Haldið áfram að leita ríkis guðs og réttlætis
„Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ — MATTEUS 6:33.
1, 2. Að hverju gerðu fræðimenn og farísear verk sem voru í sjálfu sér góð, og hvaða aðvörun fengu fylgjendur Jesú?
FRÆÐIMENNIRNIR og farísearnir leituðu réttlætis á sinn eigin hátt, ekki á þann hátt sem Guð ætlaðist til. Þar við bættist að þegar þeir unnu verk, sem voru í sjálfu sér góð, breyttu þeir þeim í hræsnisfullan sjónleik fyrir mönnum. Þeir voru ekki að þjóna Guði heldur eigin hégómagirnd. Jesús varaði lærisveina sína við slíkum leikaraskap: „Varist að iðka réttlæti yðar fyrir monnum, þeim til sýnis, annars eigið þér engin laun hjá föður yðar á himnum.“ — Matteus 6:1.
2 Jehóva metur þá sem gefa fátækum — en ekki þá sem gefa á sama hátt og farísearnir. Jesús varaði lærisveina sína við að líkja eftir þeim: „Þegar þú gefur ölmusu, skaltu ekki láta þeyta luður fyrir þér, eins og hræsnarar gjöra í samkunduhúsum og á strætum til þess að hljóta lof af mönnum. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín.“ — Matteus 6:2.
3. (a) Hvernig tóku fræðimenn og farísear út laun sín fyrir ölmusugjafirnar? (b) Hvaða ólíka afstöðu til ölmusugjafa tók Jesús?
3 Gríska orðið apekho, sem merkir ‚að taka út laun sín,‘ var oft notað á kvittunum í viðskiptum. Eins og það er notað í fjallræðunni, gefur það til kynna að ‚þeir hafi tekið út laun sín,‘ það er að segja „þeir hafa undirritað kvittun fyrir launum sínum: rétti þeirra til að fá laun sín hefur verið sinnt, nákvæmlega eins og þeir hefðu þegar gefið kvittun fyrir þeim.“ (An Expository Dictionary of New Testament Words eftir W. E. Vine.) Fyrir opnum tjöldum á götum úti gáfu menn hátíðleg loforð um gjafir til fátækra. Nöfn gefenda voru tilkynnt ı samkunduhúsunum. Þeir sem gáfu stórar fjárhæðir voru sérstaklega heiðraðir með því að fá að sitja næst rabbínunum við tilbeiðsluna. Þeir gáfu til að láta taka eftir sér; þeir voru séðir og heiðraðir af mönnum og gátu því stimplað „Greitt að fullu“ á kvittunina fyrir launin sem þeir hlutu fyrir gjöf sína. Afstaða Jesú var allt önnur! Gefðu „í leynum, og faðir þinn, sem sér ı leynum, mun umbuna þér.“ — Matteus 6:3, 4; Orðskviðirnir 19:17.
Bænir sem þóknast Guði
4. Hvers vegna komu bænir faríseanna Jesú til að kalla þá hræsnara?
4 Jehóva gleðst yfir bænum sem beint er til hans — ekki þó ef beðið er líkt og farísearnir gerðu. Jesús sagði fylgjendum sínum: „Þegar þér biðjist fyrir, þá verið ekki eins og hræsnararnir. Þeir vilja helst standa og biðjast fyrir í samkundum og á gatnamótum, til þess að menn sjái þá. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín.“ (Matteus 6:5) Farísearnir höfðu fjölmargar bænir sem þeir áttu að þylja á sérstökum tímum dag hvern óháð því hvar þeir voru staddir. Fræðilega séð áttu þeir að fara með bænirnar í einrúmi, en þeim tókst að haga þvı þannig að þeir væru staddir „á gatnamótum“ þegar bænastundin rann upp, sýnilegir mönnum sem komu að úr öllum áttum.
5. (a) Hvaða annar siður olli því að Guð heyrði ekki bænir faríseanna? (b) Hvaða atriði lét Jesus ganga fyrir í fyrirmyndarbæn sinni og taka nútímamenn sömu afstöðu?
