Leiðsögn Guðs um val á maka
„Ég vil fræða þig og vísa þér veginn, er þú átt að ganga, ég vil kenna þér og hafa augun á þér.“ — SÁLMUR 32:8.
1. Hverjar eru forsendur góðs hjónabands?
LOFTFIMLEIKAMAÐUR skutlar sér úr rólunni, hniprar sig saman og tekur heljarstökk í loftinu. Síðan réttir hann snögglega úr sér aftur, teygir út handleggina og annar loftfimleikamaður, sem hangir á fótunum í annarri rólu, grípur hann. Tveir listdansarar renna mjúklega eftir skautasvellinu. Skyndilega lyftir maðurinn konunni og sveiflar henni á loft. Hún hringsnýst í loftinu, lendir glæsilega á öðrum fætinum og heldur áfram að skauta í hringi á svellinu. Listamennirnir virðast varla þurfa að reyna á sig. En engum myndi detta í hug að reyna neitt af þessu án þess að æfa sig, hafa færan félaga með sér og fá viðeigandi þjálfun og leiðbeiningar. Gott hjónaband getur líka virst verða til af sjálfu sér. En gott hjónaband er líka háð góðum maka, samstilltu átaki og einkum og sér í lagi viturlegum leiðbeiningum. Viðeigandi leiðsögn er ómissandi.
2. (a) Hver er höfundur hjónabandsins og hver var tilgangur þess? (b) Hvaða ólíkar hefðir gilda um ráðahag fólks?
2 Það er eðlilegt að ungan ókvæntan mann og unga ógifta konu langi til að eignast lífsförunaut. Hjónaband hefur verið hinn eðlilegi farvegur fólks allt frá því að Jehóva Guð stofnsetti hjónabandið. En Adam, hinn fyrsti maður, valdi sér ekki konu sjálfur heldur sá Jehóva honum fyrir henni. (1. Mósebók 2:18-24) Fyrstu hjónin áttu að margfaldast svo að jörðin fylltist fólki með tíð og tíma. Eftir stofnun fyrsta hjónabandsins ríkti sú hefð að foreldrar völdu maka handa börnum sínum. Stundum leituðu þeir samþykkis barnanna. (1. Mósebók 21:21; 24:2-4, 58; 38:6; Jósúabók 15:16, 17) Í sumum löndum og menningarumhverfi ákveða foreldrar ráðahag barnanna enn þann dag í dag en annars staðar velja menn sér maka sjálfir.
3. Hvernig ætti maður að velja sér maka?
3 Hvernig ætti fólk að velja sér maka? Sumir láta útlitið hafa áhrif á sig — þeir hugsa aðallega um það sem gleður augað. Sumir hugsa um fjárhagslegan ávinning og leita sér að maka sem getur séð vel fyrir þeim og fullnægt þörfum þeirra og löngunum. En ætli önnur hvor aðferðin sé uppskrift að farsælu hjónabandi? „Yndisþokkinn er svikull og fríðleikinn hverfull,“ segja Orðskviðirnir 31:30, „en sú kona, sem óttast [Jehóva], á hrós skilið.“ Það er mikilvæg ábending fólgin í þessum orðum: Taktu Jehóva með í myndina þegar þú velur þér maka.
Kærleiksrík leiðsögn Guðs
4. Hvaða hjálp veitir Guð í sambandi við val á maka?
4 Hinn ástríki faðir á himnum, Jehóva, hefur gefið okkur ritað orð sitt til leiðsagnar í öllum málum. Hann segir: „Ég, [Jehóva] Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga.“ (Jesaja 48:17) Það kemur því ekki á óvart að finna þrautreyndar leiðbeiningar í Biblíunni um val á maka. Jehóva vill að hjónabönd þjóna sinna séu traust og farsæl og hefur því látið í té hjálp til að skilja þessar leiðbeiningar og fara eftir þeim. Megum við ekki búast við því af hendi skaparans? — Sálmur 19:9.
5. Hvað er nauðsynlegt til að hjónaband sé farsælt til frambúðar?
5 Jehóva ætlaðist til þess frá upphafi að hjónabandið væri varanlegt. (Markús 10:6-12; 1. Korintubréf 7:10, 11) Þess vegna er sagt að hann ‚hati hjónaskilnað,‘ enda leyfir hann skilnað aðeins vegna „hórdóms.“ (Malakí 2:13-16; Matteus 19:9) Að velja sér maka er því einhver alvarlegasta ákvörðun sem maður tekur á lífsleiðinni. Það má ekki taka hana í fljótræði. Fáar ákvarðanir geta stuðlað eins að hamingju manns eða óhamingju. Með því að vanda valið er hægt að auðga og bæta líf sitt en með því að velja illa er hægt að kalla yfir sig óendanlega sorg. (Orðskviðirnir 21:19; 26:21) Til að varðveita hamingjuna er nauðsynlegt að velja viturlega og vera fús til að skuldbinda sig um alla framtíð, því að Guð ætlast til að hjónabandið þrífist á samvinnu og eindrægni. — Matteus 19:6.
