Framgangið í ótta Jehóva
„[Söfnuðurinn] byggðist upp og gekk fram í ótta [Jehóva] og óx við styrkingu heilags anda.“ — POSTULASAGAN 9:31.
1, 2. (a) Hvað gerðist er friðarskeið rann upp hjá kristna söfnuðinum? (b) Hvað gerir Jehóva þótt hann leyfi ofsóknir?
LÆRISVEINN stóð frammi fyrir prófraun þar sem líf hans var í veði. Myndi hann sýna Guði ráðvendni? Já, vissulega! Hann hafði framgengið í ótta Guðs og borið lotningu fyrir skapara sínum, og hann myndi deyja sem trúfastur vottur Jehóva.
2 Þessi guðhræddi og ráðvandi maður var Stefán, ‚maður fullur af trú og heilögum anda.‘ (Postulasagan 6:5) Með morði hans reið yfir ofsóknaralda en eftir að hún var hjá naut söfnuðurinn í Júdeu, Galíleu og Samaríu friðar og uppbyggðist andlega. Hann ‚byggðist upp og gekk fram í ótta Jehóva og óx við styrkingu heilags anda.‘ (Postulasagan 9:31) Við, nútímavottar Jehóva, megum treysta að Guð muni blessa okkur, hvort heldur við njótum friðar eða erum ofsótt, eins og Postulasagan 6. til 12. kafli bera með sér. Við skulum því framganga í lotningarfullum ótta við Guð þegar við erum ofsótt og nota sérhvert hlé á ofsóknum til andlegrar uppbyggingar og aukinnar þjónustu við hann. — 5. Mósebók 32:11, 12; 33:27.
Trúfastur allt til enda
3. Hvaða vandamál var yfirstigið í Jerúsalem og hvernig?
3 Jafnvel þótt vandamál komi upp á friðartímum er hægt að leysa þau með góðu skipulagi. (6:1-7) Grískumælandi Gyðingar í Jerúsalem kvörtuðu undan því að ekkjur þeirra á meðal væru settar hjá við daglega útbýtingu matvæla vegna hebreskumælandi manna af hópi Gyðinga. Þetta vandamál var leyst er postularnir skipuðu sjö menn til að sinna þessu starfi. Einn þeirra var Stefán.
4. Hvernig brást Stefán við fölskum ákærum?
4 Hinn guðhræddi Stefán átti prófraun í vændum. (6:8-15) Nokkrir menn tóku að þrátta við hann. Sumir voru úr svonefndri „Leysingjasamkundu,“ ef til vill Gyðingar sem Rómverjar höfðu tekið en síðan leyst eða þrælar sem tekið höfðu gyðingatrú eftir að vera leystir úr þrælkun. Er þeir gátu ekki staðið gegn þeirri visku og anda, sem Stefán talaði af, leiddu þeir hann fyrir æðstaráðið. Ljúgvottar sögðu: ‚Við höfum heyrt þennan mann segja að þessi Jesús muni brjóta niður musterið og breyta þeim siðum sem Móse hefur sett okkur.‘ En jafnvel andstæðingar Stefáns sáu að hann var enginn syndari heldur kyrrlátur maður og ásjóna hans sem ásjóna engils. Hann var sendiboði Guðs sem treysti á stuðning hans. Það var sannarlega ólíkt ásjónum þeirra, afskræmdum af illsku vegna þess að þeir gáfu sig Satan á vald.
