Hrein guðsdýrkun nauðsynleg til að lifa af
„Trúarbrögð sem eru hrein og ósvikin í augum Guðs föðurins birtast í því að . . . halda sér óspilltum af heiminum.“ — JAKOBSBRÉFIÐ 1:27, Phillips.
1. Hvernig hafa trúarbrögð verið skilgreind og hver hefur réttilega vald til að úrskurða hver séu sönn trúarbrögð og fölsk?
TRÚARBRÖGÐ hafa verið skilgreind sem „trúartjáning mannsins og lotning fyrir ofurmannlegum mætti sem viðurkenndur er skapari og stjórnandi alheimsins.“ Hver hefur því réttilega vald til að úrskurða hver séu sönn trúarbrögð og hver fölsk? Að sjálfsögðu hlýtur það að vera sá sem trúað er á og veitt er lotning, skaparinn. Jehóva hefur í orði sínu gert skýra grein fyrir afstöðu sinni til sannra og falskra trúarbragða.
Orðið „trúarbrögð“ í Biblíunni
2. Hvernig útskýra orðabækur frumgríska orðið, sem þýtt er „tilbeiðsluform“ eða „trúarbrögð,“ og á hvers konar tilbeiðslu er hægt að heimfæra það?
2 Gríska orðið, sem þýtt er „tilbeiðsluform“ eða „trúarbrögð,“ er þreskeia. Orðabókin A Greek-English Lexicon of the New Testament skilgreinir þetta orð sem „tilbeiðslan á Guði, trúarbrögð, einkum eins og þau birtast í trúarlegri þjónustu eða guðsdýrkun.“ Orðabókin Theological Dictionary of the New Testament veitir nánari skýringu: „Ágreiningur er um uppruna orðsins; . . . nútímafræðimenn hallast að því að það sé tengt þerap- (‚að þjóna‘). . . . Orðið hefur fleiri merkingarbrigði. Hin jákvæða merking er ‚trúarhiti‘ . . . ‚tilbeiðsla á Guði,‘ ‚trúarbrögð.‘ . . . En það hefur líka neikvæða merkingu, þ.e., ‚trúaröfgar,‘ ‚röng tilbeiðsla.‘“ Þar af leiðandi er hægt að þýða þreskeia annaðhvort sem „trúarbrögð“ eða „tilbeiðsluform,“ jákvætt eða neikvætt.
3. Hvernig notaði Páll orðið, sem þýtt er „tilbeiðsluform,“ og hvaða athyglisverð athugasemd er gerð við þýðingu Kólossubréfsins 2:18?
3 Þetta orð kemur fyrir aðeins fjórum sinnum í kristnu Grísku ritningunum. Páll postuli notaði það tvisvar í sambandi við fölsk trúarbrögð. Í Postulasögunni 26:5 er haft eftir honum um fortíð sína áður en hann tók kristna trú: „Ég var farísei frá fyrstu tíð, fylgdi strangasta flokki trúarbragða vorra.“ Í bréfi sínu til Kólossumanna aðvaraði hann: „Látið þá ekki taka af yður hnossið, sem þykjast af auðmýkt sinni og engladýrkun.“ (Kólossubréfið 2:18) Slík engladýrkun var greinilega algeng í Frýgíu á þeim tíma en þetta var ákveðin tegund falskra trúarbragða.a Það er athyglisvert að enda þótt orðið þreskeia sé í Kólossubréfinu 2:18 þýtt „trúarbrögð“ í sumum biblíum nota flestar orðið „tilbeiðsla“ eða „dýrkun.“ Nýheimsþýðingin er sjálfri sér samkvæm í því að að þýða orðið þreskeia alltaf „tilbeiðsluform“ en í neðanmálsathugasemdum er í hvert sinn tekið fram í tilvísanaútgáfunni að hinn möguleikinn, „trúarbrögð,“ sé notaður í latneskum þýðingum.
„Hrein og flekklaus“ frá sjónarhóli Guðs
4, 5. (a) Afstaða hvers til trúarbragða er mikilvægust samkvæmt Jakobsbréfinu? (b) Hvað getur gert tilbeiðsluform manns fánýtt og hver er merking orðsins sem þýtt er „fánýt“?
4 Hin tilvikin tvö, þar sem orðið þreskeia kemur fyrir, eru í bréfi lærisveinsins Jakobs sem sat í hinu stjórnandi ráði kristna safnaðarins á fyrstu öld. Hann skrifaði: „Sá sem þykist vera guðrækinn [„trúrækinn,“ Phillips], en hefur ekki taumhald á tungu sinni, blekkir sjálfan sig og guðrækni [„trúarbrögð,“ Phillips] hans er fánýt. Hrein og flekklaus guðrækni [„trúarbrögð,“ Phillips] fyrir Guði og föður er þetta, að vitja munaðarlausra og ekkna í þrengingu þeirra og varðveita sjálfan sig óflekkaðan af heiminum.“ — Jakobsbréfið 1:26, 27.