6. Af hverju þarf ungt fólk sérstaklega að gæta sín við val á maka og hvernig getur það valið viturlega?
6 Ungt fólk þarf sérstaklega að varast það að líkamlegt aðdráttarafl og sterkar skyndihvatir brengli dómgreindina þegar það velur sér maka. Sé samband eingöngu byggt á slíku getur það á skammri stundu breyst í fyrirlitningu eða jafnvel hatur. (2. Samúelsbók 13:15) Traustur kærleikur styrkist hins vegar við það að kynnast maka sínum og sjálfum sér betur. Við þurfum líka að gera okkur ljóst að það er okkur ekki alltaf fyrir bestu sem hjartað girnist í byrjun. (Jeremía 17:9) Þess vegna eru leiðbeiningar Guðs í Biblíunni svona mikilvægar. Þær benda okkur á hvernig við getum tekið viturlegar ákvarðanir í lífinu. Sálmaritarinn sagði fyrir hönd Jehóva: „Ég vil fræða þig og vísa þér veginn, er þú átt að ganga, ég vil kenna þér og hafa augun á þér.“ (Sálmur 32:8; Hebreabréfið 4:12) Þó að hjónaband geti fullnægt áskapaðri þörf fyrir ást og félagsskap hefur það líka í för með sér ýmis vandamál sem þarf þroska og dómgreind til að leysa.
7. Af hverju vilja sumir ekki þiggja biblíutengd ráð um val á maka en hvaða afleiðingar getur það haft að hafna þeim?
7 Það er viturlegt að fara eftir því sem höfundur hjónabandsins segir um val á maka. En við þráumst kannski við þegar við fáum biblíutengd ráð frá foreldrum eða safnaðaröldungum. Kannski finnst okkur þeir ekki skilja okkur almennilega, og sterkar tilfinningar ýta fast á okkur að gera eins og hjartað býður. En þegar veruleiki daglega lífsins tekur við er hætta á að okkur iðri þess að hafa ekki hlýtt þeim viturlegu ráðum sem við fengum. (Orðskviðirnir 23:19; 28:26) Við búum kannski í ástlausu hjónabandi, eigum börn sem við getum varla séð fyrir og maka sem er jafnvel ekki sömu trúar og við. Það væri ósköp dapurlegt ef hjónabandið, sem býður upp á svo mikla hamingjumöguleika, yrði hreinasta kvalræði!
Guðrækni skiptir sköpum
8. Hvernig getur guðrækni gert hjónaband traust og hamingjusamt?
8 Gagnkvæmt aðdráttarafl styrkir óneitanlega hjónabandið. En hjónabandinu er enn meiri styrkur í sameiginlegum lífsgildum. Sameiginleg hollusta við Jehóva Guð skapar sterk tengsl og einingu sem fæst með engum öðrum hætti. (Prédikarinn 4:12) Að beina lífi sínu að hinni sönnu tilbeiðslu á Jehóva sameinar kristin hjón andlega, hugarfarslega og siðferðilega. Þau nema orð Guðs saman. Þau sameina hjörtu sín í bæn. Þau fylgjast að á safnaðarsamkomur og fara saman í boðunarstarfið. Þetta tengir þau andlegum böndum og styrkir samband þeirra. En mikilvægust er þó blessun Jehóva sem þau uppskera.
9. Hvað gerði Abraham til að finna konu handa Ísak, syni sínum, og með hvaða árangri?
9 Ættfaðirinn Abraham var trúfastur og guðrækinn, og hann leitaðist við að þóknast Guði þegar tíminn kom til að velja konu handa Ísak, syni hans. Hann sagði ráðsmanni sínum sem hann treysti í hvívetna: „Vinn mér eið að því við [Jehóva], Guð himinsins og Guð jarðarinnar, að þú skulir ekki taka syni mínum til handa konu af dætrum Kanaaníta, er ég bý á meðal, heldur skaltu fara til föðurlands míns og til ættfólks míns, og taka konu handa Ísak syni mínum. . . . [Jehóva] mun senda engil sinn á undan þér, að þú megir þaðan fá syni mínum konu.“ Rebekka reyndist prýðiseiginkona og Ísak elskaði hana heitt. — 1. Mósebók 24:3, 4, 7, 14-21, 67.