5. Hvað sýndi Stefán fram á er hann bar vitni?
5 Er Kaífas æðsti prestur spurði Stefán bar hann óttalaust vitni. (7:1-53) Með ágripi sínu af sögu Ísraels sýndi hann fram á að Guð hefði ætlað sér að setja lögmálið og musterisþjónustuna til hliðar er Messías kæmi. Stefán benti á að Ísraelsmenn hefðu hafnað Móse, frelsaranum sem sérhver Gyðingur þóttist heiðra, alveg eins og þeir tóku ekki núna við honum sem veitti þeim meiri frelsun. Með því að benda á að Guð byggi ekki í húsum gerðum af mannahöndum var Stefán að sýna fram á að musterið og tilbeiðslukerfið, sem tengdist því, ætti að líða undir lok. En þar eð dómararnir hvorki óttuðust Guð né vildu þekkja vilja hans sagði Stefán: ‚Þið harðsvíraðir menn, þið standið ávallt gegn heilögum anda. Hver var sá spámaður sem feður ykkar ofsóttu ekki? Þeir drápu þá er boðuðu komu hins réttláta og nú hafið þið svikið hann og myrt.‘
6. (a) Hvað styrkti trú Stefáns áður en hann dó? (b) Hvers vegna gat Stefán réttilega sagt: „Drottinn Jesús, meðtak þú anda minn“?
6 Óttalaus vitnisburður Stefáns leiddi til þess að hann var myrtur. (7:54-60) Dómararnir voru afarreiðir yfir því að sök þeirra á dauða Jesú skyldi afhjúpuð. En trú Stefáns styrktist við það er hann ‚sá himnana opna og Mannssoninn standa til hægri handar Guði‘! Stefán gat nú horfst í augu við fjendur sína í fullu trausti þess að hann hefði gert vilja Guðs. Þótt vottar Jehóva sjái ekki sýnir getum við varðveitt sams konar stillingu frá Guði undir ofsóknum. Eftir að óvinir Stefáns höfðu dregið hann út fyrir Jerúsalem og byrjað að grýta hann bað hann: „Drottinn Jesús, meðtak þú anda minn.“ Það var viðeigandi því að Guð hafði gefið Jesú vald til að reisa upp dána. (Jóhannes 5:26; 6:40; 11:25, 26) Stefán féll á kné og hrópaði: „[Jehóva], lát þá ekki gjalda þessarar syndar.“ Síðan sofnaði hann dauðasvefni sem píslarvottur, líkt og margir fleiri hafa gert eftir hann, jafnvel á okkar tímum.
Ofsóknir stuðla að útbreiðslu fagnaðarerindisins
7. Hvað leiddi af ofsóknunum?
7 Dauði Stefáns stuðlaði í raun að útbreiðslu fagnaðarerindisins. (8:1-4) Ofsóknirnar tvístruðu öllum lærisveinunum út um Júdeu og Samaríu nema postulunum. Sál, sem hafði látið sér vel líka morðið á Stefáni, ofsótti söfnuðinn af mikilli grimmd, óð inn í hvert húsið á fætur öðru og dró þaðan út fylgjendur Jesú og lét setja í varðhald. En er hinir tvístruðu lærisveinar héldu áfram að prédika var áform Satans um að stöðva guðhrædda boðbera Guðsríkis með ofsóknum að engu gert. Nú á dögum hafa ofsóknir líka oft útbreitt fagnaðarerindið eða vakið athygli á prédikun Guðsríkis.
8. (a) Hvaða afleiðingar hafði prédikunin í Samaríu? (b) Hvernig notaði Pétur annan lykilinn sem Jesús hafði treyst honum fyrir?
