Sýnið öðrum virðingu
„Verið hver yðar fyrri til að veita öðrum virðing.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 12:10.
1, 2. (a) Hvað verðum við að temja okkur til að vera lítillát? (b) Hvernig notar Biblían oft orðið „virðing“ og hverjir eiga auðveldast með að virða aðra?
GREININ á undan lagði áherslu á þá ráðleggingu Biblíunnar að ‚skrýðast allir lítillætinu hver gagnvart öðrum, því að „Guð stendur gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð.“‘ (1. Pétursbréf 5:5) Ein leið til að skrýðast lítillæti er að temja sér að virða aðra.
2 Orðið „virðing“ er oft notað í Biblíunni um þann sóma, heiður og tillitssemi sem við eigum að sýna öðrum. Við sýnum öðrum virðingu með því að vera vingjarnleg við þá, virða sæmd þeirra, hlusta á sjónarmið þeirra og vera tilbúin til að verða við sanngjarnri beiðni þeirra til okkar. Lítillátir eiga að jafnaði ekki erfitt með það. En þeir sem eru stoltir geta átt erfitt með að sýna öðrum ósvikna virðingu og reyna kannski frekar að koma sér í mjúkinn hjá þeim með óeinlægu smjaðri.
Jehóva sýnir mönnum virðingu
3, 4. Hvernig sýndi Jehóva Abraham virðingu og hvers vegna?
3 Jehóva er góð fyrirmynd í því að sýna virðingu. Hann skapaði mennina með frjálsan vilja og fer ekki með þá eins og vélmenni. (1. Pétursbréf 2:16) Þegar hann sagði Abraham að hann ætlaði að eyða Sódómu vegna grófrar illsku hennar spurði Abraham: „Hvort munt þú afmá hina réttlátu með hinum óguðlegu? Vera má, að fimmtíu réttlátir séu í borginni. Hvort munt þú afmá þá og ekki þyrma staðnum vegna þeirra fimmtíu?“ Jehóva kvaðst myndu þyrma borginni vegna 50 réttlátra. Abraham hélt áfram að biðja hann í auðmýkt. Hvað nú ef þeir væru aðeins 45, 40, 30, 20 eða 10? Jehóva fullvissaði Abraham um að hann myndi ekki eyða Sódómu ef hann fyndi tíu réttláta menn í borginni. — 1. Mósebók 18:20-33.
4 Jehóva vissi að það voru ekki tíu réttlátir menn í Sódómu en sýndi Abraham engu að síður þá virðingu að hlusta vinsamlega á sjónarmið hans. Af hverju? Af því að Abraham „trúði [Jehóva], og hann reiknaði honum það til réttlætis.“ Hann er kallaður „Guðs vinur.“ (1. Mósebók 15:6; Jakobsbréfið 2:23) Og Jehóva sá að hann sýndi öðrum virðingu. Þegar kom til deilna um land milli fjárhirða Abrahams og Lots, bróðursonar hans, sýndi Abraham honum þá virðingu að leyfa honum að velja fyrst það land sem hann vildi. Lot valdi besta landið, að hann taldi, og Abraham fluttist annað. — 1. Mósebók 13:5-11.
5. Hvernig virti Jehóva Lot?
5 Jehóva sýndi hinum réttláta Lot einnig virðingu. Áður en Sódómu var eytt sagði hann Lot að flýja til fjalla. En Lot sagðist ekki vilja fara þangað heldur til Sóar þar í grenndinni, þó svo að borgin væri á því svæði sem átti að eyða. Jehóva sagði Lot: „Ég hefi einnig veitt þér þessa bæn, að leggja ekki í eyði borgina, sem þú talaðir um.“ Jehóva virti hinn trúfasta Lot með því að gera eins og hann fór fram á. — 1. Mósebók 19:15-22; 2. Pétursbréf 2:6-9.