10. Hvaða biblíulegar skyldur eru lagðar á eiginmenn og eiginkonur?
10 Guðræknin hjálpar ógiftum þjónum Guðs að þroska með sér þá eiginleika sem Ritningin ætlast til að hjón sýni. Páll postuli nefnir eftirfarandi kröfur til eiginmanna og eiginkvenna: „Konurnar [séu] eiginmönnum sínum [undirgefnar] eins og það væri Drottinn. . . . Þér menn, elskið konur yðar eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana, . . . Þannig skulu eiginmennirnir elska konur sínar eins og eigin líkami. . . . þér skuluð hver og einn elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig, en konan beri lotningu fyrir manni sínum.“ (Efesusbréfið 5:22-33) Innblásin orð Páls hvetja til ástar og virðingar eins og við sjáum. Þessi ákvæði leggja áherslu á lotningarblandinn guðsótta. Þau hvetja hjón til að skuldbindast hvort öðru skilyrðislaust jafnt í blíðu sem stríðu. Kristnir menn í giftingarhugleiðingum þurfa að vera færir um að axla þessa ábyrgð.
Að ákveða hvenær maður giftir sig
11. (a) Hvað segir Biblían um giftingaraldur? (b) Hvaða dæmi sýnir fram á viskuna í því að fara eftir ráðleggingu Biblíunnar í 1. Korintubréfi 7:36?
11 Það er mikilvægt að vita hvenær maður er tilbúinn til að gifta sig. Það er auðvitað breytilegt frá manni til manns svo að Biblían tiltekur engan ákveðinn giftingaraldur. Hún mælir hins vegar með því að menn bíði uns „æskublóminn“ er liðinn hjá, sá tími þegar sterk kynhvöt getur brenglað dómgreindina. (1. Korintubréf 7:36, NW) „Mér fannst erfitt að fara eftir þessu þegar ég horfði upp á vini mína og vinkonur draga sig saman og giftast, marga á unglingsaldri,“ segir Michelle. „En ég áttaði mig á því að þetta er ráðlegging Jehóva og hann segir okkur ekki annað en það sem er gagnlegt. Með því að bíða með að gifta mig gat ég einbeitt mér að sambandinu við Jehóva og öðlast svolitla lífsreynslu sem maður getur ekki haft á unglingsárunum. Nokkrum árum síðar var ég betur í stakk búin til að axla ábyrgð og vandamál hjónabandsins.“
12. Af hverju er ekki skynsamlegt að flýta sér að giftast ungur?
12 Þeir sem flýta sér að giftast mjög ungir uppgötva oft að þarfir þeirra og langanir breytast þegar þeir þroskast. Þá komast þeir að raun um að það sem þeim fannst eftirsóknarvert á sínum tíma skiptir ekki lengur jafnmiklu máli. Kristin stúlka var búin að ákveða með sjálfri sér að giftast þegar hún væri 16 ára. Amma hennar og mamma höfðu báðar gift sig á þeim aldri. En ungi maðurinn, sem hún hafði augastað á, vildi ekki giftast henni á þeim tíma og þá fann hún sér annan sem var fús til þess. En síðar meir iðraði hana þess sárlega að hafa rasað um ráð fram.
13. Hvað skortir þá oft sem gifta sig ungir?
13 Það er mikilvægt fyrir fólk í giftingarhugleiðingum að skilja vel hvað hjónabandið er. Ótímabært hjónaband getur haft í för með sér alls konar vandamál sem ung hjón eru illa undirbúin til að takast á við. Þau skortir reynslu og þroska til að glíma við álag hjónabandsins og uppeldi barna, svo að fólk ætti ekki að gifta sig fyrr en það er líkamlega, hugarfarslega og andlega undir það búið að stofna til varanlegs félagsskapar.
14. Hvað er nauðsynlegt til að bregðast rétt við á álagsstundum hjónabandsins?
14 Páll skrifaði að þeir sem giftust hlytu ‚þrengingu fyrir hold sitt.‘ (1. Korintubréf 7:28, Biblían 1912) Vandamál eru óhjákvæmileg vegna þess að persónuleikar eru ólíkir og sjónarmið mismunandi. Ófullkomleikinn getur gert okkur erfitt fyrir að rækja biblíulegar skyldur okkar í hjónabandinu. (1. Korintubréf 11:3; Kólossubréfið 3:18, 19; Títusarbréfið 2:4, 5; 1. Pétursbréf 3:1, 2, 7) Það þarf þroska og andlega staðfestu til að leita eftir leiðsögn Guðs og fylgja henni til að bregðast rétt við á álagsstundum og ráða fram úr þeim í kærleika.