5 Til að sýnast heilagir fluttu þeir „langar bænir að yfirskini.“ (Lúkas 20:47) Ein hinna munnlegu erfðavenja sagði: „Guðræknir menn fortíðar voru vanir að bíða eina stund áður en þeir sögðu Tefillah [bænina].“ (Mísna) Þá var næsta öruggt að allir hefðu komið auga á trúrækni þeirra og dáðst að! Slíkar bænir náðu aldrei hærra en höfuð þeirra. Jesús sagði okkur að biðja í einrúmi, án tilgangslausra endurtekninga, og gaf mönnum síðan einfalda bæn sem fyrirmynd. (Matteus 6:6-8; Jóhannes 14:6, 14; 1. Pétursbréf 3:12) Í fyrirmyndarbæn Jesú voru mikilvægustu atriðin nefnd fyrst: „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji.“ (Matteus 6:9-13) Fáir nútímamenn þekkja nafn Guðs og hafa þaðan af síður áhuga á að það helgist. Þar með gera þeir Guð nafnlausan. Komi Guðsríki? Margir halda að Guðsríki sé nú þegar komið hið innra með þeim. Margir biðja að vilji hans verði gerður en gera síðan að mestu leyti eigin vilja. — Orðskviðirnir 14:12.
6. Hvers vegna fordæmdi Jesús föstur Gyðinga sem einskis virði?
6 Föstuhald er Jehóva þóknanlegt — en ekki þess konar sem farísear stunduðu. Jesús lýsti föstur faríseanna marklausar, líkt og ölmusugjafir þeirra og bænir: „Þegar þér fastið, þá verið ekki daprir í bragði, eins og hræsnarar. Þeir afmynda andlit sín, svo að engum dyljist, að þeir fasta. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín.“ (Matteus 6:16) Munnlegar erfðavenjur faríseanna kváðu á um að þeir ættu hvorki að þvo sér né smyrja sig olíu heldur bera ösku á höfuð sér. Gyðingar voru hins vegar vanir að þvo sér reglulega og bera olíu á líkama sinn á meðan þeir voru ekki að fasta.
7. (a) Hvernig áttu fylgjendur Jesú að bera sig að er þeir föstuðu? (b) Hvað vildi Jehóva á dögum Jesaja varðandi föstur?
7 Jesús sagði fylgjendum sínum eftirfarandi um föstur: „Smyr höfuð þitt og þvo andlit þitt, svo að menn verði ekki varir við, að þú fastar, heldur faðir þinn.“ (Matteus 6:17, 18) Hinir trúlausu Gyðingar á dögum Jesaja höfðu yndi af því að fasta, þjá sig, hengja höfuð og sitja í sekk og ösku. En Jehóva vildi að þeir frelsuðu kúgaða, gæfu hungruðum að borða, hýstu heimilislausa og klæddu nakta. — Jesaja 58:3-7.
Safnið fjársjóðum á himni
8. Hvað kom fræðimönnum og faríseum til að missa sjónar á því hvernig þeir ættu að öðlast hylli Guðs, og hvaða meginreglu, sem Páll setti fram síðar, yfirsást þeim?
8 Í eftirsókn sinni eftir réttlætinu misstu fræðimenn og farísear sjónar á hvernig menn áynnu sér hylli Guðs og einbeittu sér að því að öðlast hylli manna. Þeir urðu svo uppteknir af erfðavenjum manna að þeir viku orði Guðs til hliðar. Hjörtu þeirra sóttust eftir stöðu á jörð í stað fjársjóða á himni. Þeim yfirsást hinn einfaldi sannleiki sem farísei, er snúist hafði til kristinnar trúar, færði í letur mörgum árum síðar: „Hvað sem þér gjörið, þá vinnið af heilum huga, eins og [Jehóva] ætti í hlut, en ekki menn. Þér vitið og sjálfir, að [Jehóva] mun veita yður arfleifðina að launum.“ — Kólossubréfið 3:23, 24.