6. Hvernig sýndi Jehóva Móse virðingu?
6 Þegar Jehóva sendi Móse aftur til Egyptalands til að leiða fólk sitt undan þrælkun og til að biðja faraó að leyfa því að fara svaraði Móse: „Æ, [Jehóva], aldrei hefi ég málsnjall maður verið.“ Jehóva fullvissaði hann: „Ég skal vera með munni þínum og kenna þér, hvað þú skalt mæla.“ En Móse hikaði enn. Þá hughreysti Jehóva hann og sendi Aron bróður hans með honum sem talsmann. — 2. Mósebók 4:10-16.
7. Af hverju var Jehóva fús til að virða aðra?
7 Í öllum þessum tilvikum sýndi Jehóva að hann var fús til að virða aðra, einkum þá sem þjónuðu honum. Þótt þeir bæðu kannski um annað en Jehóva ætlaði sér í upphafi tók hann tillit til óska þeirra og veitti þeim þær, svo framarlega sem þær stönguðust ekki á við tilgang hans.
Jesús virti aðra
8. Hvernig sýndi Jesús mjög veikri konu virðingu?
8 Jesús líkti eftir Jehóva með því að virða aðra. Einu sinni var kona í mannfjöldanum sem hafði haft blóðlát í 12 ár. Hún hafði leitað til lækna en ekki fengið bata. Samkvæmt Móselögunum var hún trúarlega óhrein og átti ekki að vera í margmenni. Hún kom að Jesú aftan frá, snerti föt hans og læknaðist. Jesús stóð ekki fastur á bókstaf lögmálsins og ávítaði hana ekki fyrir það sem hún gerði. Hann vissi hvernig var ástatt um hana, sýndi henni virðingu og sagði: „Dóttir, trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði, og ver heil meina þinna.“ — Markús 5:25-34; 3. Mósebók 15:25-27.
9. Hvernig virti Jesús heiðna konu?
9 Öðru sinni sagði fönikísk kona við Jesú: „Miskunna þú mér, herra, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda.“ Jesús vissi að hann var sendur til Ísraelsþjóðarinnar en ekki heiðingja og svaraði: „Ekki sæmir að taka brauð barnanna [Ísraels] og kasta því fyrir hundana [heiðna menn].“ Konan svaraði: „Satt er það, herra, þó eta hundarnir mola þá, sem falla af borðum húsbænda þeirra.“ Þá svaraði Jesús: „Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.“ Dóttir hennar læknaðist. Jesús virti þessa heiðnu konu vegna trúar hennar. Og samkvæmt frummálinu mildaði hann líkinguna með því að tala um ‚smáhunda‘ en ekki villihunda og hann sýndi henni meðaumkun. — Matteus 15:21-28.
10. Hvaða áhrifamikla lexíu kenndi Jesús lærisveinunum og af hverju þurfti hann að gera það?
10 Lærisveinar Jesú hugsuðu of mikið um sjálfa sig svo að hann hélt áfram að kenna þeim að nauðsynlegt væri að vera lítillátur og virða aðra. Einu sinni spurði Jesús eftir að lærisveinarnir höfðu deilt: „Hvað voruð þér að ræða á leiðinni?“ Þeir þögðu því að „þeir höfðu verið að ræða það sín á milli á leiðinni, hver væri mestur.“ (Markús 9:33, 34) Jafnvel kvöldið áður en Jesús dó fóru þeir að „metast um, hver þeirra væri talinn mestur.“ (Lúkas 22:24) Jesús ‚hellti því vatni í mundlaug og tók að þvo fætur lærisveinanna‘ við páskámáltíðina. Þetta var áhrifamikil lexía! Jesús var sonur Jehóva Guðs, næstur honum að tign í öllum alheiminum. Samt sem áður kenndi hann lærisveinunum lexíu með því að þvo fætur þeirra. Hann sagði við þá: „Ég hef gefið yður eftirdæmi, að þér breytið eins og ég breytti við yður.“ — Jóhannes 13:5-15.
Páll sýndi virðingu
11, 12. Hvað lærði Páll eftir að hann gerðist kristinn og hvernig sýndi hann það gagnvart Fílemon?