15. Hvert er hlutverk foreldra í því að búa börnin undir hjónaband? Lýstu með dæmi.
15 Foreldrar geta búið börnin undir hjónaband með því að sýna þeim fram á mikilvægi þess að fylgja leiðbeiningum Guðs. Með fagmannlegri notkun Biblíunnar og biblíutengdra rita geta foreldrar hjálpað börnunum að komast að niðurstöðu um það hvort þau eða tilvonandi maki sé undir það búinn að takast á hendur skuldbindingar hjónabandsins.a Blossom hélt að hún væri ástfangin af ungum manni í söfnuðinum þegar hún var 18 ára. Hann var brautryðjandi (boðberi í fullu starfi) og þau langaði til að giftast. En foreldrum hennar fannst hún vera of ung og báðu hana að bíða í eitt ár. Blossom skrifaði síðar: „Ég er afskaplega þakklát fyrir að ég skyldi fara að viturlegum ráðum þeirra. Ég þroskaðist svolítið á þessu ári og áttaði mig smám saman á því að þessi ungi maður hafði ekki til að bera þá eiginleika sem prýða góðan eiginmann. Hann yfirgaf skipulagið síðar og ég afstýrði þeim harmleik sem hefði getað orðið í lífi mínu. Það er ómetanlegt að eiga vitra foreldra og geta reitt sig á dómgreind þeirra.“
Að ‚giftast aðeins í Drottni‘
16. (a) Hvernig getur reynt á hlýðni kristinna manna við það ákvæði að ‚giftast aðeins í Drottni‘? (b) Hvað ætti kristinn maður að hugleiða ef það virðist freistandi að giftast vantrúuðum?
16 Leiðbeiningar Jehóva til kristinna manna eru mjög skýrar: ‚Giftist aðeins í Drottni.‘ (1. Korintubréf 7:39) Þarna getur reynt á kristna foreldra og börn þeirra. Af hverju? Af því að unga fólkið langar kannski til að gifta sig en það er enginn tiltækur í söfnuðinum. Eða svo kann að virðast. Á vissu svæði eru færri karlar en konur á lausu eða enginn sem virðist henta. Ungur maður, sem er ekki í söfnuðinum, sýnir áhuga á ungri kristinni konu (eða öfugt), og það getur virst freistandi að sniðganga meginreglur Jehóva. Undir svona kringumstæðum getur verið gott að rifja upp fordæmi Abrahams. Eitt af því sem hann gerði til að viðhalda góðu sambandi við Guð var að sjá til þess að konan, sem Ísak sonur hans giftist, væri sannur tilbiðjandi Jehóva. Ísak fór að dæmi föður síns í sambandi við soninn Jakob. Allir þurftu að leggja nokkuð á sig í þessu sambandi en það var Guði þóknanlegt og hann blessaði þá. — 1. Mósebók 28:1-4.
17. Af hverju er líklegt að það sé ávísun á ógæfu að giftast vantrúuðum, en hver er aðalástæðan fyrir því að ‚giftast aðeins í Drottni‘?
17 Einstöku sinnum atvikast það svo að hinn vantrúaði gerist kristinn. En oft hefur það verið ávísun á ógæfu að giftast vantrúuðum. Ef hjónin hafa ekki sömu trú, lífsreglur eða markmið getur það spillt fyrir hamingju þeirra og góðum samskiptum. Þetta er ósamkynja ok. (2. Korintubréf 6:14) Kristin kona ein harmaði það mjög að geta ekki rætt um andleg mál við eiginmann sinn eftir uppbyggjandi samkomu. En það að ‚giftast í Drottni‘ snýst að sjálfsögðu fyrst og fremst um hollustu við Jehóva. Hjartað dæmir okkur ekki þegar við hlýðum orði hans, því að við gerum það sem „honum er þóknanlegt.“ — 1. Jóhannesarbréf 3:21, 22.
18. Að hverju ætti fólk í giftingarhugleiðingum að gæta og hvers vegna?
18 Þegar fólk er í giftingarhugleiðingum þarf það fyrst og fremst að huga vel að andlegu hugarfari og dyggðum tilvonandi maka. Kristinn persónuleiki, kærleikur til Guðs og heilshugar hollusta við hann er margfalt verðmætari en ytra útlit. Guð hefur velþóknun á þeim sem rækja vel þá skyldu að vera andlega sterkir. Og ekkert treystir hjónabandið betur en sameiginleg hollusta við skaparann ásamt því að viðurkenna leiðsögn hans að fullu. Það heiðrar Jehóva og stuðlar drjúgum að því að hjónabandið sé reist á sterkum, andlegum grunni og sé traust og varanlegt.
[Neðanmáls]
Hvert er svarið?
• Af hverju er leiðsögn Guðs nauðsynleg til að velja sér góðan maka?
• Hvernig styrkir guðrækni hjónabandið?
• Hvernig geta foreldrar búið börnin undir hjónaband?
• Af hverju er mikilvægt að ‚giftast aðeins í Drottni‘?
[Myndir á blaðsíðu 24]
Það er ávísun á hamingjusamt hjónaband að velja sér maka í samræmi við ráðleggingar Guðs.
[Myndir á blaðsíðu 25]
Jehóva blessar þá sem ‚giftast aðeins í Drottni.‘