5 Já, að halda okkur við afstöðu Jehóva til trúarbragða er nauðsynlegt ef við viljum hafa velþóknun hans og lifa af inn í nýja heiminn sem hann hefur heitið. (2. Pétursbréf 3:13) Jakob sýnir að einhver gæti talið sig trúhneigðan en trúardýrkun hans samt sem áður verið fánýt. Gríska orðið, sem hér er þýtt „fánýt,“ getur einnig þýtt „gagnslaus, innihaldslaus, árangurslaus, ónothæfur, kraftlaus, skortir sannleika.“ Slíkt gæti gerst ef einhver sem telur sig kristinn hefur ekki taumhald á tungu sinni og notar hana ekki til að lofa Guð og byggja upp kristna bræður sína. Hann „blekkir sjálfan sig“ og iðkar ekki þau „trúarbrögð sem eru hrein og ósvikin í augum Guðs.“ (Phillips) Það er sjónarmið Jehóva sem skiptir máli.
6. (a) Hvert er inntak Jakobsbréfsins? (b) Hvaða kröfur varðandi hreina tilbeiðslu lagði Jakob áherslu á og hvað hefur hið stjórnadi ráð nútímans tekið fram í því sambandi?
6 Jakob telur ekki upp allt sem Jehóva krefst í tengslum við hreina tilbeiðslu. Í samræmi við aðalstef bréfsins, sem er trú sýnd í verki og nauðsyn þess að forðast vináttu við heim Satans, leggur hann aðeins áherslu á tvær kröfur. Önnur er sú „að vitja munaðarlausra og ekkna í þrengingu þeirra.“ Það felur í sér ósvikinn kristinn kærleika. Jehóva hefur alltaf sýnt munaðarleysingjum og ekkjum kærleiksríka umhyggju. (5. Mósebók 10:17, 18; Malakí 3:5) Eitt af fyrstu verkum hins stjórnandi ráðs kristna safnaðarins á fyrstu öld var í þágu kristinna ekkna. (Postulasagan 6:1-6) Páll postuli gaf ítarleg fyrirmæli um kærleiksríka umönnun fátækra, aldraðra ekkna sem hefðu sannað trúfesti sína um árabil og áttu enga aðstandendur sér til hjálpar. (1. Tímóteusarbréf 5:3-16) Stjórnandi ráð votta Jehóva nútímans hefur einnig gefið út nákvæm fyrirmæli varðandi umönnun fátækra þar sem segir: „Sönn tilbeiðsla felur í sér að annast trúfasta og drottinholla einstaklinga sem geta þurft á efnislegri aðstoð að halda.“ (Sjá bókina Organized to Accomplish Our Ministry, bls. 122-3.) Öldungaráð eða kristnir einstaklingar, sem eru hirðulausir hvað þetta varðar, eru að vanrækja mikilvægan þátt þess tilbeiðsluforms sem er hreint og flekklaust fyrir Guði og föður.
‚Óflekkaður af heiminum‘
7, 8. (a) Hvaða aðra kröfu til sannra trúarbragða nefndi Jakob? (b) Uppfylla klerkar kristna heimsins þessa kröfu? (c) Hvað er hægt að segja um votta Jehóva?
7 Önnur krafa sannrar tilbeiðslu, sem Jakob minntist á, er að „varðveita sjálfan sig óflekkaðan af heiminum.“ Jesús sagði: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi“ og í samræmi við það yrðu sannir fylgjendur hans „ekki af heiminum.“ (Jóhannes 15:19; 18:36) Er hægt að segja það um klerkastétt og presta einhverra af trúarbrögðum þessa heims? Þeir eru stuðningsmenn Sameinuðu þjóðanna. Margir af leiðtogum þeirra tóku boði páfans að hittast í Assisi á Ítalíu í október 1986 til að sameinast í bænum sínum um að „Alþjóðlegt friðarár“ Sameinuðu þjóðanna mætti bera árangur. En viðleitni þeirra var til einskis ef marka má þær milljónir sem drepnar voru í styrjöldum á því ári og árunum eftir það. Klerkarnir eiga oft vinsamleg samskipti við ráðandi stjórnmálaflokka en eiga svo með undirferli í leynimakki við stjórnarandstöðuna þannig að hverjir sem stjórna líti á þá sem ‚vini.‘ — Jakobsbréfið 4:4.