8 Filippus trúboði fór til Samaríu „og prédikaði Krist þar.“ (8:5-25) Mikil gleði ríkti þar í borg er fagnaðarerindið var prédikað, óhreinir andar reknir út og menn læknaðir. Postularnir í Jerúsalem sendu þá Pétur og Jóhannes til Samaríu, og er þeir báðust fyrir og lögðu hendur yfir þá sem skírst höfðu fengu hinir nýju lærisveinar heilagan anda. Fyrrverandi töframaður að nafni Símon, sem var nýskírður, reyndi að kaupa sér þetta vald en Pétur sagði: ‚Þrífist aldrei silfur þitt né sjálfur þú. Hjarta þitt er ekki einlægt gagnvart Guði.‘ Honum var sagt að iðrast og biðja Jehóva um fyrirgefningu og bað hann þá postulana að biðja fyrir sér. Þetta ætti að fá alla sem óttast Jehóva til að biðja um hjálp hans til að vernda hjarta sitt. (Orðskviðirnir 4:23) (Af þessum atburði er komið orðið „símonska“ sem merkir „verslun með helga dóma, einkum eigur og embætti kirkjunnar.“) Pétur og Jóhannes báru vitni í mörgum þorpum Samverja. Þannig notaði Pétur annan lykilinn, sem Jesús gaf honum, til að opna í Samaríu dyr þekkingarinnar og tækifærisins til að ganga inn í himnaríki. — Matteus 16:19.
9. Hver var Eþíópíumaðurinn sem Filippus bar vitni fyrir og hvers vegna gat hann látið skírast?
9 Engill Guðs fékk Filippusi nú nýtt verkefni. (8:26-40) „Hirðmaður“ eða embættismaður yfir fjárhirslu Kandake Eþíópíudrottningar var á ferð í vagni frá Jerúsalem til Gasa. Hann var ekki geldingur í bókstaflegum skilningi, eins og skilja mætti af gríska orðinu, enda hefði hann þá verið útilokaður frá söfnuði Gyðinga, heldur hafði hann farið til Jerúsalem til að tilbiðja sem umskorinn trúskiptingur. (5. Mósebók 23:1) Er Filippus fann hirðmanninn var hann að lesa í bók Jesaja. Filippusi var boðið að stíga upp í vagninn og ræddi hann við hirðmanninn um spádóm Jesaja og „boðaði honum fagnaðarerindið um Jesú.“ (Jesaja 53:7, 8) Skömmu síðar hrópaði Eþíópíumaðurinn: „Hér er vatn, hvað hamlar mér að skírast?“ Ekkert stóð í vegi fyrir því þar eð hann þekkti Guð og nú trúði hann á Krist. Filippus skírði því Eþíópíumanninn sem fór fagnandi leiðar sinnar. Er eitthvað sem hamlar þér að láta skírast?
Ofsækjandi tekur trú
10, 11. Hvað kom fyrir Sál frá Tarsus á leiðinni til Damaskus og skömmu eftir það?
10 Meðan þessu fór fram leitaðist Sál við að fá fylgjendur Jesú til að afneita trú sinni en hljóta ella fangavist eða dauða. (9:1-18a) Æðsti presturinn (líklega Kaífas) fékk honum bréf til samkundanna í Damaskus þar sem honum var heimilað að færa í fjötrum til Jerúsalem karla og konur er tilheyrðu ‚veginum‘ eða fylgdu í lífi sínu fordæmi Krists. Það var um miðjan dag, er hann var kominn í nánd við Damaskus, að ljós leiftraði af himni og rödd spurði: „Sál, Sál, hví ofsækir þú mig?“ Förunautar Sáls ‚heyrðu raustina en skildu ekki það sem sagt var.‘ (Samanber Postulasöguna 22:6, 9.) Þessi opinberun hins dýrlega gerða Jesú blindaði Sál en Guð notaði lærisveininn Ananías til að gefa honum sjónina á ný.
11 Eftir skírn sína mátti hinn fyrrverandi ofsækjandi sjálfur þola ofsóknir. (9:18b-25) Gyðingar í Damaskus vildu ráða Sál bana en lærisveinarnir létu hann síga út fyrir borgarmúrinn, líklega í stórri körfu ofinni úr reipi eða tágum. (2. Korintubréf 11:32, 33) Opið, sem þeir létu hann síga út um, var kannski gluggi á húsi einhvers lærisveins sem stóð á veggnum. Þetta var ekki hugleysi heldur bragð til að sleppa úr greipum óvinanna og halda áfram að prédika.
