Vertu samstíga himneskum stríðsvagni Jehóva
„Þú [skalt] tala orð mín til þeirra, hvort sem þeir hlýða á þau eða gefa þeim engan gaum.“ — ESEKÍEL 2:7.
1, 2. Hvaða konunglegt ökutæki sá Esekíel og hvað var honum sagt?
HIMNESKUR stríðsvagn Jehóva stendur nú frammi fyrir þjónum hans. Með augum trúarinnar sjá þeir konunglegt farartæki síns alvalda Drottins. Það er dýrlegt, konunglegt og ógnþrungið.
2 Þessi sami, konunglegi farkostur staðnæmdist frammi fyrir spámanni Guðs, Esekíel, í sýn fyrir um það bil 2600 árum. Frá þessum stríðsvagni með hásætinu — himnesku skipulagi andavera hans — gaf nú Jehóva Esekíel þetta áhrifamikla boð: „Ég sendi þig til þeirra, sem eru þrjóskir á svip og harðir í hjarta, og þú skalt segja við þá: ‚Svo segir [Jehóva] Guð!‘ Og hvort sem þeir hlýða á það eða gefa því engan gaum — því að þeir eru þverúðug kynslóð — þá skulu þeir vita, að spámaður er á meðal þeirra.“ — Esekíel 2:4, 5.
3. Hver er nútímahliðstæða Esekíels?
3 Eins og eitt einstakt verkfæri í hendi Guðs gerði Esekíel einbeittur í bragði það sem honum var boðið. Eins hefur Guð núna eitt einstakt verkfæri eða skipulag sem hann stýrir. Esekíelhópurinn, hinar smurðu leifar, eru fremstir í flokki að bera lokavitnisburð, og ‚mikill múgur‘ ‚annarra sauða‘ fylkir liði að baki þeim til stuðnings. (Opinberunarbókin 7:9, 10; Jóhannes 10:16) Saman mynda þeir ‚eina hjörð‘ og góði hirðirinn, Jesús Kristur, leiðir þá undir drottinvaldi hins mikla ekils stríðsvagnsins á himnum, Jehóva Guðs.
4, 5. Hvernig varð sýnilegt skipulag Guðs til og hver hefur verið reynsla þess í samræmi við Jesaja 60:22?
4 Undir handleiðslu Jehóva hefur þetta heimsskipulag vaxið frá lítilli byrjun upp í öflugt verkfæri til að boða þann úrskurð að ‚óttast Guð og gefa honum dýrð, því að komin er stund dóms hans.‘ (Opinberunarbókin 14:7) Esekíel skipaði sig ekki varðmann sjálfur og eins hefur sýnilegt skipulag Guðs ekki skapað sig sjálft eða skipað til embættis. Það varð ekki til vegna vilja eða viðleitni manna. Hinn konunglegi ekill á stríðsvagninum lét þetta skipulag verða til. Í krafti anda Guðs og með stuðningi heilagra engla hefur þjónum Jehóva fjölgað svo stórkostlega að ‚hinn lítilmótlegasti er orðinn að voldugri þjóð.‘ — Jesaja 60:22.
5 Yfir fjórar milljónir votta Jehóva boða boðskapinn um Guðsríki í 212 löndum. Þeir skiptast niður í liðlega 63.000 söfnuði sem raðað er í farandsvæði og umdæmi. Hinar fjölmörgu deildarskrifstofur og prentsmiðjur starfa undir umsjón hins stjórnandi ráðs sem er kjarninn í skipulagi aðalstöðvanna. Sem einn maður væri sækja allir fram, prédika fagnaðarerindið, fræða þá sem hlusta og styðja byggingu nýrra samkomuhúsa. Já, sýnilegt skipulag Jehóva er samstíga stríðsvagninum á himnum og þeim sem ekur honum.
6. Hvað er fólgið í því að vera samstíga sýnilegu skipulagi Jehóva?
6 Ef þú ert einn votta Jehóva, ert þú þá samstíga sýnilegu skipulagi Guðs? Það felur í sér meira en aðeins að sækja kristnar samkomur og verja einhverjum tíma til þjónustunnar. Að vera samstíga felur fyrst og fremst í sér að taka framförum og vaxa andlega. Það felur í sér að hafa jákvæð viðhorf, setja sér rétt forgangsmál og fylgjast vel með. Ef við erum samstíga himneskum stríðsvagni Jehóva, þá er líf okkar samkvæmt þeim boðskap sem við boðum.
