‚Skrýðist lítillætinu‘
„Guð stendur gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð.“ — 1. PÉTURSBRÉF 5:5.
1, 2. Hvaða tvenns konar eðlisfar hefur djúpstæð áhrif á mannlega hegðun?
ORÐ GUÐS vekur athygli okkar á margs konar eðlisfari. Þar á meðal lýsir það tveim andstæðum sem báðar hafa djúpstæð áhrif á hátterni manna. Annað eðlisfarið er kallað ‚lítillæti.‘ (1. Pétursbréf 5:5) Orðabækur skilgreina orðið „lítillátur“ sem „hrokalaus“ og „auðmjúkur að eðlisfari eða í háttum.“ Lítillæti, hógværð og auðmýkt eru eitt og hið sama, og í augum Guðs er þetta mjög æskilegur eiginleiki.
2 Dramb er andstæða auðmýktar. Dramb er sama og ‚hroki, þótti og rembingur.‘ Dramb er eigingjarnt og snýst um eigin hag mannsins, efnislegan eða annan, óháð því hvernig það kemur niður á öðrum. Biblían segir um eina afleiðinguna að ‚einn maðurinn drottni yfir öðrum honum til ógæfu.‘ Hún talar um „öfund eins við annan“ og kallar hana „eftirsókn eftir vindi“ af því að við dauðann hefur maður engan ‚ávinning af striti sínu.‘ Slíkt dramb er afar óæskilegt frá sjónarhóli Guðs. — Prédikarinn 4:4; 5:15; 8:9.
Ríkjandi andi heimsins
3. Hvaða andi ríkir í heiminum?
3 Hvort eðlisfarið einkennir heiminn nú á dögum? Hvaða andi ríkir í heiminum? Ritið World Military and Social Expenditures 1996 segir: „Engin önnur öld jafnast á við þá tuttugustu í taumlausu ofbeldi.“ Samkeppni um pólitísk og efnahagsleg völd, og átök milli þjóða, þjóðabrota, ættflokka og trúarhópa hafa kostað meira en 100 milljónir manna lífið á þessari öld. Einstaklingsbundin sjálfselska gerir líka vart við sig í æ ríkari mæli. Dagblaðið Chicago Tribune segir: „Þjóðfélagsmeinin eru meðal annars glórulaust ofbeldi, misþyrming og misnotkun barna, hjónaskilnaðir, drykkjuskapur, alnæmi, sjálfsvíg unglinga, fíkniefni, götugengi, nauðganir, óskilgetin börn, fóstureyðingar, klám, . . . lygar, svik, pólitísk spilling . . . Hugtökin rétt og rangt hafa verið afnumin sem siðferðishugtök.“ Tímaritið UN Chronicle varar við að ‚þjóðfélög séu að gliðna í sundur.‘
4, 5. Hvernig er anda heimsins lýst nákvæmlega í spádómum Biblíunnar um okkar daga?
4 Þessa ástands gætir um allan heim eins og Biblían spáði um okkar tíma: „Á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur, foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir, kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er, sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:1-4.
5 Þetta er nákvæm lýsing á ríkjandi anda þessa heims, anda eigingirni og sjálfsdýrkunar. Samkeppni þjóða endurspeglast í samkeppni einstaklinga. Í keppnisíþróttum, svo dæmi séu tekin, reyna íþróttamenn gjarnan að skara fram úr öðrum þótt þeir traðki á tilfinningum annarra eða valdi jafnvel meiðslum á öðrum. Þessi eigingjarni hugsunarháttur er alinn upp í börnum og sýnir sig á mörgum sviðum þegar þau eru orðin fullorðin. Hann veldur svo ‚fjandskap, deilum, metingi, reiði, eigingirni og flokkadráttum.‘ — Galatabréfið 5:19-21.
6. Hver stuðlar að eigingirni og hvað finnst Jehóva um þetta hugarfar?
6 Biblían bendir á að eigingjarn hugsunarháttur þessa heims endurspegli anda ‚hans sem heitir djöfull og Satan og afvegaleiðir alla heimsbyggðina.‘ Biblían segir um áhrif Satans á fólk núna á síðustu dögum: „Vei sé jörðunni . . . því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“ (Opinberunarbókin 12:9-12) Hann og illir andar hans leggja því ofurkapp á að ýta undir eigingirni manna á meðal. Og hvað ætli Jehóva finnist um þess konar viðhorf? Orð hans segir: „Sérhver hrokafullur maður er [Jehóva] andstyggð.“ — Orðskviðirnir 16:5.
