Andi Jehóva leiðir þjóna hans
„Þinn góði andi leiði mig um slétta braut.“ — SÁLMUR 143:10.
1, 2. Hvað getur verið þjakandi fyrir trúfasta þjóna Jehóva?
ERT þú stundum niðurdreginn? Spyrðu sjálfan þig hvar þú getir leitað hughreystingar? Hvort Guð hafi yfirgefið þig? Ef svo er þá ert þú ekki einn. Enda þótt trúir þjónar Jehóva búi í blómlegri, andlegri paradís eiga þeir stundum við að stríða þjakandi vandamál, prófraunir og freistingar eins og allir aðrir menn. — 1. Korintubréf 10:13.
2 Ef til vill átt þú í langvinnri prófraun eða ert undir miklu álagi. Kannski syrgir þú látinn ástvin og finnst þú afar einmana, eða ert áhyggjufullur út af veikindum náins vinar. Slíkar aðstæður geta rænt þig gleði þinni og hugarró og jafnvel ógnað trú þinni. Hvað ættir þú að gera?
Biddu Guð um anda hans
3. Hvað væri viturlegt að gera ef eitthvað rænir þig eiginleikum svo sem friði og gleði?
3 Ef eitthvað rænir þig hugarró þinni, gleði eða einhverjum öðrum eiginleika Guði að skapi er viturlegt af þér að biðja um heilagan anda eða starfskraft Guðs. Hvers vegna? Vegna þess að andi Jehóva gefur góðan ávöxt sem hjálpar kristnum manni að horfast í augu við vandamál, prófraunir og freistingar. Eftir að hafa varað við ‚holdsins verkum‘ skrifaði Páll postuli: „En ávöxtur andans er: Kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi. Gegn slíku er lögmálið ekki.“ — Galatabréfið 5:19-23.
4. Hvers vegna gæti verið viðeigandi að vera nákvæmur og markviss í bænum sínum þegar við stöndum frammi fyrir einhverri prófraun eða freistingu?
4 Prófraunir þínar geta verið þess eðlis að þér finnist hætta á að þú glatir hógværð þinni eða mildri lund. Vertu þá hnitmiðaður með því að að biðja Jehóva Guð að senda þér ávöxt anda síns, hógværð. Ef þú stendur frammi fyrir einhverri freistingu þarfnast þú sérstaklega sjálfstjórnar. Vitanlega væri líka viðeigandi að biðja um hjálp Guðs til að standast freistinguna, um frelsun frá Satan og um þá visku sem þarf til að standast prófraunina. — Matteus 6:13; Jakobsbréfið 1:5, 6.
5. Hvað er hægt að gera ef aðstæðurnar eru svo þjakandi að þú veist ekki hvaða ávöxt andans þú átt að biðja um?
5 Stundum getur ástandið þó verið svo þjakandi eða ruglingslegt að þú veist ekki hvaða ávaxtar andans þú þarfnast. Vera má að gleði, friður, hógværð og aðrir eiginleikar Guði að skapi séu allir í hættu. Hvað þá? Af hverju þá ekki að biðja Guð um heilagan anda sjálfan og láta hann kalla fram þá ávexti sem þörf er á í þínu tilviki, hvort heldur það er kærleikur, gleði eða friður, eða þá sambland ávaxta andans? Biddu einnig Guð að hjálpa þér að vera næmur fyrir handleiðslu anda hans því að hann notar hann til að leiða þjóna sína.
Jehóva er fús til að hjálpa
6. Hvernig undirstrikaði Jesús við fylgjendur sína að þeir þyrftu að biðja án afláts?
6 Þegar lærisveinar Jesú Krists báðu hann að leiðbeina sér um bænina hvatti hann þá meðal annars til að biðja um anda Guðs. Jesús tók fyrst líkingu í því skyni að brýna fyrir þeim að biðja án afláts. Hann sagði: „Nú á einhver yðar vin og fer til hans um miðnætti og segir við hann: ‚Vinur, lánaðu mér þrjú brauð, því að vinur minn er kominn til mín úr ferð og ég hef ekkert að bera á borð fyrir hann.‘ Mundi hinn þá svara inni: ‚Gjör mér ekki ónæði. Það er búið að loka dyrum og börn mín og ég komin í rúmið. Ég get ekki farið á fætur að fá þér brauð‘? Ég segi yður, þótt hann fari ekki á fætur og fái honum brauð vegna vinfengis þeirra, þá fer hann samt fram úr sakir áleitni hans og fær honum eins mörg og hann þarf.“ — Lúkas 11:5-8.