7. Hvers vegna er gott að virða fyrir sér hvernig Esekíel gekk fram sem spámaður Guðs?
7 Nútímaþjónar Jehóva geta margt lært af fordæmi Esekíels um það að vera samstíga. Þótt Esekíel væri sérstaklega skipaður sem spámaður Jehóva hafði hann eftir sem áður tilfinningar, áhyggjur og þarfir. Til dæmis varð hann fyrir þeirri sorg að missa eiginkonu sína tiltölulega ungur. Samt sem áður missti hann aldrei sjónar á því verkefni að vera spámaður Jehóva. Með því að virða fyrir okkur hvernig Esekíel bar sig að á öðrum sviðum einnig getum við styrkt okkur í því að vera samstíga sýnilegu skipulagi Guðs. Þannig getum við einnig verið samstíga ósýnilegu skipulagi hans.
Esekíel tók við verkefni sínu og gerði því skil
8. Hvaða fordæmi gaf Esekíel í sambandi við hlutverk sitt?
8 Esekíel gaf gott fordæmi með því að taka við því verkefni, sem honum var falið, og gera því góð skil. En hlýðni og hugrekki var nauðsynlegt til að gera það, því að við lesum: „Þú, mannsson, skalt ekki hræðast þá og ekki óttast orð þeirra, þótt netlur og þyrnar séu hjá þér og þótt þú búir meðal sporðdreka. Orð þeirra skalt þú ekki óttast og ekki skelfast fyrir augliti þeirra, því að þeir eru þverúðug kynslóð. Heldur skalt þú tala orð mín til þeirra, hvort sem þeir hlýða á þau eða gefa þeim engan gaum, því að þeir eru þverúðin einber. En þú, mannsson, heyr þú það, er ég tala til þín! Ver þú eigi einber þverúð, eins og hin þverúðuga kynslóð.“ — Esekíel 2:6-8.
9. Hvernig gat Esekíel umflúið blóðskuld?
9 Esekíel átti ekki að vera sinnulaus eða óttasleginn, þannig að stöðugt þyrfti að ýta við honum til að hann gerði verkefni sínu skil. Hann gat umflúið blóðskuld aðeins ef hann talaði orð Jehóva fúslega og djarflega. Esekíel var sagt: „En varir þú hinn óguðlega við og snúi hann sér þó ekki frá guðleysi sínu og óguðlegri breytni sinni, þá mun hann deyja fyrir misgjörð sína, en þá hefir þú frelsað sál þína.“ — Esekíel 3:19.
10. Hvernig hefur Esekíelhópurinn reynst vera eins og spámaður?
10 Líkt og Esekíel hefur hinn smurði Esekíelhópur tekið við verkefninu, sem Guð hefur falið honum, og rækir það vel. Ef við erum vottar Jehóva, þá ættum við að muna að líf okkar og líf annarra er undir hlýðni okkar komið. (1. Tímóteusarbréf 4:15, 16) Sérhver vottur þarf að vera samstíga skipulagi Jehóva. Guð bindur okkur ekki við stríðsvagn sinn og dregur okkur með. Sinnuleysi og tvískipt hjarta óvirðir þann sem ekur stríðsvagninum. Sýnilegt skipulag Jehóva hvetur okkur því til að láta hagsmunamál Guðsríkis vera þungamiðju lífsins. Séu viðbrögð okkar við slíkri hvatningu jákvæð erum við samstíga skipulagi Guðs og hin heilaga þjónusta okkar verður þá ekki vélrænt vanaverk. Þjónar Jehóva sem heild sýna tvímælalaust eftirtektarverða kostgæfni. Það er hlutverk hvers og eins okkar að vera samstíga skipulaginu í heild.