12. (a) Hvað kom fyrir Sál í Jerúsalem? (b) Hvernig farnaðist söfnuðinum?
12 Í Jerúsalem hjálpaði Barnabas lærisveinunum að viðurkenna Sál sem trúbróður. (9:26-31) Þar rökræddi Sál óttalaust við grískumælandi Gyðinga sem reyndu einnig að ráða hann af dögum. Bræðurnir komust á snoðir um það og fóru með hann til Sesareu og þaðan til Tarsus, heimabæjar hans í Kilikíu. Söfnuðurinn í Júdeu, Galíleu og Samaríu naut nú ‚friðar og byggðist upp‘ andlega. Söfnuðurinn „gekk fram í ótta [Jehóva] og óx við styrkingu heilags anda.“ Þetta er gott fordæmi öllum söfnuðum nú á tímum um það hvernig öðlast megi blessun Jehóva!
Heiðingjar taka trú!
13. Hvaða kraftaverk gerði Guð Pétri kleift að vinna í Lýddu og Joppe?
13 Pétur var líka önnum kafinn. (9:32-43) Í Lýddu (sem nú heitir Lód) á Saronvöllum læknaði hann hinn lamaða Eneas. Þessi lækning kom mörgum til að snúa sér til Drottins. Í Joppe veiktist hin ástfólgna Tabíta (Dorkas) og dó. Er Pétur kom þangað sýndu grátbólgnar ekkjur honum klæði sem Dorkas hafði gert og þær ef til vill klæddust. Hann vakti Dorkas upp frá dauðum og margir tóku trú er það spurðist út. Í Joppe dvaldist Pétur hjá Símóni sútara sem bjó við sjóinn. Sútarar lögðu húðir í bleyti í sjónum og meðhöndluðu með kalki áður en þeir skófu hárið af. Skinnunum var breytti í leður með því að súta þau í vökva sem unninn var úr jurtum.
14. (a) Hver var Kornelíus? (b) Hvernig var bænum Kornelíusar svarað?
14 Á sama tíma (árið 36) voru merkisatburðir að gerast annars staðar. (10:1-8) Í Sesareu bjó hinn guðrækni heiðingi Kornelíus, rómverskur hundraðshöfðingi er hafði um hundrað menn í sinni umsjá. Hann var foringi í „ítölsku hersveitinni,“ en liðsmenn hennar voru trúlega úr hópi rómverskra borgara og frelsingja á Ítalíu. Þótt Kornelíus óttaðist Guð hafði hann ekki tekið gyðingatrú. Engill birtist honum í sýn og sagði honum að bænir hans væru ‚stignar upp til Guðs og hann minntist þeirra.‘ Þótt Kornelíus væri enn ekki vígður Jehóva var bænum hans svarað. Hann sendi eftir Pétri í samræmi við leiðsögn engilsins.
15. Hvað gerðist er Pétur var að biðjast fyrir á húsþaki Símonar?
15 Meðan þessu fór fram var Pétur að biðja á húsþaki Símonar og sá þá sýn. (10:9-23) Í leiðslu sá hann sem stóran dúk koma niður af himni og á honum voru alls kyns óhrein, ferfætt dýr, skriðdýr og fuglar. Pétri var skipað að slátra og eta en hann sagðist aldrei hafa etið neitt sem vanheilagt var. „Eigi skalt þú kalla það vanheilagt, sem Guð hefur lýst hreint,“ var honum sagt. Pétur var ráðvilltur eftir sýnina en fylgdi þó leiðsögn andans. Því fór hann og sex bræður af hópi Gyðinga með sendimönnum Kornelíusar. — Postulasagan 11:12.
16, 17. (a) Hvað sagði Pétur Kornelíusi og þeim sem samankomnir voru í húsi hans? (b) Hvað gerðist meðan Pétur var enn að tala?