Jehóva er með lítillátum
7. Hvernig lítur Jehóva á lítilláta og hvað kennir hann þeim?
7 Jehóva blessar aftur á móti lítilláta. Davíð konungur söng í ljóði til hans: „Þú hjálpar þjáðum [„auðmjúkum,“ NW] lýð, en gjörir alla hrokafulla niðurlúta.“ (2. Samúelsbók 22:1, 28) Þess vegna ráðleggur orð Guðs: „Leitið [Jehóva], allir þér hinir auðmjúku í landinu . . . Ástundið réttlæti, ástundið auðmýkt, vera má að þér verðið faldir á reiðidegi [Jehóva].“ (Sefanía 2:3) Jehóva kennir þeim sem leita hans í auðmýkt að rækta með sér allt annað hugarfar en heimurinn temur sér. „Hann . . . kennir hinum þjökuðu [„auðmjúku,“ NW] veg sinn.“ (Sálmur 25:9; Jesaja 54:13) Þetta er vegur kærleikans. Hann byggist á því að gera það sem er rétt samkvæmt mælikvarða Guðs. Þessi kærleikur er byggður á meginreglum og, að sögn Biblíunnar, er hann „ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann . . . leitar ekki síns eigin.“ (1. Korintubréf 13:1-8) Hann birtist einnig í lítillæti.
8, 9. (a) Hvaðan er kærleikur byggður á meginreglum kominn? (b) Hve mikilvægt er að líkja eftir kærleika og auðmýkt Jesú?
8 Páll og aðrir kristnir menn fyrstu aldar lærðu þennan kærleika af kenningum Jesú. Jesús lærði hann af föður sínum, Jehóva, og Biblían segir að ‚Guð sé kærleikur.‘ (1. Jóhannesarbréf 4:8) Jesús vissi að það var vilji Guðs að hann lifði eftir lögmáli kærleikans og hann gerði það. (Jóhannes 6:38) Þess vegna fann hann til með undirokuðum, fátækum og syndurum. (Matteus 9:36) Hann sagði þeim: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur.“ — Matteus 11:28, 29.
9 Jesús sýndi lærisveinunum fram á hve mikilvægt það væri að líkja eftir kærleika hans og auðmýkt er hann sagði þeim: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:35) Þeir áttu að skera sig úr í þessum eigingjarna heimi. Þess vegna gat Jesús sagt að fylgjendur sínir ‚væru ekki af heiminum.‘ (Jóhannes 17:14) Þeir líkja ekki eftir drambseminni og eigingirninni í heimi Satans heldur eftir kærleika og auðmýkt Jesú.
10. Hvað gerir Jehóva fyrir auðmjúka menn á okkar dögum?
10 Orð Guðs sagði fyrir að núna á síðustu dögum yrði auðmjúkum mönnum safnað saman í alþjóðlegt samfélag byggt á kærleika og auðmýkt. Þjónar Jehóva búa í heimi sem verður æ drambsamari en sýna algerlega andstætt hugarfar — lítillæti. Þeir segja: „Komið, förum upp á fjall [Jehóva] [til hinnar upphöfnu og sönnu tilbeiðslu hans], . . . svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum.“ (Jesaja 2:2, 3) Vottar Jehóva mynda þetta alþjóðasamfélag sem gengur á Guðs stigum. Í þeirra hópi er meðal annars vaxandi „mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum.“ (Opinberunarbókin 7:9) Í þessum mikla múgi eru milljónir manna. Hvernig kennir Jehóva þeim auðmýkt?
Að læra lítillæti
11, 12. Hvernig sýna þjónar Guðs lítillæti?
11 Andi Guðs hefur áhrif á fúsa þjóna hans þannig að þeir geta lært að sigrast á hinum slæma anda heimsins og sýnt ávöxt andans sem birtist í ‚kærleika, gleði, friði, langlyndi, gæsku, góðvild, trúmennsku, hógværð og sjálfstjórn.‘ (Galatabréfið 5:22, 23) Orð Guðs hjálpar þjónum hans að þroska með sér þessa eiginleika með því að ráðleggja þeim að ‚vera ekki hégómagjarnir svo að þeir áreiti hver annan og öfundi hver annan.‘ (Galatabréfið 5:26) Og Páll postuli sagði: „Ég [segi] yður hverjum og einum að hugsa ekki hærra um sig en hugsa ber, heldur í réttu hófi.“ — Rómverjabréfið 12:3.