7. Hvert er inntakið í orðum Jesú í Lúkasi 11:11-13 og hvað fullvissa þau okkur um í sambandi við Guð og anda hans?
7 Jehóva er fús til að hjálpa sérhverjum trúföstum, vígðum þjóni sínum og hann hlustar á bænir hans. En ef slíkur einstaklingur heldur áfram að biðja, eins og Jesús hvatti til, gefur það til kynna innilega löngun hans og ber vott um trú. (Lúkas 11:9, 10) Kristur bætti við: „Er nokkur sá faðir yðar á meðal, að hann gefi syni sínum, er biður um fisk, höggorm í staðinn, eða sporðdreka, ef hann biður um egg? Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann.“ (Lúkas 11:11-13) Ef jarðneskur faðir, sem er þó að meira eða minna leyti vondur vegna arfgengrar tilhneigingar til syndar, gefur barni sínu það sem gott er, þá hlýtur himneskur faðir okkar að halda áfram að gefa öllum trúföstum þjónum sínum heilagan anda sem biðja hann í auðmýkt.
8. Hvernig á Sálmur 143:10 við Davíð, Jesú og nútímaþjóna Guðs?
8 Til að njóta góðs af anda Guðs verðum við að vera fús til að fylgja leiðsögn hans eins og Davíð. Hann bað: „Kenn mér að gjöra vilja þinn, því að þú ert minn Guð. Þinn góði andi leiði mig um slétta braut.“ (Sálmur 143:10) Davíð, sem Sál konungur í Ísrael hafði gert útlægan, þráði að andi Guðs mætti leiða hann þannig að hann gæti verið viss um að hann gerði það sem væri rétt. Síðar kom Abjatar með prestshökul sem notaður var til að ganga úr skugga um vilja Guðs. Sem prestlegur fulltrúi Guðs leiðbeindi Abjatar Davíð um það hvað hann ætti að gera til að þóknast Jehóva. (1. Samúelsbók 22:17–23:12; 30:6-8) Líkt og Davíð lét Jesús anda Jehóva leiða sig og svo hefur einnig verið með smurða fylgjendur Krists sem hóp. Á árunum 1918-19 var þeim nánast útskúfað úr mannlegu samfélagi og trúarlegir fjendur þeirra héldu að þeir gætu gert út af við þá. Hinir smurðu báðu Guð að vísa sér veginn út úr óvirku ástandi þeirra og árið 1919 svaraði hann bænum þeirra, frelsaði þá og endurlífgaði í þjónustu sinni. (Sálmur 143:7-9) Svo sannarlega hjálpaði andi Jehóva þjónum hans og leiddi þá eins og hann hefur gert fram á þennan dag.
Hvernig andinn hjálpar
9. (a) Hvernig þjónar heilagur andi sem ‚hjálpari‘? (b) Hvernig vitum við að heilagur andi er ekki persóna? (Sjá neðanmálsathugasemd.)
9 Jesús Kristur kallaði heilagan anda „hjálpara.“ Til dæmis sagði hann fylgjendum sínum: „Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu, anda sannleikans, sem heimurinn getur ekki tekið á móti, því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann, því hann er hjá yður og verður í yður.“ Meðal annars átti þessi ‚hjálpari‘ að kenna þeim því að Kristur lofaði: „En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni, mun kenna yður allt og minna yður á allt það, sem ég hef sagt yður.“ Andinn myndi einnig bera vitni um Krist og hann fullvissaði lærisveina sína: „Það er yður til góðs, að ég fari burt, því ef ég fer ekki, kemur hjálparinn ekki til yðar. En ef ég fer, sendi ég hann til yðar.“ — Jóhannes 14:16, 17, 26; 15:26; 16:7.a
10. Á hvaða vegu hefur heilagur andi reynst vera hjálpari?