8 Vottar Jehóva hafa getið sér þann orðstír að vera kristnir menn sem eru hlutlausir í stjórnmálum og stríðum þessa heims. Í öllum heimsálfum og innan allra þjóða hafa þeir þessa afstöðu eins og frásagnir dagblaða og sögulegar heimildir í öllum heimshlutum bera vitni um. Þeir eru sannarlega ‚óflekkaðir af heiminum.‘ Það eru þeirra „trúarbrögð sem eru hrein og ósvikin í augum Guðs.“ — Jakobsbréfið 1:27, Phillips.
Önnur einkenni sannra trúarbragða
9. Hver er þriðja krafan til sannra trúarbragða og hvers vegna?
9 Ef trúarbrögð eru „lotning fyrir ofurmannlegum mætti sem viðurkenndur er skapari og stjórnandi alheimsins“ verða sönn trúarbrögð vissulega að beina tilbeiðslunni að hinum eina sanna Guði, Jehóva. Þau mega ekki gera skilning manna á Guði óskýran með heiðnum guðshugmyndum eins og þrenningarkenningunni þar sem faðirinn deilir almætti sínu, dýrð og eilífð með tveimur öðrum persónum í dularfullri þrenningu. (5. Mósebók 6:4; 1. Korintubréf 8:6) Þau verða líka að kunngera hið óviðjafnanlega nafn Guðs, Jehóva, og heiðra það, já, bera nafn Guðs sem skipulögð þjóð. (Sálmur 83:19; Postulasagan 15:14) Í því verða iðkendur þeirra að fylgja fordæmi Jesú Krists. (Jóhannes 17:6) Hverjir uppfylla þessar kröfur nú á dögum aðrir en kristnir vottar Jehóva?
10. Hvað verða trúarbrögð, sem bjóða mönnum að lifa af inn í nýjan heim Guðs, að gera og hvers vegna?
10 Pétur postuli sagði: „Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum. Og ekkert annað nafn [Jesús Kristur] er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss.“ (Postulasagan 4:8-12) Hrein trúarbrögð, sem bjóða mönnum upp á að lifa af inn í nýjan heim Guðs, verða þess vegna að örva trú á Krist og verðgildi lausnarfórnarinnar. (Jóhannes 3:16, 36; 17:3; Efesusbréfið 1:7) Þar að auki verða þau að hjálpa sönnum tilbiðjendum að gefa sig Kristi á vald sem ríkjandi konungi og smurðum æðsta presti Jehóva. — Sálmur 2:6-8; Filippíbréfið 2:9-11; Hebreabréfið 4:14, 15.
11. Á hverju verða sönn trúarbrögð að byggjast og hver er afstaða votta Jehóva hvað það snertir?
11 Hrein trúarbrögð verða að byggjast á opinberuðum vilja hins eina sanna Guðs en ekki á heimspeki og erfikenningum manna. Við myndum ekkert vita um Jehóva og undursamlegan tilgang hans né um Jesú og lausnarfórnina ef það væri ekki vegna Biblíunnar. Vottar Jehóva innprenta fólki óhagganlega tiltrú á Biblíunni. Þeir sanna einnig með daglegu lífi sínu að þeir eru sammála yfirlýsingu Páls postula: „Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, . . . til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.
Hin sönnu trúarbrögð — lífsstefna
12. Auk trúar, hvað er nauðsynlegt til að tilbeiðsla sé sönn og í hvaða skilningi eru sönn trúarbrögð lífsstefna?
12 Jesús lýsti yfir: „Guð er andi, og þeir, sem tilbiðja hann, eiga að tilbiðja í anda og sannleika.“ (Jóhannes 4:24) Hin sönnu trúarbrögð eða tilbeiðsluform eru þess vegna ekki sýndarguðrækni byggð á viðhafnar- og helgisiðum. Sönn tilbeiðsla er andleg, byggð á trú. (Hebreabréfið 11:6) Þá trú verður aftur á móti að styðja með verkum. (Jakobsbréfið 2:17) Sönn trú lætur ekki stjórnast af tískustraumum. Hún heldur fast við staðla Biblíunnar varðandi siðferði og hreint málfar. (1. Korintubréf 6:9, 10; Efesusbréfið 5:3-5) Iðkendur hennar leggja sig einlæglega fram um að bera ávexti anda Guðs í fjölskyldulífi sínu, í vinnunni, í skólanum og jafnvel þegar þeir skemmta sér. (Galatabréfið 5:22, 23) Vottar Jehóva reyna að gleyma aldrei ráðleggingum Páls postula: „Hvort sem þér því etið eða drekkið eða hvað sem þér gjörið, þá gjörið það allt Guði til dýrðar.“ (1. Korintubréf 10:31) Trú þeirra er ekki bara formsatriði; hún er lífsstefna.