Orð Guðs látin ná til hjartans
11. Hvaða fordæmi gaf Esekíel varðandi orð Guðs?
11 Esekíel gaf líka gott fordæmi í því að taka orð Guðs inn í hjarta sitt. Hlýðinn át hann bókrollu sem Guð gaf honum. „Ég át hana og var hún í munni mér sæt sem hungang,“ segir Esekíel. Þótt bókrollan væri full af ‚harmljóðum, andvörpum og kveinstöfum‘ var hún sæt fyrir Esekíel vegna þess að hann mat að verðleikum þann heiður að fá að vera fulltrúi Jehóva. Það var sæt reynsla fyrir spámanninn að rækja það verk sem Guð fól honum. Guð sagði honum: „Þú mannsson, hugfest þér öll orð mín, þau er ég til þín tala, og lát þau þér í eyrum loða.“ (Esekíel 2:9-3:3, 10) Þessar sýnir gerðu Esekíel mjög meðvitaðan um hverju Guð leyfði honum að taka þátt í og styrkti samband hans við Jehóva.
12. Hvað gerði Esekíel á þeim rúmum tveim áratugum sem hann var spámaður?
12 Esekíel voru gefnar sýnir og boðskapur í ýmsum tilgangi og til ýmissa áheyrenda. Hann þurfti að hlusta vandlega og síðan tala eins og honum var boðið. Í þau um það bil 22 ár, sem hann var spámaður, voru honum skref fyrir skref opinberaðar upplýsingar og aðferðir. Stundum flutti Esekíel boðskap orð fyrir orð. Stundum lék hann látbragðsleik, eins og til dæmis að liggja fyrir framan tigulstein er táknaði Jerúsalem. (Esekíel 4:1-8) Fordæmi hans í persónulegum málum, svo sem viðbrögð hans við dauða eiginkonu sinnar, fluttu líka ákveðinn boðskap. (Esekíel 24:15-19) Hann þurfti að fylgjast vel með og boða alltaf réttan boðskap og breyta á réttan hátt á réttum tíma. Esekíel átti mjög náið og framsækið samband við Jehóva.
13. Hvernig getum við byggt upp náið samband við Jehóva?
13 Eins verðum við, til að byggja upp og viðhalda nánu sambandi við Jehóva sem samverkamenn hans, að taka orð Guðs til hjartans. (1. Korintubréf 3:9) Til að vera samstíga sýnilegu skipulagi Guðs að þessu leyti þurfum við að fylgjast með þeim straumi andlegrar fæðu sem okkur er gefinn á réttum tíma. (Matteus 24:45-47) ‚Hið hreina tungumál‘ er í stöðugum vexti. (Sefanía 3:9) Aðeins með því að fylgjast með öllu því nýjasta getum við hlýtt þeim fyrirmælum sem ekillinn á stríðsvagninum gefur.
14, 15. Hvaða venja er nauðsynleg til að halda sama hraða og skipulag Guðs?
14 Til að þetta geti orðið þurfum við að hafa góðar venjur í sambandi við einkabænir, einkanám og þátttöku í hinni heilögu þjónustu við fagnaðarerindið. (Rómverjabréfið 15:16) Mundu eftir fordæmi Esekíels í því að eta bókrolluna sem innihélt boðskap Guðs. Esekíel át alla bókina, ekki hluta hennar. Hann valdi ekki úr þá bita sem féllu kannski best að smekk hans. Eins er það með einkanám okkar í Biblíunni og kristnum ritum; við ættum að samstilla það hinu andlega fæðustreymi og neyta alls þess sem lagt er á hið andlega borð, líka hinna djúpu sanninda.
15 Leggjum við okkur fram um að skilja kjarnann í hinni föstu fæðu og ræðum það í bænum okkar? Að vera samstíga skipulaginu krefst þess að þekking okkar og skilningur vaxi þannig að við séum ekki stöðugt við frumatriðin. Við lesum: „Hver sem á mjólk nærist er barn og skilur ekki boðskap réttlætisins. Fasta fæðan er fyrir fullorðna, fyrir þá, sem jafnt og þétt hafa tamið skilningarvitin til að greina gott frá illu.“ (Hebreabréfið 5:13, 14) Já, það er mikilvægt að taka andlegum framförum til að geta haldið sama hraða og skipulag Guðs.
Áhugaleysi engin hindrun
16, 17. Hvernig tókst Esekíel á við áhugaleysi, háðsglósur og lítil viðbrögð af hálfu fólks?