10 Á hvítasunnudag árið 33 úthellti Jesús heilögum anda yfir fylgjendur sína eins og hann hafði heitið. (Postulasagan 1:4, 5; 2:1-11) Sem hjálpari veitti andinn þeim aukinn skilning á vilja Guðs og tilgangi og opnaði þeim spádómsorð Guðs. (1. Korintubréf 2:10-16; Kólossubréfið 1:9, 10; Hebreabréfið 9:8-10) Þessi hjálpari gaf lærisveinum Jesú einnig kraft til að vera vottar um alla jörðina. (Lúkas 24:49; Postulasagan 1:8; Efesusbréfið 3:5, 6) Nú á dögum getur heilagur andi hjálpað vígðum þjóni Guðs að vaxa í þekkingu ef hann notfærir sér þær andlegu ráðstafanir sem Guð gerir fyrir milligöngu hins ‚trúa og hyggna þjóns.‘ (Matteus 24:45-47) Andi Guðs getur hjálpað þeim með því að gefa þeim það hugrekki og þann styrk sem þarf til að bera vitni sem þjónar Jehóva. (Matteus 10:19, 20; Postulasagan 4:29-31) En heilagur andi hjálpar þjónum Guðs líka á aðra vegu.
„Með andvörpum“
11. Hvað ætti kristinn maður að gera ef honum finnst prófraun vera yfirþyrmandi?
11 Hvað ætti kristinn maður að gera ef hann á í prófraun sem hann virðist ekki ætla að valda? Hann ætti auðvitað að biðja um heilagan anda og láta hann vinna sitt verk! „Þannig hjálpar og andinn oss í veikleika vorum,“ sagði Páll. „Vér vitum ekki, hvers vér eigum að biðja eins og ber, en sjálfur andinn biður fyrir oss með andvörpum, sem ekki verður orðum að komið. En hann, sem hjörtun rannsakar, veit hver er hyggja andans, að hann biður fyrir heilögum eftir vilja Guðs.“ — Rómverjabréfið 8:26, 27.
12, 13. (a) Hvernig á Rómverjabréfið 9:26, 27 við um bænir sem bornar eru fram við sérstaklega erfiðar aðstæður? (b) Hvað gerðu Páll og félagar hans þegar þeir voru undir gífurlegu álagi í Asíu?
12 Hinir heilögu, sem andi Guðs biður fyrir, eru smurðir fylgjendur Jesú sem hafa himneska von. En hvort sem köllun þín er himnesk eða jarðnesk getur þú sem kristinn maður notið hjálpar heilags anda Guðs. Jehóva veitir stundum beint svar við ákveðinni bæn. En stundum ert þú kannski svo niðurbeygður að þú ert ófær um að koma orðum að tilfinningum þínum og getur einungis beðið til Jehóva með orðlausum andvörpum. Vel má vera að þú vitir ekki einu sinni hvað sé þér fyrir bestu og þú gætir jafnvel beðið um eitthvað rangt nema þú biðjir um heilagan anda. Guð veit að þú vilt að vilji hans verði gerður og hann veit hvers þú þarfnast í raun. Enn fremur lét hann skrá margar bænir í orð sitt og þær fjalla um erfiðar kringumstæður. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17; 2. Pétursbréf 1:21) Þess vegna getur Jehóva litið á viss atriði, sem tjáð eru í slíkum bænum, sem svo að þú vildir biðja um þau sem þjónn hans og hann getur svarað þeim í þína þágu.
13 Páll og félagar hans vissu kannski ekki hvað þeir áttu að biðja um þegar þeir lentu í þrengingum í Asíu. Þeir voru ‚aðþrengdir langt um megn fram svo að þeim jafnvel fannst þeir hafa fengið dauðadóm.‘ En þeir báðu aðra að biðja fyrir sér og treystu Guði, sem getur reist upp dauða, og hann bjargaði þeim. (2. Korintubréf 1:8-11) Það er sannarlega hughreystandi að vita að Jehóva Guð skuli heyra bænir trúfastra þjóna sinna og bregðast við þeim!