16 Fyrstu heiðingjarnir voru nú í þann mund að heyra fagnaðarerindið. (10:24-43) Er Pétur og félagar hans komu til Sesareu biðu hans þar Kornelíus, ættingjar hans og nánir vinir. Kornelíus féll að fótum Péturs en Pétur afþakkaði auðmjúkur í bragði slíka lotningu. Hann talaði um hvernig Jehóva hefði smurt Jesú með heilögum anda og krafti sem Messías og greindi frá því að hver sá er sýndi trú á hann, fengi fyrirgefningu synda sinna.
17 Jehóva lét nú til sín taka. (10:44-48) Pétur var enn að tala er Guð úthellti heilögum anda yfir þessa trúuðu heiðingja. Á þeirri stundu voru þeir getnir af Guði og innblásið að tala erlend tungumál og lofa hann. Eins og við átti voru þeir skírðir í nafni Jesú Krists. Þannig notaði Pétur þriðja lykilinn til að opna guðhræddum heiðingjum dyr þekkingarinnar og tækifærisins til að ganga inn í himnaríki. — Matteus 16:19.
18. Hvernig brugðust bræður úr hópi Gyðinga við er Pétur sagði þeim frá því að heiðingjarnir væru „skírðir með heilögum anda“?
18 Síðar deildu stuðningsmenn umskurnarinnar við Pétur í Jerúsalem. (11:1-18) Er Pétur skýrði frá því hvernig heiðingjarnir hefðu verið skírðir með heilögum anda „stilltust“ bræður hans úr hópi Gyðinga, vegsömuðu Guð og sögðu: „Guð hefur þá einnig gefið heiðingjum afturhvarf til lífs.“ Við ættum líka að vera móttækileg þegar vilji Guðs er skýrður fyrir okkur.
Söfnuður heiðingjanna stofnaður
19. Hvernig bar það til að lærisveinarnir voru kallaðir kristnir?
19 Fyrsti söfnuður heiðingjanna var nú stofnaður. (11:19-26) Er lærisveinarnir tvístruðust vegna þrengingarinnar, sem hófst eftir morðið á Stefáni, fóru sumir til Antíokkíu í Sýrlandi sem þekkt var fyrir óhreina tilbeiðslu og siðspillingu. Er þeir fluttu grískumælandi mönnum þar fagnaðarerindið var ‚hönd Jehóva með þeim‘ og margir tóku trú. Barnabas og Sál kenndu þar í eitt ár og „í Antíokkíu voru lærisveinarnir [fyrir guðlega forsjá] fyrst kallaðir kristnir.“ Jehóva stýrði málum vafalaust svo að þeir voru kallaðir kristnir því að gríska orðið krematiso, sem merkir að ‚kalla vegna guðlegrar forsjár,‘ er alltaf notað í Ritningunni um það sem frá Guði kemur.
20. Hvað sagði Agabus fyrir og hvernig brást söfnuðurinn í Antíokkíu við?
20 Guðhræddir spámenn komu nú einnig til Antíokkíu frá Jerúsalem. (11:27-30) Einn þeirra var Agabus sem sagði fyrir „af gift andans . . . að mikil hungursneyð mundi koma yfir alla heimsbyggðina.“ Sá spádómur uppfylltist í stjórnartíð Kládíusar keisara í Róm (árin 41-54) og sagnaritarinn Jósefus kallar hana „mikla hungursneyð.“ (Jewish Antiquities XX, 51 [ii, 5]; XX, 101 [v, 2]) Kærleikur knúði söfnuðinn í Antíokkíu til að senda þurfandi bræðrum sínum í Júdeu hjálpargögn. — Jóhannes 13:35.