12 Orð Guðs segir sannkristnum mönnum að ‚gera ekkert af eigingirni eða hégómagirnd heldur vera lítillátir og meta aðra [þjóna Guðs] meira en sjálfa sig. Þeir eiga ekki aðeins að líta á eigin hag, heldur einnig annarra.‘ (Filippíbréfið 2:3, 4) „Enginn hyggi að eigin hag, heldur hag annarra.“ (1. Korintubréf 10:24) Já, „kærleikurinn byggir upp“ aðra með óeigingjörnum orðum og verkum. (1. Korintubréf 8:1) Hann stuðlar að samvinnu en ekki samkeppni. Sjálfsdýrkun og eigingirni eiga ekki heima meðal þjóna Jehóva.
13. Af hverju þurfum við að læra lítillæti og hvernig lærum við það?
13 En vegna hins meðfædda ófullkomleika fæðumst við ekki lítillát. (Sálmur 51:7) Við þurfum að læra lítillæti og það getur verið erfitt fyrir þá sem læra ekki vegi Jehóva frá barnæsku heldur kynnast þeim síðar á ævinni. Þeir eru búnir að móta persónuleika sinn með viðhorf þessa gamla heims að leiðarljósi. Þeir þurfa því að læra að „hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni,“ og „íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.“ (Efesusbréfið 4:22, 24) Með hjálp Guðs geta einlægir menn gert það sem hann fer fram á: „Íklæðist . . . hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi.“ — Kólossubréfið 3:12.
14. Hvernig varaði Jesús við lönguninni til að upphefja sjálfan sig?
14 Lærisveinar Jesú urðu að læra þetta. Þeir voru orðnir fulltíða menn þegar þeir gerðust lærisveinar hans og höfðu að einhverju marki veraldlegt hugarfar og samkeppnisanda. Þegar móðir tveggja þeirra fór fram á mannvirðingar þeim til handa sagði Jesús: „Þeir, sem ráða fyrir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar. Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé þræll yðar, eins og Mannssonurinn [Jesús] er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.“ (Matteus 20:20-28) Jesús sagði lærisveinunum að nota ekki titla til upphefðar og bætti við að ‚þeir væru allir bræður.‘ — Matteus 23:8.
15. Hvaða hugarfar ættu þeir að hafa sem sækjast eftir umsjónarstarfi?
15 Sannur fylgjandi Jesú er þjónn eða þræll trúbræðra sinna. (Galatabréfið 5:13) Þeir sem vilja vera hæfir til að fara með umsjón í söfnuðinum þurfa sérstaklega að hugsa um þetta. Þeir ættu aldrei að keppa um völd eða frama og eiga ekki að „drottna yfir söfnuðunum, heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar.“ (1. Pétursbréf 5:3) Eigingjarnt hugarfar er merki þess að maður sé óhæfur til að fara með umsjón. Slíkur maður væri skaðlegur fyrir söfnuðinn. Það er að vísu rétt að ‚sækjast eftir umsjónarstarfi‘ en það ætti að vera sprottið af löngun til að þjóna trúsystkinum sínum. Umsjónarstarfið er ekki valda- eða virðingarstaða því að umsjónarmenn eiga að vera allra manna lítillátastir í söfnuðinum. — 1. Tímóteusarbréf 3:1, 6.
16. Af hverju er Díótrefes fordæmdur í orði Guðs?
16 Jóhannes postuli vekur athygli okkar á manni sem hafði rangt sjónarmið og segir: „Ég hef ritað nokkuð til safnaðarins, en Díótrefes, sem vill vera fremstur meðal þeirra, tekur eigi við oss.“ Þessi maður reyndi að tryggja stöðu sína með því að vera ruddalegur við aðra. En andi Guðs fékk Jóhannes til að fordæma Díótrefes fyrir eigingirni hans. — 3. Jóhannesarbréf 9, 10.
Rétta hugarfarið
17. Hvernig sýndu Pétur, Páll og Barnabas lítillæti?
17 Biblían inniheldur fjölda dæma um rétta hugarfarið, lítillæti. Þegar Pétur kom á heimili Kornelíusar „féll [Kornelíus] til fóta honum og veitti honum lotningu.“ En Pétur vildi ekki láta skjalla sig heldur „reisti hann upp og sagði: ‚Statt upp, ég er maður sem þú.‘“ (Postulasagan 10:25, 26) Þegar Páll og Barnabas voru staddir í Lýstru læknaði Páll mann sem var lamaður frá fæðingu. Í kjölfarið sagði mannfjöldinn að postularnir væru guðir. En Páll og Barnabas „rifu . . .klæði sín, stukku inn í mannþröngina og hrópuðu: ‚Menn, hví gjörið þér þetta? Menn erum vér sem þér, yðar líkar.‘“ (Postulasagan 14:8-15) Þessir auðmjúku kristnu menn vildu ekki láta aðra menn upphefja sig.