16 Esekíel gaf líka gott fordæmi með því að vera hlýðinn og leyfa ekki áhugaleysi eða háðsglósum að draga úr sér kjark. Með því að halda í við framþróun hins hreina tungumáls erum við á sama hátt samstillt þeim fyrirmælum sem konungurinn á stríðsvagninum gefur. Við erum þannig reiðubúin að fylgja boðum hans, styrkt til að láta ekki áhugaleysi eða spott þeirra sem við flytjum dómsboðskap Jehóva draga úr okkur kjark. Guð hefur aðvarað okkur um að sumir munu beita sér gegn okkur, vera með hörð enni og þverúðarfull hjörtu, líkt og hann aðvaraði Esekíel. Aðrir munu ekki heyra vegna þess að þeir vilja ekki hlusta á Jehóva. (Esekíel 3:7-9) Enn aðrir myndu vera hræsnarar eins og Esekíel 33:31, 32 segir: „Þeir koma til þín í hópum og sitja frammi fyrir þér, en þegar þeir hafa heyrt orð þín, þá breyta þeir ekki eftir þeim. Því að lygi er í munni þeirra en hjarta þeirra eltir fégróðann. Og sjá, þú ert þeim eins og ástarkvæði, eins og sá, er hefir fagra söngrödd og vel leikur á strengina: Þeir hlusta á orð þín, en breyta ekki eftir þeim.“
17 Hvaða afleiðingar myndi það hafa? Vers 33 bætir við: „En þegar það kemur fram, og það kemur vissulega fram, þá munu þeir viðurkenna að spámaður var meðal þeirra.“ Þessi orð leiða í ljós að Esekíel gafst ekki upp þótt viðbrögðin vantaði. Áhugaleysi annarra gerði hann ekki sinnulausan. Hann hlýddi Guði og rækti skyldur sínar, hvort sem fólk hlustaði eða ekki.
18. Hvaða spurninga gætir þú spurt þig?
18 Sýnilegt skipulag Jehóva er núna að efla þá boðun sína að allir ættu að óttast Guð og gefa honum dýrð. Ert þú þrautseigur þegar þú ert gagnrýndur fyrir að taka djarfmannlega afstöðu í að bera vitni um Guðsríki, fyrir að lifa siðsömu lífi? Ert þú staðfastur þegar þrýst er á þig vegna þess að þú vilt ekki þiggja blóð, vilt ekki tilbiðja þjóðartákn, vilt ekki halda veraldlega helgidaga hátíðlega? — Matteus 5:11, 12; 1. Pétursbréf 4:4, 5.
19. Hvað gerum við ef við erum samstíga himneskum stríðsvagni Jehóva?
19 Þetta er ekki auðveld lífsstefna en sá sem er staðfastur allt til enda mun bjargast. (Matteus 24:13) Með hjálp Jehóva munum við ekki leyfa fólkinu í heiminum að þvinga okkur til að verða eins og það og valda því að við hættum að vera samstíga himneskum stríðsvagni Jehóva. (Esekíel 2:8; Rómverjabréfið 12:21) Ef við erum samstíga englaskipulaginu, sem líkt er við stríðsvagn, þá framfylgjum við skjótlega fyrirmælum og leiðbeiningum sem við fáum í gegnum sýnilegt skipulag Guðs. Jehóva gefur okkur það sem þarf til að standast árásir á trú okkar, halda tökum okkar á orði lífsins og einblína á hinn andlega veruleika þar sem konungurinn á stríðsvagninum himneska er miðpunkturinn.
Hvatning til að vera samstíga
20. Nefndu sumt af því sem Esekíel færði í letur og ætti að örva okkur til að vera samstíga skipulaginu.
20 Sýnir Esekíels ættu að örva okkur til að vera samstíga skipulagi Guðs. Bæði boðaði hann dóma Guðs yfir Ísrael og skráði einnig endurreisnarspádóma. Esekíel benti á hver myndi hafa lagalegan rétt til að ríkja í hásæti Jehóva þegar tíminn kæmi. (Esekíel 21:27) Sá konunglegi þjónn, Davíð, myndi safna þjónum Guðs saman á ný og gæta þeirra. (Esekíel 34:23, 24) Þótt Góg frá Magóg réðist á þá myndi Guð frelsa þá og fjandmenn hans yrðu þvingaðir til að ‚kynnast Jehóva‘ er þeir færu til eyðingar. (Esekíel 38:8-12; 39:4, 7) Þá myndu þjónar Guðs öðlast eilíft líf í heimi þar sem fram færi hrein tilbeiðsla í andlegu musteri. Lífsvötn er streymdu frá helgidóminum myndu vera til næringar og lækningar og þjónar Guðs yrðu blessaðir með erfðalandi. — Esekíel 40:2; 47:9, 12, 21.