11 Páll postuli líkti eftir Kristi og virti aðra. (1. Korintubréf 11:1) „Ekki leituðum vér vegsemdar af mönnum,“ sagði hann, „nei, vér vorum mildir yðar á meðal, eins og móðir, sem hlúir að börnum sínum.“ (1. Þessaloníkubréf 2:6, 7) Móðir hlúir vel að börnum sínum. Eftir að Páll gerðist kristinn lærði hann lítillæti og sýndi kristnum bræðrum sínum virðingu með því að vera mildur við þá. Þannig virti hann einnig frjálsan vilja þeirra eins og sýndi sig einu sinni þegar hann var fangi í Róm.
12 Strokuþræll er Ónesímus hét hlustaði á kennslu Páls. Hann tók kristna trú og varð jafnframt vinur Páls. Eigandi þrælsins hét Fílemon. Hann var líka kristinn og bjó í Litlu-Asíu. Í bréfi til Fílemons segir Páll frá því hve nytsamur Ónesímus hafi reynst sér og segist ‚feginn vilja hafa haldið honum hjá sér.‘ En Páll skilaði Ónesímusi til Fílemons og sagði: „Án þíns samþykkis vildi ég ekkert gjöra, til þess að velgjörð þín skyldi ekki koma eins og af nauðung, heldur af fúsum vilja.“ Páll notfærði sér ekki postuladóm sinn heldur virti Fílemon með því að fara ekki fram á að mega halda Ónesímusi í Róm. Og hann hvatti Fílemon til að sýna Ónesímusi virðingu og fara ekki með hann sem þræl ‚heldur þræli fremri, eins og elskaðan bróður.‘ — Fílemonsbréfið 13-16.
Að sýna virðingu á okkar tímum
13. Hvað segir Rómverjabréfið 12:10 okkur að gera?
13 Orð Guðs ráðleggur okkur að ‚vera hver fyrri til að veita öðrum virðingu.‘ (Rómverjabréfið 12:10) Þetta merkir að við ættum ekki að bíða eftir að aðrir sýni okkur virðingu heldur eiga frumkvæðið. „Enginn hyggi að eigin hag, heldur hag annarra.“ (1. Korintubréf 10:24; 1. Pétursbréf 3:8, 9) Þjónar Jehóva leita því færis að sýna virðingu innan fjölskyldunnar, innan safnaðarins og einnig utan hans.
14. Hvernig sýna hjón hvort öðru virðingu?
14 Biblían segir: „Kristur er höfuð sérhvers manns, maðurinn er höfuð konunnar.“ (1. Korintubréf 11:3) Jehóva leggur manninum þá skyldu á herðar að virða eiginkonu sína eins og Kristur virðir söfnuðinn. Í 1. Pétursbréfi 3:7 er eiginmanninum sagt að veita konu sinni ‚virðingu sem veikara keri.‘ Hann getur gert það með því að hlusta fúslega á hana og taka fullt tillit til skoðana hennar. (1. Mósebók 21:12) Hann getur leyft henni að eiga frumkvæðið þegar meginreglur Biblíunnar eru ekki í húfi, og hann er hjálpsamur og góður við hana. Konan á svo að bera djúpa virðingu fyrir manni sínum. (Efesusbréfið 5:33) Hún hlustar á hann og reynir ekki alltaf að fá sínu framgengt. Hún gerir hvorki lítið úr honum né jagast í honum. Hún sýnir lítillæti með því að reyna ekki að ráða yfir honum, jafnvel þótt hún sé kannski hæfileikaríkari en hann á sumum sviðum.