Ofsóknir árangurslausar
21. Hvað gerði Heródes Agrippa I Pétri en hver urðu leikslokin?
21 Friðartímanum lauk er Heródes Agrippa I hóf að ofsækja þá sem óttuðust Jehóva í Jerúsalem. (12:1-11) Heródes lét bana Jakobi með sverði, ef til vill hálshöggva. Hann var fyrstur postulanna til að deyja sem píslarvottur. Er Heródes sá að Gyðingum líkaði það vel hneppti hann Pétur í fangelsi. Pétur var hlekkjaður hermönnum á báðar hendur og aðrir tveir stóðu vörð við klefa hans. Heródes áformaði að lífláta hann eftir páska og daga ósýrðu brauðanna (14.-21. nísan) en bænum safnaðarins fyrir honum var svarað í tæka tíð, eins og oft er einnig um bænir okkar. Það gerðist er engill Guðs frelsaði postulann með undraverðum hætti.
22. Hvað gerðist er Pétur kom í hús Maríu, móður Markúsar?
22 Innan skamms var Pétur kominn að húsi Maríu (móður Jóhannesar Markúsar) en bersýnilega var þar samkomustaður kristinna manna. (12:12-19) Þjónustustúlka að nafni Róde þekkti rödd Péturs í myrkrinu en skildi hann eftir við læst fordyrið. Í fyrstu héldu postularnir kannski að Guð hefði sent engil í líki Péturs er talaði líkt og hann, en er þeir hleyptu Pétri inn sagði hann þeim að skýra Jakobi og hinum bræðrunum (ef til vill öldungum) frá því að hann væri laus úr haldi. Síðan fór hann og hafðist við í felum og leyndi því hvert hann fór, þannig að hvorki hann né þeir væru í hættu ef til yfirheyrslu kæmi. Heródes lét leita Péturs árangurslaust og vörðunum var refsað, ef til vill með lífláti.
23. Hvernig var endi bundinn á stjórn Heródesar Agrippa I og hvað getum við lært af því?
23 Árið 44 tók stjórn Heródesar Agrippa I í Sesareu skyndilega enda er hann var 54 ára. (12:20-25) Hann var í baráttuhug gegn Fönikíumönnum í Týrus og Sídon sem mútuðu Blastusi, þjóni hans, til að tryggja þeim áheyrn hjá konungi þannig að þeir gætu beðist friðar. Á „tilsettum degi“ (sem einnig var hátíð til heiðurs Kládíusi keisara) klæddist Heródes konungsskrúða, settist í dómarasæti og tók að flytja opinbera ræðu. En áheyrendur hrópuðu: „Guðs rödd er þetta, en eigi manns.“ Samstundis laust engill Jehóva hann „sökum þess að hann gaf ekki Guði dýrðina.“ Heródes „varð ormétinn og dó.“ Megi þetta fordæmi til viðvörunar fá okkur til að halda áfram að framganga í ótta Jehóva, forðast stærilæti og gefa honum dýrðina fyrir allt það sem við gerum sem þjónar hans.
24. Hvað verður sýnt fram á síðar um aukninguna?
24 Þrátt fyrir ofsóknir Heródesar ‚efldist og breiddist orð Jehóva út.‘ Eins og sýnt verður fram á síðar máttu lærisveinarnir búast við enn frekari aukningu. Hvers vegna? Vegna þess að þeir ‚gengu fram í ótta Jehóva.‘
Hverju svarar þú?
◻ Hvernig sýndi Stefán að hann óttaðist Jehóva eins og margir þjónar Guðs hafa gert síðan?
◻ Hvaða áhrif hafði dauði Stefáns á prédikun Guðsríkis og á það sér nútímahliðstæðu?
◻ Hvernig bar það til að ofsækjandinn Sál frá Tarsus tók að óttast Jehóva?
◻ Hverjir voru fyrstu heiðingjarnir sem tóku trú?
◻ Hvernig sýnir 12. kafli Postulasögunnar að ofsóknir fá ekki stöðvað þá sem óttast Jehóva?
[Mynd á blaðsíðu 24]
Ljós leiftraði af himni og rödd spurði: „Sál, Sál, hví ofsækir þú mig?“