21. Hvers vegna hafa nútímavottar Jehóva enn mikilfenglegra verkefni en Esekíel?
21 Esekíel hlýtur að hafa verið stórhrifinn að fá að skrá þessa spádóma! Þó er hlutverk nútímavotta Jehóva enn stórfenglegra. Við lifum þá tíma er sumir þessara spádóma eru að rætast. Við erum meira að segja virkir þátttakendur vissra hluta spádómanna. Sýnum við hvert og eitt, með því hvernig við lifum, að við séum sannfærð um að Jesús ríki nú eins og sá sem hefur réttinn til ríkis? Erum við persónulega sannfærð um að Jehóva muni bráðlega helga sig og frelsa inn í nýjan heim sinn þá sem eru samstíga skipulagi hans? (2. Pétursbréf 3:13) Slíkt sannfæring, samfara trúarverkum, sýnir að við erum í raun samstíga himneskum stríðsvagni Jehóva.
Höldum áfram að fylgja skipulaginu
22. Hvað er hægt að gera til þess að hafa skýra andlega sjón og forðast það sem truflar athygli okkar?
22 Er við höfum ‚lagt hönd á plóginn‘ megum við ekki líta löngunaraugum til baka á neitt það sem þessi heimur býður upp á. (Lúkas 9:62; 17:32; Títusarbréfið 2:11-13) Við skulum því halda í skefjum sérhverri tilhneigingu til að safna okkur fjársjóðum á jörð og halda auga okkar heilbrigðu, láta það einblína á ríkið. (Matteus 6:19-22, 33) Það að einfalda líf okkar og losa okkur á öllum sviðum sem mögulegt er við það sem íþyngir okkur hjálpar okkur að vera samstíga skipulagi Jehóva. (Hebreabréfið 12:1-3) Ef við látum eitthvað annað draga til sín athygli okkar getum við farið að sjá hinn himneska stríðsvagn og þann sem ekur honum óskýrt. Með hjálp hans getum við hins vegar haft skýra andlega sjón eins og Esekíel.
23. Hvað þurfa trúfastir vottar að gera í þágu hinna nýju?
23 Hluti af ábyrgð okkar sem vottar Jehóva felst í því að hjálpa hinum mörgu nýju að vera samstíga himneskum stríðsvagni Guðs. Árið 1990 voru næstum 10 milljónir manna viðstaddar minningarhátíðina um dauða Jesú Krists. Margir þessa einstaklinga sækja kannski fáeinar kristnar samkomur, en þeir þurfa að koma auga á nauðsyn þess að taka framförum með sýnilegu skipulagi Jehóva. Við getum, sem trúfastir vottar, hjálpað þeim með þeim anda sem við sýnum og þeirri hvatningu sem við veitum.
24. Hvað ættum við að gera á þessum tímum sem bráðlega ná hámarki?
24 Við lifum tíma sem brátt munu ná miklu hámarki. Með augum trúarinnar höfum við séð hinn himneska stríðsvagn nema staðar frammi fyrir okkur. Konungurinn sem stýrir honum hefur gefið sýnilegu skipulagi sínu fyrirmæli um að prédika fyrir þjóðunum þannig að þær muni, þegar endirinn kemur, vita hver Jehóva er. (Esekíel 39:7) Notum sem best þetta stórkostlega tækifæri til að taka þátt í að upphefja drottinvald Guðs og helga hið heilaga nafn hans með því að vera samstíga himneskum stríðsvagni Jehóva.
Hverju svarar þú?
◻ Hvaða fordæmi gaf Esekíel í sambandi við það verkefni sem honum var fengið?
◻ Hvað merkir það að vera samstíga skipulagi Guðs?
◻ Hvernig leit Esekíel á orð Jehóva?
◻ Hvernig getum við fylgt fordæmi Esekíels í því að takast á við skeytingarleysi fólks?
◻ Hvað ætti að hvetja þjóna Jehóva til að vera samstíga himneskum stríðsvagni hans?
[Myndir á blaðsíðu 15]
Hvers er krafist til þess að vera samstíga himneskum stríðsvagni Jehóva?
[Myndir á blaðsíðu 16]
Esekíel mat mikils þau sérréttindi sem Guð fékk honum. Kannt þú að meta þín sérréttindi?