14. Hvað gott getur hlotist af því ef Jehóva leyfir prófraun að standa um tíma?
14 Þjónar Guðs verða oft fyrir mótlæti sem skipulag. Eins og áður er getið voru þeir ofsóttir í fyrri heimsstyrjöldinni. Þótt þeir hefðu ekki á þeim tíma glöggan skilning á stöðu sinni og vissu þar af leiðandi ekki nákvæmlega um hvað þeir ættu að biðja innihélt orð Jehóva spádómlegar bænir sem hann svaraði í þeirra þágu. (Sálmur 69, 102, 126; Jesaja 12. kafli) En hvað nú ef Jehóva leyfir að prófraun haldi áfram um tíma? Það getur orðið til vitnisburðar, komið einhverjum til að taka við sannleikanum og það gefur kristnum mönnum tækifæri til að sýna bróðurkærleika með því að biðja fyrir þjáðum trúbræðrum sínum eða hjálpa þeim með öðrum hætti. (Jóhannes 13:34, 35; 2. Korintubréf 1:11) Munum að Jehóva leiðir þjóna sína með heilögum anda sínum, gerir það sem er þeim fyrir bestu og leysir málin alltaf þannig að það verði heilögu nafni hans til heiðurs og helgunar. — 2. Mósebók 9:16; Matteus 6:9.
Hryggjum aldrei andann
15. Hvað mega kristnir menn treysta að andi Jehóva geri í þeirra þágu?
15 Ef þú ert þjónn Jehóva skaltu því biðja um heilagan anda, jafnt á þrengingatímum sem öðrum tímum. Gættu þess síðan að fylgja leiðsögn hans því að Páll skrifaði: „Hryggið ekki Guðs heilaga anda, sem þér eruð innsiglaðir með til endurlausnardagsins.“ (Efesusbréfið 4:30) Andi Guðs var og er innsigli eða ‚pantur þess sem koma á‘ fyrir trúfasta smurða kristna menn — það er að segja ódauðleika á himnum. (2. Korintubréf 1:22, NW; Rómverjabréfið 8:15; 1. Korintubréf 15:50-57; Opinberunarbókin 2:10) Bæði smurðir kristnir menn og þeir sem hafa jarðneska von geta reitt sig á að andi Jehóva geri margt í þeirra þágu. Hann getur leitt þá í trúföstu lífi og hjálpað þeim að forðast syndsamleg verk sem leiða til vanþóknunar Guðs, missis heilags anda og þess að glata eilífu lífi. — Galatabréfið 5:19-21.
16, 17. Hvernig gæti kristinn maður hryggt andann?
16 Hvernig gæti kristinn maður, vitandi eða óafvitandi, hryggt andann? Nú, Jehóva notar anda sinn til að efla einingu og skipa menn til ábyrgðarstarfa í söfnuðinum. Safnaðarmeðlimur væri því ekki að fylgja handleiðslu anda Guðs í átt til friðar og einingar ef hann möglaði gegn hinum útnefndu öldungum, færi með róg eða gerði annað þvílíkt. Hann væri í almennum skilningi að hryggja andann. — 1. Korintubréf 1:10; 3:1-4, 16, 17; 1. Þessaloníkubréf 5:12, 13; Júdasarbréfið 16.
17 Í bréfi til kristinna manna í Efesus varaði Páll við tilhneigingu til ósannsögli, langvinnrar reiði, þjófnaðar, ósæmilegs tals, lostafulls áhuga á saulifnaði, skammarlegrar hegðunar og grófrar fyndni. Ef kristinn maður leyfði sér að hneigjast til slíks væri hann að brjóta gegn heilræðum Biblíunnar sem eru innblásin af anda Guðs. (Efesusbréfið 4:17-29; 5:1-5) Já, og að vissu marki væri hann með því að hryggja anda Guðs.