9. Hvaða hættur geta ógnað jarðneskum fjársjoðum en hvað verndar sönn verðmæti?
9 Jehóva hefur áhuga á guðrækni þinni, ekki bankareikningi. Hann veit að hjarta þitt er þar sem fjársjóður þinn er. Getur mölur og ryð eytt fjársjóði þínum? Geta þjófar brotist inn og stolið honum? Getur verðbólgan rýrt kaupmátt hans á þessum umbrotatímum í efnahagsmálum eða verðhrun á verðbréfamarkaði þurrkað hann út? Getur þú glatað fjársjóði þínum í hendur glæpamanna á tímum vaxandi afbrota? Ekki ef hann er geymdur á himnum. Ekki ef auga þitt — lampinn sem lýsir upp allan líkama þinn — er heilt og hefur ríki Guðs og réttlæti hans í brennidepli. Auðæfi hafa það fyrir sið að hverfa. „Streist þú ekki við að verða ríkur, hættu að verja viti þínu til þess. Hvort skulu augu þín hvarfla til auðsins sem er svo stopull? Því að sannlega gjörir hann sér vængi eins og örn, sem flýgur til himins.“ (Orðskviðirnir 23:4, 5) Hvers vegna að láta jarðneskan auð ræna þig svefni? „Offylli hins auðuga lætur hann eigi hafa frið til að sofa.“ (Prédikarinn 5:11) Mundu eftir aðvörun Jesú: „Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.“ — Matteus 6:19-24.
Trú sem bægir frá áhyggjum
10. Hvers vegna er svona mikilvægt að trúa á Guð í stað efnislegra eigna og hvað ráðlagði Jesús?
10 Jehóva vill að þú trúir á hann, ekki eigur þínar. „Án trúar er ógerlegt að þóknast honum, því að sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita.“ (Hebreabréfið 11:6) Jesús sagði: „Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé.“ (Lúkas 12:15) Milljónir á bankareikningi halda ekki gangandi sjúkum lungum eða þreyttu hjarta. „Því segi ég yður,“ hélt Jesús áfram í fjallræðu sinni: „Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka, né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin?“ — Matteus 6:25.
11. Hvert sótti Jesús margar af líkingum sínum og dæmisögum og hvernig kemur það fram í fjallræðunni?
11 Jesús var snillingur í að tala í myndum og samlíkingum. Hann fann efnivið í þær alls staðar. Hann sá konu setja ljós á ljosastiku og notaði það sem líkingu. Hann sá fjárhirði skilja sauði frá höfrum og notaði það líka sem dæmisögu. Hann sá börn leika sér á markaðstorginu og notaði það sem efnivið í líkingu. Þannig var það í fjallræðunni. Er hann talaði um áhyggjur út af þörfum líkamans tók hann samlíkingu frá smáfuglunum sem flögruðu um og liljunum sem klæddu hlíðarnar. Þurfa fuglarnir að sá og uppskera? Nei. Þurfa liljurnar að spinna og vefa? Nei. Guð skapaði þær og annast þær. Þú ert hins vegar meira virði en fuglar og liljur. (Matteus 6:26, 28-30) Hann gaf son sinn fyrir þig, ekki fyrir fuglana og liljurnar. — Jóhannes 3:16.
12. (a) Merkti samlíkingin við fuglana og blómin að lærisveinar Jesú þyrftu ekki að vinna? (b) Hvað var Jesús að leggja áherslu á í sambandi við verk og trú?
12 Jesús var ekki að segja fylgjendum sínum hér að þeir þyrftu ekki að vinna fyrir fæði og klæði. (Sjá Prédikarann 2:24; Efesusbréfið 4:28; 2. Þessaloníkubréf 3:10-12.) Þennan vormorgun voru fuglarnir önnum kafnir við að leita sér fæðu, biðla hver til annars, gera hreiður, liggja á eggjum og næra unga sína. Þeir unnu án þess að vera með ahyggjur. Blómin voru líka önnum kafin við að teygja rætur sínar um jarðveginn í leit að vatni og steinefnum og teygja fram lauf sitt í átt til sólarinnar. Þau urðu að þroskast og blómgast og kasta fræi áður en þau dóu. Þau unnu án þess að vera með áhyggjur. Guð sér fyrir fuglum og liljum. ‚Skyldi hann þá ekki miklu fremur sjá fyrir ykkur, þið trúlitlir?‘ — Matteus 6:30.