15. Hvað verðskulda aldraðir og hvernig ættu þeir að koma fram?
15 Sumir innan kristna safnaðarins verðskulda sérstaka virðingu, til dæmis aldraðir. „Þú skalt standa upp fyrir hinum gráhærða og heiðra gamalmennið.“ (3. Mósebók 19:32) Þeir sem hafa þjónað Jehóva trúfastir um langt skeið eru sérstaklega virðingarverðir því að „gráar hærur eru heiðurskóróna, á vegi réttlætis öðlast menn hana.“ (Orðskviðirnir 16:31) Umsjónarmenn ættu að sýna gott fordæmi með því að virða sér eldri trúsystkini eins og vera ber. Aldraðir þurfa auðvitað líka að sýna hinum yngri virðingu, sérstaklega þeim sem fara með þá ábyrgð að gæta hjarðarinnar. — 1. Pétursbréf 5:2, 3.
16. Hvernig virða foreldrar og börn hvert annað
16 Börn eiga að virða foreldra sína: „Þér börn, hlýðið foreldrum yðar vegna Drottins, því að það er rétt. ‚Heiðra föður þinn og móður,‘ — það er hið fyrsta boðorð með fyrirheiti: ‚til þess að þér vegni vel og þú verðir langlífur á jörðinni.‘“ Og foreldrar virða börnin því að þeim er sagt að ‚reita ekki börnin til reiði heldur ala þau upp með aga og umvöndun Jehóva.‘ — Efesusbréfið 6:1-4; 2. Mósebók 20:12.
17. Hverja ber að hafa í „tvöföldum metum“?
17 Þeir sem erfiða í þágu safnaðarins verðskulda einnig virðingu: „Öldungar þeir, sem veita góða forstöðu, séu hafðir í tvöföldum metum, allra helst þeir sem erfiða í orðinu og í kennslu.“ (1. Tímóteusarbréf 5:17) Hebreabréfið 13:17 bendir á eina leið til að sýna þeim þessa virðingu og segir: „Hlýðið leiðtogum yðar og verið þeim eftirlátir.“
18. Hvernig eigum við að koma fram við utansafnaðarmenn?
18 Þurfum við að sýna virðingu þeim sem standa utan safnaðarins? Já, okkur er til dæmis sagt: „Sérhver maður hlýði . . . yfirvöldum.“ (Rómverjabréfið 13:1) Þetta eru hin veraldlegu yfirvöld sem Jehóva leyfir að fara með völd uns ríki hans víkur þeim úr vegi. (Daníel 2:44) Við gjöldum því „öllum það sem skylt er: Þeim skatt, sem skattur ber, þeim toll, sem tollur ber, þeim ótta, sem ótti ber, þeim virðing, sem virðing ber.“ (Rómverjabréfið 13:7) Við eigum að ‚virða alla menn.‘ — 1. Pétursbréf 2:17.
19. Hvernig getum við ‚gert öðrum gott‘ og sýnt þeim virðingu?
19 Enda þótt við eigum að virða utansafnaðarmenn tökum við eftir að orð Guðs leggur áherslu á að við skulum, „meðan tími er til, gjöra öllum gott og einkum trúbræðrum vorum.“ (Galatabréfið 6:10) Besta leiðin til að ‚gera öðrum gott‘ er auðvitað sú að sinna andlegum þörfum þeirra. (Matteus 5:3) Við getum gert það með því að taka til okkar hvatningu Páls postula: „Legg kapp á að reynast hæfur fyrir Guði sem verkamaður, er ekki þarf að skammast sín og fer rétt með orð sannleikans.“ Þegar við notum okkur háttvíslega hvert tækifæri til að bera vitni ‚fullnum við þjónustu okkar,‘ gerum öðrum gott og virðum þá. — 2. Tímóteusarbréf 2:15; 4:5.