13. Hvað felur sönn tilbeiðsla í sér og hvers vegna er hægt að segja að vottar Jehóva séu með sanni trúhneigt fólk?
13 Að sjálfsögðu felur sönn trú í sér andlegar athafnir. Þar má nefna fjölskyldu- og einkabænir, reglulegt nám í orði Guðs og biblíunámsritum og það að sækja kristnar safnaðarsamkomur. Slíkar samkomur byrja og enda á lofsöng til Jehóva og bæn. (Matteus 26:30; Efesusbréfið 5:19) Uppbyggjandi andleg viðfangsefni eru rannsökuð í formi fyrirlestra og umræðna með spurningum og svörum út frá prentuðu efni sem allir geta fengið í hendur. Slíkar samkomur eru venjulega haldnar í snyrtilegum en íburðarlausum Ríkissölum sem eru einungis notaðir í trúarlegum tilgangi: til reglulegs samkomuhalds, hjónavígslna og jarðarfara. Vottar Jehóva virða Ríkissali og mótshallir sínar sem staði helgaða tilbeiðslunni á Jehóva. Ólíkt mörgum kirkjum kristna heimsins eru Ríkissalir ekki notaðir sem félagsheimili.
14. Hvaða þýðingu hafði tilbeiðsla fyrir hebreskumælandi fólk og hvaða starfsemi einkennir votta Jehóva nú á dögum?
14 Við sáum hér á undan að fræðimenn tengja gríska orðið, sem er þýtt „tilbeiðsluform“ eða „trúarbrögð,“ við sögnina „að þjóna.“ Það er athyglisvert að samsvarandi orð á hebresku, avoðah, getur þýtt „þjónusta“ eða „tilbeiðsla.“ (Berðu saman neðanmálsathugasemdir við 2. Mósebók 3:12 og 10:26, NW Ref. Bi.) Fyrir Hebrea þýddi tilbeiðsla hið sama og þjónusta og það er það sem hún þýðir fyrir sanna tilbiðjendur nú á dögum. Mjög mikilvægt og sérstakt auðkenni sannra trúarbragða er það að allir sem iðka þau taka þátt í þeirri þjónustu að prédika „þetta fagnaðarerindi um ríkið . . . um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar.“ (Matteus 24:14; Postulasagan 1:8; 5:42) Hvaða trúarbrögð eru þekkt um allan heim fyrir að bera opinberlega vitni um Guðsríki sem einu von mannkynsins?
Jákvætt, sameinandi afl
15. Hvert er áberandi einkenni sannra trúarbragða?
15 Fölsk trúarbrögð sundra. Þau hafa valdið og valda enn hatri og blóðsúthellingum. Á hinn bóginn eru sönn trúarbrögð sameiningarafl. Jesús sagði: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:35) Sá kærleikur, sem sameinar votta Jehóva, er hafinn yfir þjóðernisleg, félagsleg, efnahagsleg og kynþáttaleg landamæri sem sundra hinum hluta mannkynsins. Vottarnir ‚standa stöðugir í einum anda og berjast saman með einni sál fyrir trúnni á fagnaðarerindið.‘ — Filippíbréfið 1:27.
16. (a) Hvaða ‚fagnaðarerindi‘ prédika vottar Jehóva? (b) Hvaða spádómar eru að uppfyllast á þjónum Jehóva og hvaða blessanir hafa fylgt því?
16 „Fagnaðarerindið“ sem þeir prédika er á þá lund að bráðlega muni óbreytanlegur tilgangur Guðs ná fram að ganga. Vilji hans mun verða gerður „svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:10) Hið dýrlega nafn Jehóva verður helgað og jörðin verður að paradís þar sem sannir tilbiðjendur munu geta lifað að eilífu. (Sálmur 37:29) Milljónir manna af öllum þjóðum hafa samfélag við votta Jehóva og segja til uppfyllingar á biblíuspádómi: „Vér viljum fara með yður, því að vér höfum heyrt, að Guð sé með yður.“ (Sakaría 8:23) Jehóva blessar þjóð sína. „Hinn lítilmótlegasti“ er svo sannarlega orðinn „að voldugri þjóð,“ alheimssöfnuði, fullkomlega sameinuðum í öllu — hugsun, starfi og tilbeiðslu. (Jesaja 60:22) Þetta hefur fölskum trúarbrögðum aldrei tekist.
