámsárunum.
Er landvinningadraumur Hitlers brást nam ég Biblíuna með mörgum vonsviknum Þjóðverjum er bjuggu í Sønderborg og margir tóku við sannleikanum. Það hefur veitt mér mikla gleði að eignast stóra fjölskyldu andlegra barna og barnabarna og einnig að sjá flest barna minna og barnabarna virk í hinni kristnu þjónustu!
Ég missti manninn minn árið 1962, barnabarn árið 1981 og elstu dóttur mína árið 1984. Þjónustan við Jehóva hefur alltaf hjálpað mér að vinna bug á sorginni.
Það hefur verið mikið gleðiefni að sjá starf Guðsríkis sækja fram í Danmörku frá því að ég hóf þátttöku í því árið 1928. Þá voru aðeins um 300 boðberar í öllu landinu en núna eru þeir yfir 16.000! Ég er þakklát fyrir að ég skuli enn, hundrað ára að aldri, geta verið virk í þjónustunni. Ég hef svo sannarlega kynnst af eigin raun uppfyllingu orðanna í Jesaja 40:31: „Þeir, sem vona á [Jehóva], fá nýjan kraft, þeir fljúga upp á vængjum sem ernir. Þeir hlaupa og lýjast ekki, þeir ganga og þreytast ekki.“