18. Hvað getur hent sérhvern kristinn mann sem hættir að taka mark á leiðbeiningum Guðs í innblásnu orði hans?
18 Í raun getur sérhver kristinn maður, sem hættir að taka mark á innblásnu orði Jehóva, byrjað að tileinka sér viðhorf eða einkenni sem gætu leitt til syndar af ásettu ráði og kostað hann velþóknun Guðs. Enda þótt hann sé ekki byrjaður að iðka synd gæti hann stefnt í þá átt. Slíkur kristinn maður, sem gengur gegn leiðsögn andans, væri að hryggja hann. Þar með væri hann einnig að standa gegn og hryggja Jehóva, uppsprettu heilags anda. Sá sem elskar Guð myndi aldrei vilja gera það!
Haldið áfram að biðja um heilagan anda
19. Hvers vegna þurfa þjónar Jehóva sérstaklega á anda hans að halda nú á dögum?
19 Ef þú ert þjónn Jehóva, haltu þá áfram að biðja um heilagan anda hans. Einkum núna á „síðustu dögum“ með sínum örðugu tíðum þarfnast kristnir menn hjálpar anda Guðs. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Djöfullinn og illir andar hans, sem hefur verið úthýst af himnum og eru nú í nágrenni jarðar, berjast af alefli gegn skipulagi Jehóva. Þess vegna þarfnast þjónar Jehóva anda hans meir en nokkru sinni fyrr til að leiða sig, leiðbeina og hjálpa sér að þola erfiðleika og ofsóknir. — Opinberunarbókin 12:7-12.
20, 21. Hvers vegna eigum við að fylgja handleiðslu orðs Jehóva, anda og skipulags?
20 Sýndu alltaf að þú kunnir að meta þá hjálp sem Jehóva Guð veitir fyrir milligöngu heilags anda síns. Fylgdu leiðsögn innblásins orðs hans, Biblíunnar. Vertu fullkomlega samstarfsfús við jarðneskt skipulag Jehóva sem hann leiðir með anda sínum. Leyfðu þér aldrei að fara út á óbiblíulega braut sem myndi jafngilda því að hryggja heilagan anda, því að það gæti að lokum leitt til þess að hann yrði frá þér tekinn og þú biðir andlegt skipbrot. — Sálmur 51:13.
21 Það að láta anda Jehóva leiða sig er eina leiðin til að þóknast honum og búa við frið og gleði. Mundu líka að Jesús kallaði heilagan anda „hjálpara“ eða ‚huggara.‘ (Jóhannes 14:16; sjá NW neðanmáls.) Guð notar hann til að hugga og hughreysta kristna menn og styrkja þá til að horfast í augu við prófraunir sínar. (2. Korintubréf 1:3, 4) Andinn gefur þjónum Jehóva kraft til að prédika fagnaðarerindið og hjálpar þeim að muna eftir biblíulegum atriðum sem þeir þurfa til að gefa góðan vitnisburð. (Lúkas 12:11, 12; Jóhannes 14:25, 26; Postulasagan 1:4-8; 5:32) Með hjálp bænarinar og leiðsögn anda Guðs geta kristnir menn tekist á við trúarraunir sínar með himneskri visku. Þeir halda því undir öllum kringumstæðum áfram að biðja um heilagan anda Guðs. Afleiðingin er sú að andi Guðs leiðir þjóna hans.
[Neðanmáls]
a Þótt heilagur andi sé persónugerður sem ‚hjálpari‘ er hann ekki persóna því að á grísku stendur fornafnið (hér þýtt „hann“) í hvorugkyni þar sem það á við andann. Þegar viskan er persónugerð eru á samsvarandi hátt notuð um hana fornöfn í kvenkyni á hebresku. (Orðskviðirnir 1:20-33; 8:1-36) Auk þess var heilögum anda „úthellt“ sem ekki er hægt að gera þegar persóna á í hlut. — Postulasagan 2:33.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvers vegna eigum við að biðja um heilagan anda Jehóva?
◻ Hvernig er heilagur andi hjálpari?
◻ Hvað merkir það að hryggja andann og hvernig getum við forðast það?
◻ Hvers vegna ættum við að halda áfram að biðja um heilagan anda og fylgja leiðsögn hans?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Eins og ástríkur faðir gefur syni sínum góðar gjafir, eins gefur Jehóva þjónum sínum, sem biðja hann, heilagan anda.
[Mynd á blaðsíðu 17]
Veist þú hvernig andi Guðs biður fyrir kristna menn sem eru í bænarhug?