Hrein trúarbrögð hrósa sigri
17. Hvað bíður Babýlonar hinnar miklu og hvernig verður því komið til leiðar?
17 Orð Guðs hefur sagt fyrir eyðingu heimsveldis falskra trúarbragða sem táknrænt eru nefnd „Babýlon hin mikla.“ Biblían notar líka horn villidýrs sem tákn um ‚konunga‘ eða pólitíska valdhafa á jörðinni. Hún segir okkur að Guð ætli að leggja þessum valdhöfum í brjóst þann tilgang sinn að kollvarpa og gereyða þessari stofnun Satans djöfulsins sem líkt er við skækju. — Sjá Opinberunarbókina 17:1, 2, 5, 6, 12, 13, 15-18.b
18. Hvaða mikilvæga ástæðu gefur Biblían fyrir eyðingu Babýlonar hinnar miklu og hvenær fóru falstrúarbrögðin inn á þessa skelfilegu braut?
18 Hvers vegna verðskuldar Babýlon hin mikla eyðingu? Biblían svarar: „Í henni fannst blóð spámanna og heilagra og allra þeirra, sem hafa drepnir verið á jörðinni.“ (Opinberunarbókin 18:24) Til að sýna fram á að sú blóðskuld, sem fölsk trúarbrögð hafa kallað yfir sig, nái jafnvel aftur fyrir stofnsetningu Babýlonar fordæmdi Jesús trúarleiðtoga Gyðingdómsins sem höfðu gengið til fylgis við Babýlon hina miklu þegar hann sagði: „Höggormar og nöðru kyn, hvernig fáið þér umflúið helvítisdóm [dóm Gehenna]? . . . Þannig kemur yfir yður allt saklaust blóð, sem úthellt hefur verið á jörðinni, frá blóði Abels hins réttláta.“ (Matteus 23:33-35) Já, fölsk trúarbrögð, sem hófust á jörðinni á tímum uppreisnarinnar í Eden, verða að svara til saka fyrir sína skelfilegu blóðskuld.
19, 20. (a) Hvað munu sannir tilbiðjendur gera eftir að dómi yfir Babýlon hinni miklu hefur verið fullnægt? (b) Hvað mun þá eiga sér stað og hvaða framtíðarhorfur munu blasa við öllum sönnum tilbiðjendum?
19 Eftir eyðingu Babýlonar hinnar miklu munu sannir tilbiðjendur á jörðinni taka undir með hinum himneska kór sem syngur: „Hallelúja . . . Hann hefur dæmt skækjuna miklu, . . . og hann hefur látið hana sæta hefnd fyrir blóð þjóna sinna. . . . Reykurinn frá henni stígur upp um aldir alda.“ — Opinberunarbókin 19:1-3.
20 Síðan verða aðrir efnisþættir sýnilegs skipulags Satans afmáðir. (Opinberunarbókin 19:17-21) Að því loknu verður Satan, stofnanda allra falskra trúarbragða, og illum öndum hans kastað í undirdjúpið. Aldrei framar munu þeir hafa frelsi til að ofsækja sanna tilbiðjendur Jehóva. (Opinberunarbókin 20:1-3) Sönn trúarbrögð munu hafa hrósað sigri yfir þeim fölsku. Trúfastir karlar og konur, sem gefa gaum að viðvörun Guðs um að flýja núna út úr Babýlon hinni miklu, munu fá tækifæri til að lifa af og ganga inn í nýjan heim Guðs. Þar munu þau geta iðkað sönn trúarbrögð og þjónað Jehóva með lotningu að eilífu.
[Neðanmáls]
a Til skýringar á þeirri engladýrkun, sem minnst er á í Kólossubréfinu 2:18, sjá Varðturninn 1. desember 1985, bls. 10-11.
b Ýtarlega útskýringu á þessum spádómi er að finna í bókinni Revelation — Its Grand Climax At Hand! gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc., kaflar 33-6.
Prófaðu minnið
◻ Afstaða hvers til trúarbragða skiptir mestu máli og hvers vegna?
◻ Hvaða tvær kröfur til sannra trúarbragða lagði Jakob áherslu á?
◻ Nefndu aðrar kröfur til sannrar tilbeiðslu.
◻ Hvaða ‚fagnaðarerindi‘ prédika vottar Jehóva?
◻ Hvernig munu sönn trúarbrögð hrósa sigri yfir fölskum trúarbrögðum?
[Mynd á blaðsíðu 17]
Trúarleiðtogar samankomnir í Assisi á Ítalíu í október 1986.
[Mynd á blaðsíðu 19]
Sönn trúarbrögð fela í sér að koma saman til tilbeiðslu.