Að virða Jehóva
20. Hvernig fór fyrir faraó og her hans og af hverju?
20 Jehóva virðir sköpunarverur sínar. Það er því ekki nema sanngjarnt að við virðum hann. (Orðskviðirnir 3:9; Opinberunarbókin 4:11) Orð hans segir: „Ég heiðra þá, sem mig heiðra, en þeir, sem fyrirlíta mig, munu til skammar verða.“ (1. Samúelsbók 2:30) Þegar faraó Egyptalands var sagt að leyfa fólki Guðs að fara svaraði hann með hroka: „Hver er [Jehóva], að ég skuli hlýða honum?“ (2. Mósebók 5:2) Þegar faraó sendi her sinn á eftir Ísraelsmönnum til að eyða þeim opnaði Jehóva Rauðahafið svo að þeir kæmust yfir. Egyptar eltu og Jehóva lét sjóinn steypast yfir þá. „Vögnum Faraós og herliði hans varpaði hann í hafið.“ (2. Mósebók 14:26-28; 15:4) Með því að neita drambsamur að virða Jehóva kallaði faraó yfir sig ömurleg endalok. — Sálmur 136:15.
21. Af hverju var Jehóva á móti Belsasar og hvað hlaust af því?
21 Belsasar Babýlonarkonungur neitaði að virða Jehóva. Í drykkjuveislu gerði hann gys að Jehóva með því að drekka vín úr hinum helgu gull- og silfurkerjum sem tekin höfðu verið úr musterinu í Jerúsalem. Og samtímis lofaði hann heiðna guði sína. En Daníel, þjónn Jehóva, sagði við hann: „Þú . . . hefir ekki lítillætt hjarta þitt, . . . heldur hefir þú sett þig upp á móti Drottni himnanna.“ Þessa sömu nótt var Belsasar drepinn og ríkið tekið af honum. — Daníel 5:22-6:1
22. (a) Hvers vegna bitnaði reiði Jehóva á leiðtogum Ísraels og þjóðinni allri? (b) Hverjir nutu velvildar Jehóva og með hvaða afleiðingum?
22 Heródes konungur á fyrstu öld flutti opinbert ávarp og almenningur hrópaði: „Guðs rödd er þetta, en eigi manns.“ Hinn hégómlegi konungur andmælti ekki heldur þáði upphefðina. En „jafnskjótt laust engill [Jehóva] hann, sökum þess að hann gaf ekki Guði dýrðina.“ (Postulasagan 12:21-23) Heródes heiðraði sjálfan sig en ekki Jehóva og lét lífið. Trúarleiðtogar þess tíma höfðu vanvirt Guð með samsæri sínu um að drepa Jesú, son hans. Sumir af höfðingjunum vissu að Jesús kenndi sannleikann en fylgdu honum ekki af því að „þeir kusu heldur heiður manna en heiður frá Guði.“ (Jóhannes 11:47-53; 12:42, 43) Þjóðin í heild virti ekki Jehóva eða skipaðan fulltrúa hans, Jesú. Þar af leiðandi hélt Jehóva ekki áfram að virða hana heldur lét eyða henni og musterinu. En hann verndaði þá sem virtu hann og son hans. — Matteus 23:38; Lúkas 21:20-22.
23. Hvað þurfum við að gera til að fá að lifa í nýjum heimi Guðs? (Sálmur 37:9-11; Matteus 5:5)
23 Allir sem vilja lifa í nýjum heimi Guðs eftir að núverandi heimskerfi hefur verið eytt verða að virða Guð og son hans, Krist Jesú, og hlýða þeim. (Jóhannes 5:22, 23; Filippíbréfið 2:9-11) Þeir sem gera það ekki „munu upprættir verða úr landinu.“ Ráðvandir menn, sem virða Guð og Krist og hlýða þeim, munu hins vegar „byggja landið.“ — Orðskviðirnir 2:21, 22.
Til upprifjunar
◻ Hvað merkir það að sýna öðrum virðingu og hvernig gerir Jehóva það?
◻ Hvernig virtu Jesús og Páll aðra?
◻ Hverjir verðskulda virðingu okkar?
◻ Af hverju verðum við að virða Jehóva og Jesú?
[Mynd á blaðsíðu 26]
Jehóva sýndi Abraham virðingu með því að taka tillit til bæna hans.
[Mynd á blaðsíðu 27]
Í farsælu hjónabandi sýna hjónin hvort öðru gagnkvæma virðingu.