18. Hvað sagði voldugur engill Jóhannesi auðmjúklega?
18 Jóhannesi postula var gefin „opinberun Jesú Krists“ og það var engill sem færði honum hana. (Opinberunarbókin 1:1) Englar eru máttugir og við minnumst þess að einn þeirra eyddi 185.000 Assýringum á einni nóttu. (2. Konungabók 19:35) Við skiljum því hvers vegna Jóhannes fylltist lotningu. Hann segir: „Er ég hafði heyrt það og séð, féll ég niður til að tilbiðja fyrir fótum engilsins, sem sýndi mér þetta. Og hann segir við mig: ‚Varastu þetta! Ég er samþjónn þinn og bræðra þinna . . . Tilbið þú Guð.‘“ (Opinberunarbókin 22:8, 9) Hvílíkt lítillæti af hálfu þessa máttuga engils!
19, 20. Berðu saman drambsemi sigursælla, rómverskra hershöfðingja og lítillæti Jesú.
19 Jesús er besta fyrirmyndin um lítillæti. Hann var eingetinn sonur Guðs og framtíðarkonungur himnaríkis. Þegar hann kynnti sig sem slíkan fyrir almenningi kom hann ekki fram eins og sigursælir hershöfðingjar Rómaveldis. Haldnar voru gríðarmiklar skrúðgöngur þeim til heiðurs. Þeir óku vögnum skreyttum gulli og fílabeini og beitt var fyrir þá hvítum hestum eða jafnvel fílum, ljónum eða tígrisdýrum. Í skrúðgöngunni voru söngvarar sem sungu sigurljóð, vagnar hlaðnir ránsfeng og vagnar með stórum pöllum þar sem orustur voru sviðsettar. Og með í för voru herteknir konungar, prinsar og hershöfðingjar ásamt fjölskyldum. Oft voru fangarnir berstrípaðir í auðmýkingarskyni. Allt tilstandið angaði af hroka og stærilæti.
20 Berðu þetta saman við það hvernig Jesús bauð sig fram. Auðmjúkur fylgdi hann fúslega spádóminum um sig sem sagði: „Sjá, konungur þinn kemur til þín. Réttlátur er hann og sigursæll, lítillátur og ríður asna.“ Lítillátur reið hann burðardýri en stóð ekki á stríðsvagni dregnum af fegurstu gæðingum. (Sakaría 9:9; Matteus 21:4, 5) Auðmjúkt fólk gleðst yfir því að Jesús skuli vera skipaður konungur allrar jarðarinnar í nýja heiminum, lítillátur, auðmjúkur, kærleiksríkur, meðaumkunarsamur og miskunnsamur. — Jesaja 9:6, 7; Filippíbréfið 2:5-8.
21. Hvað er ekki fólgið í lítillæti?
21 Sú staðreynd að Jesús, Pétur, Páll og fleiri karlar og konur trúarinnar á biblíutímanum skuli hafa verið lítillát kveður niður þá hugmynd að auðmýkt sé veikleiki. Auðmýkt ber vott um sterka skapgerð því að þetta var hugrakkt og kostgæfið fólk. Það sýndi mikinn siðferðis- og hugarstyrk og stóðst erfiðar prófraunir. (Hebreabréfið, 11. kafli) Og lítillátir nútímaþjónar Jehóva sýna sama styrk því að hann styður lítilláta með öflugum, heilögum anda sínum. Við erum því hvött: „Skrýðist allir lítillætinu hver gagnvart öðrum, því að ‚Guð stendur gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð‘. Auðmýkið yður því undir Guðs voldugu hönd, til þess að hann á sínum tíma upphefji yður.“ — 1. Pétursbréf 5:5, 6; 2. Korintubréf 4:7.
22. Um hvað er rætt í greininni á eftir?
22 Lítillæti á sér aðra hlið sem þjónar Guðs þurfa að ástunda, og hún stuðlar mjög að samstarfs- og kærleiksanda í söfnuðunum. Næsta grein fjallar um þennan nauðsynlega þátt lítillætisins.
Til upprifjunar
◻ Hvaða andi einkennir heiminn?
◻ Hvernig sýnir Jehóva þeim velvild sem eru lítillátir?
◻ Af hverju þurfa menn að læra lítillæti?
◻ Nefndu nokkur dæmi úr Biblíunni um fólk sem var lítillátt.
[Mynd á blaðsíðu 23]
Engillinn sagði Jóhannesi: „Varastu þetta! Ég er samþjónn þinn.“