13. (a) Hvers vegna var eðlilegt af Jesú að nota spönn er hann talaði um það að lengja ævi sína? (b) Hvernig er hægt að lengja líf sitt út í hið óendanlega?
13 Þú skalt því hafa trú. Vertu ekki áhyggjufullur. Áhyggjur fá engu breytt. „Hver ykkar getur með ahyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?“ spurði Jesús. (Matteus 6:27) En hvers vegna skyldi Jesús nota lengdarmál, spönn, sem mælieiningu á lengd mannsævinnar? Ef til vill vegna þess að Biblıan líkir mannsævinni oft við ferðalag og notar orðfæri svo sem ‚vegur syndaranna,‘ „gata réttlátra,“ ‚breiður vegur sem liggur til glötunar‘ og ‚mjór vegur er liggur til lífsins.‘ (Sálmur 1:1; Orðskviðirnir 4:18; Matteus 7:13, 14) Áhyggjur af daglegum nauðsynjum geta ekki lengt ævina hið minnsta, ekki einu sinni um ‚eina spönn‘ ef svo má að orði komast. Hins vegar er hægt að lengja lífs sitt endalaust, um ótal milljónir kílómetra, ef svo má segja, ekki þó með áhyggjum og spyrja: „Hvað eigum vér að eta?“ eða „Hvað eigum vér að drekka?“ eða „Hverju eigum vér að klæðast?“ heldur með því að hafa trú og gera það sem Jesús segir okkur að gera: „Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ — Matteus 6:31-33.
Hvernig við getum eignast hlutdeild í ríki Guðs og réttlæti hans
14. (a) Hvert er stef fjallræðunnar? (b) Á hvaða rangan hátt leituðu fræðimenn og farísear ríkis Guðs og réttlætis?
14 Í fyrstu málsgrein fjallræðu sinnar talaði Jesús um að himnaríkið tilheyrði þeim sem væru sér meðvitandi um andlega þörf sína. Í fjórðu málsgreininni sagði hann að þeir sem hungraði og þyrsti eftir réttlæti yrðu saddir. Hér gefur Jesús bæði ríki Jehóva og réttlæti fyrsta sætið. Þarna er komið stef fjallræðunnar. Þarna er lausnin á vandamálum alls mannkyns. En hvernig eignumst við hlutdeild í ríki Guðs og réttlæti hans? Hvernig höldum við áfram að leita þess? Ekki með sama hætti og fræðimenn og farísear gerðu. Þeir leituðu ríkis Guðs og réttlætis gegnum Móselögmálið sem þeir staðhæfðu að fæli í sér munnlegar erfðavenjur, vegna þess að þeir trúðu að Guð hafði gefið Móse bæði hið skráða lögmál og hinar munnlegu erfðavenjur á Sínaífjalli.
15. (a) Hver var uppruni hinna munnlegu erfðavenja að sögn Gyðinganna, og hvernig hófu þeir þær yfir hið skráða Móselögmál? (b) Hvenær urðu þessar erfðavenjur til í raun og hvaða áhrif höfðu þær á Móselögmálið?
15 Í erfðavenjum Gyðinga sagði: „Móse tók við lögmálinu [neðanmálsathugasemd: „hinu ‚munnlega lögmáli‘“] á Sínaí og fól það Jósúa, Jósúa síðan öldungum og öldungarnir spámönnunum; og spámennirnir fólu það mönnunum í samkundunni miklu.“ Þegar fram liðu stundir var hið munnlega lögmál þeirra tekið fram yfir hið skráða lögmál: „[Ef] hann brýtur gegn orðum lögmálsins [hins skráða] er hann ekki sekur“ en ef „hann bætir við orð fræðimannanna [hinar munnlegu erfðavenjur] er hann sekur.“ (Mísna) Hinar munnlegu erfðavenjur voru þó ekki frá Sínaí komnar. Þær komu til í miklum mæli um tveim öldum fyrir daga Krists. Þær bættu við, drógu frá og ógiltu hið skráða Móselögmál. — Samanber 5. Mósebók 4:2; 12:32.
16. Hvernig kemur réttlæti Guðs til manna?
16 Réttlæti Guðs kemur ekki til vegna lögmálsins heldur óháð því: „Enginn lifandi maður réttlætist fyrir honum af lögmálsverkum. En fyrir logmál kemur þekking syndar. En nú hefur réttlæti Guðs, sem lögmálið og spámennirnir vitna um, verið opinberað án lögmáls. Það er: Réttlæti Guðs fyrir trú á Jesú Krist.“ (Rómverjabréfið 3:20-22) Réttlæti Guðs kemur því til vegna trúar á Krist Jesú — því var ríkulega ‚borið vitni í lögmálinu og spámönnunum.‘ Messíasarspádómarnir rættust á Jesú. Hann uppfyllti líka logmálið; það var úr gildi fellt með því að negla það á kvalastaur hans. — Lúkas 24:25-27, 44-46; Kólossubréfið 2:13, 14; Hebreabréfið 10:1.
17. Hvernig fóru Gyðingar á mis við það að þekkja réttlæti Guðs, að sögn Páls postula?
17 Því sagði Páll postuli um árangurslausar tilraunir Gyðinga til að ávinna sér réttlæti: „Það ber ég þeim, að þeir eru kappsfullir Guðs vegna, en ekki með réttum skilningi. Með því þeir þekkja ekki réttlæti Guðs og leitast við að koma til vegar eigin réttlæti, hafa þeir ekki gefið sig undir réttlæti Guðs. En Kristur er endalok lögmálsins, svo að nú réttlætist hver sá, sem trúir.“ (Rómverjabréfið 10:2-4) Páll skrifaði einnig um Krist Jesú: „Þann sem þekkti ekki synd, gjörði hann að synd vor vegna, til þess að vér skyldum verða réttlæti Guðs í honum.“ — 2. Korintubréf 5:21.
18. Hvernig litu erfðavenjumenn Gyðinga, spekingar Grikkja og ‚hinir kölluðu‘ á „Krist krossfestan“?
18 Gyðingar sáu deyjandi Messías sem vesælan og einskis virði. Heimspekingar Grikkja gerðu gys að slíkum Messíasi og kölluðu heimsku. Eigi að síður lýsti Páll yfir: „Gyðingar heimta tákn, og Grikkir leita að speki, en vér prédikum Krist krossfestan, Gyðingum hneyksli og heiðingjum heimsku, en hinum kölluðu, bæði Gyðingum og Grikkjum, Krist, kraft Guðs og speki Guðs. Því að heimska Guðs er mönnum vitrari og veikleiki Guðs mönnum sterkari.“ (1. Korintubréf 1:22-25) Kristur Jesús opinberaði mátt Guðs og visku og er leið Guðs til að veita hlýðnu mannkyni réttlæti og eilíft líf. „Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum. Og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss.“ — Postulasagan 4:12.
19. Hvað kemur fram í greininni hér á eftir?
19 Í greininni hér á eftir er sýnt að við verðum að halda áfram að leita ríkis Guðs og réttlætis hans ef við viljum umflýja eyðingu og öðlast eilíft líf. Það gerum við ekki aðeins með því að hlýða á orð Jesú heldur líka fara eftir þeim.
Upprifjun
◻ Í hvað breyttu Gyðingar ölmusugjöfum sínum, bænum og föstum?
◻ Hvar er óhætt að geyma fjársjóð sinn?
◻ Hvers vegna ættum við að forðast áhyggjur út af efnislegum nauðsynjum?
◻ Hvað fullyrtu Gyðingar ranglega um uppruna hinna munnlegu erfðavenja?
◻ Hvernig kemur ríki Guðs og réttlæti?
[Mynd á blaðsíðu 14]
Farísearnir báðust gjarnan fyrir standandi á götuhornum þar sem menn gátu séð til þeirra.